09.11.1960
Sameinað þing: 12. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 539 í D-deild Alþingistíðinda. (2558)

57. mál, slys við akstur dráttarvéla

Flm. (Matthías A. Mathiesen):

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 62 að flytja till. til þál. um rannsókn á slysum við akstur dráttarvéla. Það þarf að vísu ekki að fara mörgum orðum um þessa till., en hún felur í sér, að ríkisstj. láti rannsaka, hverjar eru orsakir hinna tíðu slysa, sem átt hafa sér stað við akstur dráttarvéla, og gera tillögur til úrbóta þar um.

Það er öllum ljóst, að nú á síðasta áratug hefur notkun dráttarvéla farið sívaxandi, sér í lagi við eina höfuðatvinnugrein okkar, þ.e.a.s. í landbúnaðinum. Um það ákvæði í umferðarlögunum, þ.e.a.s. í 28. gr. umferðarlaganna, sem fjallar um réttindi til aksturs dráttarvéla, munu á Alþingi við setningu þessara laga hafa verið töluvert skiptar skoðanir og niðurstaðan orðið sem raun ber vitni, að unglingum er heimilað að aka dráttarvélunum án nokkurs skírteinis, sé það gert utan alfaravegar. eins og orðað er í 28. gr. Við höfum hins vegar heyrt það og lesið um það núna undanfarin ár, að fjöldi unglinga hefur orðið fyrir slysum í sambandi við þessi tæki, svo að ég held, að menn geti verið sammála um það, að gerðar verði athuganir á því, hvort ekki er hægt að tryggja betur en gert er nú, að slík slys þurfi ekki að eiga sér stað.

Það er ekki neinn dómur á það lagður, hverjar orsakir eru fyrir þessum slysum. En mér þykir líklegt, að þar komi tvennt til: að annars vegar sé ekki farið að settum reglum og hins vegar sé útbúnaður þeirra tækja, sem verið er að nota, ekki eins og ákjósanlegt vært. Þess vegna er till. þannig orðuð, að þetta mál sé athugað og að sjálfsögðu verði gerðar nú þegar varúðarráðstafanir í þessum efnum og jafnvel þá lögð fyrir Alþ. breyt. á umferðarlögunum, ef það þætti rétt til þess að fyrirbyggja þetta.

Í sambandi við frágang á þessum ýmsu vélum má geta þess, að ýmsir aðilar hafa tekið upp framleiðslu á yfirbyggingum á þessar dráttarvélar, sem öryggiseftirlit ríkisins hefur viðurkennt, bæði vélsmiðjan Stál á Seyðisfirði og svo vélsmiðja Kaupfélags Árnesinga. Það er einnig til athugunar í þessu sambandi, hvort ekki sé rétt að gera kröfur til þess, að öryggisútbúnaði á vélunum verði breytt til þess að koma í veg fyrir slys.

Ég tel svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta, en leyfi mér, herra forseti, að óska eftir því, að umr. verði frestað og málinu vísað til hv. allshn.