09.12.1960
Efri deild: 33. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 323 í B-deild Alþingistíðinda. (258)

130. mál, söluskattur

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Þetta frv., sem hér er til umr., er einfalt að formi og ekki langt að meginmáli. En hér er samt um að ræða stórt mál. Í þessu frv. felast ákvæði um háa skattheimtu, sem leggja á að nýju á herðar almennings í landinu, og löggjöfin um söluskattinn, sem þetta frv. er breyting á, er enn fremur einn liður í efnahagsmálakerfi núv. ríkisstj., sem hún sjálf og stjórnarflokkarnir hafa valið heitið viðreisn. Mér finnst því ástæða til að bæta nokkrum orðum við það, sem þegar er fram komið um þetta mál.

Þegar Alþingi var sett haustið 1959, lagði fyrrv. fjmrh. fram frv. til fjárlaga. Á tekjubálki þess frv. er söluskattur áætlaður 148 millj. kr. Þetta frv. hlaut þá einstæðu meðferð hér á hv. Alþingi, að fjmrh. fékkst ekki til þess að mæla fyrir því einu orði, heldur var því kastað í ruslakörfuna. En eftir þinghléið leggur hæstv. fjmrh. fyrir nýtt fjárlagafrv., og þá kom í ljós, að áætlun um söluskatt frá því, sem hið fyrra frv. gerði ráð fyrir, var hækkuð svo að hundruðum milljóna króna nam. M.a. er þá færður inn í fjárlagafrv. liður, sem fá átti með sérstökum söluskatti af vörusölu og þjónustu innanlands og átti að nema í heild 280 millj. kr. Í grg. þess frv., fjárlagafrv. núv. hæstv. fjmrh., er það tekið fram, eins og bent hefur verið á af þeim ræðumanni, sem síðast talaði, að það sé ekki fyrirhugað að hækka söluskattinn í innflutningi.

Þetta var sá boðskapur, sem alþm. var fluttur með fjárlagafrv. núv. hæstv. fjmrh. fyrir árið 1960. En skömmu síðar en það fjárlagafrv. hafði verið lagt fram flytur ríkisstj. frv. til laga um efnahagsmál, og í grg. þess frv. er vikið að þessum sérstaka þætti hins nýja kerfis, söluskattinum, og þar segir svo um söluskattinn, með leyfi hæstv. forseta: „Veruleg ný tekjuöflun verður einnig að koma til. Er það ætlun ríkisstj., að þeirra tekna verði aflað með nýjum söluskatti, og mun frv. um hann verða lagt fyrir Alþingi á næstunni. Er áætlað, að heildartekjur af þeim skatti verði 280 millj. kr. Af þeirri upphæð eiga 224 millj. kr. að ganga til ríkisins, en 56 millj. kr. til sveitarfélaga.“

Hér kemur það ekki fram, fremur en í grg. fjárlagafrv., að ætlun hæstv. ríkisstj. sé að hækka söluskatt í innflutningi. En það kemur fram í grg. með efnahagsmálafrv., að taka átti upp nýtt kerfi, eins og við höfum nú þegar fengið nokkra reynslu af, og loforðin í sambandi við það kerfi voru ekki skorin við nögl. Í grg. fyrir efnahagsmálafrv. segir m.a. orðrétt þannig:

„Hér er ekki um að ræða ráðstafanir sama eðlis og þær efnahagsráðstafanir, sem tíðkazt hafa svo að segja árlega nú um skeið og snert hafa fyrst og fremst breytingar á bótakerfi útflutningsins og nauðsynlega fjáröflun í því sambandi, heldur algera kerfisbreytingu samhliða víðtækum ráðstöfunum í félagsmálum, skattamálum og viðskiptamálum.“

Og enn fremur segir orðrétt:

„Af þessum sökum er það megintilgangur þeirrar stefnubreytingar, sem ríkisstj. leggur til, að framleiðslustörfum og viðskiptalífi landsmanna sé skapaður traustari, varanlegri og heilbrigðari grundvöllur en atvinnuvegirnir hafa átt við að búa undanfarin ár. Með því móti telur stjórnin, að atvinnuöryggi sé bezt tryggt til frambúðar og líklegust skilyrði sköpuð fyrir aukinni þjóðarframleiðslu og batnandi lífskjörum.“

Enn liðu tímar fram, og þá flytur hæstv. ríkisstj. frv. til laga um söluskatt. Þá kemur það fyrst í ljós, gagnstætt því, sem þm. hafði verið boðað í sambandi við fjárlagafrv. og efnahagsmálafrv., að ætlunin var að knýja það fram að stórhækka söluskatt í innflutningi, þannig að til viðbótar þeim 7% söluskatti, sem innheimtur hafði verið og átti að haldast, var lagt til með bráðabirgðaákvæði í frv. að hækka þann skatt um 8% og að sú skattheimta yrði gerð til ársloka 1960. En þetta samtals nemur raunverulega 16.5%, þegar það álag, sem á þetta fellur, er með talið. Það var nú að nokkru rakið af þeim, sem talaði hér á undan mér, hv. 3. þm. Norðurl. v., hvaða rök hæstv. fjmrh. færði fyrir því, að nauðsyn bæri til að flytja þetta bráðabirgðaákvæði og knýja það gegnum þingið. En ég vil endurtaka það og leggja á það áherzlu, að meginröksemd ráðh. var sú, að vegna þess að hinn almenni söluskattur ætti ekki að gilda allt árið, þá þyrfti að grípa til bráðabirgðaráðstafana til þess að vega upp þá skerðingu, sem af því leiddi, og þessi röksemd átti að fela það í sér, að réttmætt væri að flytja þetta bráðabirgðaákvæði við söluskattsfrv. Nú er augljóst, að löggjöfin um söluskatt á að vera í gildi árið 1961, svo að þessi meginröksemd um, að sú skattheimta gildi ekki 12 mánuði ársins, er ekki,lengur fyrir hendi. Þegar á þetta er litið, þessa meginröksemd, sem fram var flutt á síðasta þingi, er ekki í samræmi við hana það frv., sem nú er borið fram og er til umr. hér.

Við framsóknarmenn — og raunar stjórnarandstæðingar — bentum á, að það væru ekki líkur til, að hæstv. ríkisstj. teldi sig mega missa þann tekjustofn á árinu 1961, sem henni var fenginn í hendur með samþykkt bráðabirgðaákvæðisins á síðasta þingi. En bæði þessari viðvörun okkar og viðvörunum okkar um aðra þætti efnahagsmálanna var þá í engu sinnt. Þvert á móti túlkaði hæstv. ríkisstj. stefnu sína með þeim einstæða hætti og sérstaka að gefa loforðin út í hvítri bók undir skjaldarmerki íslenzka lýðveldisins. Þessa sérstöku ráðstöfun átöldum við stjórnarandstæðingar, og ef þeir, sem að því stóðu, eru ekki þegar búnir að sjá, að það er ekki akkur að því fyrir þá að eiga þessi loforð geymd í hvítri bók undir skjaldarmerki Íslands, eins og reynslan er nú þegar orðin á framkvæmd þeirra og stefnan sýnist fram undan í því efni, þá hygg ég, að þeir eigi eftir að átta sig á því, að þessi ráðstöfun hafi ekki verið eðlileg. Og hvar sem á er litið, þá blasir það við, hvernig loforðið um hinn trausta grundvöll atvinnulífsins er nú þegar komið. Hvað segja sjávarútvegsmenn um þessar mundir um hinn trausta grundvöll sjávarútvegsins, — og raunar er svipaða sögu að segja af öðrum atvinnuvegum með þjóðinni? Eða hvernig skyldi reynslan vera orðin af loforðinu um hinn varanlega grundvöll atvinnulífsins? Ég hef það fyrir satt, að um þessar mundir séu til athugunar sérstakar ráðstafanir vegna atvinnuveganna, af því að grundvöllurinn, sem lofað er í hvítu bókinni að leggja, reynist ekki varanlegur, því miður, vil ég nú segja. Og hvað skyldi þá vera um hinn heilbrigða grundvöll atvinnulífsins, sem lofað var að leggja? Skyldi vaxtaokrið, sem er einn þáttur í efnahagsmálastefnu stjórnarinnar, vera þáttur í því að skapa heilbrigðan grundvöll fyrir atvinnulífið í landinu? Stéttir þjóðfélagsins hafa að undanförnu látið uppi álit sitt á þeirri ráðstöfun, — álit, sem er gagnstætt því; sem ríkisstj, hefur viljað halda fram í því efni. Í fjórða lagi var lofað atvinnuöryggi. Hvað er að segja um það? Er það ekki orðið svo eftir nokkurra mánaða viðreisnarstjórn núverandi ríkisstj., að það er að gera vart við sig atvinnuleysi, sem hefur ekki verið til staðar í þessu þjóðfélagi um alllangt skeið, sem betur fer. Ég hygg, að það sé svo víða nú, bæði meðal iðnaðarstéttanna og á fleiri sviðum, að menn beri ugg í brjósti um atvinnuöryggið í þessu landi.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir um framlengingu á bráðabirgðaákvæðum söluskattslaganna, staðfestir ásamt mörgu öðru, sem þegar er fram komið, að þær viðvaranir, sem við framsóknarmenn gáfum hæstv. ríkisstj. og stjórnarflokkum á síðasta þingi, voru ekki að ófyrirsynju gerðar.

Eins og ég hef þegar tekið fram, er sú meginröksemd, sem færð var fram á síðasta þingi fyrir nauðsyn þessarar skattheimtu, sem hér er til umræðu, ekki fyrir hendi nú. Hinn almenni söluskattur verður innheimtur skv. gildandi lögum allt næsta ár. Orsakir þess, að þetta frv. er nú fram borið, eru því aðrar en þær, sem fram voru færðar í,fyrra. Orsakanna fyrir því er vitanlega að leita í þeirri reynslu, sem þegar er fram komin af stjórnarstefnunni, af viðreisnarstefnu stjórnarinnar, og hæstv. ríkisstj. er sjálf farin að átta sig á hver er. Þetta frv. er m.a. sönnun þess. Í þessu frv. felast ákvæði um skattheimtu, sem felur í sér mjög verulegar byrðar á almenning í landinu. Vegna þess er full ástæða til að minna á það, sem aðrir ræðumenn hafa þegar tekið fram, að sú skoðun hefur oft komið fram, sérstaklega af hálfu annars stjórnarflokksins, Alþfl., að söluskatturinn væri í eðli sínu ekki réttlátur tekjustofn. Hv. 3. þm. Norðurl. v. las hér orðrétt ummæli úr þingræðum forustumanna Alþfl., sem staðfesta þetta. Í þeim ummælum — og hinu sama hefur oft verið haldið fram í blöðum og ræðum manna um þessi mál hér á hv. Alþingi — kemur það glöggt fram, að sá er mismunur söluskatts og tolla, t.d. verðtolla, að þegar um tolla er að ræða, þá eru vörurnar flokkaðar eftir því, hve nauðsynlegar þær teljast, og hærri tollar lagðir á þær vörur, sem eru miður nauðsynlegar, og þeir, sem úr litlu hafa að spila, jafnvel aðeins naumlega til hnífs og skeiðar, hliðra sér hjá að kaupa hina tollahærri vöru. En söluskatturinn leggst hlutfallslega með jöfnum þunga á allan varning, sem inn er fluttur, þar sem hið sama prósentugjald er reiknað af verði vörunnar. Af því leiðir, eins og fyrrverandi formaður Alþfl., Haraldur Guðmundsson, benti á svo skýrt og svo rökrétt, eins og hans var venja, að söluskatturinn er í eðli sínu ranglátur og bitnar a.m.k. stundum harðast á hinum mannmörgu fjölskyldum og þeim, sem erfiðast eiga með að bera þungar fjárhagsbyrðar.

Ef til vill verður á það bent í þessu sambandi, að það sé ekki nýtt fyrirbrigði í þjóðfélaginu að innheimta söluskatt til ríkisins. Það er að sönnu rétt. En upphaflega var gripið til þessa ráðs í sambandi við uppbótakerfið, þó að síðar færi svo, að söluskatturinn yrði tekjustofn ríkissjóðs. En ef við lítum á, hve háar fjárhæðir hafa að undanförnu verið innheimtar til ríkissjóðs með söluskatti, og berum saman við það, sem gert er á þessu ári og fyrirhugað að gera næsta árið að minnsta kosti, þá sjáum við, að hér er mjög ólíku saman að jafna. Árið 1956 er söluskattur samkv. fjárl. fyrir það ár 120 millj, kr. Árið 1957 er skv. fjárl. fyrir það ár söluskattur 110 millj. kr. Árið 1958 er söluskattur til ríkissjóðs 115 millj. kr. Árið 1959 er söluskatturinn til ríkissjóðs 151.4 millj. kr. En á árinu 1960 eru söluskattarnir; sem þá eru lagðir á til ríkissjóðs, skv. fjárl. 381 millj. kr., og við það bætast 56 millj., sem renna til sveitarfélaganna, eða samtals innheimtar með söluskatti fullar 437 millj. kr. Og samkvæmt því, sem fyrirhugað er að innheimta með söluskatti á árinu 1961, þá virðast mér þær tölur vera þannig: Söluskattar af innfluttum vörum, 7%, 156.5 millj. kr., eins og liðurinn er nú orðinn eftir atkvgr. við 2. umr. fjárlagafrv., þar við bætast 282 millj.; þetta er samtals 438.5 millj. til ríkissjóðs, og við það bætist 71 millj., sem á að renna til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, þannig að á árinu 1961 virðist mér að eigi að innheimta 509 millj. kr. af landsfólkinu með söluskatti.

Nú kann einhver að benda á, að þær tölur, sem ég hef greint um söluskatt á árunum 1956–58 eða 1959, segi ekki allan sannleikann, vegna þess að á því tímabili rann hluti af söluskatti til útflutningssjóðs. Það er nú næsta erfitt að fá yfirlit yfir það, svo að öruggt sé, hve hár sá gjaldstofn var hvert ár um sig. En í skilríkjum, sem fylgdu efnahagsmálafrv. á síðasta þingi, er gert ráð fyrir, að ég ætla, að á árinu 1959 hafi sá skattur numið um 70 millj., og gefið í skyn, að hefði kerfið haldizt óbreytt og skattheimtan á árinu 1960, hefði hann ef til vill hækkað upp í 78 millj. kr. Ég ætla, að ég fari rétt með þessar tölur. En þess ber að gæta, þegar á þetta er litið, að með gengisbreytingunni tók fólkið í landinu á sig verðhækkanir, sem samsvöruðu því, sem áður hafði verið lagt á vöruverðið í söluskatti vegna sjávarútvegsins eða vegna atvinnuveganna. Það hefði því verið alls kostar eðlilegt, að um leið og gengisbreytingin var gerð, um leið og fólkið í landinu tók á sig þá verðhækkun, sem af henni leiddi, til þess að hið nýja gengi skilaði útflutningsatvinnuvegunum fleiri íslenzkum krónum en áður var, þá hefði verið alls kostar eðlilegt, að sá söluskattur, sem rann áður til útflutningssjóðs, félli algerlega niður, og er því í raun og veru hið eina rökrétta að strika hann algerlega út úr þessu dæmi.

En við þær tölur, sem ég hef nefnt um árið 1961, vil ég þó bæta einni athugasemd. Við 2. umr. fjárl. er liðurinn „söluskattur af innfluttum vörum, 7%“ hækkaður úr 148 millj. í 156.5 millj. kr. Vitanlega er hér um áætlunarupphæð að ræða, sem hæstv. fjmrh. og hv. meiri hl. fjvn., sem að þessari brtt. stóð, mun þykja sennilegt að standist. En þar sem 8% söluskatturinn, sem fjallað er um í þessu frv., leggst á sama gjaldstofn og 7% söluskatturinn, þá skilst mér, að hann muni í reynd skila hærri fjárhæð en áætlað er í fjárlagafrv., ef sú áætlun um 7% söluskattinn reynist rétt, sem þegar er búið að samþykkja. Mér skilst, að hvort tveggja sé reiknað af sama gjaldstofni. Kynni þá að fara svo, að á árinu 1961 yrði innheimt alls af þjóðinni jafnvel nokkrum mun hærri fjárhæð með söluskatti en þær 509 millj., sem ég gat um áðan.

Það er nú svo augljóst sem verið getur, það sem bent hefur verið á af mér og öðrum, sem talað hafa um þetta mál hér í dag, að sú meginröksemd, sem færð var fram fyrir nauðsyn þeirrar skattheimtu, sem hér er um að ræða, á því ári, sem nú er að líða, er ekki fyrir hendi á árinu 1961. Og þá er eðlilegt að spyrja: Hvers vegna er þá þetta frv. fram borið nú? Hver eru hin nýju viðhorf, sem hafa skapazt að þessu leyti, og hverjar eru orsakir þeirra? Ég ætla, að það liggi fyrir samkvæmt því, sem fram er komið í umr. hér á þingi og nái. fjvn., að tolltekjur ríkissjóðs muni ekki skila í ríkiskassann á þessu ári eins háum fjárhæðum og áætlað var og að ekki séu taldar líkur til, að á því verði breyting á næsta ári, og þess vegna reki nauður til að framlengja ákvæði um söluskattinn, sem átti að vera til bráðabirgða, til að vega upp á móti lækkun á tolltekjum ríkissjóðs.

Það vekur einnig eftirtekt í sambandi við þetta mál, að í fjárlagafrv. fyrir yfirstandandi ár og í grg. með efnahagsmálafrv. og söluskattsfrv. í fyrra var áætlað, að hinn almenni söluskattur af vörusölu og þjónustu innanlands ætti að skila á heilu ári 280 millj. kr. Og til þess að staðfesta það enn að nýju, að sú skattheimta, sem fram fer á þessu ári samkvæmt bráðabirgðaákvæðum söluskattslaganna, væri gerð til þess að vega upp á móti því, að hinn almenni söluskattur er ekki innheimtur allt árið, þá var það staðfest með orðalagsbreytingu í fjárl. Í fjárlagafrv., eins og það var lagt fram á síðasta þingi af hæstv. fjmrh., er liðurinn orðaður þannig: „Af vörusölu og þjónustu innanlands 280 millj. kr.“ En sú eina breyting er gerð í þinginu, sem fram kemur í fjárl., eins og þau eru fyrir þetta ár, að liðurinn er orðaður svo: „Af vörusölu og þjónustu innanlands og bráðabirgðasöluskattur af innflutningi, 280 millj. kr.“ Fjárhæðin stendur heima, þessi bráðabirgðasöluskattur einungis lagður á og innheimtur samkvæmt fjárl. til þess að fylla upp í þá eyðu, sem skapaðist vegna þess, að hinn almenni söluskattur var ekki innheimtur allt þetta ár. Þetta er svo vel staðfest sem verið getur.

En sú breyt., sem á er orðin frá því, sem áætlað var, sú bitra reynsla, sem þegar er fengin af viðreisnarstefnu þeirri, sem stjórnarflokkarnir nefna svo, kemur m.a. fram í þessu frv. Þetta frv. sýnir það, að samdráttarstefna sú, sem hæstv. ríkisstj, beitir sér fyrir og framkvæmir, hefur orðið áhrifaríkari og náð áhrifum fyrr á atvinnuvegi og viðskiptalíf þjóðarinnar heldur en jafnvel þeir gerðu ráð fyrir. Þetta sýnir enn fremur ásamt öðru, að þau rök, sem við framsóknarmenn fluttum fram á þingi í fyrra í sambandi við þetta efnahagsmálakerfi, voru og eru gild. Og enn til áréttingar þessu má benda á, að hæstv. fjmrh. gerir sjálfur, að því er virðist, ráð fyrir svo miklum samdrætti, að nú áætlar hann ekki hinn almenna söluskatt 280 millj. á heilu ári, heldur einungis, samkvæmt fjárlagafrv., sem fyrir liggur nú fyrir árið 1961, 185 millj. Þessi samdráttur á tekjustofninum sjálfum grundvallast vitanlega á hinum mikla samdrætti, sem á sér stað í þjóðfélaginu.

En í beinu sambandi við þetta verður að benda á það, sem raunar aðrir ræðumenn hafa tekið fram, að hinn öri og mikli samdráttur, sem veldur þessari skerðingu á tekjustofninum sjálfum, bitnar vitanlega mjög hart á almenningi í þessu landi. Kjaraskerðing fólksins hefur þá að sjálfsögðu orðið enn þá meiri og örari en jafnvel búizt var við, þegar efnahagsmálalöggjöfin var knúin hér fram á síðasta þingi. Viðhorf stéttanna í þessu landi leynast heldur ekki. Stéttirnar hafa á undanförnum vikum og mánuðum, meðan þessi stjórnarstefna hefur verið framkvæmd, haldið sín þing, og þegar ályktanir, sem þar eru gerðar, eru lesnar niður í kjölinn, þá leynir það sér ekki, að það er samróma álit stéttanna, álit almennings í þessu landi, að kjaraskerðingin hafi orðið örari en jafnvel menn gátu búizt við í öndverðu og sé nú komin á það stig, að ekki verði til langframa við unað.

Það verður að segja, það vil ég taka fram að lokum, að löggjöfin, sem enn er í gildi um söluskatt, gaf ástæðu til að ætla, að þær mörgu milljónir, sem nú eru innheimtar á þessu ári samkvæmt bráðabirgðaákvæði söluskattslaganna, yrðu ekki lagðar aftur á almenning í þessu landi á næsta ári, vegna þess að hér er um bráðabirgðaákvæði að ræða. Þó að við framsóknarmenn bentum á þegar á síðasta þingi, að það væru litlar líkur til þess, að þessi skattheimta yrði niður felld við næstu áramót, þá er þetta ákvæði þannig í löggjöfinni, að almenningur hafði nokkra ástæðu til að vonast eftir því, að skattheimtan yrði ekki framlengd. Þetta bráðabirgðaákvæði var því örlítið ljós, dauf týra í þeim myrkviði, sem efnahagsmálaráðstafanir núv. ríkisstj. hafa reynzt gagnvart almenningi. En þetta frv., sem hér er til umr., ætlar að færa okkur heim sanninn um það, að jafnvel þetta daufa ljós ætli að reynast ljósið, sem hvarf.