12.12.1960
Efri deild: 34. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 334 í B-deild Alþingistíðinda. (262)

130. mál, söluskattur

Frsm, meiri hl. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Eins og nál. meiri hl. á þskj. 194 ber með sér, hefur fjhn. ekki getað orðið sammála um afstöðu til frv. þess, sem hér liggur fyrir. Við þrír, sem skrifum undir nál. á þskj. 194, mælum með því, að það verði samþ. óbreytt, en minni hl. n., hv. 1. og 5. þm. Norðurl. e., hafa tjáð sig frv. andvíga og munu skila sérálitum. Það kom líka fram við 1. umr. málsins hér í hv. d., að skoðanamunur væri um afstöðu til þess, svo að það kemur ekki á óvart, að n. hefur klofnað í málinu, og tel ég í tilefni af því rétt að rekja með fáeinum orðum rök þau, sem að áliti okkar, sem stöndum að meirihlutaálitinu, hníga að því, að ekki sé fært, eins og á stendur, að afnema aðflutningsgjöld þau, sem samkv. frv. skal framlengja.

Nú er það ekki svo að skilja, að okkur, sem stöndum að þessu meirihlutaáliti, sé það ekki jafnljóst og hv. stjórnarandstæðingum, að aðflutningsgjöld eru nú orðin hærri en góðu hófi gegnir og að æskilegt væri að fá þau lækkuð. Það má benda á ýmsa annmarka á hinum háu aðflutningsgjöldum. Fyrir utan það, að af þeim leiðir hærra verðlag en æskilegt er, má líka á það benda, að meðan aðflutningsgjöld eru svo há sem raun ber vitni um, næst aldrei að fullu sá megintilgangur gengisbreytingarinnar frá síðasta vetri að koma á samræmingu á milli hins innlenda og erlenda verðlags, sem m.a. kemur fram í óvenjulega miklum tilraunum til þess að smygla vörum inn í landið, eins og öllum hv. þdm. er kunnugt. Þetta eru atriði, sem við gerum okkur fyllilega ljós, og með tilliti til þeirra er vel hægt að skilja, að óskir og kröfur komi fram um það frá stéttasamtökum og fleiri samtökum í þjóðfélaginu, að þessar álögur séu lækkaðar. Hitt er auðvitað fjarri lagi, að hér sé verið að leggja á einhverja nýja skatta. Þessi skattur hefur þegar staðið í hér um bil ár, og áhrif hans á verðlagið eru komin fram að fullu eða hér um bil að fullu. Með þeim verðhækkunum, sem af þessu leiddi, hefur verið reiknað, þegar áætlanir voru gerðar um áhrif efnahagsmálaráðstafananna, svo að hér er ekki um það að ræða, að verið sé að leggja neinar nýjar byrðar á fólkið, eins og sagt hefur verið í sumum málgögnum hv. stjórnarandstæðinga. En þessari hlið málsins voru gerð að mínu áliti fullnægjandi skil í ræðu hæstv. fjmrh. við 1. umr. málsins, og ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um það.

Hvað sem því líður, þó að ekki sé ágreiningur um, að það gæti verið æskilegt út af fyrir sig að lækka aðflutningsgjöldin, þá er það nú svo með allar aðgerðir í peninga- og fjármálum og raunverulega í kaupgjaldsmálum líka, sem ég að gefnu tilefni mun víkja nokkuð að hér á eftir, — að með slíkum aðgerðum einum út af fyrir sig er ekki hægt að bæta hag almennings, nema ákveðnum efnahagslegum skilyrðum sé fullnægt. Ef hægt væri að bæta kjör almennings eftir vild með löggjöf á Alþingi, kaupgjaldssamningum og þess háttar, þá væri í rauninni ekkert efnahagsvandamál til, því að þá mundi varla á því standa, að slíkar samþykktir væru gerðar og sennilega einum rómi. Ástæðan til þess, að ég nefni þetta, sem í sjálfu sér ættu að vera augljósir hlutir, er sú, að hv. stjórnarandstæðingar haga oft málflutningi sínum um efnahagsmál þannig, að svo er að skilja, að það sé skoðun þeirra, að lífskjör fólksins í landinu séu á hverjum tíma ákveðin að geðþótta ríkisstj, og engu öðru. Ég hef nú í rauninni meiri trú á skynsemi og þekkingu hv. stjórnarandstæðinga en svo, að ég ímyndi mér, að þeir hafi sjálfir trú á slíkum málflutningi. Menn geta vitanlega haft ýmsar skoðanir á góðvilja hæstv. núv. ríkisstj. og annarra ríkisstj., sem með völdin fara. En hvað sem því líður, þá eru þó flestar ríkisstjórnir með því marki brenndar að vilja sitja áfram að völdum og vinna hylli almennings, þannig að væri það rétt, að lífsafkoma fólksins í landinu ákvæðist hverju sinni af ríkisstjórnunum, þá væri það dálítið einkennilegt, ef ríkisstj. teldu það yfirleitt henta bezt pólitískum hagsmunum sínum og vera vænlegast til fylgis að rýra kjörin sem mest. Og hefði ég trú á því, að hægt væri, svo að um munaði, að bæta kjör almennings hér á landi með því einfalda móti að framlengja ekki söluskatt þann, sem hér er til umr., þá væri ég hv. stjórnarandstæðingum sammála um, að slíkt bæri að gera. En málið er bara ekki svo einfalt. '

Það hefur komið í ljós við fjárlagaumr., að verði þessi skattur felldur niður að öðru óbreyttu, verður óhjákvæmilega verulegur halli á fjárl. Treysta hv. stjórnarandstæðingar sér til þess að mæla með slíku? Auðvitað væri líka hægt að fella þennan skatt niður og afla þá fjár með því að leggja á einhverja aðra skatta. En mér er ekki heldur kunnugt um það, að nein till. um slíkt liggi fyrir frá hv. stjórnarandstæðingum. Þriðji möguleikinn, sem hér kæmi til greina, væri niðurskurður annarra útgjalda. En þá kemur spurningin um það, hvaða útgjöld ætti þá að skera niður, og frá hv. stjórnarandstæðingum hafa ekki komið fram, svo að mér sé vitanlegt, neinar frambærilegar till. um niðurskurð ríkisútgjalda nægilega mikinn, til þess að fjárl. yrðu hallalaus, þó að þessi söluskattur væri felldur niður.

Þó að á þessi atriði sé bent að gefnu tilefni, er ekki með því tekið aftur það, sem ég sagði í upphafi máls míns, að okkur, sem að meirihlutaálitinu stöndum, er það ljóst, að stefna þurfi að því að lækka aðflutningsgjöldin. En slíkt verður ekki gert nema að undangenginni gaumgæfilegri athugun á því, hversu það megi framkvæma, án þess að afkomu ríkissjóðs sé með því stefnt í voða. Hæstv. fjmrh. hefur upplýst, að slík athugun fari nú fram, og er ástæða til þess að vona, .að af henni verði jákvæður árangur, þótt auðvitað verði ekki neitt um slíkt fullyrt á einn eða annan veg, fyrr en niðurstöður af þeirri athugun liggja fyrir, en auðvitað hlýtur hún að taka sinn tíma. Það er ekki auðhlaupið að því að gera stórvægilegar breytingar á tollskrá og aðflutningsgjöldum. Slík mál þurfa eðlilega rækilegrar athugunar við, áður en slíkar breyt, eru framkvæmdar.

Ástæðan til þess, að við, sem að meirihlutanál. stöndum, sjáum að svo stöddu ekki annað fært en samþ. frv. þetta, er því sú, að við teljum, að enn sé ekki efnahagslegur grundvöllur fyrir því, að sú lækkun aðflutningsgjalda, sem af því mundi leiða, ef söluskatturinn væri nú felldur niður, geti orðið almenningi til raunverulegra hagsbóta.

Hv. 5. þm. Norðurl. e. (BjörnJ) lét í ræðu, sem hann flutti við 1. umr. málsins, mjög liggja að hótun um það, að ef hæstv. ríkisstj. sæi sér ekki fært að koma til móts við óskir launþegasamtakanna um niðurfellingu söluskattsins og aðrar hliðstæðar ráðstafanir til aukningar kaupmætti launa, þá mundi verða stofnað til verkfalla og knúnar fram kaupgjaldshækkanir. Þessi boðskapur er ekki nýr. Hann hefur sýknt og heilagt kveðið við, þegar hv. þm. og samherjar hans hafa verið í stjórnarandstöðu, og launþegarnir hafa oftsinnis hlýtt því kalli, sem gefið hefur verið, háð verkföll og fengið kaup sitt hækkað. En það er önnur hlið á þessu máli, sem full ástæða er til að athuga, úr því að gefið er tilefni til þess. Hún er sú, hver orðið hefur árangurinn af þessu hækkaða kaupi í bættum kjörum. Það vill svo til, að nú nýverið hefur Alþýðusamband Íslands látið semja skýrslu um þá breytingu, sem orðið hefur á kaupmætti launa s.l. 15 ár eða frá því 1945. Hver er niðurstaða þessarar skýrslu, sem birt hefur verið sem heild sem fskj. með frv. hv. 3. þm. Reykv. (EOl) um áætlunarráð ríkisins? Niðurstaðan er í stuttu máli sú, að þrátt fyrir þær kauphækkanir, sem orðið hafa á s.l. 15 árum eða frá því í lok seinni heimsstyrjaldarinnar 1945, er kaupmáttur launa svo að segja nákvæmlega óbreyttur frá því, sem var 1945, en að því leyti sem um breytingu er að ræða, þá er hún frekar til lækkunar. Þetta þýðir m.ö.o., að þeir, sem fengið hafa þessar kauphækkanir á þurru landi eða án þess að hafa þurft að standa í verkföllum til að knýja þær fram, búa við óbreytt kjör, þannig að hagur þeirra er hvorki verri né betri en áður. Hinir, sem þurft hafa að standa í verkföllum til þess að knýja þetta fram, hafa borið þær byrðar, sem af vinnutapinu hefur leitt, án þess að fá nokkuð í aðra hönd.

Hvernig stendur nú á þessu, að kaupmáttur launa skuli ekki hafa vaxið neitt þrátt fyrir þær grunnkaupshækkanir, sem orðið hafa? Jú, það er vegna þess, að vöruverð hefur, sumpart vegna ráðstafana, sem gerðar hafa verið af opinberri hálfu, sumpart af sjálfu sér, hækkað til samræmis við þær kauphækkanir, sem orðið hafa, þannig að kauphækkununum hefur í rauninni öllum verið velt yfir á launþegana sjálfa, þannig að það er úr þeirra vasa, sem þær hafa verið greiddar, en ekki úr vasa atvinnurekenda.

Það svar er stundum gefið við þessu, að þessi óhagstæða þróun launamálanna sé því að kenna, að afturhaldsöflin í landinu, eins og það er orðað, ræni að jafnaði launþegana aftur því, sem þeir hafi áunnið í hækkuðu kaupi, með verðhækkunum, skattaálögum, gengisfellingum og þess háttar, þess vegna sé ekki nóg að hækka kaupið, launþegarnir þurfi líka að heyja baráttu á hinum pólitíska vettvangi og tryggja það, að óvinveitt stjórnarvöld ræni þá ekki á þennan hátt áunnum kjarabótum. Eitthvað á þessa leið mun standa í hverri viku í Þjóðviljanum eða jafnvel oftar.

En í sambandi við þá raunalegu þróun, sem orðið hefur í þessum efnum, — því að annað er ekki hægt að segja, ekki sízt ef gerður er samanburður við þróunina í nágrannalöndum okkar í þessum efnum, — að kauphækkanirnar hafa ekki leitt til þeirra kjarabóta, sem launþegarnir hafa gert sér vonir um, vegna efnahagsráðstafana óvinveittra stjórnarvalda, þá er fróðlegt að mínu áliti að minnast verkfallsins 1955 og þess, sem þá fór á eftir. Þetta verkfall 1955 hafði, sem kunnugt er, þær stjórnmálalegu afleiðingar, að ríkisstj., sem hv. 5. þm. Norðurl. e. og skoðanabræður hans mundu kalla verkalýðnum vinveitta, komst til valda ekki löngu eftir að þetta verkfall var háð. En hvað gerði vinstri stjórnin við þær kjarabætur, sem verkalýðurinn hafði áunnið sér í hinu langa og stranga verkfalli, sem óbeint varð til þess að lyfta vinstri stjórninni til valda? Vinstri stjórnin hafði ekki setið nema nokkra daga að völdum, þegar hún gaf út brbl. þess efnis, að 6 vísitölustiga launauppbót, sem launþegunum bar samkvæmt þágildandi kjarasamningum, skyldi felld niður. Þetta var ákveðið með brbl. Ekki var slík ráðstöfun þó nægileg að dómi hæstv. þáv. stjórnar. Nokkrum mánuðum eftir að vísitöluskerðingin var framkvæmd, var sett efnahagsmálalöggjöf sú, sem síðan hlaut nafnið „jólagjöfin“, þar sem aðflutningsgjöld voru stórhækkuð, framkvæmd 16% gengislækkun og gerðar aðrar slíkar ráðstafanir, sem þýddu 150-200 millj. kr. nýjar álögur á almenning minnst. Ekki var þó hér við látið sitja. Vinstri stjórnin taldi, að þær aðgerðir, sem framkvæmdar voru gagnvart launþegunum með vísitöluskerðingunni og síðar jólagjöfinni, væru ekki nægilegar til þess að skapa atvinnuvegunum rekstrargrundvöll, þannig að vorið 1958 voru sett „bjargráðin“, eins og kunnugt er, en aðalinntak þeirra var u.þ.b. 36% gengisfelling.

Hv. þdm. geta nú gert það dæmi upp sjálfir, hve mikið hafi verið eftir af kjarabótunum frá verkfallinu 1955, þegar búið var að framkvæma allar þessar ráðstafanir, fyrst vísitöluskerðinguna, síðan jólagjöfina og síðast bjargráðin. Ég tel, að það sé varla of mikið fullyrt, að það hafi ekki verið skilið neitt eftir. Samt sem áður var það nú svo, að haustið 1958, þegar vinstri stjórnin fór frá völdum, var það skoðun hennar og sérfræðinga hennar, að frekari kjaraskerðingarráðstafanir mundu vera nauðsynlegar, ef halda ætti atvinnuvegunum á floti. Til þess að sannfæra alþýðu manna um þetta voru lagðar fram á Alþýðusambandsþingi haustið 1958 viðamiklar skýrslur um ástandið í efnahagsmálum Íslendinga, sem áttu að sannfæra þá, sem þar áttu sæti, um nauðsyn frekari kjaraskerðingar. Ég ætla ekki að þreyta hv. þdm. með löngum tilvitnunum í þessar skýrslur, en vil þó aðeins leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hér þær niðurstöður, sem þeir komust að, sem falið var að semja þessar skýrslur. Með því að útbýta þeim á Alþýðusambandsþingi hafði þáv. ríkisstj. í rauninni lýst samþykki sinu við þessar niðurstöður, en þar segir svo:

„Í stað þess að hafa til ráðstöfunar þjóðarframleiðsluna alla, hver sem hún nú verður, og að auki 5—10%, verðum við að leggja til hliðar vegna greiðslu á vöxtum og afborgunum erlendra lána 3—4% framleiðslunnar.“

M.ö.o.: meginboðskapurinn, sem vinstri stjórnin lagði fram, um það bil sem hún fór frá völdum, var sá, að vegna mikillar skuldasöfnunar væri hag þjóðarinnar þannig komið, að eins og það er orðað hér fræðilega, þá hljóti ráðstöfunarfé þjóðarinnar á næstu missirum að minnka um 8–14%. Með meira almennu orðalagi þýðir þetta vitanlega, að það verði að skerða kjörin um 8—14%. Beri menn þetta svo saman við þann málflutning hv. stjórnarandstæðinga, að þeir telja það ósköpin öll og boðskap, sem öllum hljóti að koma algerlega á óvart, að nauðsyn hefur þótt bera til þess með efnahagsmálaráðstöfununum, sem gerðar voru á s.l. vetri, að skerða kjörin, ekki um 8–14%, eins og þeir töldu að óhjákvæmilegt væri, heldur aðeins um 3–4%.

Þetta var nú meðferð vinstri stjórnarinnar á þeim kjarabótum, sem verkalýðurinn vann sér í hinu langa verkfalli 1955. Nú er það mjög fjarri mér að halda því fram, að þeir hæstv. ráðh., sem sæti áttu í þessari stjórn, svo sem hv. 2. þm. Vestf., sem sæti á hér í þessari hv. d., þótt hann sé nú ekki viðstaddur í bili, eða hv. 4. landsk. þm. (HV), hafi það hugarfar gagnvart almenningi í landinu, að þeir hafi gert það af fúlmennsku einni að gera þannig að engu með efnahagsmálaráðstöfunum þær kjarabætur, sem verkalýðurinn hafði áunnið í verkfallinu 1955 og varð til þess að lyfta þeim til valda. Nei, það var annað, sem kom hér til. Vinstri stjórnin varð að beygja sig fyrir þeirri staðreynd, að það var ekki efnahagslegur grundvöllur fyrir því, að kauphækkanirnar 1955 gætu orðið raunhæfar kjarabætur. Þessi ríkisstj. stóð því í nákvæmlega sömu sporum sem svo margar aðrar ríkisstj. á Íslandi einmitt á því árabili, sem hér er um að ræða, bæði ríkisstj., sem verið hafa við völd á undan vinstri stjórninni og eftir hana, að það var um tvennt að velja: annars vegar stöðvun atvinnuveganna eða efnahagsmálaráðstafanir, sem um mátti deila, í hverju ættu að vera fólgnar, en hlutu undir öllum kringumstæðum að hafa í för með sér skert kjör. Þegar þessi ríkisstj. stóð í þessum sporum, valdi hún auðvitað af tvennu illu síðari kostinn, að framkvæma kjaraskerðingarráðstafanirnar.

Ef hv. 5. þm. Norðurl. e. er alvara, eins og hann gaf að mínu áliti nokkuð í skyn í sinni ræðu við 1. umr. málsins, — þótt það mundi aðeins gleðja mig, ef það væri á misskilningi byggt, — ásamt samherjum sínum á vettvangi stjórnmálanna að hvetja nú launþegana til almennra verkfalla til að knýja fram kauphækkanir, þá finnst mér eðlilegt, að hann verði spurður eftirfarandi spurninga: Hvar er tryggingin fyrir því, að ekki fari á þá leið með þær kauphækkanir, er um kynni að verða samið að loknu svo og svo löngu verkfalli, að þessar kauphækkanir renni út í sandinn á sama hátt og allar aðrar kauphækkanir, sem orðið hafa hér á landi s.l. 15 ár? Hvar er sú trygging? Ég veit ekki, hvort hv. þm. er reiðubúinn að svara þessari spurningu hér. Það væri gaman að heyra þau svör. En velji hann þann kostinn að gera það ekki, þá á ég bágt með að trúa því, að hann verði ekki, áður en yfir lýkur, krafinn svars við henni á öðrum vettvangi. Það sama á nefnilega við um kauphækkanir og lækkun tolla og skatta, að þær út af fyrir sig leiða ekki til neinna kjarabóta, nema aukin framleiðsluafköst hafi skapað skilyrði fyrir slíku. Væri hægt að útrýma fátækt og skorti með því einu að semja um hærra kaup, þá mundi sú leið ábyggilega alls staðar hafa verið farin fyrir löngu, og engin efnahagsvandamál væru þá til.