25.01.1961
Sameinað þing: 34. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 585 í D-deild Alþingistíðinda. (2671)

149. mál, jafnvægi í byggð landsins

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að gera efnahagsmál okkar þjóðar almennt að umræðuefni í sambandi við flutning, þessarar till. En hv. 4. þm. Vestf. hefur beint til okkar flm. till. fyrirspurn um það, hvernig við viljum samræma hana efnahagsmálastefnu núv. ríkisstj. Um það get ég verið mjög fáorður. Ég veit, að allir fylgismenn hæstv. núv. ríkisstj. og hún sjálf gera sér það ljóst, að því aðeins er hægt að framkvæma atvinnulífsuppbyggingu úti um land, eins og gert er ráð fyrir í þessari till., að yfirleitt sé mögulegt að reka framleiðslutæki þjóðarinnar á heilbrigðum grundvelli, og það er að því markmiði. sem sú viðreisnarstefna miðar, sem núv. ríkisstj. fylgir. Þessi till. okkar væri ekki framkvæmanleg án þeirrar viðreisnarstefnu. sem ríkisstj. hefur markað. Það er þýðingarlaust að ætla sér að byggja upp atvinnulíf úti á landi eða yfirleitt nokkurs staðar á Íslandi, bæta aðstöðu fólksins til þess að njóta öryggis um afkomu sína, án þess að höfuðbjargræðisvegir þjóðarinnar séu reknir á heilbrigðum grundvelli, hallalaust. Það er vegna þessarar einföldu staðreyndar, sem ég þarf ekki að hafa öllu fleiri orð til andsvara hv. 4. þm. Vestf.

Ég vil þó aðeins bæta því við í sambandi við þau ummæli hans, að Framsfl. hefði flutt till. um það, að varið yrði hærri upphæð til atvinnuaukningar og framleiðslubóta en samþykkt hafi verið á síðasta þingi. að á árinu 1960 var varið samtals 14.5 millj. kr. í þessu skyni, eða svo til sömu upphæð og hv. framsóknarmenn lögðu til að varið, yrði í þessu skyni. Ég vil einnig benda á það, að til viðbótar þessum 14.5 millj. kr., sem varið var á s.l. ári til atvinnuaukningar og framleiðslubóta, var tekin upp í fjárlög 4 millj. kr. viðbótarfjárveiting til vegagerða í landinu, sem sömu nefnd var falið að úthluta og úthlutaði atvinnuaukningarfénu. Tilgangurinn með þessari viðbótarfjárveitingu til vegagerða var sá að nota það fé sérstaklega til þess að vinna fyrir í þeim vegum, sem mikla þýðingu hafa fyrir atvinnu og framleiðslustörf úti um landið. Hygg ég, að það hafi verið gert og haft um það samráð við flesta hv. þm., ekki aðeins úr hópi stjórnarsinna, heldur einnig úr hópi stjórnarandstæðinga.

Loks vil ég minna á það, að þegar Sjálfstfl. og Framsfl. voru í samstjórn fyrir nokkrum árum, hafði náðst samkomulag um það, að frv. svipað því og lá fyrir Alþ. 1958, flutt af okkur sjálfstæðismönnum, um stofnun jafnvægissjóðs yrði lögfest. Ég veit ekki betur en það hafi náðst nokkurn veginn samkomulag um það innan ríkisstj. sjálfstæðismanna og framsóknarmanna. En niðurstaðan var sú, er til kom, að framsóknarmenn brugðust þessu samkomulagi, og málið strandaði og hefur ekki enn náð fram að ganga.

Nú skal ég ekki draga góðan hug hv. 4. þm. Vestf. í þessu máli í efa. því fer fjarri. Ég vil ekki ætla honum neinar illar hvatir í þessu sambandi. En ég segi bara: Spor framsóknarmanna í þessu máli hræða. Þegar þeir voru sjálfir í ríkisstj. með okkur, brugðust þeir samstarfsflokki sínum um þetta mál og stöðvuðu framgang þess. Þegar þeir áttu sæti í vinstri stjórninni, — hvað gerðu þeir þá? Settu þeir ekki þá löggjöf um þetta? Það hlýtur að vera, ef það er Sjálfstfl., sem hefur stöðvað það á sínum tíma. Framsóknarmenn hljóta að hafa notað tækifærið til þess að lögfesta þetta áhugamál sitt, þegar þeir voru í ríkisstj. með öðrum flokkum og, við sjálfstæðismenn vorum utan ríkisstj.

Nei, sannleikurinn var sá, að hv. framsóknarmenn fengu ekki neitt slíkt frv. lögfest.

Ég vil að lokum aðeins láta þá von í ljós, að núv. hæstv. ríkisstj. beri gæfu til þess að koma nýju og bættu skipulagi á þessi mál. Það er auðsætt, og við þurfum ekki að deila um það, að allir flokkar á þingi hafa verið sammála um það að veita allmikið fé til atvinnu- og framleiðslubóta úti um land. Það er óþarfi að vera að vekja upp ágreining, þar sem hann er ekki fyrir hendi. Hafa allir flokkar staðið að því í ríkisstjórn og utan ríkisstjórna að veita fé í þessu skyni. Ég vænti þess vegna, að hv. framsóknarmenn muni nú geta átt samstarf við núv. stjórnarflokka um það að koma þessu máli á traustan grundvöll. Það er nauðsynlegt að fá löggjöf um þetta, hvernig fjár skuli aflað til þessara nauðsynlegu framkvæmda og hvernig því skuli úthlutað, hvernig það fé skuli hagnýtt, sem þegar hefur verið veitt í þessu skyni. Hingað til hefur ekkert verið endurgreitt af þessum 101 millj. kr., að því er ég veit bezt, og ég tel ástæðulaust — og við erum vafalaust sammála um það hér hv. þm. — að gera ekki tilraun til þess einu sinni að endurkrefja eitthvað af þessu fé. Það hefur aðeins örlítill hluti af því verið veittur sem óafturkræfur styrkur. Meginhlutinn hefur verið veittur sem lán, og sem betur fer eru mörg þeirra atvinnufyrirtækja, sem hlotið hafa þann stuðning, sem í þessum lánum felst, fær um það að endurgreiða hann, og ég álít, að hv. 4. þm. Vestf. ynni miklu betra verk og mannlegra með því að taka í höndina á okkur, sem sýnum áhuga í þessu máli nú og höfum sýnt hann áður, heldur en vera enn að reyna að magna upp drauga og deilur, sem ástæðulausar eru. Við höfum fengið nóg af slíkum pólitískum draugagangi í þjóðfélagi okkar.