18.01.1961
Sameinað þing: 32. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 552 í D-deild Alþingistíðinda. (2607)

114. mál, varnir gegn landspjöllum af völdum Dyrhólaóss

Jón Hjartansson sýslumaður:

Herra forseti. Ég kvaddi mér ekki hljóðs til þess að andmæla þessari till. á þskj. 148, síður en svo. En ég vildi einungis gefa ofur litlar upplýsingar í þessu máli.

Eins og drepið er á í niðurlagi grg., var samhljóða till. samþ. hér á Alþingi 1954. Ég flutti þá till. á Alþingi, og hún var samþ. einróma. Þáv. vitamálastjóri, hæstv. núv. félmrh., kom þá austur og leit á staðhætti þarna, og án þess að nokkur ýtarleg rannsókn færi fram, leizt honum svo á, að allar verulegar aðgerðir þarna við ósinn yrðu svo ofboðslega kostnaðarsamar, að ekki væri í Það ráiðandi. Hann treysti sér ekki til að mæla með því, að það yrði gert. En það varð svo samkomulag okkar í milli, að ég reyndi að fá lítils háttar fjárveitingu til þess að ýta ósnum út, í hvert skipti þegar hann tepptist, og það mundi verða ódýrast og hagkvæmast til þess að leysa þetta, mál. Ég fékk tvívegis ofur litla fjárveitingu í þessu skyni, í fyrra skiptið að mig minnir 25 þús. kr. og 20 þús. í hið síðara skipti. Þetta fé var svo lagt til hliðar og geymt hjá vitamálastjóra, og hann greiddi síðan reikninga, sem ég sendi honum, þegar þurfti að ýta ósnum út. Ég veit ekki, hvernig fjárhagur stendur núna, en þó var það svo í vetur, að nokkru fyrir áramót þurfti ég að fá greidda nokkra, reikninga fyrir mokstur á ósnum og hringdi til vitamálastjóra og spurði hann, hvort eitthvert fé væri til, og kvað hann það vera. En ég innti ekki eftir, hversu mikið það væri, en sendi reikningana, og ég veit ekki betur en þeir hafi verið greiddir. Þetta vildi ég upplýsa, til þess að alþm. viti, að hér var þó eitthvað að gert, þótt ýtarleg rannsókn hafi ekki farið fram, — en þetta var álit þáverandi vitamálastjóra, sem ég veit að hann mundi viðurkenna, ef hann væri hér. Enginn skyldi fagna því meir en ég, ef hægt væri að gera þarna einhverjar varanlegar aðgerðir, en eins og hæstv. félmrh. benti á, þá er ég ákaflega hræddur um, að þetta yrði gífurlega kostnaðarsamt, og eins og hann áleit líka, væri vafasamur árangur, hvað sem gert yrði.