22.02.1961
Sameinað þing: 41. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 557 í D-deild Alþingistíðinda. (2625)

195. mál, hagnýting skelfisks

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja ásamt tveimur öðrum hv. þm. till. til þál. á þskj. 377 um hagnýtingu skelfisks, að ríkisstj. láti fram fara í samráði við Fiskifélag Íslands og fiskideild atvinnudeildar háskólans rannsókn á skelfisksmagni við strendur landsins. Verði jafnframt athugaðir möguleikar á hagnýtingu skelfisks til útflutnings og atvinnuaukningar.

Þessi till. þarf ekki langs rökstuðrings við af minni hálfu. Kjarni málsins er sá, að enda þótt skelfiskur sé meðal flestra þjóða talinn meðal beztu og dýrustu matvæla, erum við Íslendingar mjög skammt á veg komnir í því efni að hagnýta þessa verðmætu vöru. í að er tiltölulega skammt síðan hafizt var handa um rækju- og humarveiðar hér á landi. Þær eru stundaðar af nokkrum flota smábáta, en á s.l. ári var svo komið, að fluttar voru út afurðir frá þessum atvinnurekstri fyrir samtals nær 50 millj. kr. Mikill fjöldi fólks í þeim landshlutum, þar sem þessi atvinnuvegur er stundaður, hefur við það atvinnu og mjög góðar tekjur.

Við flm. þessarar till. leggjum til, að gengið verði lengra í þá átt að hagnýta þau náttúruauðæfi landsins, sem fólgin eru í skelfiskinum, sem liggur í hrúgum á fjörum landsins og við strendur þess. Eigum við þar þá fyrst og fremst við kúfisk og krækling„ sem í nágrannalöndum okkar er hagnýttur og talinn ein hin lystilegustu matvæli og seldur fyrir miklar fjárupphæðir.

Við teljum sem sagt, að fram beri að fara athugun í samráði við Fiskifélag Íslands og fiskideild atvinnudeildar háskólans á skelfiskmagninu við strendur landsins og síðan verði athugaðir möguleikar á hagnýtingu þess skelfisks til útflutnings og atvinnuaukningar í landinu. Ég hygg„ að ég geti fullyrt, að það sé mikið af þessum skelfiski hér við landið og það þurfi ekki að fara neitt á milli mála, að það eigi að geta borgað sig fyrir okkur eins og nágrannaþjóðir okkar að hagnýta þessar skelfiskstegundir. En áður en ráðizt yrði í þennan atvinnurekstur, er, eins og lagt er til í till., eðlilegt og sjálfsagt, að fram fari rannsókn af hálfu sérfróðra manna í þessum efnum.

Ég hygg, að allir hv. alþm. séu sammála um það, að til þess beri brýna nauðsyn, að atvinnulíf okkar þjóðar verði fjölbreyttara, fleiri stoðir renni undir efnahagsgrundvöll okkar þjóðfélags. Því miður er okkar atvinnulíf mjög einhæft. Við erum háðir sjávarafla að langsamlega mestu leyti, sem oft bregzt, og þess eru nærtæk dæmi einmitt nú á þessum síðustu tímum, að aflabrestur á fiskveiðum okkar hefur valdið okkur miklum erfiðleikum og erfiðleikum, sem er ekki séð fram úr nú. Ég vænti því, að þessari till. verði vel tekið, og leyfi mér að leggja til, að henni verði vísað til síðari umr. og hv. fjvn.