22.03.1961
Sameinað þing: 55. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 569 í D-deild Alþingistíðinda. (2646)

188. mál, alþingishús

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka aftur til máls í þessu máli, en ég mótmæli því alveg, að ég standi að till., sem rýri virðingu Alþingis. Þessi skýring hjá hv. 1. þm. Vestf. er röng og hefur ekki við nein rök að styðjast. Hann veit það ósköp vel, hvernig forsetar eru kosnir hér á hv. Alþ., og þarf engar bollaleggingar um það að hafa. Það er ekki, eins og við tókum fram áðan, verið að ganga neitt á þeirra rétt eða lýsa neinu vantrausti á þá, þó að það sé talið eðlilegt, að Alþingi allt fjalli um þetta mál, og ég endurtek, að ég mótmæli því, að till. sé af minni hendi eða okkar flm. flutt sem vantraust á forsetana eða varpi neinni rýrð á Alþingi. Það er síður en svo.