25.11.1960
Sameinað þing: 19. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 618 í D-deild Alþingistíðinda. (2700)

97. mál, landhelgismál

Finnbogi R. Valdimarsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Undanfarið hafa farið fram allmiklar umr. um landhelgismál hér á hv. Alþingi í sambandi við frv. til laga um 12 mílna fiskveiðilandhelgi Íslands, sem allir þm. Alþb. og Framsfl., sem sæti eiga í Ed., fluttu þegar í þingbyrjun. Í þeim umr. gerðist það furðulega fyrirbæri. að hæstv. utanrrh., Guðmundur Í. Guðmundsson, reyndi að neita því með öllu, að nokkuð nýtt hefði komið fram eða nokkuð gerzt, sem minnsta ástæða væri til að skýra Alþingi frá, í öllum þeim samningaviðræðum, sem farið hafa fram milli Íslendinga og Breta um landhelgismálið og hafa staðið nú nokkuð á fjórða mánuð eða a.m.k. síðan 10. ágúst s.l., þegar þær voru ákveðnar.

Hæstv. dómsmrh., Bjarni Benediktsson, var að því leyti raunsærri og heiðarlegri en hæstv. utanrrh., að hann játaði, að verið væri að ræða ákveðinn samningsgrundvöll við Breta, að veita þeim rétt til fiskveiða innan 12 mílna fiskveiðilandihelginnar gegn einhverjum fríðindum, enda hefur þessi hæstv. ráðh. farið víða um landið undanfarið og haldið fundi með flokksmönnum sínum til þess að búa þá undir væntanlega samninga við Breta.

En báðir þessir hæstv. ráðh. reyndu að hylja það, sem nú er að gerast í 1andheigismálinu, í miklu reykskýi, sem þeir reyndu að þyrla upp um það. sem hefði gerzt árið 1958, bæði í maímánuði, áður en reglugerðin frá 30, júní um 12 mílna landhelgina var gefin út, og, þó einkum í ágústmánuði, rétt áður en hún gekk í gildi, og alveg sérstaklega varð þeim tíðrætt um viss símskeyti, sem hæstv. utanrrh. hefði á þessum tímum sent til vina sinna í Atlantshafsbandalaginu. þ. á m. Breta, í samráði við Framsfl. og Sjálfstfl., með tilboðum um tilslakanir frá 12 mílna landhelginni.

Ég vil nú spyrja: Halda þessir hæstv. ráðh., að það sé þetta karp um það, sem gerðist 1958, sem þjóðin vill heyra nú? Nei, það, sem þjóðin á heimtingu á að heyra nú frá hæstv. ráðh., eru svör við þessum spurningum: Um hvað er verið að semja við Breta? Um hvað hefur verið rætt við þá í 31/2 mánuð, frá 10. ágúst til þessa dags. 25. nóv.? Um hvað á að semja við þá, þegar samninganefndir koma saman að nýju í næstu viku? Stefnir hæstv. ríkisstj. markvisst að því að gera sérsamning við Breta um að minnka íslenzka fiskveiðilandhelgi og gefa brezkum togurum rétt til fiskveiða innan 12 mílna fiskveiðilandhelginnar eftir allt það, sem brezka ríkisstj. og brezkir togarar hafa aðhafzt gegn Íslendingum, og eftir allt það, sem hefur gerzt í landhelgismálum á alþjóðavettvangi síðustu árin? Það eru svör við þessum spurningum, sem ég hygg að þjóðin bíði eftir í þessum umr.

Tilviljun hefur ráðið því, að hæstv. ráðh., Guðmundur Í. Guðmundsson og Bjarni Benediktsson, tala hér á eftir mér. En ef þeir tala enn um skeytin, sem hæstv. utanrrh. sendi í maí og í ágúst 1958, þá eiga þeir að vera svo heiðarlegir menn að leggja þau öll á borðið. Ég skoraði í umr. í Ed. á hæstv. dómsmrh., Bjarna Benediktsson, að birta alþjóð þegar í stað öll gögn um landhelgismálið frá 1958 og síðan, sem hann hefur undir höndum. Ef hann vill nú á eftir tala um það, sem Framsókn hafi viljað gera 1958, þá á hann að byrja með því að lesa hér í þingsalnum frumgögnin, öll skeytin. sem félagi hans, hæstv. utanrrh., sendi til útlanda í ágúst 1958 í nánu samráði við Sjálfstfl. Og ef hann vill — þ.e.a.s. ef hann þorir að tala um afstöðu og tillögur Sjálfstfl. í landhelgismálinu 1958, þá á hann að byrja með því að lesa upp þessar till. Sjálfstfl., ef nokkrar eru, í sambandi við setningu reglugerðarinnar 1958. Ég skora á hæstv. dómsmrh., Bjarna Benediktsson, að gera þetta.

Er það heiðarlegt að byggja málflutning, sinn á gögnum, sem enginn, sem á hlýðir, hefur heyrt eða séð? Ég sá aldrei nein þeirra skeyta, sem hæstv. ráðh. hafa talað mest um, en ég varð vitni að því, að hæstv. utanrrh. neitaði meðráðherrum sínum í vinstri stjórninni, hv. þm. Hermanni Jónassyni og Eysteini Jónssyni, um að fá að sjá þau skeyti, hvað þá að fá afrit af þeim skeytum, sem hann sendi sem utanrrh. í stjórn Hermanns Jónassonar í ágústmánuði 1958 og notaði síðan sjálfur til árása á Hermann Jónasson.

Ég endurtek áskorun mína til hæstv. ráðh.: Skjölin á borðið um allt, sem gerðist 1958, og þá sérstaklega skeytin frá því í ágúst 1958. Ég endurtek áskorun mína til hlustenda: Takið eftir því, hvort hæstv. ráðh. verða svo heiðarlegir menn að leggja þessi skjöl á borðið nú í þessum umr., ef þeir leyfa sér að tala enn um baktjaldamakk sitt 1958.

En ég tel, að meiri þörf sé að tala um það, sem nú er að gerast og nú er stefnt að því að gera. Ég ætla ekki að tala miklu meira um það, sem gerðist 1958. En ég ætla, þó að varpa fram einni spurningu. Ég vil spyrja: Finnst í þessum þingsal og finnst á þessu landi yfirleitt nokkur maður, sem óskar þess nú. að það hefði verið látið ógert, sem gert var 1958, að stækka íslenzka fiskveiðilandhelgi í 12 mílur? Þeir menn voru til 1958. Meðal þeirra var hæstv. dómsmrh., Bjarni Benediktsson. Hann sagði á landsfundi Sjálfstfl., sem haldinn var næst á eftir útgáfu reglugerðarinnar um stækkun landhelginnar: „Sök Guðmundar Í. Guðmundssonar var sú, að hann skyldi ekki hindra Lúðvík í þessu.“

Og það eru til menn, sem gengu nauðugir til þess verks að stækka landhelgina í 12 mílur. Meðal þeirra var hæstv. utanrrh., Guðmundur Í. Guðmundsson. Um það hafa hæstv. forsrh., Ólafur Thors, og bróðir hæstv. dómsmrh., Pétur Benediktsson bankastjóri. sagt, að hæstv. utanrrh. hafi verið kúgaður og svínbeygður til að eiga þátt í útgáfu reglugerðarinnar 1958. Er þetta satt? Já. það er satt. En var þá ekki ljótt að kúga manninn? Nei, það er siðferðislega rétt, fallegt og gott að kúga menn eins og forsprakka Alþfl. til þess að hætta við að svíkja, þá sjaldan það er hægt.

Hæstv. ráðh., sem hér tala á eftir mér, hafa sagt. að það sé þjóðarnauðsyn í dag að eyða deilunni við Breta og þess vegna beri að semja við þá um minnkun íslenzkrar landhelgi. Við, sem hér eigum sæti á Alþ. nú, vorum kosnir fyrir réttum 13 mánuðum. Ég spyr: Finnst hér í þessum þingsal nokkur hv. þm., sem flutti þá skoðun fyrir kjósendum fyrir kosningarnar í okt. 1959, að okkur bæri að taka upp samninga við Breta og gera við þá samninga um að minnka íslenzka fiskveiðilandhelgi? Finnst á þessu landi nokkur kjósandi, sem minnist þess, að nokkur frambjóðandi hafi flutt það mál? Er hér nokkur hv. þm., sem er kosinn til þess að semja við Breta?

Hæstv. ráðh. segja okkur í dag: Við höfum tekið upp samninga við Breta í tvennum tilgangi: Til þess að fá þá til þess að viðurkenna rétt okkar til landgrunnsins alls og til þess að koma í veg fyrir árekstra á hafinu við Ísland og þar með lífshættu íslenzkra sjómanna. Og umfram allt þurfum við að eyða deilunni við Breta. Það er þjóðarnauðsyn Íslendinga. — En ef þetta er þjóðarnauðsyn í dag,. þá hefur það væntanlega verið þjóðarnauðsyn fyrir einu ári. Hvers vegna komu þá ekki þessir menn heiðarlega og hreinskilnislega fram fyrir kjósendur í október í fyrra og sögðu: Deilan við Breta hefur staðið í meira en eitt ár. Við verðum að eyða henni. við verðum nú að semja við Breta? — Voru ekki sjómenn okkar í sömu lífshættu á hafinu þá og nú? Var ekki sama hætta þá og nú af árekstrum á hafinu? Var ekki eins æskilegt þá og nú að fá viðurkenningu Breta á rétti okkar til landgrunnsins alls? Ef hæstv. ráðh. eru nú í samningum við Breta að fá þá viðurkenningu, hvers vegna byrjuðu þá ekki samningar strax sumarið 1959? En ég skora nú á hæstv. ráðh., sem tala hér á eftir mér, að segja okkur, hvaða líkur eru til þess eftir 31/2 mánaðar samningaþóf við Breta að fá viðurkenningu þeirra fyrir rétti okkar til landgrunnsins alls, viðurkenningu þeirra á því, að við höfum fullan rétt til þess með einhliða ákvörðun okkar að gera landgrunnið allt að fiskveiðilandhelgi Íslands. Ég ætla að hætta á að fullyrða, — ég tel það enga áhættu. — að þær líkur eru alls engar. Hæstv. ráðh. koma ekki með þá viðurkenningu Breta, hve mikið sem þeir slá af 12 mílna landhelginni. En ég skora sérstaklega á hæstv. dómsmrh., Bjarna Benediktsson, að skýra hlustendum frá því í næstu ræðu sinni, hve miklar hann telur líkurnar fyrir því í dag, að Bretar viðurkenni fullan rétt okkar til landgrunnsins alls.

Það, sem hæstv. dómsmrh. hefur verið að reyna að láta hilla undir sem mikinn sigurvinning okkar í samningum við Breta, er það, að Bretar kunni að verða fáanlegir til þess að gefa okkur eftir einhver svæði utan 12 mílna, á svæðinu, sem þeir kalla opið haf og frjálst öllum og vilja ekki fiska á sjálfir, gegn því, að þeir fái að fiska á svæðinu milli 6 og 12 mílna fyrir hverjum landsfjórðungi eða allt umhverfis landið, á svæðinu, sem hefur verið friðað athafnasvæði bátaflotans s.l. tvö ár, að undanskildum „hólfum“ Breta, þar sem herskip þeirra hafa hnappsetið brezka togara, en þessi hólf hafa verið milli 5 og 10% af allri friðaðri landhelgi Íslands.

Það er orðin svo almennt viðurkennd staðreynd af öllum, sem vit hafa á, að hernaðaraðferð Breta hér við land síðan 1. sept. 1958 hefur mistekizt, að þeir hafa tapað stríðinu, vegna þess að það borgar sig ekki fyrir brezku togarana að fiska í „hólfunum“ né heldur fyrir brezku stjórnina að halda úti herskipum til að gæta þeirra. að sjálfur hæstv. dómsmrh., Bjarni Benediktsson, hefur neyðzt til þess að gera þá Játningu í umr. um landhelgismálið í Ed., sem ég les nú orðrétta eins og hún var birt í Morgunblaðinu eftir hæstv. ráðh. Hann sagði: „Landhelgismálið er leyst. Tólf mílurnar er búið að vinna. Það er rétt.“ En ef þetta er rétt, hver eru þá rökin fyrir því, að það sé þjóðarnauðsyn að „eyða deilunni“ við Breta með því að gefa þeim rétt til að fiska á millí 6 og 12 mílna á miklu stærri svæðum en þeir hafa hingað til tekið með ofbeldi? Ef einhver efast um, að brezkir togaraeigendur vænti sér stóraukinna hagsbóta af væntanlegum samningum við Íslendinga, þá má benda á það, að þeir hafa með félagssamþykktum neitað sjálfum sér um það að fiska í „hólfunum“ í sumar og í haust, meðan samningsviðræðurnar stæðu yfir, og ekki farið dult með það í blöðum sínum, að það kunni að margborga sig fyrir þá vegna þeirra stórfelldu hagsbóta, sem þeir gætu vænzt af niðurstöðum samninganna við Íslendinga.

Hæstv. dómsmrh., Bjarni Benediktsson, hefur sagt. að Bretar hafi ríka hagsmuni af því að fá þessa deilu út úr heiminum, ekki fyrst og fremst vegna sinna fiskveiðihagsmuna, heldur af öðrum ástæðum. Það hlýtur þó að vera öllum ljóst, að brezkir togaraeigendur líta fyrst og fremst á sína fiskveiðihagsmuni, og þeir meta þá svo, að þeir gera sér miklar vonir um hagsbætur af samningum við Íslendinga. Hæstv. dómsmrh. stagast á því, að við eigum að hleypa Bretum inn í 12 mílna landhelgina í nokkur ár, á meðan þeir séu að „umþótta“ sig. Hvað þýðir þetta skrýtna orð? Það þýðir það, að við eigum að bera kostnaðinn af því, að brezkir togaraeigendur verða nú að breyta togaraútgerð sinni, vegna þess að 12 mílurnar hafa sigrað í heiminum.

En hvaða „ríkar ástæður“ hefur brezka stjórnin til þess að losna úr deilunni, aðrar en fiskveiðihagsmuni togaraeigenda sinna? Hæstv. dómsmrh. hefur forðazt að skýra það nánar, hvað hann á við með þessum orðum. Ég skora á hann að gera það hér á eftir, En við förum reyndar nærri um það. Brezka stjórnin hefur nefnilega ekki haft nema skaða og skömm af hernaði sínum við Ísland. Það er orðin alkunn staðreynd um allan heim, að Bretar hafa aldrei beitt herskipaflota sínum gegn neinni af þeim 30–40 þjóðum. sem nú hafa stækkað fiskveiðilandhelgi sína í 12 mílur eða meira, nema gegn þeirri minnstu og varnarlausustu, Íslendingum, og þeirri einu þessara þjóða, sem er í hernaðarbandalagi við Breta. Þeir sendu ekki flota sinn gegn Rússum, þegar þeir lýstu yfir 12 mílna landhelgi, og ekki gegn kommúnistum í Kína, þegar þeir gerðu slíkt hið sama, á eftir Íslendingum.

Hinar „ríku ástæður“, sem brezka stjórnin hefur til að losna úr klípunni, sem Bretar eru komnir í með hernaði sínum gegn bandalagsþjóð sinni. Íslendingum, eru þrenns konar:

1) Þeir vita, að 12 mílna fiskveiðilandhelgin hefur sigrað, hún er orðin lágmarksregla að þjóðarétti. Hún flæðir yfir heiminn á næstu árum, eins og Mr. Dean, formaður sendinefndar Bandaríkjanna á Genfarráðstefnunni komst að orði. Fleiri og fleiri þjóðir taka sér hana með einhliða ákvörðun, eins og 30–40 þjóðir hafa þegar gert.

2) Bretar þurfa þess vegna að binda Íslendinga: með samningum til þess að tryggja, að þeir fari ekki lengra út með grunnlínurnar og landhelgina sjálfa á næstu árum.

3) Bretar hafa haft svo mikla smán af hernaði sínum á Íslandsmiðum, að þeir munu ekki þora að taka hann upp að nýju, þó að nú slitnaði upp úr samningum við Íslendinga.

Ástæðan er einföld. Það er verið að hefja nýja áróðursherferð fyrir Atlantshafsbandalaginu. Það á að verða miklu nánar samtvinnað ríkjasamband, ekki í hernaðarmálum einum, heldur á öllum sviðum, efnahagslegum sem pólitískum. Það á að verða nánast sambandsríki Bandaríkjanna og ríkjanna í Vestur-Evrópu, sem eru innan þessa bandalags. Áframhaldandi hernaður Breta á Íslandsmiðum verður algerlega ósamrýmanlegur þessum áróðri, sem þegar er hafinn. Þess vegna eru það nú Bandaríkin. sem eftir að hafa haft forustuna í baráttunni gegn 12 mílna fiskveiðilandhelginni, mesta lífshagsmunamáli Íslendinga, eftir að hafa rekið rýting í bakið á Íslendingum, eins og Morgunblaðið sagði 1958, með till. um hinn eilífa sögulega rétt handa Bretum og öðrum ránsveiðiþjóðum og eftir að hafa endanlega tapað þeirri baráttu, skipa nú Bretum og okkur litlu körlunum að semja strax, svo að ekki verði lengur hægt að benda á hernaðarástandið við Íslandsstrendur.

Samningur við Breta nú um rétt handa brezkum togurum innan 12 mílna landhelginnar til stóraukinna hagsbóta fyrir þá er því enn ein fórnin. ekki sú fyrsta og ekki sú síðasta, — sem Íslendingar eiga að færa á altari Atlantshafsbandalagsins.

Rök hæstvirtra ráðh. fyrir því að semja við Breta nú eru og verða ekki þau, að þeir færi okkur fulla viðurkenningu Breta á rétti okkar til að setja með einhliða ákvörðun þá fiskveiðilandhelgi við Ísland, sem lífshagsmunir íslenzku þjóðarinnar krefjast á hverjum tíma og leyfileg er að þjóðarétti. Þeir vita vel, að þeir koma ekki með slíka viðurkenningu á rétti okkar, þessir hæstv. ráðh. Þeir hafa orðað þetta svo, báðir hæstv. ráðh. að Bretar kunni að verða fáanlegir til að láta af mótmælum sínum gegn 12 mílunum, þ.e. að láta af hernaðarofbeldinu, gegn fríðindum þeim til handa.

En meginrökin eru þau, að það verði að koma í veg fyrir hættu af „árekstrum á hafinu“, og þessir hæstv. ráðh. hafa báðir vælt grátklökkir í ræðustól Ed. um lífshættu íslenzkra sjómanna í sambandi við þessa „árekstra“ á hafinu. Hvaða „árekstrar“ eru þetta? Það eru þess konar árekstrar, að brezk herskip og brezkir togarar hafa gert ítrekaða tilraun til að sigla í kaf íslenzk varðskip og fiskiskip, og það er „árekstur“ eins og sá, sem varð 12, nóv. 1958, þegar brezkt herskip kallaði þessi skilaboð til varðskipsins Þórs: „Ef Þú skýtur á togarann. þá skal ég sökkva þér.“ En hvar var varðskipið Þór statt. þegar það ætlaði að stöðva og taka þennan togara? Var það á ytra 6 mílna beltinu, sem Bretar eiga nú að fá til þess að koma í veg fyrir árekstra á hafinu? Nei, það var innan 3 mílna landhelgi Íslands, sem Bretar þykjast viðurkenna.

Halda menn, að hættan, sem íslenzkum sjómönnum stafar af brezkum föntum, verði úr sögunni, ef brezka togaraflotanum og í kjölfar hans togaraflota allra annarra þjóða verður hleypt inn á svæðið milli 6 og, 12 mílna, þar sem bátafloti okkar hefur verið síðustu tvö árin nokkurn veginn í friði. að undanskildum þeim hólfum, sem brezk herskip hafa gætt ?

Voru ekki íslenzkir sjómenn í hættu fyrir brezkum togurum, meðan landhelgin var aðeins 3 sjómílur óumdeilt? Var ekki Hannes Hafstein í lífshættu þá? Og voru ekki drepnir nokkrir íslenzkir sjómenn þá?

Er verið að tryggja líf íslenzkra sjómanna með því að hleypa öllum útlenda togaraskaranum inn á veiðisvæði bátaflotans milli 6 og 12 mílna í óveðrum vetrarins á vertíðinni?

Ætla hæstv. ráðherrar, hæstv. dómsmrh. og hæstv. utanrrh., að taka ábyrgð á lífi íslenzkra sjómanna, að það verði þá ekki í hættu vegna „árekstra“ á hafinu?

Ég veit, að þeir, sem þekkja aðstæður sjómanna á bátaflotanum á vertíð og vita, hvað það þýðir, að öllum útlenda togaraskaranum verði hleypt inn á 6–12 mílna beltið, þeir taka ekki mark á þessum rökum. En ég efast um, að nokkurn tíma hafi verið viðhöfð önnur eins hræsni í umr. hér á hv. Alþingi og þegar hæstv. dómsmrh. er að beygja sig út um það, að hann skuli koma í veg fyrir lífshættu íslenzkra sjómanna með samningum við Breta. Og ég skal nú sanna þetta.

Haustið 1958, þegar öll íslenzka þjóðin sýndi. að hún stóð einhuga að baki vinstri stjórninni með stækkun landhelginnar í 12 mílur og á móti ofbeldisaðgerðum Breta, þá fóru forkólfar Sjálfstfl., hæstv. forsrh., Ólafur Thors, og hæstv. dómsmrh., Bjarni Benediktsson, á kreik með till, um að tala upp viðræður innan Atlantshafsbandalagsins um landhelgismál Íslendinga og ofbeldisárásir Breta. Rökin voru eins og nú, að það yrði að koma í veg fyrir hættu af „árekstrum á hafinu“. Þeir félagar fylgdu þessari till. sinni fram af miklum krafti í nóv. og des. 1958. Þeir töldu hana þá eins og nú þjóðarnauðsyn. En rétt fyrir jólin 1958 létu þeir Alþfl. mynda ríkisstj. Þeir höfðu þá ríkisstj. algerlega í hendi sinni. Halda menn, að þeir hefðu t.d. ekki getað sett stjórn Alþfl. það skilyrði að framkvæma þá till., sem þeir töldu mesta þjóðarnauðsyn? Hvað gerðu þeir, Ólafur Thors og Bjarni Benediktsson? Á útmánuðum 1959, á hávertiðinni. hættu þeir að tala um hættuna á árekstrum á hafinu og lífshættu sjómanna. Og hinn 5. maí 1959 létu þeir þessa till. sína niður falla með öllu með því að samþykkja með öllum öðrum flokkum þál., þar sem sagt var, að þar sem ofbeldisaðgerðir Breta væru sýnilega ætlaðar til að knýja Íslendinga til undanhalds, lýsti Alþingi yfir, að minni Landhelgi en 12 mílur frá grunnlínum allt umhverfis landið kæmi ekki til mála.

Hæstv. utanrrh. kastaði rekunum á þessa till. þeirra félaga, Ólafs Thors og Bjarna Benediktssonar, um nýjar viðræður við Breta með því að láta bóka þetta eftir sér á fundi utanrmn. 27. apríl 1959, þar sem endanlega var gengið frá ályktun Alþingis 5. maí 1959, orðrétt: „Að áliti utanrrh. kemur ekkert nýtt fram, ef við tökum málið aftur upp innan NATO, en í þess stað kunna að geta skapazt nýir erfiðleikar.“ Síðan hafa þeir félagarnir, Ólafur Thors og Bjarni Benediktsson, ekki minnzt á þessa till. sína og hættuna á árekstrum á hafinu fyrr en 10. ágúst 1960, að þeir tóku hana upp að nýju og ákváðu að taka upp samninga við Breta til þess að koma í veg fyrir hættuna af árekstrum á hafinu.

En eftir er þáttur hæstv. utanrrh. í þessum málum. Ég hef hér drepið á afstöðu hans til till. Sjálfstfl. um nýjar viðræður innan Atlantshafsbandalagsins og þar með við Breta hinn 27. apríl 1959. Hann taldi þá slíkar viðræður ekki koma til mála. Ekkert nýtt mundi koma fram við slíkar viðræður, en af þeim gætu skapazt nýir erfiðleikar. Hann minnti þá á, að Bretar hefðu fyrr viljað ræða útfærslu íslenzkrar landhelgi með vissum skilyrðum, „en við höfum svarað,“ sagði hæstv. utanrrh. þá orðrétt, „að við séum ekki til viðræðna um fiskveiðilögsögu Íslands.“

Hinn 7. maí í vor lét hann lesa upp eftir sér í ríkisútvarpinu þessa yfirlýsingu, orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Við miðum allt okkar starf að því að tryggja 12 mílna fiskveiðilögsögu og stöndum gegn öllu, sem skemmra gengur. Við munum berjast gegn öllum frádrætti, hverju nafni sem nefnist, tímatakmörkunum eða öðru, gegn öllu, sem veitir öðrum þjóðum fiskveiðiréttindi innan 12 mílna við Ísland.“

Og á fundi utanrmn. hinn 13. júlí í sumar, tæpum mánuði áður en samningar voru ákveðnir við Breta, var þessi yfirlýsing bókuð eftir hæstv. utanrrh., með leyfi hæstv. forseta:

„Þá tók ráðherra fram, að engar samningaviðræður hefðu farið fram milli ríkisstjórna Bretlands og Íslands um þessi mál. Hins vegar hefur það oft komið fram hjá Bretum, að þeir legðu áherzlu á að taka upp viðræður við Íslendinga um málið. Afstaða ríkisstj. nú hefði verið sú sama og fyrri ríkisstj., að hafna tilmælum um samningaviðræður, þar eð ekkert væri við Breta að semja um viðáttu fiskveiðilögsögu við Ísland. — Undirstrikaði utanrrh. síðan orð dómsmrh. um þá ríku nauðsyn, að eining væri af Íslendinga hálfu um landhelgismálið.“

Þjóðareiningin, sem hæstv. ráðh. töluðu hér svo fagurlega um, var þannig í framkvæmd hjá hæstv. ríkisstj., að 10. ágúst var stjórnarandstöðunni tilkynnt, að ríkisstj. hefði ákveðið að taka upp einhliða samninga við Breta. Allar aðrar ríkisstj., a.m.k. allt frá 1950, hafa reynt að ná sem mestri einingu allra þingflokka um höfuðatriði landhelgismálsins.

Þrjú skref hafa verið stigin til stækkunar íslenzkrar fiskveiðilandhelgi: 1950, 1952 og 1958. Fyrir þeim hefur verið gerð grein í fjórum hvítum bókum, sem íslenzkar ríkisstj. hafa gefið út og útbýtt meðal allra þjóða heims. Hin fyrsta var gefin út í sept. 1954, önnur í okt. 1955, hin þriðja í nóv. 1958 og hin fjórða í júní 1959. Í þessum hvítu bókum hefur stefna íslenzku þjóðarinnar í landhelgismálinu verið mörkuð á þessa leið:

1) Lífsnauðsyn íslenzku þjóðarinnar krefst stækkunar íslenzkrar fiskveiðilandhelgi.

2) Öll skref, sem stigin hafa verið til stækkunar, hafa verið stigin af lífsnauðsyn, til þess að forða íslenzku efnahagslífi frá hruni.

3) Þau hafa verið gerð með einhliða ákvörðun íslenzkra ríkisstj. eins og ákvarðanir allra annarra þjóða í sömu átt og í fyllsta samræmi við þjóðrétt. Samningar við einstakar þjóðir koma því ekki til greina, enda hefur reynslan sýnt, að þeir hefðu verið óframkvæmanlegir.

4) Í fjórðu og síðustu hvítu bókinni er sýnt fram á, að ofbeldisaðgerðir brezkra herskipa við Ísland eru hernaðarárás, brot á stofnsamningi Sameinuðu þjóðanna, brot á stofnsamningi Atlantshafsbandalagsins, og að löndunarbann Breta, sé brot á stofnsamningi Efnahagssamvinnustofnunar Evrópu.

Þannig hafa Íslendingar ákært Breta fyrir öllum þjóðum heims, fyrir samvizku þjóðanna, fyrir efnahagslegt og hernaðarlegt ofbeldi gegn einni minnstu þjóð veraldar. Við þessa einu þjóð, Breta, ætlar nú hæstv. ríkisstj. að semja um sérstök fríðindi henni til handa innan íslenzkrar landhelgi. Það er ekki verst, að hæstv. ráðh. gera sig með því að viðundri frammi fyrir þjóð sinni, ef nokkurt mark væri takandi á fyrri yfirlýsingum þeirra. Hitt er verra, að með því verður íslenzka þjóðin gerð að viðundri í augum allra þjóða heims. Málflutningur hennar fyrir þjóðum heims verður brotinn niður og gerður ómerkur. Gegn því verður íslenzka þjóðin að risa, og því ber Alþ. samþ. þessa till., sem hér liggur fyrir um að slíta nú þegar samningum við Breta.