13.12.1960
Efri deild: 35. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 364 í B-deild Alþingistíðinda. (270)

130. mál, söluskattur

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir, virðist benda til þess, að hæstv. ríkisstj. hugsi sér þann tekjustofn, sem það fer fram á, sem eilífðartekjulind fyrir ríkissjóð og það þrátt fyrir gefin fyrirheit á s.l. vetri um, að þessi tekjustofn væri einungis til bráðabirgða, á meðan hæstv. ríkisstj. væri að finna aðrar heppilegri og betri leiðir að eigin áliti til þess að sjá sínu skipi borgið framvegis og þar með að reyna að koma atvinnulífinu í landinu á bjargfastan grunn, eins og hæstv. ríkisstj. orðaði það.

Tíminn líður ótt, og senn nálgast jólin, og þetta frv. er ein af jólagjöfum hæstv. ríkisstj. til almennings í landinu. Hv. 11. þm. Reykv. minntist nokkuð á jólagjafir vinstri stjórnarinnar, sem kölluð er. En hv. þm. fór að sama skapi mjög fáum orðum um þessa jólagjöf, sem hann var þó raunverulega að tala fyrir, og það hygg ég að hann hafi gert vegna þess, að maðurinn er að eðlisfari sanngjarn og prúður og hann hefur ekki viljað lýsa þessari jólagjöf eins og hún raunverúlega er. En þessi jólagjöf færir ekki hverri fimm manna fjölskyldu í landinu 5–6 þús. kr., heldur tekur hún af hverri fimm manna fjölskyldu í landinu 5–6 þús. kr. árlega. Hún er á þann veg, þessi jólagjöf.

Það er vert að minnast þess, að sjálfstæðismenn hafa allt frá því 1956 talið þjóðinni trú um það, að Sjálfstfl. einn allra stjórnmálaflokka í landinu gæti bætt hag fólksins, og mun ég gera gleggri grein fyrir því nokkuð hér á eftir. Hafi flokkurinn sagt þetta satt, bar honum að framkvæma það á þann hátt, að það kæmi í ljós, en hafi hann vísvitandi sagt fólkinu ósatt og fengið stjórnarforustuna á þann veg, þá er það sannarlega vítavert af stærsta stjórnmálaflokki landsins að haga sér á þann veg:

Hér stigu í stólinn í gær tveir hv. þm. Alþfl., og voru þeir að gera tilraun til að verja sitt mál með því að ræða ekki efni þessa frv. sérstaklega, heldur um aðferðir til skattheimtu. Þetta er eitt mál og skattheimtan annað. Loforðin og efndirnar eru líka mál út af fyrir sig. Þessir þingmenn ásamt fleiri lýstu yfir fyrir síðustu kosningar, að Alþfl. mundi vinna að óbreyttu verðlagi og óbreyttu ástandi í efnahagsmálum þjóðarinnar. Alþfl. væri nú búinn að lækna dýrtíðina og hann einn flokka mundi vinna að því, að sú stefna héldist áfram í þjóðmálum okkar Íslendinga. Þetta er undirstrikað mjög ýtarlega oft og einatt í Alþýðublaðinu og ekki sízt þann 25. okt. 1959, þann daginn, sem kjósendur skyldu ganga að kjörborðinu. „Óbreytt verðlag, óbreytt ástand,“ var kjörorð þessa hv. Alþfl. fyrir síðustu kosningar, og þetta er undirstrikað á þeim heiðursdegi, sem þjóðin á að velja og hafna um stefnur og menn til að fara með sín þjóðmál í framtíðinni. Og samhliða þessu er birt stór mynd af hv. 10. þm. Reykv., Eggert Þorsteinssyni, til að undirstrika það, að þessi hv. þm. muni ekki síður en aðrir vinna að óbreyttu verðlagi og óbreyttu ástandi í landsmálum.

En hver er nú reynslan, þegar hún er borin saman við loforðin? Hafa efndirnar orðið á sama veg og loforðin? Þessir hv. þm., sem þessu lofuðu, áður en þeir stigu inn fyrir þingdyrnar, hafa nú hvorki meira né mínna en lagt á þjóðina um 1200 millj, kr. í nýjum sköttum og álögum þrátt fyrir loforðin um óbreytt verðlag og óbreytt ástand í efnahagsmálum. Og þó er ekki ýkjalangur tími liðinn, síðan þeir fengu völdin að nýju. Og það er nokkuð hart að þurfa að hlusta á þessa menn lýsa yfir einu og framkvæma allt annað, þegar þeir sjálfir hljóta að sjá sínar vanefndir á flestum, ef ekki öllum sviðum, þar sem þeir hafa komið nokkuð við sögu.

Alþfl. taldi raunar þjóðinni trú um það, að hann væri búinn að stöðva dýrtíðina, og einnig töldu Alþfl.-menn fólkinu trú um það, að þeir einir byggju yfir því töframeðali, sem haldið gæti öllu verðlagi í skefjum í landinu, þeir gætu treyst verðgildi krónunnar og kaupmátt launa, eins og þeir orðuðu það. Það hefur enginn einn stjórnmálaflokkur blekkt þjóðina jafnmikið og Alþfl.-menn gerðu fyrir síðustu kosningar, og ég hygg, að þeir muni vita þetta og sjá, þótt þeir hafi ekki þann manndóm til að bera, að þeir vilji viðurkenna það á opinberum vettvangi. Fólk finnur þetta ákaflega vel, ekki sízt nú, er það undirbýr aðalhátíð ársins, jólahátíðina. Það er trúlegt, að þau endist skammt í buddunni, loforðin um óbreytt verðlag og óbreytt ástand í efnahagsmálum. Þau duga skammt. Buddan segir til sín, og henni ber ekki saman við það, sem Alþfl.-menn lofuðu fyrir síðustu kosningar. Það er nokkuð víst.

Það frv., sem er verið að fjalla um hér, um framlengingu á söluskatti, er þess eðlis, að það er ekki hægt að taka því þegjandi. Áhrif söluskattsins á lífsafkomu manna eru á þann veg, að þeim mun fjölmennari og þeim mun stærri og þeim mun barnfleiri sem ein fjölskylda er, þeim mun þyngri byrðar þarf hún að bera vegna þessa skatts. Og þótt á hinn bóginn því sé haldið fram, að fjölskyldubæturnar eigi þarna um að bæta, þá hrökkva þær skammt til þess að bæta úr hjá þeim, sem hafa mjög barnmargar fjölskyldur, því að þess er vert að minnast, að þessir menn höfðu einnig fjölskyldubætur áður og hækkunin á þeim er ekki það ýkjamikil, að hún taki allan þann þunga, sem þessi skattur ásamt fleiri gjöldum felur í sér fyrir fjölskyldurnar, sem margar eru stórar og þurfa því helzt hjálpar með. Það er í þessu sambandi gott að hugleiða nokkuð af því, og þó verður fátt eitt með tekið af því, sem stjórnmálamennirnir, sem nú fara með völdin í landinu, lofuðu á undanförnum árum, ef þjóðin veitti þeim brautargengi í þjóðmálum, eins og hún gerði í þeim kosningum, sem fram fóru fyrir rúmu ári.

Hæstv. núv. forsrh., Ólafur Thors, talaði í þinginu vorið 1957 og sagði m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Við sjálfstæðismenn munum berjast öfluglega fyrir því, að sem fyrst verði tekin upp hin mikla framfarastefna okkar, sem leitt hefur þjóðina til meiri velsældar, jafnari og betri lífskjara en nokkur dæmi eru til um í sögu Íslendinga.“

Miðar þetta frv. að því að jafna og bæta lífskjör almennings í landinu? Ég segi nei og aftur nei. Þetta frv. undirstrikar svikin, sem nú eru á flestum sviðum í hávegum höfð af hæstv. ríkisstj. og hennar stuðningsliði. Þeir lofuðu miklu, en þeir sýna fátt eitt til þess að efna það, er þeir lofuðu.

Þá sagði annar ræðumaður Sjálfstfl., þáv. hv. þm. N-Ísf., Sigurður Bjarnason, — hann sagði þetta vorið 1957, með leyfi hæstv. forseta:

„Við sjálfstæðismenn munum halda áfram að berjast fyrir frjálslyndri framkvæmdastefnu, sem byggir á framtaki einstaklingsins, viðskipta- og athafnafrelsi, en gegn höftum, hlutdrægni og hvers konar valdníðslu, en gæta þess þó, að réttur hins minni máttar verði ekki fyrir borð borinn.“

Þetta eru fögur loforð. En aumari framkvæmd á gefnum fyrirheitum mun varla þekkjast annars staðar betur en hjá núv. hæstv. ríkisstj. í þessum efnum. Eða hvar eru hinar miklu framkvæmdir hæstv. ríkisstj., hin mikla umbótastefna og athafnafrelsi hjá sjálfstæðismönnum? Eða hver gætir þess nú hjá sjálfstæðismönnum, að réttur hinna minni máttar sé ekki fyrir borð borinn? Hver gætir þess? Enginn. Gefin fögur fyrirheit í þessum efnum fyrirfinnast ekki nema á stefnuskrá, en ekki í framkvæmd hjá hæstv. ríkisstj. Í staðinn fyrir félagslegt öryggi hins mínni máttar, sem áður var, er komin valdníðsla nokkurra manna, svo að ótti og kvíði ríkir nú, þar sem áður ríkti athafnafrelsi og félagslegt öryggi. Það er nú svo komið, að enginn venjulegur borgari hugsar til þess að koma upp eigin húsnæði yfir höfuðið, og athafnafrelsið er að færast yfir á þá braut, að hinir minni máttar verða að hugsa sig vel um, hvað þeir geta lagt sér til munns næsta dag, ef daglaunin eiga að hrökkva fyrir nauðþurftunum. Og ekki bætir þetta frv. um fyrir þessu fólki. Það hefur gleymzt í öllu ölæði hæstv. ríkisstj. að sjá hag hins minni máttar borgið þrátt fyrir öll loforð þar um áður fyrr.

Þá voru ekki ófögur fyrirheit hæstv, núv. dómsmrh., Bjarna Benediktssonar, er hann hét þjóðinni í þingræðu vorið 1957, með leyfi hæstv. forseta:

„Við sjálfstæðismenn erum málsvarar gróandans í þjóðlífinu, lífskraftarins, hugkvæmninnar, framkvæmdarinnar og frelsisins.“

Þetta eru fögur fyrirheit. En hvar er nú þessi gróandi í þjóðlífi okkar Íslendinga? Og hvar er okkar frelsi? Er ekki einmitt nú verið að nota okkar frelsi til að semja af okkur óskoraðan rétt, að því er varðar landhelgi landsins? Er verið að nota gróandann, sem hefur verið í þjóðlífi Íslendinga, og frelsi okkar til þess að semja af okkur skýlausan rétt? Ég spyr. Og hvað verður um okkar athafnafrelsi innan tíðar, þegar aðrar þjóðir eru búnar að eyðileggja okkar fiskimið, sem okkar framfara- og athafnafrelsi hefur byggzt á til þessa? Það er kaldhæðni örlaganna, að þessi hæstv. dómsmrh. skuli verða til þess að skerða lífskraft íslenzku þjóðarinnar, jafnframt því sem framkvæmdir minnka og gróandi þjóðlífsins þverr. Það hefði verið farsælla að lofa minna, en reyna að standa við eitthvað af hinum gefnu fyrirheitum.

Þá sagði núv. hæstv. fjmrh. í þingræðu vorið 1957 um þáv. ríkisstj., með leyfi hæstv. forseta, — hæstv. núv. fjmrh. sagði m.a.:

„Kjósendur landsins eiga að nota fyrsta tækifæri til að gefa ríkisstj. og ráðherrum hennar lausn í náð, svo að þeir geti snúið sér að öðrum verkefnum, sem þeir kunna að vera hæfir til að sinna, en séu ekki lengur að föndra við stjórn landsins, sem reynslan hefur sýnt, að er þeim algerlega um megn.“

Þetta sagði núv. hæstv. fjmrh. um þá stjórn, sem þá ríkti. En hvernig er nú umhorfs hjá núv. hæstv. ríkisstj.? Ég held, að það sé nú sannarlega tími til kominn, að kjósendur kveði upp sinn dóm yfir núv. hæstv. ríkisstj., svo að þessi stjórn geti farið að sinna þeim verkefnum, sem hún hefur áhuga á og getu til að leysa, því að það hefur þegar sýnt sig, að hæstv. núv. ríkisstj. er að föndra við hluti, sem hún hefur enga getu til að leysa, og þess vegna er bezt, að hún fari frá völdum, og því betra, því fyrr.

Það eru því sannarlega orð í tíma töluð 1957 af hæstv. núv. fjmrh., að hann skyldi hitta einmitt á að lýsa þeirri hæstv. fyrstu ríkisstj., sem hann tekur sæti í á Íslandi, því að sannara orðalag um eina ríkisstj. mun hvergi vera heppilegra eða betra til, þótt leitað sé í þingsögunni. Ég vænti því þess, að jafnmikill skýrleiksmaður og hæstv. fjmrh. er gefi nú sem fyrst þjóðinni kost á að veita sér og sínu ráðuneyti lausn í náð, svo að hægt sé að koma þeim mönnum til valda, sem eru færari um að fara með völdin og ráða málefnum þjóðarinnar og finna betri leiðir en sú hæstv. ríkisstj. hefur getað, sem nú situr að völdum.

Þessi jólagjöf hæstv. ríkisstj., söluskattsfrv., er vottur þess, hvað hæstv. ríkisstj. er skammsýn, er hún lofaði því fyrir nokkrum mánuðum, að þetta yrði einungis til bráðabirgða, en sér nú engin úrræði til að standa við það. Þetta frv. er kóróna vanefndra loforða á fjölmörgum sviðum, sem hæstv. ríkisstj. hefur gefið þjóðinni. Og þessi jólagjöf kemur þeim mun harðar niður á fólkinu, sem þess efni og kjör að öðru leyti eru lakari. Það er því kominn tími til nú, að þjóðin fái farsæla stjórn, sem bæði vill og getur treyst grundvöllinn að félagslegu öryggi og athafnafrelsi fólksins í landinu.

Ég rakst hér í morgun á gamalt Alþýðublað frá 23. okt. 1959, og þar stendur, með leyfi hæstv. forseta: „Er Ólafur Thors almáttugur? — Ólafur Thors talaði í útvarpið á þriðjudagskvöld eins og hann væri almáttugur í íslenzkum stjórnmálum. Sjálfstfl. veit allt og getur allt undir hans forustu. Þess vegna eiga Íslendingar að ráða sig í skiprúm á freigátu Sjálfstfl. og fá Ólafi Thors stjórnvölinn í hendur. Ekki var strandkapteinninn svona almáttugur í vetur, þegar hann gafst upp við stjórnarmyndun. Nei, menn sigla ekki mikinn, ef skipið situr fast á skerinu.“

Héldu Alþýðuflokksmenn, að Ólafur Thors væri almáttugur, þegar þeir réðu sig á freigátu hans fyrir rúmu ári? Héldu þeir, að hægt væri að fela svikin loforð innan borðstokka þeirrar freigátu? Var það ástæðan fyrir því, að þeir gengu á bak orða sinna? Eða var það valdafýsnin ein, sem svæfði loforðin um sama verðlag og sama ástand í þjóðmálum og þeir hétu fyrir kosningarnar haustið 1959? Það er satt, að menn sigla ekki mikinn, ef skipið situr fast á skerinu. Það er alveg satt hjá Alþfl. En er ekki freigátan að stranda með Ólaf Thors, hæstv. forsrh., við stýrið og hv. þm. Alþfl. innan borðstokksins? Það eru ekki þannig horfur nú í atvinnumálum okkar Íslendinga, að þessi freigáta hæstv. ríkisstj. sigli fram hjá skerinu. Fögur loforð forða ekki skipsstrandi, þegar skipstjóri og áhöfn gera ekki sitt bezta til að sigla eftir þeim áttavitum, sem þeir tendruðu, þegar þjóðin veitti þeim brautargengi í kosningunum haustið 1959. Þess er því ekki að vænta, að þessi freigáta sigli fram hjá skerinu. Og þess er ekki heldur að vænta, að það verði lengi innan þessarar freigátu, sem Alþfl. tekst að fela fyrirheitin um sama verðlag og sama ástand í efnahagsmálum og verið hafði árið 1959.