22.03.1961
Sameinað þing: 55. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 528 í D-deild Alþingistíðinda. (2525)

66. mál, gjaldeyristekjur af ferðamannaþjónustu

Frsm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Fjvn. hefur orðið ásátt um að mæla með samþykkt þessarar þáltill., með nokkuð breyttu orðalagi, en samhljóða að meginefni, eins og nál. á þskj. 536 ber með sér.

Ég tel, að ekki þurfi fyrir n. hönd að flytja um þetta efni langt mál. Það hefur áður verið rætt innan þings og utan og þá ekki sízt í vetur, eftir að þessi þáltill. kom fram, og allir virðast á einu máli um, að hér sé um algera þörf að ræða.

Fjvn. lítur svo á, að tímabært sé að undirbúa löggjöf um ferðamál og hún verði sett hið allra bráðasta, þar séu ferðamálin með löggjöf skipulögð á þann hátt, sem nú verður að telja að henti, og að hið opinbera sé þar með bundið í að veita þá beinu og óbeinu aðstoð, sem sanngjarnt og eðlilegt má telja að það láti í té í þessum efnum. Gert er ráð fyrir að við undirbúning þessarar löggjafar séu höfð samráð við Ferðaskrifstofu ríkisins, sem og alla aðra, sem sérstaklega vinna að ferðamálum eða hafa beinna hagsmuna að gæta í því sambandi. Nefndinni er ljóst sem öðrum, að auknar gjaldeyristekjur af ferðamannaþjónustu eru eftirsóknarverðar og að vissu marki tiltölulega auðveldar, ef vel og réttilega er á haldið. En jafnframt verða menn að gera sér grein fyrir og horfast í augu við þá staðreynd, að í þessu máli getur ekki orðið um varanlega og hagstæða þróun að ræða, nema hægt sé að láta í té sómasamlega þjónustu og fyrirgreiðslu til þeirra erlendu ferðamanna, sem hingað vilja leggja leið sína. Í þessu efni sem fleiru gildir það lögmál. að ekki er hægt að vænta áframhaldandi og stöðugra viðskipta, nema viðskiptamaðurinn telji sig fá fyrir sína peninga það, sem sanngjarnt telst og vænta má. Það er því alveg óhjákvæmilegt, eins og allar aðstæður eru hjá okkur í þessu máli. að hið opinbera stuðli að því, að hægt sé að fullnægja eðlilegri og sanngjarnri kröfu ferðamanna, og eins krefst heilbrigður þjóðarmetnaður þess, að það ástand batni, sem nú ríkir í þessum efnum.

Þetta mál hefur fleiri hliðar en þá, sem snýr að gjaldeyrisöflun. Ein þeirra er að kynna land og þjóð og þá náttúrlega að góðu. Slíkt er verðmæti öllum þjóðum og þá ekki sízt lítilli. Landið sjálft er reiðubúið í sinni sérkennilegu fegurð og breytilega mikilleika að laða gesti í garð. En á okkur stendur að haga svo aðbúnaði og fyrirgreiðslu, m.a. við erlenda gesti, að sómasamlegt sé og tildurslaus íslenzk gestrisni krefur. Í þessu máli er nú ekki eftir neinu að bíða, heldur má segja, að hið gagnstæða sé staðreynd, að hið opinbera verður nú að veita virka aðstoð og hafa forgöngu um að samstilla krafta allra þeirra, sem hér geta komið við sögu, til bjarglegrar úrlausnar.

Öllum er kunnugt, að skortur á viðunandi gististöðum er hinn mesti þrándur í götu þessa máls, og verður því að gera ráð fyrir, að auk almennrar skipulagningar ferðamálanna í heild sé fyrsta verkefnið það að aðstoða við að gera núverandi gistihús þannig úr garði, að þau geti boðið ferðamönnum upp á sómasamlega fyrirgreiðslu og aðbúð, og jafnframt verður að athuga alla möguleika á að auka gistihúsnæðið. Gera verður ráð fyrir, að nokkrir möguleikar séu fyrir hendi að auka við gistihúsin hér í Reykjavík, bæði með tilliti til fjármagns og rekstrargrundvallar, en slíkt mun sennilega hvorugt vera almennt fyrir hendi úti á landi, þótt þörf sé fyrir með tilliti til erlendra ferðamanna. Það mun því verða að leita annarra úrræða með aukin sumargistihús, og virðast þá fyrst koma til greina, eins og hv. flm. þessarar till. benda á, að heimavistaskólarnir víðs vegar um landið séu notaðir á sumrin til slíkra hluta. En slíkt kemur sennilega ekki af sjálfu sér, og má því vænta, að hið opinbera verði að einhverju leyti að hafa afskipti af því, að skólahúsin fáist til afnota. Og einnig má búast við, að sums staðar þurfi að koma til einhverrar aðstoðar til að búa þau nauðsynlegum húsgögnum. Vera má einnig að unnt reynist að nota félagsheimilin eitthvað yfir sumartímann sem gististaði. en ýmsum vandkvæðum mun það bundið, þótt athugandi sé. Bent hefur verið á, að æskilegt sé að komið verði upp fjallaskálum til gistingar fyrir þá ferðamenn, sem vilja leggja leið sína um öræfin, og sjálfsagt er rétt, að til séu slík sæluhús, sem búa þarf þá öllum nauðsynlegustu tækjum.

Flm. minnast í till. sinni á nauðsyn landkynningar erlendis. Vitanlega þarf að halda uppi slíkri starfsemi, því að hana má ekki vanmeta. En eins og allar aðstæður eru nú hjá okkur í þessum efnum, verður að halda henni uppi með gát og ábyrgðartilfinningu. Verkefnin heima fyrir munu vera þau mest aðkallandi í þessu máli, ásamt hóflegri landkynningu erlendis, sem svo er hægt að auka í samræmi við aukna og bætta möguleika um móttöku erlendra ferðamanna. Og bezta auglýsingin og landkynningin er auðvitað, að ferðamannaþjónustan fari þannig úr hendi, að gestirnir fari héðan ánægðir yfir þeirri fyrirgreiðslu, sem þeim hefur verið veitt.

Þá vekja tillögumennirnir athygli á nauðsyn þess að stuðla að því, að komið verði sem fyrst upp hressingar- og heilsuhæli við hverasvæði. Hin merka tilraun Náttúrulækningafélagsins í þessu efni hefur að mínum dómi sannað ágæti þess máls, og ber því að taka undir það, að hið opinbera greiði eftir föngum fyrir framgangi þess, að upp risi sem fyrst slíkt hæli, búið sem fullkomnastri aðstöðu og tækjum. Má búast við, að slíkt hvíldar-, hressingar- og heilsuhæli yrði vel metið og sótt, bæði af innlendum og erlendum ferðamönnum. Gæti það orðið góður þáttur í landkynningu okkar að hafa slíkt á boðstólum fyrir erlenda ferðamenn.

Ég hef hér vikið að nokkrum atriðum þessa máls án þess að hafa gert tilraun til tæmandi upptalningar á því, sem athuga þarf og til greina kemur við undirbúning og endanlega afgreiðslu málsins. Slíkt bíður að sjálfsögðu þeirra reyndu og sérfróðu manna, sem ríkisstj. hlýtur að kveðja sér til aðstoðar og ráðuneytis við undirbúning löggjafar um þetta efni.