09.12.1960
Efri deild: 33. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í B-deild Alþingistíðinda. (257)

130. mál, söluskattur

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir, fjallar um það að framlengja ákvæði um bráðabirgðasöluskattinn á þá lund, að þau ákvæði skuli gilda út árið 1961. En samkv. söluskattslögunum átti þessi skattur — bráðabirgðasöluskattur — að falla niður nú um áramótin. Þessi viðaukasöluskattur, 8.8% af innflutningsverðmæti, er nú áætlaður um 170 millj. kr. eða sem svarar því að vera 1000 kr. á hvert mannsbarn í landinu. Það munar vissulega um minna, og það hefði vissulega mátt draga allverulega úr þeirri kjaraskerðingu, sem efnahagsaðgerðir núv. hæstv. ríkisstj. hafa leitt yfir þessa þjóð, ef það hefði verið staðið við gefin heit um að fella niður þennan viðbótarsöluskatt um áramótin. Það þarf engan að undra, þó að við stjórnarandstæðingar látum ekki slíka álagningu sem hér er um að ræða fara í gegnum þessa hv. d. án þess að hafa þar um nokkur orð. Þetta mál verður að sjálfsögðu athugað í nefnd, og gefst tækifæri til þess á síðara stigi að ræða það rækilega, eftir að sú athugun hefur farið fram, en mér þykir samt sem áður rétt þegar á þessu frumstigi málsmeðferðarinnar hér í deildinni að benda á nokkur atriði í sambandi við þetta mál, sem ég tel bera sérstakt vitni um blekkingar og vanefndir hæstv. ríkisstj.

Ég ætla að leyfa mér að fara nokkrum orðum um þennan söluskattsauka, sem hér er beðið um á árinu 1961. Jafnframt því sem rætt er um þennan söluskattsauka, verður tæplega hjá því komizt að víkja nokkuð að söluskattinum almennt og þeirri skattlagningaraðferð, sem þar er um að tefla. Vissulega er það svo, að þessi framlengingarbeiðni hæstv. ríkisstj. gefur ríkt tilefni til þess, að rætt sé nokkuð almennt um efnahagsmálastefnu ríkisstj. og það hrapallega skipbrot, sem hún nú þegar hefur beðið. Ég skal þó ekki fara langt út í þá sálma að þessu sinni.

Það er svo með þetta mál, eins og hv. síðasti ræðumaður gerði grein fyrir og ég ætla ekki að endurtaka, að það virðist frekar haft hljótt um það, og því skýtur svona gjarnan upp nokkuð að óvörum. Þessi bráðabirgðasöluskattur kom yfir eins og reiðarslag á s.l. vetri. Það var svo, eins og þegar hefur verið tekið fram, að í þeirri bók, sem hæstv. ríkisstj. gaf út s.l. vetur og hún kallaði Viðreisn, var skýrt frá því, að til stæði að leggja á almennan söluskatt, og þar var nefnd sú upphæð, sem sá almenni söluskattur skyldi nema, en það var ekki vikið að því einu orði, að það væri ætlunin að hækka innflutningssöluskattinn, heldur var þvert á móti látið að því liggja, að hann ætti að vera óbreyttur. Þetta var þó miklu betur undirstrikað í greinargerð þeirri, sem fylgdi fjárlagafrv. því, sem hæstv. núv. fjmrh. lagði fram á Alþingi s.l. vetur. En þar sagði m.a. orðrétt svo — með leyfi hæstv. forseta: „Ekki er áformað að breyta núgildandi söluskatti á innflutningi, en hann er áætlaður 154 millj. kr. með hliðsjón af reynslu s.l. árs og áhrifum væntanlegra efnahagsaðgerða.“ Í athugasemdum með efnahagsmálafrv. ríkisstj. var talað um hinn nauðsynlega nýja söluskatt, og í umr. á Alþingi um það mál var einnig rætt um hinn nýja væntanlega söluskatt, en það var ætíð þá um hann talað á þá lund, að hann skyldi vera hundraðsgjald og það lágt hundraðsgjald af innanlandsviðskiptum og allri þjónustu, en aldrei ýjað í þá átt, að innflutningssöluskatturinn yrði hækkaður. En svo kom þetta stóra slys á daginn, sem síðasti ræðumaður vék nokkuð að og ég skal ekki orðlengja um, að það kom fram mjög mikil reikningsskekkja í sambandi við þetta mál allt, — það kom sem sé á daginn, að það vantaði nokkra milljónatugi til, til þess að áætlanir ríkisstj. stæðust, og þá var gripið til þess ráðs að hækka innflutningssöluskattinn, sem hafði verið 7 eða 7.7%, hækka hann um 8.8%, þannig að innflutningssöluskatturinn skyldi vera 16.5%. En jafnframt var það svo sett fram á þá lund, að þessi viðbótarsöluskattur var ekki settur í þann kafla söluskattslaganna, sem fjallar um innflutningssöluskattinn, heldur var honum skotið inn í ákvæði til bráðabirgða. Og það var látið óspart í ljós, að þessi viðbótarsöluskattur ætti aðeins að vera til bráðabirgða, hann ætti aðeins að innheimtast á árinu 1960, eða þann hluta ársins, sem þá var eftir að líða. Þetta var sett allgreinilega fram í grg. með frv. að söluskatti á síðasta Alþingi. Þar sagði svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Í frv. er lagt til, að lögleiddur verði 3% almennur söluskattur á vörusölu, vinnu og þjónustu á síðasta stigi viðskipta. M.a. af þeim sökum, að skattur þessi getur eigi komið til framkvæmda, fyrr en nokkuð er liðið af árinu, er fyrirsjáanlegt, að með honum einum saman fæst ekki sú fjárhæð, sem frv. til fjárl. gerir ráð fyrir. Hefur því verið horfið að því til bráðabirgða að afla þess, sem á vantar, með viðbótarsöluskatti á innfluttar vörur. Er áætlað, að til þess þurfi að hækka núgildandi innflutningssöluskatt um 8% eða úr 7% í 15%, og er lagt til, að sú hækkun gildi til ársloka 1960. Eins og áður getur, hefur skammur tími verið til athugunar og undirbúnings máls þessa, og því er sú leið, sem hér er farin, að nokkru leyti bráðabirgðaleið. Verður unnið áfram að málinu og væntanlega unnt að leggja fyrir næsta Alþingi tillögur um frambúðarlausn þess.“

Það er að vísu svo, að það má segja, að það sé ofur lítill fyrirvari í þessari grg., þar sem svo einkennilega er til orða tekið, að hér sé að nokkru leyti um bráðabirgðaleið að ræða. Og sannleikurinn er sá, að þessi framlengingarbeiðni, sem hér liggur fyrir, kemur framsóknarmönnum ekki í sjálfu sér á óvart, því að t.d. tók fulltrúi Framsfl., hv. 1. þm. Norðurl. e., fulltrúi Framsfl. í þeirri n., sem fjallaði um málið, fram í nál. sínu þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Þessi skatthækkun er að vísu talin eiga að vera til bráðabirgða fyrir líðandi ár. En hver býst við öðru en framlengingu slíkra ákvæða? Engar líkur eru til, að ríkisstj. um næstu áramót telji sig mega missa þær 180 millj. kr., sem áætlað er að þessi skattauki gefi á heilu ári.“

Það verður nú ekki annað sagt en við framsóknarmenn og stjórnarandstæðingar raunar allir höfum að þessu leyti til reynzt harla sannspáir. En þegar þessi spá var sett fram hér á s.l. Alþingi og aðrar þvílíkar, þó voru þær kallaðar hinar verstu hrakspár.

Það er að vísu rétt, að hæstv. fjmrh., svo reyndur og greindur maður sem hann er, fór mjög í kringum það, hversu varanlegt gildi þessum söluskatti væri ætlað að hafa, en aðþrengdur varð hann þó að láta uppi um það nokkra skoðun. Hann sagði, ef ég man rétt, eitthvað á þessa lund: Það er ekki lagt til að þessu sinni, að 8% skatturinn standi nema þetta ár. — Og það má að vísu segja, að hann hafi með þessu orðalagi haft nokkurn fyrirvara. En ég staðhæfi það nú samt sem áður, að hann hafi í sínum ræðum um þetta mál lagt á það megináherzlu, þegar hann var að afsaka það, hvers vegna væri komið fram með þessa till. um viðaukasöluskattinn, að honum væri aðeins ætlað að standa til bráðabirgða.

Hæstv. fjmrh. var þá í nokkrum vandræðum með það, hvernig hann ætti að verja þessa ráðstöfun, m.a. vegna þess, sem búið var að segja í grg. fjárlfrv., og líka þeirra yfirlýsinga, sem gefnar höfðu verið af hálfu hæstv. ríkisstj. í sambandi við þetta mál, og eins vegna þess, hvernig málgögn hæstv. ríkisstj, höfðu um þetta mál skrifað.

En hæstv. ráðh. taldi, ef ég man rétt, einkanlega þrjár ástæður. Hann lét þess getið í fyrsta lagi, að þegar — og þá var hann að afsaka þessa reikningsskekkju, sem kom þarna fram — um söluskattinn almenna hefði upphaflega verið rætt, þá hefði ekki alveg verið gengið út frá því, hvort hann yrði heldur 3% eða 4%, og hefði jafnvel fremur verið ætlazt til þess, að hann yrði 4%. Hann lét þess enn fremur getið, að undanþágur í söluskattsfrv. hefðu orðið meiri en gert hefði verið ráð fyrir, þær hefðu orðið víðtækari en gert hefði verið ráð fyrir upphaflega. En í þriðja lagi, og á það var, ef ég man rétt, aðaláherzlan lögð, gæfi söluskatturinn, sá almenni, minna en ráð hafði verið fyrir gert, vegna þess að hann stæði aðeins þrjá ársfjórðunga. Þessi síðasta röksemd ráðh. gaf auðvitað óbeint til kynna, að það mundi ekki verða þörf fyrir þennan viðbótarsöluskatt á árinu 1961, þegar hægt væri að innheimta almenna söluskattinn fyrir heilt ár. Og það er alveg öruggt, að hvað sem ræðum hæstv. fjmrh. leið hér á Alþingi, þá undirstrikuðu málgögn stjórnarflokkanna það hvað eftir annað rækilega, að þessum bráðabirgðasöluskatti væri aðeins ætlað að standa til áramóta. Hann mundi ekki verða innheimtur lengur, hann mundi ekki verða framlengdur. Það mætti áreiðanlega sanna þetta með ótal tilvitnunum í Morgunblaðið.

En þó að það megi segja samkvæmt því, sem ég hef þegar fram tekið, að þessi framlengingarbeiðni, sem hér liggur nú fyrir, komi stjórnarandstæðingum ekki á óvart, vegna þess. að hún er í samræmi við það, sem þeir sögðu fyrir, þá hlýtur hins vegar þessi framlengingarbeiðni að koma stuðningsmönnum hæstv. ríkisstj. ákaflega á óvart, því að ef þeir hafa lagt trúnað á það, sem um þetta var sagt í málgögnum ríkisstj., þá máttu þeir vissulega ganga út frá því og treysta því, að þessi viðaukasöluskattur yrði ekki framlengdur. Og eins og áður hefur verið sagt, þá er hér sannarlega ekki um neitt lítilræði að tefla, þegar um er að ræða álögur, sem jafngilda þúsund króna álögum á hvert mannsbarn í landinu.

Það skal að vísu viðurkennt, að þessi söluskattsauki er í sjálfu sér að skömminni til skárri en sá almenni söluskattur, því að hinn almenni söluskattur, sem nú er lagður á alla hluti hér í landi og hvers konar þjónustu, er í eðli sínu ákaflega ranglátur og óheppilegur á allan hátt. Hann er ranglátur af því, að hann leggst þyngst á þá, sem þyngstar byrðar bera í þjóðfélaginu, að öðru jöfnu, leggst þyngst á þá, sem stærsta fjölskyldu hafa og að öðru leyti eru sízt um það færir að bera skatta, og hann er óheppilegur vegna þess, að aðferðin við innheimtu hans er á þá lund, að það er mikil hætta á því, að hann komi ekki allur til skila, og það er mikil hætta á því, að hann freisti þeirra manna, sem eiga að sjá um innheimtu á honum, til óskilvísi og jafnvel óheiðarleika. Sú freisting, sem þeim er búin í sambandi við innheimtu þessa skatts, er svo mikil, að það er, held ég, ekki ofsagt, þó að það sé gert ráð fyrir því, að þeir standist hana ekki allir og að þessi skattur komi þess vegna aldrei til skila. Og það er alveg augljóst, að þessi almenni söluskattur hefur mjög verkað og hlýtur mjög að verka í þá átt að hækka almennt vöruverð í landinu og auka þannig stórkostlega dýrtíð.

Það er vissulega svo, að það eru fleiri en stjórnarandstæðingar, sem eru þeirrar skoðunar eða hafa verið þeirrar skoðunar, að söluskattur væri óheppileg skattlagningaraðferð og að það væri varhugavert að leggja inn á þá braut að afla ríkissjóði tekna með söluskatti. Það var a.m.k. sú tíð, að annar af stuðningsflokkum hæstv. ríkisstj. leit svo á, að söluskattur væri ákaflega óheppileg og óhentug skattheimtuaðferð, ranglát og ósanngjörn. Og m.a. af því, að það var nú vitnað af hv. síðasta ræðumanni, 5. þm. Norðurl. e., nokkuð til nýlega gerðrar samþykktar Alþýðuflokksfélags um þessi mál, þá þykir mér ekki óviðeigandi að rifja líka upp eldri stefnuyfirlýsingar þessa flokks um þetta mál. Og ég vildi mega — með leyfi hæstv. forseta — lesa það upp, sem Haraldur Guðmundsson þáv. alþm. og þáv. formaður Alþfl. sagði um söluskattinn í þingræðu á Alþingi 1953, en þá talaði Haraldur Guðmundsson ekki aðeins í sjálfs sín nafni, heldur talaði hann þá í nafni Alþfl., því að hann sagði, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég álít — og Alþýðuflokkurinn er sömu skoðunar - að af — mér liggur við að segja — öllum þeim tollum, sem á eru lagðir hjá okkur, sé söluskatturinn ranglátastur og óskynsamlegastur. Hann er ranglátastur af því, að hann lendir langþyngst á þeim, sem minnsta getu hafa til að greiða til opinberra þarfa. Hann fellur langþyngst á barnmargar fjölskyldur og stór heimili. Og það þarf ekki orðum að því að eyða, hversu ranglátt slíkt fyrirkomulag er til innheimtu opinberra gjalda. Aðrir tollar ýmsir — ég vil nú ekki segja flestir — eru þó á lagðir með það sjónarmið fyrir augum, að þeir séu mismunandi þungir, eins og t.d. verðtollurinn, eftir því, hvaða vörur eiga í hlut, hvort hægt er að komast af án þeirra eða ekki. En til þessa sjónarmiðs er engan veginn tekið tillit við álagningu söluskattsins, heldur þvert á móti. Í öðru lagi liggur í augum uppi, að söluskatturinn hlýtur að hækka verðlag í landinu og þar með dýrtíðina a.m.k. sem skattinum nemur og þeirri álagningu, sem óhjákvæmilega hlýtur að koma á hann í öllum viðskiptum. Sú aukna dýrtíð, sem af þessu stafar, kemur svo. fram í hækkuðum framleiðslukostnaði. Af því leiðir aftur, að útflutningsvörur okkar, sem framleiddar eru með þessum háa framleiðslukostnaði, verða torseldari og standa þess vegna lakar að vígi í samkeppninni við hliðstæðar vörur á heimsmarkaðinum. Tollur þessi og skattur er því hvort tveggja í senn ranglátur gagnvart þeim, sem greiða hann, og mjög óskynsamlegur frá sjónarmiði þjóðfélagsheildarinnar. Við leggjum því til, Alþýðuflokksmenn, að þessi skattur verði felldur niður.“

Þessi orð Haralds Guðmundssonar standa í B-deild Alþingistíðinda 1953, bls. 109, og þetta er að mínu viti svo sönn og skynsamleg lýsing á söluskattinum, bæði söluskattinum almennt og þeim viðbótarsöluskatti, sem hér er um að ræða, að það er ekki á mínu færi að gefa þar á betri lýsingu.

En þó er það oft svo, að einn kemur öðrum meiri. Og annar hv. Alþfl. þm. kvað einmitt á þessu sama þingi enn sterkar að orði en þáv. formaður Alþfl. Það var núv. hæstv. viðskmrh., Gylfi Þ. Gíslason. Hann sagði um söluskattinn:

„Við þetta allt saman bætist svo, að söluskatturinn er í eðli sínu ranglátur. Það er einhver ranglátasti skattur, sem lagður hefur verið á af íslenzka löggjafanum. Og það er ekki nóg með það; að hann sé ranglátur í eðli sínu. Framkvæmdin á söluskattsinnheimtunni hefur og verið þannig, að á því er enginn vafi, að enginn skattur hefur verið svikinn jafnstórkostlega og söluskatturinn. Það er ekki aðeins ríkissjóður, sem tekur inn mikið fé í skjóli þessara lagaákvæða um söluskattinn, heldur taka ýmiss konar atvinnurekendur einnig inn stórfé í skjóli þessara ákvarða. Það er suðvelt að svíkja tekjuskatt fyrir þá, sem hafa stórfelldan atvinnurekstur með höndum. Það er, margfalt auðveldara að svíkja söluskatt. Það er jafnopinbert leyndarmál og skattsvikin í tekjuskattinum, að þau eru gífurleg í söluskattinum.“

Þessi orð hæstv. viðskmrh. má finna í Alþingistíðindunum frá 1953, B-deildinni, á bls. 81.

En Alþfl. virðist hafa skipt um skoðun í þessu efni, a.m.k. var hann á annarri skoðun í fyrravetur, þegar gengið var frá þessu frv. hér á Alþingi. Nú er eftir að vita, hvort Alþfl. hefur aftur skipt um skoðun, en til þess gæti bent sú samþykkt, sem Alþýðuflokksfélag Reykjavíkur gerði. En Alþfl. og Alþýðublaðið virtust í fyrravetur um skeið vera.. mjög spennt af söluskattinum. Það setti upp í leiðara, sem frægt er, skóladæmi eða dæmi fyrir skólabörn, þar sem það komst að þeirri niðurstöðu, að það væri auðvelt reikningsdæmi fyrir hvert skólabarn í landinu, að söluskatturinn gerði hvorki til né frá, ríkissjóður hefði haft þetta miklar tekjur eftir öðrum leiðum, nú tæki hann þessa sömu upphæð bara eftir öðrum leiðum, útkoman væri núll. En í þessu sambandi láðist Alþbl. að gera grein fyrir því, .sem áður fyrr skipti nokkuð miklu máli í stefnu Alþfl., að það er ekki alveg sama, hvar skattarnir eru teknir. Og þó að jafnvel væri gengið út frá því, sem ekki var nú, að það væri rétt, að skattupphæðin, sem innheimt væri í ríkissjóð, hefði verið hin sama, þá var það vitaskuld svo, að þessi skattheimta, sem framkvæmd er með söluskattinum, kemur niður á allt öðrum aðilum en sú skattheimta, sem áður var og Alþbl. virtist vilja bera saman við þá. Þess vegna var það, svo, að Alþbl. mun hafa fundið það fljótlega á eftir, að almenningur sætti sig ekki við þetta og almenningi fannst það ekki vera alveg sama, þó að upphæðin væri jafnvel sú hin sama, ef þetta væri tekið allt annars staðar en áður var. Þess vegna reyndi Alþbl. að gera yfirbót, og 11. marz 1960 var þar skrifað á þessa lund, með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar lífskjör alþýðunnar eru svo kröpp, að hún getur ekkert leyft sér nema nauðþurftir, er að sjálfsögðu mjög óréttlátt að leggja á þær vörur söluskatt. Við þær aðstæður kemur skatturinn þyngst niður á þeim, sem sízt skyldi. Hér þarf einfalt kerfi, sem er auðskilið og sem minnst af undanþágum. Hér þarf umfram allt nákvæmt eftirlit með innheimtu skattsins, svo að honum verði ekki hreinlega stolið á leið frá neytanda til ríkiskassans. Það mun fara verulega eftir þessu framkvæmdaratriði, hvort almenningur sættir sig við skattinn eða ekki.” Þetta sagði Alþbl. 11. marz s.l.

Alþfl. þm. samþykktu söluskattinn þrátt fyrir það, þó að Alþbl. segði, að það væri mjög óréttlátt að leggja söluskatt á þessar vörur, sem til nauðþurfta teljast. Einu sinni var sagt: Hið góða, sem ég vil, það geri ég ekki, en hið vonda, sem ég vil ekki, það geri ég. Það lítur út fyrir, að Alþfl: þingmönnum sé í þessu máli eitthvað svipað farið.

En einmitt í sambandi við þetta og vegna þess, að í þessari Alþýðublaðsgrein, sem ég las upp, er á það minnzt, að allt velti á því, að „haft sé nákvæmt eftirlit með innheimtu skattsins, svo að honum verði ekki hreinlega stolið á leið frá neytanda til ríkiskassans“, eins og Alþbl. orðar það, þá vildi ég mega benda hv. Alþfl. þm. á það og minna þá á, að fyrir þessari hv. d. liggur frv. flutt af okkur hv. 1. þm. Norðurl. e., þar sem lagt er til, að lögfest verði skipan, sem gefur almenningi færi á að fylgjast með skilum á söluskatti, en það frv. felur það í stuttu máli fyrst og fremst í sér, að fjórum sinnum á ári skuli bæjarfógetar og sýslumenn leggja fram skýrslur um álagðan söluskatt, sem sýni heildarupphæð söluskattsins hjá hverjum skattgreiðanda fyrir sig og skilaðan skatt, og eiga skýrslur þessar að liggja frammi almenningi til sýnis. Ég fæ ekki betur séð en það væri alveg tilvalið tækifæri fyrir hv. Alþfl: þm. að standa nú að einhverju leyti við hin stóru orð Alþbl. og sinna ágætu foringja og tryggja með þessum hætti og ljá atbeina sinn til þess, að þetta frv. nái fram að ganga, og veita því þannig lið, að með þessum hætti verði það tryggt, að söluskattinum verði ekki hreinlega stolið á leiðinni frá neytanda til ríkiskassans, eins og Alþbl. orðaði það.

Ég hef talað hér dálítið um Alþfl. Það er kannske ekki rétt að halda áfram að gera það. En samt sem áður finnst mér einmitt ástæða til þess í sambandi við þetta mál að benda á, hversu gersamlega Alþfl. hefur skipt um stefnu í þessu máli, og það er sannarlega ekki að undra, þegar það er haft í huga, þó að síðasta Alþfl.- þing eða Alþfl.- fundur gerði samþykkt um, að það þyrfti að endurskoða stefnu flokksins, því að vissulega er stefnan í þessu söluskattsmáli orðin algert brot og í algeru ósamræmi við stefnu Alþfl. fyrr á árum. En það gildir raunar ekki aðeins um þennan söluskatt, heldur má segja, að það sé eiginlega svo i flestum málum, sem þessi hæstv. núv. ríkisstj. hefur beitt sér fyrir, að þær leiðir, sem þar eru valdar, ganga alveg í berhögg við þá stefnu, sem Alþfl. áður fyrr fylgdi og hann taldi rétta. Fer ekki hjá því, að þeim, sem áður treystu Alþfl. og höfðu á honum mætur, renni þetta nokkuð til rifja. Það er eins og það hvarfli að manni úr þjóðsögunum sagan af umskiptingnum. Það kannast allir við þá sögu, þegar barn var á bæ, allra barna vænst og óx þar upp eins og laukur í túni, en svo var það eitt sinn, þegar húsfreyjan þurfti að víkja sér frá, að þá komust illar vættir að þessu barni, og þegar hún kom aftur, var komið í staðinn fyrir þetta væna og álitlega barn allt annað og óálitlegra, sem var á allt aðra lund en hið fagra og myndarlega barn, sem áður hafði verið. Það er eins og Alþfl. hafi orðið hér fyrir þessu sama, hann sé orðinn að eins konar umskiptingi í þeim fjötrum, sem hann er nú í hjá Sjálfstfl. Vel má svo fara, að hann leysist aldrei úr þeim fjötrum og endi sitt skeið sem umskiptingur. En þó er þjóðsagan ekki öll sögð með þessu, því að það kom fyrir, að þessir umskiptingar breyttust til hins betra, og óvætturin, sem hafði hrifið hið betra barn, skilaði því aftur, einkanlega ef þessum umskiptingi var veitt hæfileg ráðning, þá sagði það til sín.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þátt Alþfl. sérstaklega í þessu söluskattsfrv., sem hér liggur fyrir, og í söluskattinum almennt. En vissulega væri ástæða til þess, ef þm. hans vildu hér á eftir gera grein fyrir því, hvernig stendur á þeim skoðanaskiptum, sem hjá þeim hafa orðið í þessum efnum. Og náttúrlega væri fróðlegt að fá það upplýst, hvort það er ekki rétt, sem hv. síðasti ræðumaður sagði um samþykkt Alþýðuflokksfélags Reykjavíkur, og væri fróðlegt að vita, hvort þeir ætla að fylgja þeirri samþykkt eftir, og þá skilst mér, að þeir muni trauðla geta greitt atkv. með þessari framlengingu á þessum viðaukasöluskatti, sem hér er farið fram á.

Ég skal svo ekki lengja mál mitt mikið úr þessu. En ég sagði það í upphafi máls míns, að það væri í sjálfu sér ástæða til þess í sambandi við þetta mál, sem hér er til umr., og þá kjaraskerðingu, sem þetta frv. felur í sér fyrir allan almenning í landinu, að ræða nokkuð þá almennu efnahagsmálastefnu, sem fylgt hefur verið í tíð núv. ríkisstj., en sú stefna hefur, eins og ég sagði, beðið algert skipbrot. En merki þeirrar stefnu var hafið undir ákaflega háfleygum einkunnarorðum. Það kannast allir við það, hver yfirskrift var yfir þeirri stefnu. Hún var: Leiðin til bættra lífskjara. — Þess vegna er einmitt í sambandi við kjaraskerðingu eins og þessa, sem hér liggur fyrir, ástæða til að minna á aðrar þær kjaraskerðingar, sem þessi hæstv. ríkisstj. hefur beitt sér fyrir og lagt á almenning í þessu landi, og bera saman við það, hvernig það verður samrýmt loforðinu um leiðina til bættra lífskjara.

Þar má í stuttu máli segja það, að þessi ríkisstj. hefur með sínum aðgerðum beitt sér fyrir því eða valdið því réttara sagt, að vöruverð allt í þessu landi hefur stórkostlega hækkað og dýrtíðin stórkostlega magnazt vegna þeirrar ofboðslegu gengisfellingar, sem framkvæmd var, og að hinu sama hefur einmitt stuðlað söluskatturinn og vaxtaokrið, hækkað vöruverðið og magnað dýrtíðina. Og það er einmitt það, sem alveg sérstaklega skilur á milli þeirrar gengisfellingar, sem hæstv. núv. ríkisstj. beitti sér fyrir, og þeirra gengislækkana, sem áður hafa verið framkvæmdar hér á landi og Framsfl. hefur átt hlut að, að samfara þeim gengisbreytingum, sem hann hefur tekið þátt í, hefur hann jafnan lagt á það áherzlu, að það væru gerðar samtímis ráðstafanir, sem drægju nokkuð úr þeim byrðum, sem óhjákvæmilega hlutu að fylgja gengisfellingunni og hlutu óhjákvæmilega samfara henni að leggjast á allan almenning. En það var einmitt hin algerlega breytta stefna, sem tekin var upp og núv. hæstv. ríkisstj. beitti sér fyrir, að það væri ekki nægilegt að framkvæma þessa gífurlegu gengisfellingu, heldur yrði einnig jafnframt henni að gera aðrar aðgerðir, sem verkuðu í sömu átt og legðust á allan almenning og stuðluðu þannig að samdrætti. Og að hinu sama hefur auðvitað stuðlað vaxtaokur og takmarkaðir lánsfjármöguleikar, þannig að mjög fáir geta nú fengið lán og þá auðvitað sízt þeir, sem helzt þyrftu lánanna með. En jafnframt því sem þessar byrðar hafa verið lagðar á almenning og dýrtíðin hefur verið mögnuð svo stórkostlega sem raun ber vitni, hefur það verið ákveðið, að afurðaverð og kaupgjald skyldi standa í stað. Afleiðingarnar af þessari stjórnarstefnu blasa nú hvarvetna við, og sú mynd, sem við blasir, er óglæsileg. Hún er í stuttu máli á þessa lund, að hvarvetna hefur dregið stórkostlega úr framkvæmdum, t.d. byggingarframkvæmdum. Það hefur dregið úr útgerðinni þannig, að hinir stóru togarar eru nú til sölu, og það hefur dregið úr útgerðinni þannig, að útgerðarmenn telja sig ekki geta haldið áfram útgerðinni að óbreyttum aðstæðum og gera stórkostlegar kröfur, sem kunnugt er og ég skal ekki eyða tíma í að rekja hér. Og hvers konar aðrar framkvæmdir, bæði í sveit og við sjó, hafa dregizt saman. Það má þess vegna segja, að það hafi kannske náðst sá árangur, sem sagt var fyrir að mundi leiða af þessum aðgerðum öllum saman, sem söluskatturinn og þá einnig viðaukasöluskatturinn er einn þátturinn í og ég þess vegna nefni líka hér, að þessar aðgerðir allar saman hafi leitt til samdráttar. Og það er öllum hugsandi mönnum ljóst, að þessar aðgerðir allar eru að leiða til kreppu í þessu landi. Það er að byrja kreppa í þessu landi, og það verður ekki langt þangað til, ef núv. ríkisstj. sér ekki að sér, að það fer að bera á alvarlegu atvinnuleysi í þessu landi. Og ég verð að segja það, að mörgu stendur mér hér stuggur af, en ég verð að segja það, að af fáu stendur mér meiri stuggur en atvinnuleysi. Og ég hygg, að fátt sé það, sem veldur meira böli hér á landi en atvinnuleysið. Það er einmitt þetta, sem þessi núv. hæstv. ríkisstj, er að leiða yfir þetta land með sínum aðgerðum. Hún er enn fremur, auk atvinnuleysisins, að leiða yfir það, að fjöldi manna hlýtur að missa sínar eignir, ef haldið verður áfram á sömu braut. Það er alveg augljóst mál, að fjöldi manna missir sín hús, missir sínar íbúðir, missir sín skip o.s.frv. Hjá þessu verður ekki komizt, ef ekki verður skipt um stjórnarstefnu.

Ég hef aldrei haldið því fram, að vandinn í efnahagsmálunum hafi verið lítill, þegar núv. hæstv. ríkisstj. tók við. Ég hef hins vegar sagt, að hann hafi verið mikill, og hann var að nokkru leyti eða meðfram mikill vegna ábyrgðarlausra aðgerða, sem Alþfl.- stjórnin stofnaði til á árinu 1959, en gerði vitaskuld í skjóli Sjálfstfl. og hann kemst þess vegna ekki hjá að bera ábyrgð á.

Ég álít þessar aðgerðir, sem hæstv. núv. ríkisstj. stendur fyrir, vera háskalegar, og þó að vandinn hafi verið verulegur, þegar núv. hæstv. ríkisstj. tók við, þá fer það ekki á milli mála, að vandinn nú er orðinn miklu, miklu meiri og geigvænlegri en þegar hún tók við völdum, og ég spái því, að sá vandi verði ekki auðleystur. Og það er alveg víst, að með hverjum degi sem líður og þessi hæstv. ríkisstj. fer með völd, þá verður sá vandi meiri. Þess vegna er það öllum fyrir beztu, að þessi hæstv. ríkisstj. fari frá völdum sem fyrst, þannig að þjóðinni og stjórnmálaflokkunum. gefist kostur á því að athuga þessi mál frá grunni og taka til athugunar, með hverjum hætti er hægt að ná samstöðu um skynsamlega lausn þessara þýðingarmiklu mála og forða frá dyrum þeim voða, sem fram undan er, atvinnuleysi og eignamissi fjölda manna, ef ekki verður breytt um stjórnarstefnu. Það má segja, að ég hafi kannske farið nokkuð út fyrir þetta mál, sem hér er nánast til umr., en það hef ég einmitt gert vegna þess, að þessi söluskattsauki, sem hér er um að ræða, er einn liður í þessum kjaraskerðingarráðstöfunum hæstv. núv. ríkisstj.