27.03.1961
Sameinað þing: 56. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 544 í D-deild Alþingistíðinda. (2580)

147. mál, rafvæðing Norðausturlands

Frsm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Fjvn. leggur til, að till. þessi verði samþykkt með nokkurri orðalagsbreytingu, en sú orðalagsbreyting breytir þó ekki þeirri meginhugsun, sem liggur að baki till., en hún er þess efnis, að sem skjótast fáist úr því skorið, hvernig, hagað verði rafvæðingu Norðausturlands eða fyrst og fremst Norður-Þingeyjarsýslu.

Svo sem hv. Þm. er væntanlega kunnugt, var gert ráð fyrir því í 10 ára rafvæðingaráætluninni, að lögð yrði sérstök háspennulína frá Laxárvirkjun austur til Þórshafnar, Kópaskers og Raufarhafnar, og síðan átti út frá þessari veitu að dreifa raforku um nokkurn hluta af sveitum Norður-Þingeyjarsýslu. Nú hefur þessi áætlun verið endurskoðun. m.a. á þann hátt, að gert er ráð fyrir, að frestuð verði lagningu þessarar háspennulínu, sem er mjög dýrt fyrirtæki, og þess í stað hefur verið farið inn á það að efla dísilrafstöðvarnar í kauptúnunum Þórshöfn og, Raufarhöfn, og væntanlega verður svo einnig gert á Kópaskeri, en rafstöðin þar er enn í einkaeign.

Ástæðan til þess, að till. er flutt, er fyrst og fremst sú, að brýn nauðsyn er fyrir íbúa þessa héraðs að fá úr því skorið, hvernig rafvæðingu þessarar byggðar verði hagað, og hugsunin með till. er sú, að nú þegar verði undinn bráður bugur að því að gera um það áætlun, þannig að menn viti, að hverju þeir eiga að ganga í þessu efni, og geti þá hagað sér í samræmi við það. Lagt er til, að að þessu verði unnið nú þegar á þessu ári, og ég vil skjóta því hér fram til athugunar fyrir hæstv. ráðherra, enda þótt það sé ekki nefnt í þáltill., að Norður-Þingeyingar hafa sett á laggirnar hjá sér sérstaka raforkumálanefnd, sem hefur með að gera rafmagnsmál sýslunnar, og það væri mjög æskilegt, ef við þessa athugun yrði haft samráð við þessa nefnd.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara um þetta mál fleiri orðum. Það er augljós nauðsyn, sem hér liggur að baki. að leitað verði úrræða til þess að veita íbúum þessa héraðs þau þægindi, sem raforkan óneitanlega er, og sérstaklega þó það að fá tekinn af allan vafa um, hvernig þessum málum verði háttað, svo að menn geti þá lagað sig eftir því, og að sjálfsögðu með það í huga, að þó verði leitað allra úrræða til þess, að sem allra flestir og raunar allir íbúar þessa héraðs geti sem fyrst notið þæginda raforkunnar.