01.02.1961
Sameinað þing: 35. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 543 í D-deild Alþingistíðinda. (2576)

147. mál, rafvæðing Norðausturlands

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Við höfum, þingmenn Norðurl. e., ásamt hv. 10. landsk. leyft okkur að flytja á þskj. 255 till. til pál. varðandi rafvæðingu Norðausturlands, þess efnis, að Alþingi álykti að fela ríkisstj. að láta fara fram á árinu 1961 nauðsynlegan undirbúning til þess, að háspennulína verði lögð frá Laxárvirkjun til Kópaskers, Raufarhafnar og Þórshafnar á árunum 1962–1963, eins og ráð er fyrir gert, eða að rafvæðing hlutaðeigandi byggðarlaga verði á annan hátt a.m.k. jafnvel tryggð á sama tíma.

Í þeirri áætlun, sem á sínum tíma var gerð um rafvæðingu landsins á tíu árum, var gert ráð fyrir því, að háspennulína yrði lögð frá Laxarvirkjun í Þingeyjarsýslu eða nánar tiltekið frá Húsavík austur um Kelduhverfi, Öxarfjörð og Núpasveit til Kópaskers, þaðan austur um heiði til Þórshafnar og önnur álma frá Kópaskeri til Raufarhafnar. Var gert ráð fyrir, að þetta yrði framkvæmt á árunum 1962–63. Í sambandi við lagningu slíkrar háspennulínu, sem þarna var gert ráð fyrir, mundu allmargir sveitabæir hafa haft aðstöðu til þess að fá rafmagn samkv. þeim reglum, sem þar um hafa gilt, sennilega um eða yfir 40 bæir í Kelduhverfi og Öxarfirði og nokkrir í öðrum sveitum á þessu svæði.

Nú er komið fram á árið 1961, og ýmislegt hefur verið um þessi mál rætt og þessa tíu ára áætlun, en an þess að fara nánar út í þær umr., sem átt hafa sér stað um þau mál. þykir okkur flm. rétt, að ríkisstj, verði falið að láta fara fram nauðsynlegan undirbúning á þessu ári, til þess að framkvæmdir geti hafizt, eins og ráð var fyrir gert, á árinu 1962. Við viljum gera ráð fyrir því, að af þessum framkvæmdum verði á þessum árum, 1962–63, eða að rafvæðing hlutaðeigandi byggðalaga verði á annan hátt a.m.k. jafnvel tryggð á sama tíma.

Ég tel ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð, en vil leggja til, að till. verði vísað til hv. fjvn.