25.11.1960
Sameinað þing: 19. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 625 í D-deild Alþingistíðinda. (2701)

97. mál, landhelgismál

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að öllum Íslendingum hefur bæði sárnað og gramizt framferði Breta í landhelgisdeilunni við okkur undanfarin ár. Við teljum, að svo mikil þjóð hefði átt að sýna meiri skilning og víðsýni heldur en hún hefur gert, því að hvað sem öðru líður, þá hefur verið hér um að tefla hagsmuni, sem okkur eru ólíkt meira virði en Bretum. Lífshagsmunir okkar hafa verið í veði, þar sem ágreiningsefnið verður aldrei talið nema aukaatriði fyrir brezku þjóðarheildina.

En þó að gremja okkar hafi við rík rök að styðjast, þá leysir hún ekki þann vanda, sem við er að etja. Sárindi og gremja eru ekki góðir ráðgjafar, og sjaldan verður reiði réttsýn. Hér er um að ræða ágreining um efni alþjóðalaga og takmörk þeirra og landslaga auk hagsmunaáreksturs. Að sjálfsögðu hljótum við að standa vörð um rétt okkar og hagsmuni. En sem sjálfstæð, fullvalda og fullþroskuð þjóð verðum við hverju sinni að meta, hvað í húfi er og hver ráð eru líklegust til þess að koma máli okkar fram, áður en yfir lýkur. Okkur ber að gæta þeirra reglna, sem gilda um samskipti þjóða, á sama veg og við ætlumst til, að okkur sé sýnd sanngirni.

Ágreiningur okkar við Breta um landhelgismálið er orðinn ærið gamall og af honum lengri saga en hér er tími til að rekja. Aðalatriðið er að gera sér ljóst, að ágreiningsefnið er nú allt annað en það áður var. Ekki er enn liðinn einn áratugur frá því, að Bretar fiskuðu hér upp að 3 mílum og inni á hinum stærri fjörðum og flóum, og allt fram að Genfarráðstefnunni á s.l. vori neituðu Bretar með öllu að fallast á, að einhliða ákvörðun um 12 mílna fiskveiðilögsögu væri gild. ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir viðurkenningu þeirra á slíkri útfærslu var þangað til það, að þeir héldu um alla eilífð fiskveiðirétti á þeim miðum, sem þeir þóttust hafa unnið sögulega hefð á. Meðan Bretar héldu fast við þessar kenningar, var óbrúanlegur skoðanamunur á milli okkar og þeirra, og þrátt fyrir langvarandi samningaumleitanir allt sumarið 1958 tókst ekki að komast að samkomulagi. Hvað sem líður ágreiningi um, hvort þá hafi verið á öllu rétt haldið af okkur, er hitt ágreiningslaust, að aldrei gat til mála komið, að við féllumst á kenninguna um eilífa sögulega fiskveiðikvöð innan lögsögu okkar, er gert hefði 12 mílna regluna lítils eða einskis virði.

Nú er þetta gerbreytt. Afstaða Breta á Genfarráðstefnunni s.l. vor og síðan sýnir, að nú eru þeir fáanlegir til að falla frá andmælum gegn 12 mílna fiskveiðilögsögu og kröfu um eilífa fiskveiðikvöð. Í stað þess leggja þeir nú áherzlu á að fá nokkurn tíma, 10 ár sem hámark, en mundu gagnvart okkur vera fúsir til að samþ. miklu skemmri frest til þess að umþótta sig, koma fiskveiðum sínum í það horf, sem þær að þeirra mati þurfa að komast, eftir að veiðum þeirra á grunnmiðum hér og annars staðar erlendis lýkur.

Baráttunni fyrir 12 mílna fiskveiðilögsögu er því nú þegar hægt að ljúka með fullum sigri um alla framtíð, ef okkur tekst að leiða til lykta eða eyða deilunni við Breta um einhvern umþóttunartíma þeim til handa. Á meðan sú deila stendur, njótum við hins vegar ekki nema að nokkru gagnsins af sigri okkar í aðaldeilumálinu um sjálfa 12 mílna fiskveiðilögsöguna.

Því er raunar haldið fram, að annmarkar á áframhaldandi deilu séu svo litlir, að ekki sé í þá horfandi. Betra sé að eiga þá yfir höfði sér en gera sig sekan um þá litilmennsku, eins og hv. þm. Hermann Jónasson hefur komizt að orði, að semja við þá, sem hafa beitt okkur ofbeldi.

Verra veganesti getur ekkert ungt ríki valið sér en ef það neitar að reyna að semja. hvað þá tala við önnur ríki, um þau ágreiningsefni. sem fyrir hendi eru og leysa má án óbærilegra fórna. Þarf ekki að eyða orðum að því, hvert ástand mundi ríkja í heiminum á milli einstakra manna og þjóða, ef sá hugsunarháttur væri allsráðandi. Heimskulegri fullyrðing hefur ekki heyrzt en sú, að samningar séu svik. Að sjálfsögðu er það komið undir efni samninga, hvort þeir eru til góðs eða ekki.

Fjarstæða er og að halda því fram, að deilan við Breta skaði okkur ekki. Enginn veit, hvaða þróun hún tekur, ef ekki verður að gert. Ég skal ekkert um það segja, hvort Bretar taka hér upp fiskveiðar að nýju innan fiskveiðilögsögunnar undir herskipavernd. ef ekki tekst að eyða deilunni, en þeir menn, sem nú segja, að slíkar veiðar baki okkur lítið sem ekkert tjón, ættu að gæta betur samræmis í málflutningi sínum. Ef þessar veiðar eru barnaleikur einn, af hverju sprettur þá öll gremjan við Breta fyrir þessar aðfarir? Og ef þessar veiðar halda áfram, þá velja Bretar veiðisvæðin og áreiðanlega ekki hin lökustu að eigin geðþótta. Einu áhrifin, sem hinir virðulegu stjórnarandstæðingar geta haft með skrafi sínu, eru að benda Bretum á, að þeir gætu valið önnur fiskiríkari mið en þeir hingað til hafa haldið skipum sínum á. Hitt hefur heyrzt. að Bretar muni hverfa frá beinni herskipavernd á miðunum, en togarar þeirra þyrpast inn fyrir fiskveiðimörkin í meira eða minna fastbundnum samtökum og virða reglur okkar að vettugi. Við höfum þegar séð, hvílíkar hættur slíkar veiðar, þótt í smáum stíl væri, hafa í för með sér, ekki einungis fyrir fiskstofninn, heldur einnig um margháttaða árekstra á miðunum. Á s.l. sumri munaði t.d. ekki nema skipsbreidd, að stórslys yrði af.

Sízt var orðum aukið það, sem hv. þm. Hermann Jónasson sagði í sumar, að þá virtist sem deilan væri að færast í alvarlegra horf en nokkru sinni fyrr. Brezkir togaramenn lýstu því þá, að þeir væru viti sínu fjær af gremju yfir því að vera hraktir úr íslenzkri fiskveiðilögsögu, að því er þeir telja, gegn alþjóðalögum. Við sameinumst allir um að fordæma þá gremjufullu vitfirringu. En hún er ein þeirra staðreynda, sem við verðum að hafa í huga og meta, þegar við gerum upp hug okkar í þessu máli. Nægar hættur vofa yfir sjómönnum okkar af völdum höfuðskepnanna hér við land, þó að þar á ofan bætist ekki beinn lífsháski af manna völdum. Ef slík ógæfa gerðist, yrði vandinn enn óviðráðanlegri en ella. Þá væri hér magnað enn eitt alþjóðavandamál til viðbótar þeim, er við sjáum að býsna erfiðlega gengur að leysa, þótt stórveldin láti þau til sín taka, en allt of oft sem einn þátt í sinni stöðugu valdastreitu. Með þeim atburðum og jafnvel hættunni einni á þeim yrði eitruð sambúð íslendinga við þær þjóðir, sem við vegna legu lands okkar komumst ekki hjá að hafa náin skipti við, hvort sem við viljum eða ekki. Afleiðingarnar af þeirri framvindu eru ófyrirsjáanlegar, en þess eðlis, að enginn góðviljaður maður má láta sitt eftir liggja til að koma í veg fyrir þær.

Miðað við þetta skiptir minna máli það fjárhagstjón, sem við óneitanlega höfum af nýju varanlegu löndunarbanni í Bretlandi. Sumir segja, að við getum vel verið án markaða í Bretlandi. En víst er, að hagur þjóðarinnar er því öruggari sem hún hefur fleiri markaði fyrir vörur sínar. Hagur íslenzkra togara og raunar mikils hluta bátaflotans af því að geta selt fisk í Englandi er og svo augljós, að engum tjáir í móti að mæla. Hafa ber í huga, að við höfum fært fiskveiðilögsögu okkar út til þess að hagnast á því. Þess vegna er óhjákvæmilegt, að metið sé, hvernig, sá hagur verði mestur á hverjum tíma, þegar ekki er um það að ræða, að fórnað sé neinum framtíðarhagsmunum, heldur þvert á móti verið að tryggja þá. En svo er hér, þegar leitazt er við að ryðja úr vegi síðustu hindrunum á frambúðarviðurkenningu 12 mílna fiskveiðilögsögu, með því að viss fiskveiðihlunnindi séu veitt, en einungis um mjög takmarkað ársbil og gegn öðrum fiskveiðihlunnindum.

Hér verður að gæta þess, að fiskveiðideilan við Breta firri okkur ekki hagnum af frambúðarviðurkenningu 12 mílna fiskveiðilögsögu með meiri búbsifjum og í mun lengri tíma en takmörkuð, tímabundin fiskveiðihlunnindi þeim til handa kynnu að hafa í för með sér. Þetta er atriði, sem ekki er hægt að meta réttilega, nema málið sé kannað og vitað, hvaða kjör eru í boði.

Um það verður ekki sagt á þessu stigi málsins, hvort fáanleg séu þau kjör, sem geri okkur ráðlegt að eyða deilunni við Breta. Um hitt verður ekki deilt, að við höfum margvíslegan hag af því að leiða þessa deilu til lykta. Hvaða ráð eru þá til þess?

Um þetta hef ég, spurt hv. stjórnarandstæðinga hvað eftir annað í hinum löngu umr., sem orðið hafa á Alþ. um þetta mál að undanförnu. Hér er um meginatriði málsins að ræða. Nauðsynlegt er, að allir Íslendingar athugi gaumgæfilega þá möguleika, sem fyrir hendi eru. Það var ekki sízt af þessum ástæðum, sem ríkisstj. óskaði eftir því, að þessum umr. yrði útvarpað, svo að allur landslýður gæti fylgzt með svörunum. Hnotabit á milli manna, eins og hafa átt sér stað af hálfu þeirra hv. þm., sem hafa talað á undan mér, hafa litla þýðingu. Úrræðin, sem á er bent, skipta öllu máli. Svör hv. stjórnarandstæðinga um, hvað þeir vilji til mála leggja, hvaða úrræði þeir bendi á, hafa verið í senn óljós og haldlítil. Hvorugur þeirra þm., sem töluðu hér á undan mér, vék að þessu einu orði í umr. nú, en Hermann Jónasson svaraði fsp. minni í Ed. um þetta á þá leið, að tíminn mund! leiðamálið til lykta. Hér er svipað svarað og Stanley Baldwin forsrh. í Bretlandi gerði forðum, þegar hann sagði: „We will muddle through“ — við slömpumst einhvern veginn í gegn. Eftir á þótti Bretum þetta lítil hollráð, og hætt er við, að þau verði okkur einnig að litlu gagni. Enginn getur nú um það sagt, hversu miklu tjóni deilan mundi verða búin að valda, áður en tíminn eyddi henni, jafnvel þó að svo yrði einhvern tíma, er enginn veit, hversu skjótlega yrði. Sannast að segja er þetta svar alger uppgjöf og ber vitni um fullkomið úrræðaleysi, skort á þeirri fyrirhyggju, sem enginn, er tekur að sér stjórn á málefnum þjóðar sinnar, má án vera.

Önnur ábending, sem hv. þm. Hermann Jónsson gaf, þó með tvíræðum orðum, eftir að hann sá, að hin fyrri var harla lítils virði, var sú. að við ættum í skjóli varnarsamningsins frá 1951 að leita til Bandaríkjastjórnar og krefjast vopnaðs liðstyrks hennar til að hrekja Breta út fyrir fiskveiðitakmörk okkar.

Áður en rætt er um, hvort líklegt sé, að Bandaríkjastjórn veiti okkur slíkt liðsinni, er rétt að víkja aðeins að hinu, hvort valdbeiting af okkar hálfu mundi ef til vill nægja til að reka Breta á brott.

Í Þjóðviljanum í sumar birtist grein, þar sem því var haldið fram, að vandinn væri ekki annar en sá að vopna íslenzku gæzluflugvélina með vélbyssu og hefja síðan skothríð á brezka togara. Þeir mundu þá skjótlega hypja sig burt. Ekki hefur Þjóðviljinn síðan haldið þessari till. áberandi á loftí, og málsvari kommúnista á Alþ., hv. þm. Finnbogi R. Valdimarsson, sagði þvert á móti í Ed., að okkur mundi bezt gefast vopnlaus mótstaða. Bretar hefðu áður orðið að lúta í lægra haldi gegn þeirri aðferð. Þar var að vísu ólíku saman að jafna og nánast var þetta sama ábendingin og er hv. þm. Hermann Jónasson vitnaði í úrræðaleysi sínu til þess, að tíminn mundi leysa. málin fyrir okkur. En ég er sammála hv. þm. um það, að mun væri sú aðferð skynsamlegri en hin, ef við ætluðum að láta úrslit deilunnar vera komin undir vopnavaldi. Hætt er við, að skjótlega kæmu vopn á móti vopnum, og þyrfti þá ekki að sökum að spyrja, hvernig slíkri viðureign milli máttarminnsta ríkis veraldar og þriðja mesta stórveldis heims mundi lykta. Styrkur okkar er fólginn í því að hafa rétt fyrir okkur, en ekki beitingu valds. er við ráðum ekki yfir.

En ráðum við þá ekki yfir vopnavaldi Bandaríkjastjórnar í skjóli varnarsamningsins frá 1951 og Atlantshafsríkjanna í skjóli Atlantshafssáttmálans frá 1949? kynni einhver að spyrja. Þessir aðilar hafa skuldbundið sig til að verja okkur, ef við verðum fyrir árás. Gallinn er sá, að hér er um réttarágreining að ræða. Áður en afskipti þessara eða annarra aðila koma til, verðum við þess vegna að vera við því búnir, að þess sé krafizt, að úr réttarágreiningnum verði skorið. Þeir, sem óska afskipta þessara aðila, verða því, ef þeir vilja, að mark sé tekið á till. sínum, að segja til um, hvort þeir vilji láta skera úr deilunni með þeim hætti, sem um réttarágreining tíðkast á alþjóðavettvangi, þ.e.a.s. af alþjóðadómstóli, hvort sem það yrði alþjóðadómstóllinn í Haag eða gerðardómur.

Svipuðu máli gegnir um þá till., sem stundum hefur heyrzt, að við ættum að kæra Breta fyrir öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Mjög var athyglisvert, að hvorki Hermann Jónasson né Finnbogi R. Valdimarsson vitnuðu til þessa ráðs í umr. í Ed. Þögn þeirra um það hlýtur að koma af því, að þeir telji, að svo sem málum er háttað sé engrar ásjár þar að leita fyrir okkur. Enda fer það eftir því, hvernig málið yrði upp tekið hjá Sameinuðu þjóðunum eða öryggisráði þess, hvort Bretar gætu þegar í stað eytt kærumálinu með því einu að beita synjunarvaldi sínu, sem er almenna reglan um málsmeðferð í öryggisráðinu.

Sennilega þyrftu Bretar þó ekki á synjunarvaldinu að halda, þegar af því, að um það deilumál. sem nú er eftir á milli okkar og þeirra, þ.e.a.s. um vissan frest til að umþótta sig, áður en horfið er af miðum, liggur fyrir frá Genfarráðstefnunni í vor, að einungis vantaði eitt atkv. upp á, að 2/3 hlutar þeirra aðila, sem þar voru, væru Bretum sammála og okkur andvígir. Þar munaði sem sé atkv. okkar sjálfra, hvort Bretar fengju hinn lögáskilda meiri hl. fyrir sínum skilningi í andstöðu við okkur. Nú eru atkvæðahlutföll nokkuð önnur á fundum Sameinuðu þjóðanna en á Genfarráðstefnunni, m.a. af því, að aðilar Sameinuðu þjóðanna eru aðrir en aðilar Genfarráðstefnunnar. Hv. stjórnarandstæðingar telja bersýnilega harla litlar líkur til þess, að munurinn geti orðið svo mikill. að við höfum nokkra von á stuðningi tilskilins meiri hl., þ.e. hjá Sameinuðu þjóðunum við okkar málstað í þessu ágreiningsefni gegn Bretum.

En jafnvel þótt við ættum þar skilningi að mæta, er þess að gæta, hvað sáttmáli hinna Sameinuðu þjóða segir um friðsamlega lausn deilumála. Í 33. gr. sáttmálans er kveðið svo á, með leyfi hæstv. forseta:

„1) Aðilar að sérhverju deilumáli, sem með áframhaldi gæti stofnað í hættu heimsfriði og öryggi, skulu fyrst leita lausnar á deilumálinu með samningaumleitunum. rannsókn, miðlun, sættargerð, gerðardómi, dómsúrskurði, afnotum svæðisstofnana eða samninga eða með öðrum friðsamlegum aðferðum samkvæmt eigin vali.

2) Ef öryggisráðinu þykir nauðsyn krefja, skal það kveðja deiluaðila til að leita lausnar á deilumáli sínu á slíkan hátt.“

Þetta stendur í 33. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Þessum reglum verða þeir að hlíta, er vilja hljóta vernd Sameinuðu þjóðanna. En það er einmitt vegna þess, að ríkisstj. Íslands hefur reynt að leiða þessa deilu til lykta með viðræðum við Breta, að flutt er sú till., er hér er til umr. Flm. hennar vilja sem sagt brjóta þvert í bága við þær meginreglur, sem stofnskrá Sameinuðu þjóðanna setur sem skilyrði þess. að ríki fái þar áheyrn og stuðning. Svo ólíklegt sem það að þeirra dómi virðist vera, að við getum vænzt mikillar hjálpar hjá Sameinuðu þjóðunum í þessu máli vegna þeirrar skoðunar, sem vitað er að meiri hl. þeirra hefur á deiluefninu, þá mundum við firra okkur öllum möguleikum í þá átt, ef fylgt væri ráðum flm. þessarar tillögu. Ég efast ekki um, að það eru þessar ástæður, sem valda því, að hv. stjórnarandstæðingar hreyfa því nú ekki að kæra deiluna fyrir öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, eins og sumir þeirra höfðu þó áður lagt til.

Þá kem ég að því úrræði. sem ég vék að, þegar ég ræddi um þá hugmynd að leita til Bandaríkjastjórnar eða Atlantshafsbandalagsins, og nefnt er í þessu ákvæði stofnskrár Sameinuðu þjóðanna, þ.e.a.s. því, að leitað verði til alþjóðadómstóls um úrskurð deiluefnisins. Er enn hert á því í 3, tölulið 36. gr. stofnskrárinnar, þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Er öryggisráðið gerir tillögur sínar samkv. grein þessari, skal það einnig taka til greina, að fylgja skal þeirri venju, að deiluaðilar leggi lagadeilur fyrir alþjóðadómstólinn í samræmi við ákvæði samþykktar dómstólsins.“

Þetta stendur í 36, gr. sáttmálans.

Lítil þjóð, sem á allt sitt undir því, að lög og reglur gildi í heiminum, en ekki valdbeiting, má aldrei gera neitt það, sem hún sjálf trúir ekki á að standist fyrir alþjóðadómstóli, Íslenzka stjórnin lýsti sig og fúsa til þess að bera ágreininginn út af stækkun fiskveiðilögsögunnar 1952 undir alþjóðadómstólinn. Og þegar Bretar báru 1958 fram till. um, að ágreininginum yrði þá skotið til alþjóðadómsins, gerðu menn sér ljóst, að bein synjun hennar hlyti að verða okkur stórhættuleg í áliti annarra. Þess vegna hliðraði vinstri stjórnin sér hjá að svara. Ef ný ráðstefna hefði ekki verið á næstu grösum, hefði ekki verið unnt að skjóta sér undan úrskurði alþjóðadómstóls.

Nú er það ágreiningsefni úr sögunni og, einungis deilt um það, sem er okkur miklu hættuminna, einhvern umþóttunartíma Bretum til handa. Möguleikinn á því. að við töpum þeirri deilu fyrir dómi. kann þó að vera meiri. Úr sker, að dómur um þetta deilumál fæst ekki upp kveðinn fyrr en eftir 2–3 ár, og fer þá að verða mikill vafi á, hvort það borgi sig, jafnvel þótt við værum vissir um sigur, að bera málið undir dóm fremur en að semja um það nú þegar.

Ég hef þá rakið öll þau úrræði, sem til mála hafa komið um lausn þessarar deilu við Breta. Hnígur þar allt að einu. Það að leita lausnar hennar með viðræðum við Breta, með samningaumleitunum, eins og segir í stofnskrá Sameinuðu þjóðanna, er ekki aðeins eina úrræðið, sem raunverulega hefur verið bent á, heldur beinlínis skylt samkv. alþjóðasamningum. Annað mál er, hvort þær viðræður eða umleitanir leiða til þess, að samningar komist á. Enn er það ekki sýnt. Einungis er verið að kanna, hvort og með hverjum hætti það sé gerlegt. Þá reynir mjög á sanngirni Breta. Við teljum, að hingað til hafi mjög á hana skort.

En Bretar hafa ekki síður en við ríka ástæðu til að leiða deiluna til lykta. Þar við bætist, að hinir æðstu valdamenn þeirra láta nú málið miklu meira til sín taka en áður. Þeir vita áreiðanlega. að Bretar hafa ekki haft sæmd af herhlaupi sínu hingað. Verður að ætla, að þeir líti á málin með meiri skilningi, víðsýni og þar með sanngirni en áður hefur gætt af Breta hálfu.

En er óeðlilegt, að þeir minnist þess tilboðs, sem íslenzka ríkisstj., vinstri stjórnin, gerði tvivegis á árinu 1958? Af hálfu þáv. hæstv. ríkisstj.. vinstri stjórnarinnar, var öllum aðildarríkjum Atlantshafsbandalagsins með skeyti, dags. 18. maí, boðið að veiða upp að 6 mílna mörkum um þriggja ára tímabil gegn viðurkenningu á 12 mílna fiskveiðilögsögu og öðrum nánar tilteknum skilyrðum. Þessu tilboði íslenzku ríkisstj. var þá hafnað. En eftir að sýnt var, að Bretar mundu koma með herskipaflota hingað til lands, ef ekki yrði að gert, var tilboðið endurtekið í skeyti hinn 22. ágúst sama ár. Því var þá enn hafnað. Þetta endurtekna tilboð vinstri stjórnarinnar sýnir, að þáv. hæstv. ríkisstj. taldi sanngjarnt að veita öðrum nokkurn umþóttunartíma, áður en þeir fyrir fullt og allt hyrfu út fyrir 12 mílna takmörkin.

Úr því að tímabundin fiskveiðiheimild var metin sanngjörn af íslenzkum stjórnvöldum 1958 og beinlínis boðin fram af okkur tvívegis, er viðbúið, að okkur reynist erfitt að sannfæra aðra um, að brezka stjórnin sýni ósanngirni, ef hún býðst til þess að semja á þessum grundvelli.

Sumir segja: Munurinn er sá, að síðan hafa Bretar beitt okkur ofbeldi, og það er ætið hættulegt að láta undan ofbeldismanni. — Víst er það fáum okkar að skapi. En hver er það, sem vægir eða verður undan að láta, ef aðgengileg lausn kynni að finnast á þessum grundvelli? Óneitanlega verða það þá Bretar, sem hverfa frá sínum meginkröfum. Þeir láta niður falla mótmæli gegn 12 mílna fiskveiðilögsögu, og úr sögunni er krafa þeirra um eilífan fiskveiðirétt innan hennar. Sættir nást þá á sama grundvelli og vinstri stjórnin bauð tvívegis fram strax í upphafi.

Hér er þó einungis um grundvöll að ræða. Breyttar aðstæður m.a. í fiskveiðum okkar og nánari íhugun allra atvika hljóta að leiða til þess, að með sanngirni verði ekki mælt á móti ýmsum fyrirvörum og viðaukum af okkar hálfu nú umfram það, sem vinstri stjórnin bauð 1958, Í þessu sem öðru verðum við sjálfir umfram allt að sýna sanngirni. Við höfum öðlazt samúð margra, vegna þess að við vorum beittir ósanngirni. Leikurinn milli okkar og Breta. var of ójafn til þess, að þeir gætu haft af honum sæmd eða samúð. En jafnskjótt og þeir breyta um og bjóða eða láta þess kost, sem okkur er ótvírætt betra en það, er íslenzka stjórnin sjálf bauð fyrir rúmum tveimur árum, þá er hætta á, að leikurinn snúist við. Þá er yfirvofandi missir þeirrar samúðar, sem er okkar mesti styrkur og við megum sízt án vera.

En þó að tilboð vinstri stjórnarinnar frá 1958 sé óhagganleg staðreynd og þó að erfitt muni reynast að sannfæra aðra um sanngirni okkar, ef við neitum því nú sem umræðugrundvelli, þá kynni einhver að spyrja: Hvernig kemur þetta heim við ályktun Alþingis frá 5. maí 1959? Mundum við ekki vera að minnka fiskveiðilandhelgi okkar eða lögsögu með því að leyfa Bretum fiskveiðar innan hennar, þótt mjög væri bundið tíma og öðrum takmörkunum? Ekki lítur annað mesta stórveldi heims, Rússland, svo á um sjálft sig. Rússland hefur tekið sér ekki aðeins 12 mílna fiskveiðilögsögu, heldur 12 mílna algera landhelgi. Engu að síður hefur rússneska ríkisstjórnin samið við þá brezku um tímabundinn, takmarkaðan fiskveiðirétt Bretum til handa innan landhelgi Rússlands. Þetta hefur rússneska stjórnin gert, vegna þess að Rússar hafa metið eyðingu deilu við Breta út af þessu réttarveizlunnar virði eða fengið einhver önnur hlunnindi hjá Bretum í staðinn. Þarna beita Rússar fullveldi sínu yfir landhelginni til að láta Bretum í té hlunnindi, sem þeir ella nytu ekki. Á sama veg getum við, ef okkur þykir henta, beitt lögsögu okkar svo, að Bretar eða aðrir fái hér takmörkuð fiskveiðihlunnindi með þeim skilyrðum, sem við setjum.

Sú ákvörðun væri hliðstæð þeirri. þegar eftir setningu fiskveiðilöggjafarinnar 1922 voru veittar undanþágur frá henni. Sú ákvörðun var umdeild, en skerti að sjálfsögðu á engan hátt fullveldi okkar eða úrslitaráð í þessum efnum. Maður heldur áfram að vera eigandi húss, þótt hann leyfi öðrum takmörkuð afnot þess, t.d. leigu herbergis um sinn. Menn kann að greina á um, hvort slíkt sé æskilegt eða hyggilegt. En sú ákvörðun haggar eignarréttinum ekki að neinu, og vafalaust mundi sá maður telja sig hafa orðið ofan á í deilu um eignarrétt eða afnotarétt yfir húsi. sem fengi gagnaðila, er héldi því fram, að hann ætti húsið með honum eða hefði yfir því eilífa afnotakvöð, til að sætta sig við örfárra ára not gegn fullu gjaldi.

Í öllum skiptum manna á milli reynist farsælast að láta rólega íhugun og góðvild ráða gerðum sínum. Gremja og heiftarhugur horfa aftur á móti sjaldnast til góðs. Þetta á ekki síður við um samskipti þjóða en einstaklinga. Þess vegna ber okkur að kanna til hlítar, með hverjum kjörum hægt er að leiða deiluna við Breta til lykta. Enn verður ekki með vissu séð, hvort það er hægt með aðgengilegum kjörum. Sumum, þ. á m. hv. síðasta ræðumanni. Finnboga R. Valdimarssyni. finnst tortryggilegt, hversu lengi þær umleitanir hafa dregizt. En þegar íhugað er, að það tók Breta og Norðmenn marga mánuði og endurtekin fundarhöld að komast að niðurstöðu í samningum sínum nú í sumar, þá þarf engan að undra, þótt nokkuð langan tíma taki að kanna deilumál okkar og Breta til hlítar, svo miklu meira sem borið hefur á milli Breta og okkar í þessu máli en Norðmanna og Breta.

Fyrst þegar málið liggur ljóst fyrir, er tímabært að taka um það ákvörðun. Þegar af þeirri ástæðu er tillaga sú, sem hér er til umræðu, vanhugsuð og brýtur á móti hagsmunum íslenzku þjóðarinnar.