27.03.1961
Sameinað þing: 56. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 538 í D-deild Alþingistíðinda. (2553)

47. mál, virkjunarskilyrði í Fjarðará

Frsm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Svo sem nál. fjvn. á þskj. 570 ber með sér, leggur n. til að till. þessi verði afgreidd með allverulegri breytingu. í upphaflegu till. var lagt til, að gerð yrði sérstök rannsókn á virkjunarskilyrðum í Fjarðará í Seyðisfirði. Við nánari athugun málsins hefur komið í ljós, að ekki eru ýkja miklar líkur til, að virkjun þessarar ár geti nema a.m.k. að mjög takmörkuðu leyti fullnægt þeim þörfum, sem fyrir raforku eru þar eystra. Hins vegar er talið sjálfsagt engu að síður að athuga þær áætlanir, sem þegar hafa verið gerðar um þá virkjun, til þess að sannreyna, hvort þar gæti verið hagkvæmt að virkja. Það er hins vegar skoðun fjvn., að eðlilegt sé, úr því að á annað borð yrði farið að hefjast handa um athugun á virkjunarskilyrðum í þessari á, að taka til heildarendurskoðunar rafvæðingarmál Austurlands, og svo sem nefnt er í brtt. n., eru þar einkanlega nefnd þrjú atriði auk virkjunar Fjarðarár, bæði tenging orkusvæða Austurlands og Norðurlands og einnig virkjun Lagarfoss. Það má að vísu segja, að allt þetta komi til athugunar að meira eða minna leyti í sambandi við framhaldsáætlun þá um rafvæðingu landsins, sem að er unnið nú og hæstv. landbrh. hefur hér gert grein fyrir í sambandi við annað mál. en engu að síður telur fjvn. ekki óeðlilegt, að sérstök athygli sé vakin á þessum atriðum, sem hér er um að ræða. Það er augljóst, að til þess að hægt verði að leysa þær þarfir, sem þarna er um að ræða, og þá ef til vill einnig veita raforku annaðhvort austan frá Lagarfossi eða þá frá virkjun nyrðra, þá sé nauðsynlegt og æskilegt, að málið í heild verði tekið til nýrrar athugunar.

Ég sé ekki ástæðu, herra forseti, til þess að orðlengja frekar um þetta. Það má margt ræða um þær hugmyndir, sem fram hafa komið um rafvæðingu á Austurlandi, og þá framtíðaráætlun, sem uppi er um það að tengja saman öll orkuver landsins, sem að vísu á nokkuð í land, en hlýtur þó að koma í framtíðinni. En á þessu stigi telur fjvn. rétt að leggja til, að þessi athugun verði tekin upp í því formi, sem brtt. hennar á þskj. 570 mælir fyrir um.