28.03.1961
Sameinað þing: 58. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 574 í D-deild Alþingistíðinda. (2652)

188. mál, alþingishús

Frsm. (Jón Kjartansson forstjóri):

Herra forseti. Ég vil aðeins í framhaldi af því, sem ég sagði áðan, upplýsa það, að í allshn. var ekki sérstaklega rætt um stefnuna í þessum málum. Það bar að sjálfsögðu margt á góma af því, sem hv. síðasti ræðumaður minntist á, bæði stækkun á alþingishúsinu og nýbygging, og undir umræðunum kom fram það sjónarmið og var jafnvel rætt um það að bæta við till. efnislega því, að athugun færi fram á því, hvort ekki væri rétt að byggja nýtt alþingishús á Þingvöllum. Nm. allir töldu þó, að eins og brtt. væri orðuð, þá mundi undir forsæti forseta Alþingis það sjónarmið verða tekið til athugunar.