22.03.1961
Sameinað þing: 55. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 535 í D-deild Alþingistíðinda. (2536)

79. mál, hafnarstæði við Héraðsflóa

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Fyrri flm. þessarar till. sagði í ræðu sinni áðan, að hann vildi vinna með öðrum að því að koma fram samgöngubótum á landi, jafnframt því sem hann óskar eftir, að fram verði látin fara rannsókn á hafnarstæði á einum stað við Austurland. Flokksbróðir hans einn, hv. 1. þm. Vestf., hefur hér á þessum fundi fyrr í dag einnig talað um nauðsyn þess, að unnið verði að vegabótum um landið, ekki síður á hinum strjálbýlli stöðum en öðrum. Og ég er þeim vitanlega sammála um þetta. Á þessu sviði er mikið ógert, mikið verk að vinna, og þarf að leggja á það áherzlu, að vegagerð sé hraðað, eftir því sem föng eru á, þar sem enn vantar sæmilega vegi.

Nú er það svo, að síðan núv. hæstv. ríkisstj. kom til valda, hefur verið lagt fram úr ríkissjóði hlutfallslega miklu minna en áður til samgöngubóta á landi, minni hluti af heildartekjum ríkissjóðs en áður til þessara nauðsynlegu framkvæmda. Og ég er dálítið hissa á því, vegna þess að þessir tveir hv. þm. hafa látið uppi mikinn áhuga sinn fyrir því að endurbæta vegakerfið um land allt, að þeir skuli styðja að slíku með sínu atkvæði, styðja þá stjórn, sem þannig hagar sér, og leggja því lið með sínum atkvæðum hér á þingi, að svo mjög sé dregið úr framlögum til þessara nauðsynjamála. Ég verð að segja það, að mér kemur þetta einkennilega fyrir sjónir, og nærri liggur, að þetta sé dularfullt fyrirbæri í mínum augum.