01.02.1961
Sameinað þing: 35. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 555 í D-deild Alþingistíðinda. (2617)

143. mál, radíóviti á Sauðanesi

Flm. (Gunnar Jóhannsson):

Herra forseti. Við hv. 1. þm. og 4. þm. Norðurl, v. og hv. 9. landsk. höfum leyft okkur að flytja þáltill. þá, sem hér er til umr. og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að hlutast til um, að reistur verði öflugur radíóviti á Sauðanesi við Siglufjörð.“

Á síðasta þingi fluttum við sömu þáltill., en hún náði þá ekki fram að ganga, enda var hún flutt seint á þinginu.

Þáltill. er flutt að ósk skipstjóra- og stýrimannafélagsins Ægis á Siglufirði. Félag þetta hefur sérstaklega beitt sér fyrir þessu máli, enda þekkja skipstjórar og aðrir sjómenn á Siglufirði allra manna bezt hina miklu nauðsyn þess, að allt sé gert, sem hægt er, til þess að tryggja örugga innsiglingu og landtöku til Siglufjarðar jafnt í dimmu sem í björtu. Innsiglingin til hafnar í Siglufirði liggur eftir tiltölulega mjóum ál, að vestan Sauðanesið, sem skagar fram úr fjallinu Strákum, en að austan Hellan, sem er framhald af Siglunesi. Á sumrum liggur oft og tíðum svartur þokubakki alveg upp að landinu, sem að sjálfsögðu torveldar skipum að ná höfn í Siglufirði, og oft og tíðum hefur það komið fyrir, að fjöldi veiðiskipa hefur lent í miklum erfiðleikum með að komast inn til hafnar í Siglufirði í dimmum veðrum. Fyrr á árum var það ekki óalgengt, að skip strönduðu á Hellunni eða í nánd við Sauðanesið vegna þeirra örðugleika, sem á því geta verið fyrir skip að ná til hafnar.

Það hefur verið og er mikið áhugamál siglfirzkra skipstjórnarmanna og annarra þeirra. sem þar til þekkja, að reistur verði á Sauðanesi radíóviti. Í grg. frá skipstjórafélaginu Ægi er bent á, að radíóviti sá, er á sínum tíma var reistur á Sauðanesi, hafi verið allt of lítill. aðeins 2 vött, og langdrægni hans því mjög lítil. þó að hins vegar sá viti hafi verið betri en enginn viti, en fyrir fjórum árum, eins og segir í grg., eða nú fyrir 5 árum, hafi vitinn verið lagður niður og þá talinn ónýtur, þrátt fyrir það að hann hafi verið talinn nothæfur í sjómannaalmanakinu það ár. Þá er og á það bent, að á hafsvæðinu milli Strandagrunns að vestan og Grímeyjarsunds og Kolbeinseyjar að austan séu svo að segja engar dýptarmælingar sýndar á sjókortum, þegar komið er út fyrir Skagagrunn. Á þessu hafsvæði sé það, sem síldveiðin fari fram fyrri hluta síldarvertíðar og það allt að 130 sjómílum til hafs. Þá er enn fremur bent á, að veiðiskipin lendi iðulega í þokum og súld dögum saman við að leita að veiði. Straumar og vindar hafi líka sín áhrif á, að staðsetning þeirra á leitarsvæðinu verði óákveðin og óviss. Mjög illt sé að átta sig með dýptarmælingum, eins og áður segir, aðallega vegna ónógra dýptarmælinga og mjög litillar kortlagningar. Það má öllum ljóst vera, að skip, sem fá veiði, þurfa svo fljótt sem hægt er að koma til hafnar til þess að bjarga veiðinni frá skemmdum. En þar sem farastaður er óviss, tekur oft langan tíma að ná til hafnar. Reynala undanfarinna ára hefur sýnt, að stórkostleg verðmæti hafa eyðilagzt vegna þess, hve skipunum hefur gengið erfiðlega að komast inn. Með byggingu sterks radíóvita á Sauðanesi væru þessi vandkvæði úr sögunni, þar sem skipin gætu þá miðað vitann og siglt örugglega til hafnarinnar.

Að sjálfsögðu er bygging radíóvita á Sauðanesi til stóraukins öryggis fyrir öll þau skip, sem sigla þar með ströndum fram og gætu þá staðsett sig með miðunum án tillits til veðurs. Þá má og benda á, að slíkur viti væri til mikils gagns og öryggis fyrir flóabátinn, sem gengur á milli Akureyrar, Siglufjarðar og Sauðárkróks. Leiðin á milli Siglufjarðar og Sauðárkróks er mjög hættuleg í vondum veðrum. Á þessari leið eru margir grunnhólar, sem brýtur á, og leiðin stórhættuleg í myrkri og stórhríðarbyljum vetrarins. Á þessari leið fórst t.d. fyrir nokkrum árum póstbáturinn, sem þá var í ferðum milli Siglufjarðar og Sauðárkróks. Báturinn var að koma. frá Hofsósi með farþega og flutning, lenti í norðaustan stórhríð og fórst, að því er talið er, á grunnboða nokkrum nokkuð vestan við Sauðanesið. Á þessu svæði hafa farizt mörg önnur skip, þó að þau verði ekki talin hér.

Siglufjarðarhöfn er ein með stærstu höfnum landsins. Þegar inn er komið, er bezta skipalægi, enda hafa mörg skip leitað þangað hafnar undan ofsaveðrum og stórhriðum Norður-Íshafsins. Árið 1960 voru skipakomur til Siglufjarðar 3023. Á þessu sést, að það er hin mesta nauðsyn á því, að allt sé gert, sem hægt er, til þess að auðvelda skipum töku slíkrar hafnar, jafnt í dimmviðrum sem á björtum degi. Siglufjörður hefur verið í tugi ára aðalmiðstöð fyrir síldveiðiflotann, sérstaklega fyrri part síldarvertíðarinnar. Margir eru þeirrar skoðunar, að Siglufjörður verði hér eftir sem hingað til miðstöð fyrir sumarsíldveiðarnar og því beri að gera allt, sem hægt er, til þess að tryggja öryggi þeirra skipa, sem þangað þurfa og vilja leita hafnar.

Herra forseti. Ég leyfi mér að leggja til, að umr. um till. verði frestað og henni vísað til fjvn.