25.01.1961
Sameinað þing: 34. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 582 í D-deild Alþingistíðinda. (2669)

149. mál, jafnvægi í byggð landsins

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Með þáltill. þeirri, sem hér liggur fyrir, er lagt til, að Alþ. skori á ríkisstj. að undirbúa og leggja fyrir næsta þing frv. til laga um ráðstafanir til framleiðsluaukningar og jafnvægi í byggð landsins, m.a. með ákvæðum um fjárframlög í því skyni og úthlutun þess fjár. Skal tilgangur þessarar löggjafar fyrst og fremst vera sá að stuðla að hagnýtingu góðra framleiðsluskilyrða í öllum landshlutum.

Á árunum 1951–1961, þ.e.a.s. síðasti. 10 ár, hafa eftirfarandi fjárhæðir verið veittar úr ríkissjóði til atvinnu- og framleiðsluaukningar í landinu:

Árið 1951 ......................... 2 millj. kr. -

1952 ......................... 4.5 - -

1953 ......................... 3.9 - -

1954 ......................... 3.8 - -

1955 ......................... 6.9 - -

1956 ......................... 7.9 - -

1957 ......................... 15.2 - -

1958 ......................... 13.5 - -

1959 ......................... 14.2 - -

1960 ......................... 14.5 - -

Á fjárlögum yfirstandandi árs eru veittar 10 milljónir króna í þessu skyni. Samtals nema þessar fjárveitingar, sem veittar hafa verið til atvinnuaukningar og, framleiðslubóta í landinu á s.l. áratug, rúmlega 101 millj. kr. Hér er því um allmikið fjármagn að ræða. Leyfi ég mér að fullyrða, að það hafi víða komið að góðum notum og orðið atvinnulífi einstakra byggðarlaga til mikils stuðnings og átt þátt í því að auka framleiðslu þjóðarinnar í heild.

En engar fastar reglur hafa verið um úthlutun þessa fjár. Því hefur ýmist verið skipt af ríkisstjórnum á hverjum tíma eða af þingkjörnum úthlutunarnefndum. Enda þótt þessir aðilar hafi vafalaust reynt að framkvæma skiptingu fjárins af réttsýni og þannig, að það kæmi atvinnulífi þjóðarinnar að sem mestu gagni, er þó auðsætt, að slíkt fyrirkomulag á úthlutun atvinnuaukningarfjár hlýtur að vera nokkuð handahófskennt. Það er skoðun okkar flm. þessarar þáltill., að nauðsyn beri til þess að koma þessum málum á traustari grundvöll. setja löggjöf, sem bæði kveði á um fjáröflun og fjárframlög í fyrrgreindu skyni og jafnframt setji reglur um úthlutun þess fjár, sem á hverjum tíma er fyrir hendi til atvinnu- og framleiðsluaukningar í landinu. Tilgangur slíkrar löggjafar skal, eins og bent er á í grg. till., fyrst og fremst vera sá að stuðla að hagnýtingu góðra framleiðsluskilyrða um land allt, auknu atvinnuöryggi og vaxandi framleiðslu. Enn fremur þarf að tryggja, að það fjármagn, sem lánað hefur verið á undanförnum árum til atvinnu- og framleiðslubóta, verði framvegis notað í sama skyni, eftir því sem einstök lán endurgreiðast. Verður að vænta þess, að allstór hluti þeirra rúmlegs 100 millj. kr., sem veittar hafa verið í þessu skyni, muni endurgreiðast með batnandi afkomu bjargræðisvega þjóðarinnar. Allmikið fjármagn ætti því að vera fyrir hendi til þess að stuðla að atvinnulífsuppbyggingu á einstökum stöðum á næstu árum, þar sem um þörf fyrir slíkan stuðning er að ræða.

Það er skoðun okkar flm., að það sé mjög áríðandi einmitt nú, að lögð verði áherzla á að auka framleiðsluna og hagnýta starfskrafta landsmanna eins vel og frekast er kostur. Hagnýta verður góð framleiðsluskilyrði, hvar sem þau eru á landinu. Það væri að okkar áliti hin mesta ógæfa, ef stórfelldir fólksflutningar hæfust nú frá stöðum, þar sem framleiðsluskilyrði eru góð, hingað til höfuðborgarinnar, sem hefur ekki skilyrði til þess að taka við nema eðlilegri fjölgun sinna eigin íbúa. Það er hins vegar skoðun margra, að æskilegt sé, að athafnamiðstöðvar og þéttbýli skapist í sem flestum landshlutum. Er líklegt, að það mundi stuðla að bættri aðstöðu strjálbýlisins á ýmsa lund. Landbúnaðurinn fengi t.d. betri og öruggari markaði, og væri það ekki sízt mikilvægt fyrir mjólkurframleiðendur. — Einnig veita bæir og þéttbýli ýmiss konar þjónustu, sem mikilvæg er fyrir þá, sem landbúnað stunda.

Á undanförnum áratugum hafa stórfelldir fólksflutningar átt sér stað úr strjálbýli í þéttbýil hér á landi. Þessi þróun hefur þ6 ekki aðeins gerzt á Íslandi. Í flestum löndum heims hefur hún gengið í sömu átt. Það, sem gerir ástandið sérstakt hér, er það, að segja má, að aðeins ein borg hafi myndazt í landinu. En af því leiðir margvísleg vandamál, sem munu fara vaxandi, ef sama þróun heldur áfram. Það er þess vegna nauðsynlegt að stuðla að því, að þéttbýli myndist sem víðast um landið. Með kerfisbundnum og markvissum ráðstöfunum til atvinnu- og framleiðsluaukningar er óhætt að fullyrða, að mögulegt sé að stuðla að slíkri þéttbýlismyndun og þar með að raunverulegu jafnvægi í byggð landsins.

Að öllu þessu athuguðu vænti ég þess, að þessi tillaga fái góðar undirtektir, hljóti samþykkt hv. Alþ. nú og að hæstv. ríkisstj. muni leggja fyrir næsta þing frv. til laga um það efni, sem till. gerir ráð fyrir.

Ég leyfi mér, herra forseti, að óska þess, að umr. um till. verði frestað og henni vísað til hv. allshn.