28.03.1961
Sameinað þing: 58. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 576 í D-deild Alþingistíðinda. (2657)

221. mál, úthlutun listamannalauna 1961

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða að taka það fram, að eftir mínum skilningi er till. hv. formanns menntmn. ekki í samræmi við það, sem um var rætt í nefndinni. í n. var gengið út frá því, að lagt yrði til, að fyrirkomulag á úthlutun listamannalauna yrði óbreytt á þessu ári eins og í fyrra, eða eins og það var orðað: „óbreytt ástand skyldi ríkja í þessu máli. þar til frv. um úthlutun listamannalauna hefði verið samþykkt.“ Aðeins var talið álitamál. hver ætti að flytja þá till., ráðherra, nefndin eða form. hennar. Fyrsta útgáfa hv. formanns á Þáltill. sinni bendir ekki til þess, að honum sé vel ljóst, um hvað var rætt. Það er því ekki nema að nokkru leyti rétt, sem segir í grg. með þáltill., að hún sé flutt samkv. ósk menntmn. Þess vegna er brtt. hv. 4. þm. Sunnl. komin fram, og hana hlýt ég að styðja í samræmi við það, sem um var rætt í nefndinni. Það er aftur á móti annað mál, hvort nokkur ágreiningur kemur til með að verða um þetta atriði í frv., þegar það kemur aftur fyrir nefndina í haust að líkindum. Um það er ekki hægt að segja að þessu sinni. En ég tel rétt að leiðrétta þá staðhæfingu, sem hv. form. n. ber fram, að till. hans sé í samræmi við það, sem n. ræddi um í sambandi við tilhögun á úthlutun listamannalauna á þessu ári. Til þess að forðast misskilning um almenna afstöðu Alþb. til þess, hvernig haga beri úthlutun listamannalauna, vil ég taka það fram, að Alþb. hefur verið og er, hvað sem úthlutun á þessu ári líður, andvígt þeirri tilhögun sem framtíðarleið, að fjögurra manna nefnd, kosin til eins árs, fari með úthlutun listamannalauna, þótt ekki séu gerðar aðrar till. að þessu sinni. á því stigi, sem þessi mál eru nú.