22.03.1961
Sameinað þing: 55. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 567 í D-deild Alþingistíðinda. (2644)

188. mál, alþingishús

Flm. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Ég þarf nú raunar ekki neinu við það að bæta, sem hv. 3. þm. Vesturl. tók hér fram á undan mér. Hann reifaði raunar flest þau atriði, sem ég hafði ætlað að minnast á, þegar ég kvaddi mér hljóðs. En ég vil árétta það, sem hann sagði, að þessi till. er ekki að neinu leyti flutt sem vantraust á hæstv. núv. forseta, heldur vegna þess sjónarmiðs, að við flm. töldum það betur farið, að það væru fulltrúar frá öllum þingflokkum, þinginu öllu, sem ynnu að þessu máli. heldur en fulltrúar frá tæpum meiri hluta þess, það væri líklegra til þess að tryggja einingu um framgang málsins. En því er ekki að leyna, að sjónarmiðin eru ýmis um það, hvernig á að leysa þetta mál. Það koma upp ýmsar tillögur um, hvernig það muni verða bezt gert, og það er illt, ef það yrði til að tefja fyrir málinu, að það risi einhver ágreiningur á milli flokkanna um það efni, á milli ríkisstj. og stjórnarandstöðu. Þess vegna held ég, að það væri heppilegasta leiðin til að komast hjá því, að þetta dragist inn í pólitísk átök, að þannig sé unnið að málinu, að fulltrúar frá öllum flokkum og jafnt frá stjórnarandstöðunni og ríkisstj. fjölluðu strax um undirbúning málsins. Það væri líklegast til þess, að hægt væri að leysa þetta mál þannig, að það þyrfti ekki að koma þar til neinna pólitískra átaka, því að um nóg höfum við að deila hér á Alþingi, þó að við reynum að halda málum utan við deilur um það, hvernig húsnæðismál Alþingis séu leyst.

Af þeim ástæðum, sem ég hef nú rakið og komu fram í ræðu hv. 3. þm. Vesturl., held ég, að það sé heppilegri leið til lausnar á þessu máli að fela þetta þingnefnd, þar sem fulltrúar allra flokka eiga sæti, heldur en hafa það í höndum forseta Alþingis, sem eru kosnir aðeins af rúmum helmingi þm. Þó að ég vilji ekki þar með segja, að ég beri neitt vantraust til þeirra í þessum efnum, þá hygg ég, að þessi meðferð málsins, sem till. fjallar um, mundi samt verða heppilegri en sú, sem kemur fram í dagskrártillögu hv. 1. þm. Vestf.

Það má vel vera hins vegar, að það sé þegar ráðið af hálfu stjórnarflokkanna að hafa Þá meðferð á þessu máli, að fulltrúar þeirra einna fjalli um það og stjórnarandstæðingar komi þar ekki neitt nálægt, og ef svo er, þá langar mig til að spyrja hv. fim. dagskrártillögunnar að því, hvernig hann hugsi sér, að forsetarnir hagi sínum störfum, ef hans dagskrártillaga verði samþykkt, hve mikill hraði eigi t.d. að vera í störfum þeirra, hvort hann mundi ekki t.d. ætlast til þess, ef hans dagskrártill. væri samþykkt, að þá hefðu forsetar Alþingis lokið sínum tillögum, áður en þeirra kjörtímabil er á enda runnið, en mér skilst, að það standi ekki lengur en fram til næsta þings. Samkv. því ættu þeir að hafa lokið sínum tillögum ekki síðar en fyrir samkomudag næsta Alþ., þannig að Alþingi fengi þá aðstöðu til þess að fjalla um málið strax næsta haust, því að lengri er starfstími forsetanna ekki, eins og kosningu þeirra er háttað. Það getur vel verið, að þá verði kjörnir aðrir forsetar. En að sjálfsögðu er hans till. fyrst og fremst bundin við, að núv. forsetar vinni að lausn málsins. Mundi það þess vegna ekki vera álit hv. flm. dagskrártill., að ef hún yrði samþ., ætti að liggja fyrir till. og álit frá forsetunum strax í upphafi næsta þings um það, hvernig þeir teldu heppilegast að leysa þetta mál. og mundi ekki vera eðlilegt, að þegar þeir væru búnir að undirbúa sínar tillögur, þá verði þær lagðar hér fram á Alþingi, en það sé ekki á valdi forsetanna einna að ráða því, hvernig framkvæmdum verði háttað og hvað verði gert, heldur verði það borið undir Alþingi? Það, sem ég tel þó mestu máli skipta í þessu sambandi, er, hvað mikill hann telur að hraðinn eigi að vera á undirbúningi málsins, hvort það megi ekki skilja hans till. þannig, að ef hún verður samþ. og forsetunum falið þetta verkefni, þá eigi þeir að hafa sínar tillögur tilbúnar ekki síðar en á næsta Alþ., — hvort hann mundi ekki telja nauðsynlegt að leggja áherzlu á það.

Annars vil ég segja það að lokum, að það er ástæðulaus mótbára, sem kom hér fram hjá hv. 1. þm. Vestf., að það sé ekki hægt að afgreiða þessa till. vegna þess, hve stutt sé eftir af þingtímanum. Ef till. yrði afgreidd á þessum fundi til hv. allshn. Sþ., þá vitum við það, að sú n. hefur svo röskan formann, að hún mundi fljótlega geta afgreitt till., ef það væri sæmilegt samkomulag um hana, — ég meina sjálfa þáltill., — og þá mundi ekki heldur þurfa að taka langan tíma hér í Alþ. að afgreiða hana, þannig að ef vilji er fyrir hendi um að reyna að leysa þetta mál með samkomulagi þingsins alls og samkomulagi milli þingflokkanna, þá er nægur tími til þess enn að afgreiða þessa till. frá þinginu. Ef það er hins vegar stefnan. að það séu aðeins stjórnarflokkarnir einir, sem eigi að koma nálægt undirbúningi þessa máls, þá er eðlilegt, að menn finni upp mótbáru eins og þessa, að það sé ekki tími til að afgreiða till., og noti það sem tylliástæðu fyrir því, að það séu stjórnarflokkarnir einir, sem um málið fjalli.