01.02.1961
Sameinað þing: 35. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 542 í D-deild Alþingistíðinda. (2568)

145. mál, framfærslukostnaður námsfólks

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Það er síður en svo, að ég sé andvígur því, að sú till., sem hér hefur verið borin fram, verði samþykkt. Ég tel, að hér sé þörfu máli hreyft og full þörf sé úrbóta í þessum efnum. Ég er hv. frsm. fyllilega sammála um, að það er ranglæti í því, að foreldrar, sem kosta til náms börn yfir 16 ára aldur, skuli missa öll þau fríðindi, sem þeir nú njóta vegna barna, sem eru innan 16 ára aldurs. Það er alveg rétt, að kostnaðurinn verður oft meiri eftir þennan aldur. En ástæðan til þess, að ég stóð hér upp, er sú, að ég taldi rétt að upplýsa það, að nefnd, sem að undanförnu hefur setið á rökstólum og haft til meðferðar endurskoðun skattalaganna, hefur rætt þetta mál. Þó auðvitað aðeins hvað snertir skattahliðina, en ekki tryggingahliðina. Ég held, að mér sé óhætt að segja, að í nefndinni hafi menn verið á einni skoðun um það, að ástæða væri hér til úrbóta, og í þeim till., sem frá nefndinni komu, — en ég tel það ekkert leyndarmál, þó að þessar till. hafi að vísu ekki enn þá verið lagðar fram, þar sem málið er enn þá til meðferðar í ríkisstj., — er gert ráð fyrir, að a.m.k. verði heimilað í framtíðinni að taka meira tillit en nú er til þess við skattalagningu, að foreldrar hafa námskostnað vegna barna yfir 16 ára aldri. Ég taldi rétt, að þetta kæmi fram þegar á þessu stigi málsins, en að öðru leyti tel ég alveg sjálfsagt, að þessari till. verði vísað til nefndar og hún verði athuguð þar.