09.12.1960
Efri deild: 33. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 330 í B-deild Alþingistíðinda. (259)

130. mál, söluskattur

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þetta frv. um framlengingu til eins árs á 8% innflutningssöluskatti hefur gefið hv. þingmönnum tilefni til þess að fara út í almennar umr. um efnahagsástandið og efnahagsaðgerðir ríkisstj. Ég ætla ekki að hefja slíkar almennar umr., heldur halda mér við það frv., sem hér liggur fyrir, og leiðrétta nokkuð af þeim misskilningi, sem hér hefur fram komið.

Það er þá í fyrsta lagi, að menn skyldu ætla af ræðum þessara hv. þriggja þm., að með þessu frv. væri verið að leggja stórfelldan nýjan skatt á þjóðina. Þetta er gefið í skyn af hv. þm., sem stóðu fast að vinstri stjórninni á sínum tíma, sem á hverju ári sinnar tilveru lagði stórkostlegar nýjar álögur á þjóðina. En málið liggur alls ekki þannig fyrir. Hér er ekki verið að leggja neinn nýjan skatt eða nýjar álögur á þjóðina. Það er um það að ræða að framlengja fyrir árið 1961 tekjustofn, sem er í gildi á árinu 1960. Hann er ekki hækkaður, hann er óbreyttur. Þetta vil ég segja hér í upphafi míns máls vegna þess, hversu ræður hv. þm. hafa gefið villandi mynd af því. sem hér er um að ræða. Hér er ekki um að ræða nýjar álögur, eins og tíðkuðust á hverju þingi í tíð vinstri stjórnarinnar, heldur framlengingu á óbreyttum tekjustofni, sem er í gildi.

Því hefur verið haldið fram í fyrsta lagi, að í fjárlagafrv. fyrir 1960, sem lagt var fram um mánaðamótin janúar og febrúar s.l., hafi því verið lofað, að söluskattur í innflutningi mundi ekki verða hækkaður. Það orðalag, sem vitnað er til í grg. frv. þá, er á þá leið, að þar segir, með leyfi hæstv. forseta: „Ekki er áformað að breyta núgildandi söluskatti af innflutningi.“ Nú er það rétt, að þegar frv. var samið um áramótin 1959 og 1960, var ekki áformað að breyta söluskatti af innflutningi, og þessi orð standa í sínu fulla gildi. Þá var áformað að ná þeim 280 millj. kr., sem þurfti til þess bæði að vega upp á móti þeim miklu lækkunum, sem gerðar voru á ýmsum álögum, og vega einnig á móti hinum auknu fjölskyldubótum og bótum almannatrygginga, — þá var áformað að ná þessum 280 millj. með smásöluskatti, þ.e.a.s. með söluskatti á síðasta stigi viðskipta.

Þegar fjárlagafrv. var samið og prentað, sem sagt um áramótin 1959 og 1960, hafði ekki unnizt tími til þess að semja frv. að söluskatti né hafa lokið öllum þeim margvíslega undirbúningi, sem það mál krafðist. Þegar verið var að semja það frv. og kanna þessi mál nánar, kom það í ljós í fyrsta lagi, að ekki mundi unnt að ná þessum 280 millj., sem þurfti, með 3% almennum smásöluskatti, og lágu til þess ýmsar ástæður. Niðurstaðan varð sú, að það, sem á vantaði, að 3% söluskatturinn gæfi þessa upphæð, yrði tekið fyrst um sinn með 8% innflutningssöluskatti.

Því er haldið fram hér og margendurtekið af hv. 5. þm. Norðurl. e. og af hv. 5. þm. Austf., að eina eða aðalástæðan, sem hafi verið færð fram fyrir þessu, væri sú, að 3% söluskatturinn gæti aðeins gilt í þrjá fjórðunga þessa árs. Þetta er rangt, og hv. 3. þm. Norðurl. v. viðurkenndi það hér og skýrði alveg réttilega frá því í sinni ræðu, að ég hefði talið upp í umr. um þetta mál þrjár meginástæður, — ekki þessa einu, — sem hv. þingmenn hafa viljað láta vera. Ástæðurnar til þess, að þessi 8% innflutningssöluskattur var lögleiddur, voru þessar:

Ein ástæðan var sú, að þegar fjárlfrv. er samið, var gert ráð fyrir því, að hinn nýi smásöluskattur gæti gilt meginhluta ársins. Hins vegar tók undirbúningur málsins það langan tíma og meðferð þess í Alþingi, að hann gat ekki náð nema til þriggja ársfjórðunga. Þetta var ein af ástæðunum, en ekki sú eina.

Í öðru lagi varð niðurstaðan sú við undirbúning málsins, að stórir liðir voru undanþegnir þessum 3% söluskatti, sem hafði ekki verið gert ráð fyrir í upphafi. Þannig var t.d. við undirbúning og endanlega afgreiðslu málsins ákveðið að undanþiggja hvers konar mannvirkjagerð þessum 3% söluskatti, en þetta er ákaflega stór liður, sem rýrði þennan skatt auðvitað verulega.

Og í þriðja lagi hafði í öndverðu, þegar fjárlagafrv. var samið, engu verið slegið föstu um það, hvort söluskatturinn, hinn almenni, yrði 3% eða 4% eða 5%. Við athugun málsins þótti ekki rétt að fara með hann hærra en 3%.

Allar þessar þrjár ástæður voru meginástæðurnar fyrir því, að til innflutningssöluskattsins þurfti að grípa.

Ég varð þess ekki var á síðasta þingi, að hv. þm. stjórnarandstöðunnar hafi bent á aðra leið til þess að ná þessum nauðsynlegu tekjum ríkisins inn. Og að þetta hafi komið mönnum eitthvað sérstaklega á óvart, það er undarlegt að heyra það, vegna þess að öllum þm. var ljóst, strax frá því um mánaðamótin janúar og febrúar, þegar fjárlagafrv. var lagt fyrir, að þessum 280 millj. þyrfti að ná. Af orðum hv. 3. þm. Norðurl. v. mætti eiginlega ráða það, að hann hafi verið því fylgjandi eða a.m.k. talið það skárri leið, að við tókum ekki alla þessa upphæð með smásöluskatti á síðasta stigi, heldur skiptum þessum 280 millj. milli þeirrar leiðar og þessa innflutningssöluskatts, því að hann lét þau orð falla hér, að innflutningssöluskatturinn væri þó að skömminni til skárri en smásöluskatturinn.

Ég skal ekki fara út í orðræður um það, hvað felist í þessu orðalagi, að ekki hafi verið áformað að breyta núgildandi söluskatti. Ég hef skýrt frá því, að þegar fjárlfrv. var samið, var það ekki áformað. Hvort orðalagið er talið fela í sér eitthvert bindandi loforð um framtíðina, það ætla ég að sé dálítið einkennilegur skilningur á þessum orðum. Ég veit t.d., að þegar vinstri stjórnin var mynduð í júlílok 1956, hafði hún ekki áformað að segja af sér 4. des. 1958. Hún hafði þvert á móti áformað og fór ekkert dult með það, að hún ætlaði að sitja út allt kjörtímabilið. Telja þessir hv. þm., að það hafi verið svik af henni að segja af sér í desember 1958? Ég held, að það hafi ekki verið nein svik að þessu leyti, þó að hún hafi áformað að sitja út kjörtímabilið, auk þess sem ég tel, að það hafi verið mjög blessunarríkt spor fyrir þjóðina.

Í þessu sambandi er vitnað í það, að mér finnst heldur barnalega, að þegar sett eru bráðabirgðaskattalög, þá feli það orð í sér loforð um það, að þau verði ekki framlengd. Sannast sagna er það í rauninni furðulegt að þurfa að hlusta á þetta frá hv. þm. Framsfl., því að það er vitanlegt, að t.d. nú nokkuð á annan áratug hafa þeir staðið að því á hverju einasta þingi, nema kannske síðasta, að framlengja heila runu af bráðabirgðaskattalögum, sem hafa verið ákveðin frá ári til árs, þau skyldu aðeins gilda þetta ár, og svo í lok ársins hefur fjmrh. lagt fram frv. um að framlengja þau um eitt ár, og að þessu hafa þessir hv. þm. jafnan staðið. Nú koma þeir hér eins og álfar út úr hól og segja, að ef sett eru lög um, að vissar álögur skuli gilda fyrir þetta ár og það er kallað bráðabirgðaskattur, þá séu það hrein svik og óheyrt fyrirbrigði, að það sé framlengt um eitt ár. Hvar hafa þessir menn verið undanfarinn áratug?

Nú skal ég taka það fram, að mér er meinilla við hvers konar bráðabirgðaskattalög, og ég mun fyrir mitt leyti ekki feta lengi í fótspor sumra fyrirrennara um að halda því áfram heilan áratug eða á annan áratug að framlengja á hverju ári margs konar skattalög. Það er þvert á móti unnið að því nú að endurskoða tollskrána og öll aðflutningsgjöld og öll þessi bráðabirgðaskattalög til þess að steypa því saman í eina löggjöf, þannig að Alþingi geti sett skattalöggjöf og tollalöggjöf, sem er til frambúðar, en ekki þarf að vera að hringla með eða framlengja frá ári til árs..

Hv. 5. þm. Norðurl. e. sagði hér margt skrýtilegt og skringilegt, m.a. það, að ég hefði verið að fela þetta mál. Hann talaði um margt í sambandi við það. En þegar maður athugar, að í fjárlagafrv. fyrir 1961, sem var útbýtt á fyrsta degi þingsins, er það skýrt tekið fram, að þennan 8% innflutningssöluskatt þurfi að framlengja, þá er það næsta furðulegt, að hv. þm. skuli koma nú og segja, að stjórnin hafi verið að reyna að fela þessar fyrirætlanir. Með leyfi hæstv. forseta, á bls. 82 í frv. til fjárl. fyrir árið 1961, sem útbýtt var á fyrsta degi þingsins, stendur:

„Söluskattur af vörusölu og þjónustu innanlands og bráðabirgðasöluskattur af innflutningi (8%) er nú áætlaður 353 millj., en það er 73 millj. kr. hækkun frá fjárl. nú. Hækkunin stafar af því, að nú verður löggjöf um þetta efni væntanlega í gildi allt árið 1961.“

Ef hv. þm. hefur lesið grg. fjárlagafrv., hefur þetta verið honum ljóst strax frá fyrsta degi þingsins. (BjörnJ: Ég tók þetta fram í minni ræðu.) Já, en hvers vegna segir þá hv. þm., að við höfum ætlað að fela þetta mál? Það er erfitt að skilja það.

Í sambandi við þetta vil ég aðeins skjóta því hér inn í, að sami hv. þm. segir, að Alþýðusambandið hafi farið fram á viðræður við fulltrúa frá ríkisstj., hafi einn viðræðufundur átt sér stað, síðan hafi stjórnin slitið þeim viðræðum án þess að rökstyðja það, — og talaði um, að slíka virðingu beri ríkisstj. fyrir alþýðusamtökunum. Hver er nú sannleikurinn í þessu? Mér er það kunnugt, vegna þess að ég átti ásamt hæstv. viðskmrh. viðræður við fjóra fulltrúa frá Alþýðusambandinu fyrir rétt rúmum mánuði. Í lok þeirra viðræðna var ákveðið, að annar viðræðufundur skyldi haldinn síðar. Það var ekkert ákveðið um, hvenær hann færi fram, en annar viðræðufundur skyldi haldinn síðar. Hann hefur ekki verið haldinn enn þá. En það hefur ekki komið eitt einasta orð frá fulltrúum Alþýðusambandsins um, að þeir óskuðu eftir þessum fundi. Ef áhugi væri mikill hjá fulltrúum Alþýðusambandsins fyrir næsta viðræðufundi, því hafa þeir þá ekki í heilan mánuð látið frá sér heyra? Svo leyfir þessi hv. þm. sér að fullyrða hér á Alþingi, að stjórnin hafi slitið þessum viðræðum og sýnt Alþýðusambandinu með því óvirðingu.

Ég hef lýst því yfir hér áður, m.a. fyrir tveim dögum í sambandi við umr. um fjárl. í Sþ., að því færi fjarri, að ég hefði gefið nokkuð í skyn um það, hvað þá gefið ádrátt um það eða loforð, að 8% innflutningssöluskatturinn yrði ekki framlengdur. Það er tilbúningur einn og staðlausir stafir, þegar hv. þm. eru að herma upp á ríkisstj., að hún eða ég hafi gefið einhver loforð um það, að þessi tekjustofn yrði ekki framlengdur. Þvert á móti, á síðasta þingi tók ég það margsinnis fram, bæði í þessari hv. d. og í Nd., að um það væri ekkert hægt að segja að svo stöddu, hvort þyrfti að framlengja þennan söluskatt að einhverju leyti eða öllu eða unnt væri að fella hann niður, það yrði að ákveðast og væri ekki hægt að ákveða það, fyrr en fjárl. fyrir 1961 yrðu tekin til meðferðar. Hv. 3. þm. Norðurl. v. vottaði þetta líka í sinni ræðu og var í því efni eins og fleirum miklu sanngjarnari og sannorðari en hinir tveir hv. þm., því að hann vitnaði þar m.a. í, að ég hefði ekki fullyrt neitt um það, hvort skatturinn yrði niður felldur um áramót. Hins vegar greip hann í það hálmstrá, að þótt ég hefði engu lofað um það, þá hefði Morgunblaðið lofað því. Með allri virðingu fyrir Morgunblaðinu, þá er ég ekki ritstjóri þess eða ábyrgðarmaður og get ekki ábyrgzt það, sem þar kann að standa. En ég held, að hv. þingmenn hljóti að viðurkenna, að af hálfu þess ráðh., sem lagði þetta frv. fram og fylgdi því í gegnum þingið í fyrravetur, hafi ekki orð fallið í þá átt, er gæfi í skyn nein loforð um það, að skatturinn yrði felldur niður á næsta ári, það yrði allt saman að athugast í sambandi við meðferð fjárlagafrv. fyrir 1961.

Hv. 5. þm. Norðurl. e. ræddi hér um þá gífurlegu kjaraskerðingu, sem þessi skattur, innflutningssöluskattur, hefði í för með sér. Ég skal ekki fara að rekja þetta hér ýtarlega, en ég sýndi fram á það á síðasta þingi, og það stendur óhaggað, að þær breyt., sem gerðar voru á síðasta Alþingi á tekjustofnum, bæði á lögum um tekjuskatt, um útsvör, jöfnunarsjóð og söluskatt, höfðu það í för með sér, að fyrir meðalfjölskyldu þá, sem vísitalan er miðuð við, eru þessir nýju söluskattar léttbærari en þeir, sem af var létt. M.ö.o.: fyrir meðalfjölskyldu var lækkun tekjuskattsins og lækkunin í ár á útsvörunum og afnám 9% söluskattsins, þetta var til samans hærri upphæð en 3% söluskatturinn og 8% söluskatturinn á sömu fjölskyldu. Þetta liggur fyrir, og hv. þm. getur ósköp vel spurt hagstofuna, sem hefur reiknað þetta út, um það, hvort þetta er ekki rétt, þannig að þessar breytingar á skattalögunum urðu því fremur meðalfjölskyldu til hags en það gagnstæða.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri, ætla, að það sé nægilega svarað því, sem fram hefur komið varðandi þetta sérstaka mál. En út í almennar umr. um efnahagsmál hafði ég ekki hugsað mér að fara í sambandi við þetta mál.