02.11.1960
Sameinað þing: 9. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 537 í D-deild Alþingistíðinda. (2551)

47. mál, virkjunarskilyrði í Fjarðará

Jónas Pétursson:

Herra forseti. í þáltill. þeirri á þskj. 47, sem hér liggur fyrir til umr., er skorað á ríkisstj., ef hún verður samþykkt, að láta þegar á næsta sumri fara fram rannsókn á virkjunarskilyrðum í Fjarðará í Seyðisfirði, miðað við að hagnýta einnig vatnsmagn Kötluánna og Miðhúsarinnar ásamt stækkun Heiðarvatnsins.

Fjarðará er eitthvert fyrsta vatnsfall, sem virkjað var hér á landi. Árið 1913 var byggð við hana 50 kw. rafstöð af heimskunnu þýsku fyrirtæki, Fyrsta rafstöðin mun hafa verið byggð nokkru fyrr í Hafnarfirði, en Seyðisfjarðarrafstöðin var að því leyti merkileg, að þar mun hafa verið notaður riðstraumur í fyrsta skipti hér á landi. Rafstöðin við Fjarðará var svo nokkrum sinnum stækkuð, síðast í 230 hestöfl. Þessi rafstöð fullnægði Seyðfirðingum með rafmagn um langt árabil og er enn þá notuð. En í sambandi við síðustu framkvæmdir í rafmagnsmálum Austurlands, virkjun Grímsár, var byggð dísilrafstöð á Seyðisfirði sem varastöð. Leikmönnum flestum kom slík framkvæmd nokkuð furðulega fyrir sjónir, að sniðganga svo vatnsafl. sem þó hafði um langa hríð verið hagnýtt til orkuframleiðslu. Ýmsum virðist í fljótu bragði a.m.k., að virkjunarskilyrði séu þarna hin ákjósanlegustu, þar sem Fjarðará hefur um 500 m fallhæð á aðeins ca. 8 km vegalengd. Vatnsmælingar liggja þarna fyrir um áratuga bil. En þótt svo sé, er það margra álit, þeirra sem þekkja Fjarðará mestan hluta ævi, að enn sé ástæða til frekari rannsókna, þar sem allir möguleikar séu athugaðir til hins ýtrasta, og þess vegna er þessi þáltill. flutt. Ég legg til, að umr. verði nú frestað, og till. vísað til hv. fjvn.