28.03.1961
Sameinað þing: 58. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 578 í D-deild Alþingistíðinda. (2659)

221. mál, úthlutun listamannalauna 1961

Flm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Svo ólíklegt sem það kann nú að virðast, þarf ég að bera af mér nokkrar sakir í svona máli og skal reyna að gera það í stuttu máli.

Í fyrsta lagi þykir mér nú óþarfi að fara að flytja hér ýtarlegt mál um leirskáld og skáld og annað slíkt. Ég vil aðeins segja það, að ég taldi óhæft annað en taka nákvæmlega upp orðalag fjárlaga, þegar um það er að ræða, hvernig skipta eigi viðkomandi fjárveitingu. Ef það hefði verið orðað á einhvern annan hátt, gat skapazt vafi um það, hvaða fjárveitingu væri við átt eða hvort það stæðist. Þar að auki vísa ég öllum bollaleggingum um það, hvort þetta orðalag er rökleysa, vitleysa eða annað slíkt, heim til föðurhúsanna, til fjvn. og m.a. til hv. ræðumanns, sem mun árum saman hafa setið í þeirri nefnd og látið þetta orðalag fara fram hjá sér, án þess að það breyttist við hans veru þar, og er hann þó í hópi þeirra manna, sem eru smekkmenn á mál og þess meðferð.

Hv. 7. landsk. (GeirG) kom hér upp til þess að leiðrétta þá staðhæfingu mína, að till. væri í samræmi við óskir menntmn. Hann hefur sýnilega ekki hlustað á það, sem ég sagði, Því að ég eyddi mestum hluta af minni ræðu í að útskýra, að ég teldi það ósk menntmn., að eitthvað yrði gert í þessu máli, til þess að þingi lyki ekki án þess, en ég tók það beinlínis fram, að efnislega væri n. óbundin þessu. Það urðu mjög lauslegar umr. um þetta, en niðurstaða engin efnislega, og því til sönnunar skal ég lesa hér nokkrar setningar, með leyfi hæstv. forseta, úr fundargerð menntmn. Nd. Á 9. fundi. sem haldinn var 23. marz 1961, er þetta bókað:

„Fyrir var tekið frv. til l. um listamannalaun, 43. mál Nd. Frv. var rætt nokkuð og samþ. að senda það til umsagnar menntamálaráði og Bandalagi ísl. ilstamanna. Þá var og samþ. að fela form. athugun á tilhögun úthlutunar listamannalauna á ári þessu.“ Þetta er það, sem bókað er, og ég lít þannig á, að mér hafi verið falið að koma þessu máli af stað, m.ö.o. tryggja það, að þingi lyki ekki án þess, að þingið fengi tækifæri til að setja einhver ákvæði um úthlutun launanna, en ekkert hafi verið ákveðið efnislega. En þessar umr. virðast leiða í ljós, að það hefði verið tilgangslaust, vegna þess að nefndin hefði sýnilega klofnað, og er þá mitt hlutverk það fyrst og fremst að sjá um, að eitthvað komi fram, svo að meiri hl. geti úrskurðað um brtt. og hvernig hann vill hafa þetta mál. Ég vil því bera það af mér, að ég hafi nokkuð misnotað þá heimild, sem ég tel mig hafa haft, eða það umboð frá nefndinni. Ég tel ekki ástæðu til að vera að þrátta um fjóra eða fimm nm. Hv. síðasti ræðumaður sagði, að þessum launum hefði verið úthlutað á ýmsan hátt áður fyrr og til þessa dags, og um þær skipanir, sem þá höfðu verið. sagði hann, að þær hefðu allar gefizt illa. M.ö.o.: hann viðurkennir í ræðu sinni, að sú skipan, sem hann vill hafa á þessum málum, hafi gefizt illa.

Ég held, að fyrir þetta eina ár sé bezt að hafa 5 manna nefnd, eins og gert hefur verið á þessu þingi í mörgum mismunandi atvikum, bæði samkv. till. stjórnarflokkanna tveggja og samkv. till. annars stjórnarandstöðuflokksins í einstökum málum. Ég vil því vænta þess, að hv. fjvn. afgreiði till. efnislega eins og hún er.