18.01.1961
Sameinað þing: 32. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 553 í D-deild Alþingistíðinda. (2609)

114. mál, varnir gegn landspjöllum af völdum Dyrhólaóss

Flm. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Eins og fram er komið í þeim umr., sem hafa orðið um þetta mál. er ljóst, að það hefur ekkert legið opinberlega fyrir um rannsókn í þessu efni. Hitt er annað mál. að 8. landsk. (JKs) hefur upplýst um nokkra samvinnu. sem hefur farið fram á undanförnum árum á milli hans og vitamálastjóra, en það var eðlilegt og er, að við flm. vissum ekki um slíkt. Þá er það upplýst, að nokkurt fé hefur verið veitt í þessu skyni. en hvergi nærri svo, að leitt hafi til neinnar raunverulegrar rannsóknar. Það er slík rannsókn, sem um fjallar í þessari till., sem verður að fara fram, og ég veit það, að hv. 8. landsk. er okkur flm. sammála um það, enda vissi ég það fyrir, að hann hafði mikinn áhuga á þessu máli og hafði flutt tillögur í svipaða átt og hér er gert áður á þingum. En við flm. höfum sem sagt fyrst og fremst áhuga á því að fá alveg úr því skorið, hvort rannsókn geti ekki leitt í ljós, að hægt sé með sæmilegu móti að hindra frekari landspjöll á þessum slóðum og koma í veg fyrir sandfok og aðra eyðileggingu, sem verður þarna á dýrmætum engjalöndum fjölmargra jarða. Það er nú svo, og það er vitað, bæði í Vestur-Skaftafellssýslu og Rangárvallasýslu og víðar, að vel hefur verið hægt að koma í veg fyrir uppblástur og sandfok á stórum Landssvæðum. Að vísu hefur það ævinlega kostað nokkra fjárfúlgu, en það er fjármagn, sem fáir eða engir sjá eftir. Og þessi till. okkar er fyrst og fremst til þess fram borin að fá úr því skorið með heildarrannsókn, hvort ekki eru tiltækilegar leiðir, ein eða fleiri, sem hægt sé að fara til þess að koma í veg fyrir frekari landspjöll á þessu mikla landssvæði. Ég vona, að hv. alþm. geti vel fallizt á það eins og áður, að til þessarar umbeðnu rannsóknar verði stofnað hið allra fyrsta og til úrslita dragi um það, hvort kleift sé að koma í veg fyrir áframhaldandi landspjöll og græða upp þau landspjöll. sem þegar eru á orðin.