25.01.1961
Sameinað þing: 34. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 584 í D-deild Alþingistíðinda. (2670)

149. mál, jafnvægi í byggð landsins

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Efnislega er þessi till., sem hér er til umr., um það að skora á hæstv. ríkisstj. að undirbúa löggjöf um framleiðsluaukningu og jafnvægi í byggð landsins. Það, sem hlýtur að vekja athygli manns við umr, þessa, er það, að mér sýnist till. ekki í nægilegu samræmi við þá stefnu, sem ríkjandi er í efnahags- og atvinnumálum nú og hv. flm. hennar fylgja. Það þarf ekki að nefna mörg dæmi í þessu efni. Ég held, að það sé nóg að minna á þær umr., sem nú fara fram um skuldaskil sjávarútvegsins, hvernig ástandið er þar. Það má minna á skýrslu búnaðarmálastjóra um samdrátt í framkvæmdum í landbúnaði. Það má minna á ástandið í byggingariðnaðinum og margt fleira. Og hæstv. ríkisstj. hefur ekkert farið dult með það, að þessi stefna, sem hún fylgir og hún sjálf kallar viðreisn, er sannarlega ekki til þess að auka atvinnu eða framleiðslu í landinu. Hvort hún á einhvern tíma að verða til þess, það er óljóst, en það eru engar horfur á því, að það verði á næstunni, ef svo heldur fram sem nú horfir. Þvert á móti er stefnan byggð á því að draga saman, minnka framkvæmdir, minnka fjárfestinguna o.s.frv., og allt Þetta leiðir auðvitað til minnkandi framkvæmda, en ekki framleiðsluaukningar. Ég á því dálítið erfitt með að átta mig á því, hvernig hægt er að framkvæma þessa ályktun, sem hér er borin fram, en fylgja þó hinni svokölluðu viðreisnarstefnu. Mér sýnist þetta ósamrýmanlegt með öllu. Mér sýnist þvert á móti, að ef á að taka þessa tillögu í alvöru, þá verði að þýða hana á nútímamál, það mál, sem allir skilja, sem fylgzt hafa með áhrifum viðreisnarstefnunnar á atvinnulífið og framkvæmdirnar í landinu, það mál, að ef á að auka framleiðslu og atvinnu og jafnvægi í byggð landsins, þá verði að hætta við þessa stefnu. Ef á að skapa jarðveg, fyrir framleiðsluaukningu, þá er ekki hægt að halda þessari stefnu áfram. Mér er því nokkur forvitni á að vita, hvernig hv. flutningsmenn hugsa sér þetta tvennt, að gera átak til framleiðsluaukningar og jafnvægis í byggð landsins annars vegar og halda áfram um ófyrirsjáanlega tíð þessari viðreisnarstefnu.

Á síðasta þingi fluttu framsóknarmenn í Ed. Alþingis frv. um framleiðslu- og atvinnuaukningarsjóð. Því frv. var vísað til n., en stjórnarflokkarnir í n. svæfðu frv. þar, og það kom aldrei framar til umr. Á þessu þingi hafa framsóknarmenn í Ed. aftur flutt sams konar frv. um framleiðslu- og atvinnuaukningarsjóð. Því var vísað til n., og fyrir atbeina stjórnarflokkanna í þeirri n. hefur það frv. líka verið svæft fram á þennan dag. Hvort tveggja þetta er í fullu samræmi við viðreisnarstefnuna, það skal ég játa, en það er í æpandi ósamræmi við þessa tillögu.

Ég skal nefna þriðja dæmið. Við afgreiðslu fjárl. var í frv. hæstv. ríkisstj. lagt til, að einar 10 millj. skyldu fara til atvinnuaukningar í landinu. Þessi upphæð var fyrir nokkrum árum, á tímum vinstri stjórnarinnar, hæst 15 millj. kr. Til þess að nú væri sambærileg upphæð veitt í þessu skyni, þyrfti hún a.m.k. að vera 20–22 millj., miðað við verðgildi peninganna, en stjórnarflokkunum fannst nóg að hafa það helmingi minna eða þessar 10 millj. Þar á meðal voru flm. þessarar till., sem greiddu allir með tölu atkvæði gegn því, að það yrði nema 10 millj., eins og það líka varð.

Allt þetta er í samræmi við viðreisnarstefnuna. Það er rétt. En það er í ósamræmi við þessa till. og þá hugsun, sem hún er byggð á.

Nú biðja hv. flm. þessarar till. hæstv. ríkisstj. að undirbúa frv. um þetta mál. En það vill svo til, að sjálfstæðismenn hafa fyrir rúmum þremur árum flutt sjálfir frv. um þetta efni og þar á meðal sumir af flm. þessarar till. Ef þeim er alvara að hraða þessu máli og undirbúa það svo, að það geti borið einhvern árangur, af hverju flytja þeir ekki sitt frv. aftur í staðinn fyrir að flytja svona till.?

Ég vil mælast til þess, að hv. frsm. þessarar till. skýri það nokkru nánar, hvernig á að samræma þetta, annars vegar viðreisnarstefnuna, sem auðsjáanlega verður ríkjandi, ef þeir ráða, núv. stjórnarflokkar, hins vegar þá hugmynd að gera átak til framleiðsluaukningar og jafnvægis í byggð landsins, sem sannarlega er þörf á.