02.11.1960
Sameinað þing: 9. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 519 í D-deild Alþingistíðinda. (2521)

66. mál, gjaldeyristekjur af ferðamannaþjónustu

Flm. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. í þáltill. þeirri á þskj. 77, sem hér er til umr., er skorað á ríkisstj. að láta rannsaka í samráði við ferðaskrifstofu ríkisins, hverjar ráðstafanir sé hægt að gera til þess að auka gjaldeyristekjur þjóðarinnar af ferðamannaþjónustu, svo og að gera viðeigandi ráðstafanir að rannsókn lokinni. Meðal annars sé rannsakað:

1) Hvernig hægt er að efla starfsemi Ferðaskrifstofu ríkisins.

2) Með hverjum hætti hægt er að auka landkynningu erlendis.

3) Hvort hægt er að bæta úr gistihússkortínum hér yfir sumarmánuðina með því að búa heimavistarskólana viðeigandi húsgögnum og nota þá sem gistihús yfir sumarið.

4) Hvernig stuðla má að því, að reist verði og starfrækt hressingar- og heilsuhæli við hverasvæðin. Ég hygg, að flestir landsmenn séu sammála um það, að æskilegt væri að auka hingað straum erlendra ferðamanna og gera móttöku og fyrirgreiðslu ferðamanna að arðvænlegri atvinnugrein hér á landi, svo sem er í mörgum öðrum löndum. Ég býst við, að fordómar þeir, sem áður gætti stundum gegn því að gera Ísland ferðamannaland, séu að mestu horfnir úr sögunni. Menn eru almennt ekki lengur hræddir við það, að tungu okkar og þjóðerni stafi hætta af heimsóknum erlendra ferðamanna. Á hinn bóginn eru atvinnuvegir okkar of fábreyttir, þeir þurfa að verða fjölbreytilegri. Þá verður afkoma þjóðarinnar tryggari og minni sveiflum háð. Og alveg sérstaklega er okkur þörf á gjaldeyrisaflandi atvinnuvegi. Það er ferðamannaþjónustan. Af henni hafa margar þjóðir, t.d. frændþjóðir okkar á Norðurlöndum, drjúgar og vaxandi gjaldeyristekjur, því að með bættum samgöngum og auknum samskiptum þjóða í milli hefur atvinnugrein þessi, ferðamannaþjónusta, mjög færzt í aukana.

Ísland á ekki langa sögu að baki sem ferðamannaland. Það var lengst af einbúinn í Atlantshafi, langt frá öðrum þjóðum. Fjarlægðin, hinar miklu vegalengdir, var öldum saman þrándur í götu fyrir heimsóknum erlendra ferðamanna, svo að nokkru næmi. Á þessu er orðin breyting. Ný samgöngutækni, bættar samgöngur hafa að verulegu leyti rutt þessari hindrun úr vegi, og yfir Ísland liggur nú loftleiðin heimsálfa í milli. Ferðalög útlendinga til landsins hafa einnig aukizt talsvert á síðari árum, og s.l. sumar t.d. komu hingað til lands fleiri ferðamenn erlendir en nokkurt annað sumar áður, enda voru þá haldin hér mjög mörg mót, einkum Norðurlandamanna, svo sem alkunnugt er. Þó að stefnt hafi þannig að vísu í rétta átt í þessum efnum, skortir mikið á, að við höfum t.d. haldið til jafns við frændþjóðir okkar á Norðurlöndum, sem hafa stórum aukið tekjur sínar af ferðamannaþjónustu. Það hefur lítil framför átt sér stað hér á landi á þessu sviði.

Við höfum ekki sinnt ferðamálunum sem skyldi. Það er langt frá því, að við höfum fullnýtt þá möguleika til gjaldeyrisöflunar, sem eru fyrir hendi í þessu sambandi, ef rétt er á haldið. Deyfðin í ferðamálunum á sér sjálfsagt sínar orsakir. Í fyrsta lagi má geta þess, að við höfum verið svo önnum kafnir við önnur viðfangsefni margvíslegrar uppbyggingarstarfsemi hér í landinu. Í öðru lagi má nefna það, að að óbreyttum ástæðum í þessum efnum hefur naumast með góðri samvizku verið hægt að hvetja menn til Íslandsferðar í stærri stíl vegna hótelvandræðanna, sem hér hafa verið. Og í þriðja lagi var gengisskráningin útlendingum óhagstæð lengi vel, þannig að ferðalög hér á landi urðu þeim tiltölulega dýrari en annars staðar. Með gengislækkuninni s.l. vetur varð breyting á þessu og eftir því sem mér er tjáð, mun ekki vera öllu dýrara fyrir útlendinga að dveljast hér á landi og ferðast hér á landi en t.d. á hinum Norðurlöndunum. En í gistihúsmálunum er nokkur úrbót væntanleg á næstunni, svo sem kunnugt er. Aðstaðan til móttöku erlendra ferðamanna mun þannig fara batnandi.

Við flm. þessarar þáltill. erum sannfærðir um, að skilyrði séu til þess að gera Ísland að eftirsóttu ferðamannalandi. ef rétt er á haldið. Við teljum sjálfsagt að gera það og afla þjóðinni verulegra gjaldeyristekna með ferðamannaþjónustu og gera móttöku og fyrirgreiðslu erlendra ferðamanna að arðsamri atvinnugrein. Ferðamannaþjónustan skapar ótrúlega mörgum atvinnumöguleika og tekjur, svo sem gistihúsum, matsölustöðum, samgöngutækjum og verzlunum, auk þess markaðar, sem vinnst fyrir innlendar afurðir. En það er jafnframt ljóst, að ef á að stórauka ferðamannastrauminn hingað til lands á næstu árum og gera Ísland að eftirsóttu ferðamannalandi og auka gjaldeyristekjur þjóðarinnar af erlendum ferðamönnum, verður að taka öll ferðamálin hér til gagngerrar endurskoðunar og athugunar. Það verður að gera í þeim efnum stórt og myndarlegt átak. Og eins og í grg. með þessari þáltill. segir, þá er þessi till. einmitt flutt í því skyni að koma af stað hreyfingu í þá átt. Það er í till. bent á nokkur atriði, sem taka, þurfi sérstaklega til athugunar. Sú upptalning er vitaskuld á engan hátt tæmandi, þar hljóta ýmis fleiri atriði að koma til athugunar.

Þau atriði, sem sérstaklega er bent á, eru þessi: Í fyrsta lagi, að athuga þurfi, hvernig hægt er að efla starfsemi Ferðaskrifstofu ríkisins. Ferðaskrifstofa ríkisins starfar samkv. lögum frá árinu 1936. Þar er henni fengið mjög víðtækt verkefni. Hún skal starfa að því að velta fræðslu um landið, utanlands og innan, með fræðsluritum og útvarpserindum, fyrirlestrum, kvikmyndum, auglýsingum og á annan hátt, með það fyrir augum að vekja athygli ferðamanna á landinu og kynna það á þann hátt, að menn fái sem gleggsta hugmynd um lands- og þjóðarháttu, menningu, atvinnulíf og framleiðslu. Ferðaskrifstofa ríkisins hefur með höndum leiðbeiningar og fyrirgreiðslu innlendra og erlendra ferðamanna, og hefur hún ein rétt til þess að starfrækja ferðaskrifstofu fyrir erlenda menn.

Ferðaskrifstofan hefur óefað gert mikið gagn á þessum árum, sem hún hefur starfað. En geta hennar hefur lengst af verið mjög takmörkuð. Fjárveitingar til hennar hafa lengst af verið mjög naumar. Hún hefur að vísu sjálf nokkuð bætt úr þeim fjárskorti með því að afla sér tekna með t.d. sölu minjagripa og öðrum ráðum. En það er ljóst, að ef ferðaskrifstofan á að geta sinnt verkefnum sínum, þarf að efla hana. Það þarf að auka fjárráð hennar. Þar með er ekki sagt, að ekki komi til greina annað skipulag þessara mála en nú er. Í því sambandi má geta þess, að það mun hafa verið fyrir eitthvað 5 eða 6 árum, sem hér á Alþ. var flutt frv. um ferðamál og landkynningu, þar sem gert var ráð fyrir því, að sett yrði önnur yfirstjórn á þessi mál en nú er, — sett upp, ef ég man rétt, ferðamálaráð, sem skipað skyldi af aðilum, sem talið var að ættu sérstakra hagsmuna að gæta í sambandi við ferðir erlendra ferðamanna, og enn fremur var gert ráð fyrir því í því frv., að afnuminn yrði einkaréttur ferðaskrifstofunnar til þess að taka á móti erlendum ferðamönnum. En eins og kunnugt er, höfum við orðið þó nokkrar ferðaskrifstofur hér á landi. Þær eru býsna duglegar í því að standa fyrir ferðum Íslendinga til útlanda, og ég vil sízt lasta það, því að auðvitað er Íslendingum nauðsynlegt að ferðast. En niðurstaðan er sú, að það er akaflegu mikill og stór halli af þessum gjaldeyrisviðskiptum, ferðamannaviðskiptunum, að Íslendingar eyða miklu meira af erlendum gjaldeyri í ferðalög en þeir fá aftur til baka af ferðamönnum, sem koma hingað til landsins. Það er einmitt líklegt, að það þurfi að semja og setja nýja löggjöf um ferðamálin, hvernig sem skipulag á þeim annars verður.

Í öðru lagi er bent á það í þessari þáltill., að það, sem sérstaklega þurfi að taka til athugunar, er, með hverjum hætti sé hægt að auka landkynningu erlendis. Það þarf ekki að eyða mörgum orðum að því, það er flestum kunnugt, að þekkingu á Íslandi í útlöndum er sorglega áfátt. Þekkinguna þarf auðvitað að auka. Ferðaskrifstofan mun nú hafa gerzt aðili að sameiginlegri landkynningarstarfsemi Norðurlandanna í öðrum löndum, og með þeirri ráðstöfun ætti að vera opnuð greiðfærari leið en áður til þess að koma við landkynningu. Landkynningu má reka með ýmsum hætti, ég vil sérstaklega nefna það áhrifamikla tæki, kvikmyndirnar, og enn fremur auðvitað með bókum. Og ég vil geta þess, að ég hef orðið þess var, að útlendingar, sem hingað hafa komið, hafa einmitt kvartað sérstaklega um það, að þegar þeir hafa farið að spyrjast fyrir um það í sínu heimalandi, hvort ekki væri hægt að fá einhverjar bækur um Ísland, þá hefur þeim ekki tekizt það og það hefur ekki verið hægt að benda þeim á slíkar bækur, nema þá mjög gamlar og úreltar bækur um það efni. Úr þessu þarf auðvitað að bæta. Það er ekki nóg að hafa bæklinga um þetta efni á boðstólum hér heima, heldur þurfa þeir að vera á boðstólum í útlöndum. En það er alveg víst, að landkynninguna þarf að auka og ekki aðeins landkynningu í þröngri merkingu, heldur líka kynningu á menningu þjóðarinnar og atvinnuvegum, og það sjá allir, hvílíkt gagn getur af því hlotizt.

Þá er í þriðja lagi bent á það atriði, í þessari þáltill., sem sérstaklega þarf athugunar við, það eru gistihúsvandræðin, sem verið hafa hér. En þó að nokkuð rætist úr í þeim efnum á næstunni, þá verður enn þar við vandræði að etja, ef ferðamannastraumurinn hingað ætti að aukast eitthvað verulega. Og vandræðin stafa sérstaklega af því, að ferðamannastraumurinn hingað kemur alltaf til með að vera á tiltölulega skömmum tíma yfir sumarmánuðina. Það er ekki hægt að ætlast til þess og ekki gerlegt, að það sé hægt að byggja sérstök gistihús til þess að starfa þannig 3–4 mánuði á ári. En það stendur einmitt þannig á, að á þessum tíma standa auð hús, skólahús, sem vel sýnist að mætti nota í þessu skyni, og það er líka reyndar svo, að það hefur verið gert. Mörg skólahús, t.d. heimavistarskólar, eru rekin sem gistihús. En sannleikurinn er sá, að þeir eru flestir hverjir þannig úr garði gerðir að því er búnað húsgagna og annan frágang snertir, að þeir eru ekki vel fallnir til þess að vera gististaður fyrir útlendinga. Ef á að gera þá að gististöðum fyrir útlendinga, þarf að kosta meira til um búnað þeirra og húsgögn. Það er samt sem áður gleðileg staðreynd, að það er hægt að benda á ánægjulega undantekningu í þessu efni, að hægt er að benda á einmitt fordæmi, og það er Bifröst í Borgarfirði. Það hygg ég, að sé almannarómur, að það sé fyrsta flokks gistihús og hverjum og einum boðlegt. En þar er jafnframt skóli, eins og flestir vita. Ég hygg, að það mætti miklu víðar koma upp gistihúsum í skólahúsnæði með svipuðum hætti. En þá held ég, að það verði einhver aðili að vera, sem hefur það hlutverk sérstaklega að búa skólana að húsgögnum einmitt í þessu skyni. vegna þess að það er ekki líklegt, að það geti saman farið, að sömu húsgögnin séu notuð, meðan skólarnir eru reknir sem hótei og meðan þeir eru svo aftur reknir sem skólar. En þetta atriði held ég að þurfi alveg sérstaklega að athuga, og ég hef trú á því, að þarna sé einmitt leiðin til þess að leysa gistihúsvandræðin. Það hefur þegar verið nokkuð gert í þeim efnum, en það vantar samt visst átak þar.

Fjórða atriðið, sem bent er þarna á, er mjög merkilegt atriði. Það er spurningin um það, hvernig stuðla megi að því, að það verði reist heilsu- og hressingarhæli við hveri og laugar, en það munu flestir vera á því, að þar eiga íslendingar miklar heilsulindir. Sumir áhugamenn hafa lagt vinnu í að láta athuga þetta, en af opinberri hálfu held ég að hafi verið gert of lítið í því efni. Þetta þarf að athuga. En eins og ég sagði áðan, verða þar vitaskuld mörg önnur atriði, sem þarf að athuga í sambandi við þetta mál, þó að sérstaklega sé í þessari þáltill. bent á nokkur tiltekin atriði, sem ég hef gert nokkra grein fyrir.

Herra forseti. Ég leyfi mér svo að æskja þess, að umr. verði frestað og till. vísað til allshn.