28.03.1961
Sameinað þing: 58. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 559 í D-deild Alþingistíðinda. (2632)

219. mál, sjálfvirkt símakerfi

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Fyrir þessu þingi liggja fjórar till. varðandi sjálfvirkan síma fyrir einstaka hluta landsins: fyrir Austurland, Borgarnes, Siglufjörð og Suðurland. Allshn. hefur fengið till. þessar til meðferðar, sent þær til umsagnar póst- og símamálastjórnarinnar. Samkvæmt ósk n. hefur póst- og símamálastjóri veitt n. ýtarlegar upplýsingar um fyrirætlanir stofnunarinnar í þessum efnum, og auk þess hefur Gunnlaugur Briem mætt á fundi allshn., þar sem mál þessi voru ýtarlega rædd og hann veitti ýmsar upplýsingar til viðbótar.

Það hefur orðið niðurstaða allshn. að afgreiða þessar fjórar till. með nýrri þáltill., sem hér kemur nú fyrir, og byggist hún á þeim upplýsingum um þetta málefni í heild, sem n. hefur aflað sér. Upplýsingarnar felast í skýrslu frá póst- og símamálastjórninni, sem prentuð er í heild sem fskj. með till. Samkvæmt þeirri áætlun, sem þar kemur fram, er talið kleift að gera síma sjálfvirkan um allt landið á tiltölulega skömmum tíma, þannig að allir kaupstaðir, kauptún, þorp og margir sveitabæir í nágrenni við þéttbýlið fái sjálfvirkan síma fyrir árslok 1966 ásamt sjálfvirku sambandi sín á milli, en nálega allir aðrir sveitabæir verði tengdir við kerfið fyrir árslok 1968. Ég vil benda hv. þm. á upptalningu, sem er á bls. 2–3 á þskj. 590, þar sem röð framkvæmdanna er talin í stórum dráttum, eins og hún er fyrirhuguð af póst- og símamálastjórninni, og í tveggja ára áföngum.

Framkvæmdir þær, sem hér um ræðir. eru umfangsmiklar, og er áætlað á þessu stigi. að þær muni kosta 500 millj, kr. En póst- og símamálastjóri hefur gefið n. þá skýringu, að ef ekki yrði ráðizt í svo stórfelldar framkvæmdir til þess að gera síma sjálfvirkan um allt landið, heldur aðeins haldið áfram símaframkvæmdum og aukningu í svipuðum dúr og verið hefur undanfarin ár, án þess að stöðva þá þróun, sem verið hefur, mundu framkvæmdir símans engu að síður kosta um 300 millj., þannig að breyting frá eðlilegri eða áframhaldandi þróun símans. eins og verið hefur, til þess að framkvæma þessa áætlun um sjálfvirkan síma um allt land kostar um 200 millj. kr. fram yfir það, sem vera mundi ella.

Póst- og símamálastjórnin telur sér kleift að standa straum af þessum mikla fjárfestingarkostnaði án þess að fá til þess nokkur framlög úr ríkissjóði eða annars staðar að, og er þá reiknað með venjulegum greiðslufresti, sem síminn hefur notið og nýtur hjá framleiðendum véla og tækja erlendis. Þó þyrfti síminn sennilega að fá stutt lán eða aðra fyrirgreiðslu fyrir nokkrum upphæðum fyrstu 2–3 árin, en þar er aðallega um að ræða greiðslu á tollgjöldum.

Í skýrslu póst- og símamálastjórnarinnar má sjá nánari skýringar á því, hvernig þetta er talið vera fjárhagslega unnt. M.a. má benda á það, að notkun á sjálfvirkum síma er miklu meiri en á handvirkum síma, þannig að tekjur símans mundu með framkvæmd þessarar áætlunar ekki aðeins aukast verulega vegna þess, að símnotendum fjölgaði, heldur mundi og notkun símans aukast að marki.

Eftir því sem póst- og símamálastjóri upplýsir, er nú óðum verið að setja upp sjálfvirkan síma víða um lönd, og munu flestar þjóðir, sem við berum okkur saman við um lífskjör og framkvæmdir, nú ýmist vera að koma upp slíkum síma eða með slíkar framkvæmdir í undirbúningi. Þá er það talið veigamikið atriði í þessu sambandi, að ef ekki verður stefnt til þess að koma upp sjálfvirku símakerfi á næstu árum, muni, áður en langt líður, reynast mjög erfitt að fá varahluti í hið gamla handvirka kerfi, sem við höfum haft.

Hér er um að ræða mjög veigamiklar og dýrar framkvæmdir, og er því sjálfsagt að gera sér glögga grein fyrir því, hvað þjóðin fær í aðra hönd, ef hún festir svo mikið fé í símaframkvæmdum á næstu árum.

Þá er fyrst til að telja, að símaþjónusta mun batna stórlega, og hefur það sérstaklega þýðingu fyrir dreifbýlið og samband þess við Reykjavík og annað þéttbýli. Það er ómetanlegt, ef hver einasta byggð og hver einasti sveitabær getur gengið að síma t.d. til þess að kalla til lækni eða til annarra mjög brýnna nauðsynja allan sólarhringinn, en enginn maður er háður því, að sími hans nágrennis sé aðeins opinn fáar klukkustundir á sólarhring. Þessi þjónustuaukning mundi hafa stórkostlega þýðingu fyrir atvinnuvegina, sem eru þannig reknir hér á landi, að þeir þurfa oft mjög á símasambandi að halda. Með þessu kerfi er talið, að langlínusamtöl geti. áður en Langt líður, orðið miklu ódýrari en þau hafa verið hingað til. og eftir að kerfið í heild er komið í framkvæmd, er talið, að verulegar gjaldskrárlækkanir geti komið til greina. Einnig er talað um breytingar á gjaldskrá símans þannig, að í stað þess, að borga fastagjald og borga síðan aukagjald fyrir símtöl, sem teljast fram yfir ákveðna tölu, verði meira og meira og fyrr eða síðar öll notkun símans greidd á þeim grundvelli, að talin verði símtölin, en stofngjald verði ekkert.

Það, sem þó hefur þjóðhagslega mesta þýðingu í sambandi við þessar framkvæmdir, er, að hér er um aukna hagkvæmni að ræða á stórfelldu og umfangsmiklu þjónustukerfi, sem þjóðin hefur í þjónustu sinni. Talið er, að ef þessi áætlun verður framkvæmd í heild, muni starfslið símans verða 5–6 hundruð manns fámennara en verða mundi, ef síminn, eins og hann er í dag og eins og hann mundi aukast að öðru jöfnu, þyrfti að hafa í þjónustu sinni með handvirkum síma víðast á landinu. Hér er um mikinn vinnukraft að ræða, sem vissulega væri æskilegt að geta notað við framleiðslustörf. Talið er, að launasparnaður verði árlega eftir 1968 um 24 millj. kr. eftir núverandi áætlun, Þá munu og tekjur símans, sem ganga til að greiða fyrir þessar framkvæmdir og standa undir rekstri hans, aukast verulega, eins og áður var getið.

Ég mun ekki hafa þessi orð fleiri, en vil vísa til þeirrar grg. og meðfylgjandi línurita, sem prentuð eru með þskj. 590. Þar sem mál þetta er flutt af n., er óþarft, að það gangi til n., og ég vil vænta þess, að hægt verði að ljúka hér þeirri einu umr., sem ákveðin er um málið, og afgreiða það, því að það var samróma álit allshn., að rétt væri, að fram kæmi áhugi þingheims á því, að unnið verði að framkvæmd þessa máls, eins og framast er unnt, og að greitt verði fyrir því, svo sem möguleikar leyfa á hverjum tíma. Í þeim tilgangi hefur n. samið og flutt þá till., sem hér er til umr.