22.03.1961
Sameinað þing: 55. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 564 í D-deild Alþingistíðinda. (2641)

188. mál, alþingishús

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Það skal þegar viðurkennt, að mál þetta, sem hér um ræðir, er mjög aðkallandi mál. Starfsmöguleikar í alþingishúsinu eru orðnir slíkir, að það er raunverulega engan veginn viðunandi fyrir hv. alþm. að starfa í þeim húsakynnum, sem hér eru, og starfa þar eins og til er ætlazt, að starfað sé að málum. Menn verða að vera hér á hlaupum um öll herbergi og ganga jafnvel til þess að gera út um hin alvarlegustu mál. En að ég tók hér til máls, er ekki til þess að mótmæla því, að ráðin verði bót á þess umáli, heldur til þess að benda á, að hér er eingöngu mál, sem heyrir undir forseta Alþingis, alls ekki undir ríkisstj. Það eru forsetar þingsins, sem eiga að leysa þetta mál, Þegar ég var hér einn af forsetum þingsins í þrjú ár, var þetta mál mjög á dagskrá hjá forsetum þingsins og gerðar ýmsar athuganir í sambandi við lausn þess. Það voru m.a. gerðir frumdrættir að viðbyggingu við þetta gamla hús og ýmsar áætlanir í sambandi við það. Það var auk þess leitað samkomulags við þáv. borgarstjóra, núv. hæstv. fjmrh., um nýja lóð á hagkvæmum stað undir nýtt hús, og voru gerðar ýmsar ráðstafanir í sambandi við þetta á þeim tíma. Ég átti svo ekki sæti á Alþingi næstu þrjú ár, árin 1956–59, og veit ég ekki, hvað hefur verið gert í málinu. En ég vissi, að á þeim tíma höfðu forsetar þingsins mjög mikinn áhuga fyrir þessu máli. Það var m.a. þá mjög rætt um það, að ef byggt yrði nýtt alþingishús, þá þyrfti að byggja í sambandi við það þingmannabústað, sem mjög var sótt fast á þeim árum að fá reistan hér í Reykjavík.

Ég geri ekki ráð fyrir því, að þó að umr. verði nú frestað um þessa till. og hún send til allshn., að mikil líkindi verði til þess, að hún verði afgreidd þannig á þessu ári, að það fleyti málinu mikið áfram, auk þess sem mér er engan veginn ljúft að taka þetta verk úr höndum forsetanna. Þeir eiga að sjá um lausn þessa máls og gera um það tillögur til þingsins. Ég vil því leggja til, að málið sé afgreitt þegar með rökstuddri dagskrá þannig:

Í trausti þess, að forsetar Alþingis taki mál þetta til athugunar og beiti sér fyrir hagkvæmri lausn á því, telur þingið ekki ástæðu til að samþykkja ályktun í málinu og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.

Ég vil vænta þess, að hv. Alþ. beri svo mikið traust til þeirra nýju manna, sem það hefur kosið fyrir forseta hér, að það geti fallizt á þessa afgreiðslu málsins, og ég ber svo mikið traust til þeirra og ekki hvað sízt til hæstv. forseta sameinaðs þings, að hann taki þetta mál mjög alvarlega til athugunar og geri næsta Alþ. glögga grein fyrir þeim till., sem þeir hafa til lausnar þessu máli.