28.03.1961
Sameinað þing: 58. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 570 í D-deild Alþingistíðinda. (2651)

188. mál, alþingishús

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég álít, að þetta mál sé að komast í rétt horf með þeirri brtt., sem hér er lögð fram af hv. allshn. En ég vildi um leið nota tækifærið til þess að láta í ljós, að það væri rétt, að þingmenn gæfu hæstv. forsetum og þeirri nefnd, sem um þetta mundi fjalla, hugmyndir viðvíkjandi þessu máli.

Ég býst við, að flestir þeir, sem verið hafa forsetar Alþingis á undanförnum árum eða áratugum, hafi meira eða minna um þetta mál hugsað, vegna þess að á þeim hefur það hvílt að eiga að hugsa fyrir því, sem öllum var orðið ljóst, að þetta hús var orðið allt of lítið fyrir starfsemi Alþingis. En það hefur frá upphafi verið allmikill ágreiningur um, hvað gera skuli í þessu máli, og ég, held, að það sé ákaflega nauðsynlegt, að þm. geri sér ljóst, hvað það er, sem þar kemur raunverulega til með að bera á milli. Ég tók strax eftir því í þeirri tillögu, sem lögð var fram á þskj. 362, að þar var raunverulega báðum þeim sjónarmiðum, sem fram hafa komið, gert nokkuð jafnt undir höfði. Ég álít, að stóra spurningin, sem fyrir okkur alþm. liggi í sambandi við þetta mál, sé, hvort við eigum að fallast á þá hugmynd, að það verði byggt nýtt alþingishús og þetta verði lagt niður, hvort við eigum að taka það í mál.

Það hefur alltaf borið á því, þegar þetta mál hefur verið rætt, að Alþingi hefur verið boðið upp á að fá lóðir hér í nánd við Tjörnina eða annars staðar og aðrar stofnanir ættu síðan að sitja fyrir því svæði, sem alþingishúsið nú stendur á. Ég álit þetta þýðingarmikið mál. Raunar reyndi ég líka.

þegar ég fyrir nokkrum tímum naut þess heiðurs að vera hér forseti í einni deild þingsins, að hafa nokkur áhrif á, að eitthvað yrði í þessu gert. Ég álít þetta svo mikilvægt mál, að það sé nauðsynlegt, að við a.m.k. minnumst á það, þannig að hæstv. forsetar og sú nefnd, sem um þetta mundi fjalla, hefði heyrt einhverjar raddir þingmanna um þetta mál.

Ég held, að það sé mikil hætta, sem vofir yfir okkar þjóð nú, hvað það snertir, að við slitum allt samhengi á milli þess gamla og þess nýja, sem við erum að vinna við að skapa. Breyt., sem er að verða á öllu okkar þjóðlífi á þessum áratugum, sem við höfum lifað, a.m.k. þeir eldri, er svo gífurleg, að samhengið í sögu þjóðarinnar er svo að segja að slitna. Ég held, að við verðum á öllum sviðum okkar þjóðlífs að aðgæta, hvað við gerum í þessum efnum, um leið og, við tökum ákvarðanir. Ég hef satt að segja alltaf harmað, að það skyldi ekki vera ráðizt í byggingu nýs menntaskóla fyrir áratug hér í Reykjavík, þannig að gamli menntaskólinn við Lækjargötu hyrfi úr því að vera notaður sem menntaskóli, og ég álit, að hann ætti þá að hverfa aftur til Alþingis, þannig að annars vegar væri t.d. gamli þjóðfundarsalurinn þar einhvers konar viðhafnarmóttökusalur fyrir t.d. forseta Íslands, þegar hingað kæmu þjóðhöfðingjar í heimsókn eða annað slíkt. og að forseti Íslands hefði þar upp frá þær skrifstofur, sem hann hefur nú hér í alþingishúsinu, en að öðru leyti væri þarna að einhverju leyti búið í hag fyrir vissar nefndir á vegum þingsins, sem þyrftu að starfa, en þannig gengið frá með skólann, eins og nú á að vera hægt með þeirri nútímatækni. sem er, að hann væri tryggður gegn því að geta brunnið. Ég álít, að Alþ. eigi að reyna að sjá til þess að tengja aftur við sig það hús, sem var tengt því frá upphafi, og það hús, sem var tengt einmitt starfi Jóns Sigurðssonar, þannig að við eigum hvað framtíðina snertir að hugsa til þess, að gamla menntaskólabyggingin, þegar nýir menntaskólar rísa í Reykjavík, hverfi aftur til þeirra nota fyrir æðstu stofnun landsins, sem hún upprunalega var fyrir og, jafnvel hennar glæsilegustu minningar eru tengdar við.

Þá er í öðru lagi viðvíkjandi þessu húsi. Þó að okkur finnist þetta hús ekki sérstaklega mikið og veglegt, borið saman við þær hallir, sem þingin í okkar nágrannalöndum eru í, þá er þetta hús þó þegar búið að fá sína sögulegu hefð. Ég býst við, að flestir finni til þess, að ef þeim finnst eitthvað verulega rómantískt við Reykjavík af stærri byggingum þar, þá eru það þau tvö hús hér, dómkirkjan og alþingishúsið, sem hafa verið eins og eins konar miðstöð í þeirri gömlu Reykjavík og ættu að halda áfram að geta verið miðstöð í Reykjavík líka, þó að hún verði að stórri borg, svo framarlega sem ekki verður farið þannig með miðbæinn hér í kring, að þessi tvö hús verði gerð að tveimur litlum kofum, með því að við byggjum einhverja skýjakljúfa hér rétt hjá. Ég álít, að við eigum að sjá til þess, þegar ákvarðanir eru teknar um framtíðaraðsetur fyrir Alþingi, að það sé ekki horfið burt frá því, að þetta hús. sem Alþingi nú hefur starfað í 7–8 áratugi, verði áfram hluti af þeirri byggingu, sem Alþingi hefst við í, jafnvel þó að stærri, veigameiri og fegurri byggingar komi til með að rísa þar. Og ég álít, að það sé ákaflega þægileg aðstaða fyrir okkur til þess að koma slíku í kring. Alþingi á þær lóðir, sem hér eru vestan við okkur og sunnan við okkur. Alþingi á lóðirnar undir Góðtemplarahúsinu og Listamannaskálanum, og það er tæknilega ágætur möguleiki á því að byggja mjög fagurt hús, sem sneri framhlið að Tjörninni, á því svæði, þar sem nú er Góðtemplarahúsið og bílastæðið, og það hús mundi þá ná að þeim alþingisgarði, sem nú er ein mesta prýði Reykjavíkur og þessa húss. Það má í framtíðinni byggja þriðju álmu, þar sem Listamannaskálinn er nú, þannig að í kringum garðinn hérna yrðu þá komnar þrjár byggingar, sem tengdar væru saman á ýmsan listrænan hátt, þannig að Alþingi væri hér eins og hallarbygging í gömlum stíl. Það er vafalaust ekki ofvaxið nútíma arkitektum að finna út aðferðirnar til þess að hafa þetta í samræmi, þótt mismunandi stíltegundir séu, og til þess að gera þetta sem fegurst. Ég veit einmitt, að slík hugmynd kom fram í samkeppni um uppdrátt af Reykjavík. og sá uppdráttur, sem þá fékk 1. verðlaun, var einmitt slík hugmynd, eins og ég nú hef að litlu lýst, sem Gunnlaugur Halldórsson var höfundur að. Ég held, að við eigum að festa okkur við það að reyna að hafa alþingishús framtíðarinnar þannig tengt þessu gamla húsi og láta miðstöð og aðsetur Alþingis verða hér umhverfis þennan garð, sem hér er, sem þá vafalaust munds líka verða opnaður frá hliðinni, sem nú snýr út að Templarasundi, og verða byggingu, sem að öllu leyti gæti tengt saman það gamla og nýja, endurminningarnar um það, sem gerzt hefur í þessu húsi, og möguleikana fyrir þá starfsemi, sem mundi koma til með að verða í þeim nýju húsum. Skammt hér frá mundi síðan verða sá menntaskóli, sem síðar meir ætti að mínu áliti að tengjast við starfsemi Alþingis og starfsemi forseta ríkisins.

Ég held, að það sé mjög þýðingarmikið fyrir okkur, að við gerum okkur þetta ljóst. Vissulega gætir oft mikillar rómantíkur í sambandi við ýmislegt, sem við ræðum um okkar þjóðarsögu. Og vel má vera, að einhvern tíma í framtiðinni verði það. sem rómantískast og fegurst hefur verið í sambandi við okkar hugmyndir um Alþingi, sem sé það, að Alþingi yrði aftur á Þingvöllum, að veruleika, þegar allar fjarlægðir og samgöngur og allt saman slíkt kemur til með að hafa miklu minni þýðingu en það hefur fyrir okkur nú. En það verður vafalaust ekki okkar kynslóðar að leysa það vandamál. Hins vegar álit ég, að við ættum, þegar við nú vonandi fyrir alvöru leggjum í það að reyna að leysa þetta vandamál, að taka tillit til þessa sögulega samhengis.

Mér hefur oft fundizt í sambandi við ýmislegt af því, sem við erum að gera núna, að það gæti nokkuð mikils nýjabrums hjá okkur. Við erum oft svo þreyttir á mörgu því gamla og fátæklega. sem við áttum áður, að við erum næsta fljótir að kasta því burt og rífa það niður. Að vísu voru kotin okkar slæm og gott, að fólk gat losnað við að búa í þeim, en það verður hins vegar jafnleitt fyrir okkur að eiga ekki einu sinni eitt einasta almennilegt kot til þess að sýna afkomendum okkar, — eða til þess að afkomendur okkar geti séð það í framtíðinni, við hvers konar skilyrði íslenzka þjóðin vann og hve mikil hún var, þó að hún ynni við slík efnahagsleg vandræðaskilyrði eins og hún þá bjó við. Og ég held, að við þurfum að gæta okkar núna með Reykjavík, þegar hún er að þenjast út og verða eins stór og voldug og hún er að verða í okkar þjóðlífi, að við kippum henni ekki líka út úr öllu samhengi við okkar þjóðlíf í heild.

Ég hef sagt það áður hér, fyrir alilöngu, þegar þetta alþingishússmál var rætt, einmitt í sambandi við tillögur, sem þá voru uppi um menntaskóla, að ég álít, að við ættum ekki að leyfa að byggja á hringnum hér í kringum alþingishúsið, á milli Tjarnargötu. Kirkjustrætis og Lækjargötu, ný hús. Ég álít, að við eigum ekki að láta byggja skýjakljúfa hér rétt hjá, sem gera alþingishúsið eins og að litlum kofa. Austurvöllur átti raunar alltaf að ná að Landsbankanum og aldrei að vera byggð þau hús, sem nú eru á milli alþingishússins og Landsbankans. En ég álít, að við eigum að sjá til þess, að hér hringinn í kringum alþingishúsið, eins og ég vildi vonast til þess að það yrði í framtíðinni. yrðu grænir blettir, þegar þau hús hverfa, sem nú standa þar, eða að einhverju leyti kannske bílastæði, því að eitthvert tillit verður vafalaust að taka til véltækni nútímans. Ég vildi þess vegna eindregið beina því til þeirrar nefndar og þeirra hæstv. forseta, sem fá þetta mál nú til athugunar, að taka með í reikninginn þetta tillit til sögulegs samhengis. Alþingi á forgangsrétt að þessu húsi og þessum lóðum, sem hér eru í kring, og Alþingi á rétt til þess, að þetta svæði sé fyrst og fremst tileinkað því. Og ég álít meira að segja, að miðbærinn hér í kring í Reykjavík eigi fyrst og fremst að markast af Alþingi og þess starfsemi, en þó að það séu góðar verzlunarlóðir og annað slíkt hér, þá eigi hann ekki að markast af tilliti til lóðaverðs, kaupprangs eða annars slíks.

Þegar við Íslendingar viljum sýna útlendingum okkar land og ekki sízt okkar borg, vitum við, að það, sem Ísland jafnvel er kunnast fyrir úti um víða veröld, er þess þing og þess saga. Og ég álít, að við eigum að geta sýnt, að við viljum viðhalda, að eins miklu leyti og okkur er fært þeim tengslum, sem eru við okkar sögu í þessu efni, og að við erum reiðubúnir til þess að gera það mikið fyrir þau tengsl, að við sýnum þeim þá virðingu líka að hafa umhverfið í kringum Alþingi ekki aðeins tengt við þann gamla sögulega stað, heldur líka þannig, að það sé ekki yfirgnæft af einhverjum nýtízku kauphöllum eða slíku, Alþingi eigi að drottna hér í miðbænum, vera miðdepillinn hér í Reykjavík, og ég held, að við höfum enn þá að öllu leyti tæknilega möguleika til þess, að svo verði gert. Ég veit, að það munu vera allrík áhrif, sem þarna kemur til með að gæta á móti, vegna þess að tilhneigingar eru til þess að vilja byggja ráðhús í Reykjavík við Tjörnina hér, hinum megin við. Það þýðir að eyðileggja gersamlega alla möguleika fyrir þeirri hugmynd, sem ég nú hef útlistað. Og ég álít, að fyrir utan það, að Reykvíkingar margir hverjir munu hafa á móti því að gera það rask við Tjörnina, sem ráðhúsbygging þar mundi þýða, að frá Alþingis sjónarmiði komi það ekki til neinna mála, að Allþingi sé látið víkja fyrir neinu slíku.

Ég vil þess vegna leggja áherzlu á í sambandi við þetta mál, að hér er um mál að ræða, þar sem ekki þarf aðeins það praktíska í þessum efnum að komast að, hvernig Alþingi sé búinn starfsgrundvöllur. Það er vafalaust hægt að byggja hús einhvers staðar og einhvers staðar inni í móum og holtum eða hér og hvar. En ef menn vilja byggja hús, sem er tengt við þá sögulegu reisn, sem yfir Alþingi er, tengt við samhengið í okkar sögu, þá eigum við ekki að yfirgefa þennan stað, sem við nú stöndum á. Það vildi ég biðja þá nefnd og þá hæstv. forseta, sem fá þetta mál til athugunar nú, að hugsa mjög vel um.