25.11.1960
Sameinað þing: 19. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 659 í D-deild Alþingistíðinda. (2707)

97. mál, landhelgismál

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Hv. 4. þm. Austf., Lúðvík Jósefsson, vék nokkuð að meðferð sinni á landhelgismálinu í vinstri stjórninni á árinu 1957. Hann skýrði þar frá málavöxtum, en því miður gat þessi hv. þm. ekki farið rétt með. Hermann Jónasson vék nokkuð að þessu í sinni ræðu, og samkvæmt ræðu hans og þeim skjölum, sem fyrir liggja í málinu, var gangur málsins í fáum orðum þessi:

Þegar vinstri stjórnin var mynduð, var því lýst yfir í hennar stefnuskrá, að hún ætlaði að beita sér fyrir útfærslu fiskveiðilögsögunnar. Ekkert sagði í stefnuskránni um það, hversu mikið fiskveiðilögsagan skyldi færð út eða hvenær á kjörtímabilinu það skyldi gert. Sjútvmrh. Lúðvík Jósefsson sendi ríkisstj. í aprílmánuði 1957 greinargerð um landhelgismálið. Í þeirri greinargerð skýrði hann frá því, að um þrjár leiðir væri að velja í sambandi við útfærslu fiskveiðilögsögunnar. Hann gerði ekki upp á milli þessara leiða og lagði ekki til, að nein þeirra yrði farin annarri frekar. En með bréfi 21. júní 1957 kemur loks tillaga ráðh., og með leyfi hæstv. forseta, hljóðar hún svo:

„Með sérstöku tilliti til þess, að umrædd alþjóðaráðstefna. er fram undan um víðáttu landhelgi, þá tel ég rétt að fara að þessu sinni þá leið, sem meðfylgjandi uppdráttur sýnir, en hún byggir á breyttum grunnlínum og tímabundinni útfærslu á þremur stöðum við landið. Með þessari leið breytum við ekki 4 mílna reglunni að þessu sinni, en náum hins vegar þeirri stækkun á friðunarsvæðinu, sem mestu máli skiptir.“

M.ö.o.: ráðh. leggur til, að haldið sé fast við 12 mílurnar, grunnlínum sé breytt og tímabundin friðun sé tekin upp á þrem stöðum, fyrir Austfjörðum. Vestfjörðum og út af Faxaflóa.

Alþfl. og Framsfl. vildu ekki á þessar tillögur fallast, vegna þess að fram undan var væntanleg ráðstefna í Genf og það hefði spillt mjög aðstöðu okkar þar, ef við hefðum farið í útfærslu fiskveiðilögsögunnar rétt fyrir þá ráðstefnu. Sjútvmrh. vildi ekki sætta sig við þessa afgreiðslu okkar á málinu, og hann skrifaði bréf til Sjálfstfl. í okt. 1957 og lagði þessar till. fyrir Sjálfstfl. með tilmælum um stuðning hans við till. Virtist í bréfinu, að sjútvmrh. teldi eina vandaatriðið í sambandi við málið vera að ákveða, hvenær í þessa útfærslu skyldi ráðizt, og bauð hann upp á, að það skyldi gert hvort heldur væri fyrir eða eftir Genfarráðstefnuna. En á þetta vildi Sjálfstfl. ekki fallast. Af hálfu sjútvmrh. lá því ekki fyrir í vinstri stjórninni nein till. um útfærslu fiskveiðilögsögunnar, þegar Genfarráðstefnan var haldin, önnur en sú, sem ég nú hef lýst.

Á Genfarráðstefnunni lét ég lýsa því yfir, að við Íslendingar mundum færa fiskveiðilögsöguna út í 12 mílur strax að ráðstefnunni lokinni. Og þann 8. maí, rétt eftir að ráðstefnunni lauk, lýsti ég yfir því á fundi Atlantshafsbandalagsins í Kaupmannahöfn, að við Íslendingar mundum, þegar ég kæmi heim, færa fiskveiðilögsöguna út í 12 mílur, og við óskuðum eftir, að bandalagsþjóðir viðurkenndu þessa útfærslu.

Það er því algerlega rangt, að á milli okkar Alþfl.-manna í ríkisstj. og Alþb. eða annarra ráðh. hafi verið ágreiningur um það, hvort í 12 mílna útfærsluna skyldi farið eða ekki eða hvort hún skyldi gerð þarna eftir ráðstefnuna. Það eina, sem ágreiningur varð um, var það, að við Alþfl.-ráðherrarnir lögðum áherzlu á, að við fengjum tækifæri til þess að kynna málið fyrir þeim þjóðum, sem hagsmuna höfðu að gæta í sambandi við út færsluna, með það fyrir augum að afstýra erfiðleikum og árekstrum. Alþb.-ráðherrarnir máttu ekki heyra það nefnt, að nokkur frestur væri gefinn til þess að reyna að afstýra árekstrum og illindum.

Það er dálítið broslegt að hlusta hér á ræðumenn Framsfl. reyna að gera grein fyrir því, að einhver meginmunur sé á þeim tilraunum, sem gerðar voru í vinstri stjórninni til þess að leysa ágreininginn um fiskveiðilögsöguna innan Atlantshafsbandalagsins, og þeim tilraunum, sem við nú erum að gera til þess að eyða deilunni við Breta. Hvað var það, sem Hermann Jónasson var að gera í vinstri stjórninni til þess að reyna að eyða deilunni út af útfærslunni? Hann bauð, að erlendar þjóðir mættu fiska í 3 ár upp að 6 mílum, ef þær vildu viðurkenna 12 mílurnar. Hann bauð að breyta landhelgisreglugerðinni samkvæmt þessu, ef hún fengi viðurkenningu. Hvað erum við að gera núna? Við erum að kanna, með hvaða kjörum möguleikar eru á því að fá viðurkenningu. Þegar við höfum komizt til botns í því, hvað er hægt að fá, þá verður gert upp, hvort það er aðgengilegt eða ekki.

Hv. þm. Eysteinn Jónsson sagði hér áðan, að það hefði verið stórsigur fyrir okkur í landhelgismálinu, ef Atlantshafsbandalagsþjóðirnar hefðu viljað viðurkenna útfærsluna í 12 mílur gegn því að fá að veiða upp að 6 mílum í 3 ár. Þessu lýsti þessi hv. þm. sem stórsigri fyrir okkur, ef það hefði fengizt fram. Við eigum þess sennilega kost að geta leyst málið á mjög svipuðum grundvelli nú og þarna er rætt um. En við teljum þetta ekki sigur. Við teljum þetta ekki fullnægjandi sigur.

Nei, sannleikurinn er sá um afstöðu Framsfl. til þeirra umræðna. sem staðið hafa yfir nú og stóðu yfir 1958 og fóru fram einnig við útfærsluna 1952, að 1952 og 1958 er hann í ábyrgri stjórnaraðstöðu, þá er sjálfsagt að reyna að ræða við aðrar þjóðir til þess að losna við deilur og koma landhelgismálinu heilu í höfn. Nú er Framsfl. kominn í stjórnarandstöðu, og þá er þetta reginglæpur, sem má ekki fremja undir neinum kringumstæðum.

Í þessum umr. hefur mikil áherzla verið á það lögð af hálfu stjórnarandstöðunnar, að fiskveiðideilan við Breta væri í rauninni leyst, Bretar hefðu gefizt upp og við hefðum sigrað. Þess vegna væri ástæðulaust og öldungis óþarft að taka upp viðræður við þá nú. Betur, að þetta væri satt. En því miður er þessu á allt annan veg farið, og allir vita, að svo er. Fullyrðingar stjórnarandstöðunnar í þessu sambandi má ekki heldur taka alvarlega. Þær eru fram settar í leit að rökum gegn ákvörðunum ríkisstj. um viðræðurnar við Breta og eru gott dæmi um, hvaða vinnubrögð stjórnarandstaðan hefur tekið upp í málinu.

Í utanrmn., skömmu áður en viðræðurnar voru ákveðnar, kvað t.d. nokkuð við annan tón hjá stjórnarandstöðunni. Hv. 2. þm. Vestf., Hermann Jónasson, lýsti ástandinu þannig, að því er segir í fundargerð utanrmn. 13. júlí s.l.: „Hermann Jónasson tók fram, að atburðir undanfarið sýndu, að Bretar væru að færa sig upp á skaftið í landhelgismálinu, enda væri senn 3 mánaða frestur sá, sem brezkir togaraeigendur hefðu boðað að þeir mundu banna togurum sínum að veiða innan 12 mílna, fiskveiðilögsögu við Ísland, útrunninn. Óskaði hann því, að ríkisstj. gæfi n. skýrslu um viðhorf hennar til málsins og hvaða mótaðgerðum gegn Bretum hún hygðist nú beita umfram venjuleg mótmæli.“

Hér er þessi hv. þm. sannarlega ekki á því, að deilan sé leyst. Hann segir þvert á móti, að Bretar séu að færa sig upp á skaftið og deilan hafi aldrei verið jafnhörð og nú.

Síðar í þessari sömu fundargerð segir eftir þm.: „Væri það greinilegt nú, eftir að lokið væri alþjóðafundum um þessi mál, að Bretar væru að færa sig upp á skaftið hér við Ísland, og gæti slíkt endað með stórslysum.“

Stórslysahættan er ekkert efamál í huga hv. þm. 13. júlí, og hann bar í utanrmn. fram till. um aðgerðir til að afstýra þessari stórhættu, till. þess efnis, að við skyldum óska eftir því við stjórn Bandaríkjanna, að bandaríski flotinn yrði sendur á Íslandsmið til að halda, þar uppi löggæzlu og flæma Breta burt. Hvernig má það nú vera, að fiskveiðideilan við Breta sé skyndilega algerlega leyst með fullum sigri okkar og þess vegna engin þörf viðræðna, fyrst það var skoðun þm. 13. júlí s.l., að deilan hefði aldrei verið harðari en þá og að Bretar væru að færa sig upp á skaftið?

Má ég minna Framsfl. aðeins á fortíðina einu sinni enn? Þegar fiskveiðilögsagan var færð út 1952, sendu Bretar engin herskip til Íslands til að vernda togara sína við veiðar innan hinnar nýju fiskveiðilögsögu. Togararnir færðu sig út fyrir 4 mílurnar, og ef þeir gerðust brotlegir við hina nýju fiskveiðilögsögu, gátu íslenzk varðskip handtekið þá með sama hætti og áður. Bretar settu hins vegar löndunarbann á ísvarinn fisk í Bretlandi. Þetta ástand taldi Framsfl. þá svo alvarlegt, að hann átti þátt í því að taka upp viðræður við Breta um fiskveiðilögsöguna sjálfa og bauð Bretum, eftir að 4 mílurnar og breyttar grunnlínur höfðu verið í gildi marga mánuði, að alþjóðadómstóll skyldi dæma um fiskveiðitakmörkin og þeim breytt samkvæmt niðurstöðu dómsins, ef Bretar í staðinn aðeins vildu létta löndunarbanninu af. En nú, þegar Framsfl. er í stjórnarandstöðu og Bretar hafa sent hingað bryndreka sína, sem með ofbeldi vernda brezka togara við veiðar innan íslenzkrar fiskveiðilögsögu og stofna þannig lífi íslenzkra sjómanna í hættu, auk þess sem brezki fiskmarkaðurinn er lokaður, þá er það slík reginyfirsjón í augum Framsfl. að ræða við Breta um lausn á deilunni, að viðræðurnar einar vill Framsfl. banna með þál. Menn, sem svona tala og svona hugsa, hafast sannarlega annað að í stjórnarandstöðu heldur en þegar þeir eru í ábyrgri stjórnaraðstöðu.

Framsfl. hefur lagt til í utanrmn., að við færum fram á það við stjórn Bandaríkjanna, að bandaríski flotinn kæmi okkur til aðstoðar í deilunni við Breta og tæki upp löggæzlu í íslenzkri landhelgi. Þetta sýnir ef til vill betur en flest annað, hversu alvarlegum augum Framsfl. lítur á málið í raun og veru. Slíka till. mundi flokkurinn ekki bera fram, ef hann væri þeirrar skoðunar, að Bretar væru sigraðir og deilan leyst. Hitt er svo annað mál, til hvers það leiddi að fara leið Framsfl. til úrlausnar á deilunni og biðja Bandaríkjamenn um herskipavernd í stað þess að fara leið ríkisstj. og freista að finna úrlausn með friðsamlegum viðræðum. Flestir Íslendingar eru án efa þeirrar skoðunar, að reyna beri til þrautar að leysa deiluna með friðsamlegum hætti, en gera sig ekki seka um það að fara leið Framsfl. og verða að viðundri fyrir að óska eftir því, að eitt stærsta herveldi heimsins sendi flota sinn til atlögu á Íslandsmiðum.

Í fullan áratug hafa Íslendingar nú barizt fyrir því á alþjóðavettvangi, að settar væru almennar reglur um víðáttu fiskveiðilögsögu, er fullnægði þörfum Íslendinga. Þessi barátta hefur byggzt á því, að þjóðin á alla tilveru sína undir fiskveiðum. Verndun fiskimiðanna er því grundvöllur tilveru hennar. Á tiltölulega skömmum tíma hefur þjóðinni orðið mikið ágengt í þessari baráttu. Er hún hófst, voru 3 mílur talin algild regla. Í dag talar enginn um 3 mílna fiskveiðilögsögu. Fullgild alþjóðasamþykkt, er viðurkenni 12 mílna fiskveiðilögsögu, er að vísu ekki til. Íslendingar reyndu á tveimur ráðstefnum að fá skilyrðislausa viðurkenningu fyrir 12 mílna fiskveiðilögsögu. Það tókst ekki. Báðar ráðstefnurnar enduðu án lögformlegrar ályktunar um málið. Eftir síðari ráðstefnuna stóðu málin þannig, að 12 mílurnar út af fyrir sig valda ekki erfiðleikum. Deilan stendur hins vegar um hitt, hvort og að hve miklu leyti og hversu langur frestur skuli veittur öðrum þjóðum til að samlaga sig breyttum aðstæðum og hverfa brott úr 12 mílunum. Engar líkur eru til, að þetta mál verði leyst eða tekið upp til lausnar á alþjóðaráðstefnu í nánustu framtíð. 10 ára umsýslan Sameinuðu þjóðanna, alþjóðalaganefndarinnar, um sérstaka ráðstefnu hefur þokað langt í áttina, en ekki skilað því fullleystu. Tíma þessa vettvangs virðist vera lokið í bili, í þessu ljósi verðum við að skoða málið í dag.

Landhelgismáli okkar er ekki lokið. Deilan stendur enn. Spurningin fyrir okkur er því sú, hvernig við eigum nú að halda á málinu, þannig að við sjáum hag okkar sem bezt borgið. Þeirri spurningu verður ekki svarað nema með athugun og mati á þeim leiðum, sem til greina koma, og vali á þeirri leið, sem skynsamlegust og farsælust telst til verndar okkar hagsmunum. Í þessu máli á þjóðin ekki að þola leiðtogum sínum ábyrgðarlausa sýndarmennsku eða bein skemmdarstörf.

Að mínum dómi koma fjórar leiðir til athugunar: Fyrsta leiðin að leita til þriðja aðila um aðstoð. Er þá naumast um aðra að ræða en Sameinuðu þjóðirnar eða Atlantshafsbandalagið. Í öðru lagi að leggja málið fyrir alþjóðadómstólinn í Haag. Í þriðja lagi að reyna að leysa málið með viðræðum við eina deiluaðilann, þ.e.a.s. Breta. Og í fjórða lagi að halda áfram striki okkar eins og hingað til og gera ekki frekari ráðstafanir.

Ef við leitum til Sameinuðu þjóðanna eða NATO og óskum aðstoðar þeirra, fáum við sennilega sama svarið í báðum stöðunum. Okkur yrði bent á, að ágreiningur sé á milli okkar og Breta um lögmæti aðgerða okkar í landhelgismálinu. Í stofnskrá bæði Sameinuðu þjóðanna og NATO er kveðið svo á, að ágreining þjóða í milli beri að reyna að leysa með viðræðum milli deiluaðila. Beri þær viðræður ekki árangur, hafa Sameinuðu þjóðirnar komið upp alþjóðadómstól til að fjalla um réttarágreining. Ábending um viðræður eða alþjóðadómstól er því líklegasti árangurinn af málaleitan um aðstoð, hvort heldur við leitum til Sameinuðu þjóðanna eða NATO. Í huga okkar er að sjálfsögðu enginn efi til á því, að aðgerðir okkar í landhelgismálinu stæðust fyrir hvaða dómi sem er. Málskot til alþjóðadómstóls gæti aldrei leitt til annars en staðfestingar á aðgerðum okkar. Um þetta efast enginn Íslendingur. Gallinn á þessari leið er hins vegar m.a. sá, að málsmeðferð fyrir alþjóðadómi tekur mörg ár, og á meðan heldur deilan og árekstrarnir á hafinu áfram, nema því aðeins að aðilar komi sér saman um millibilsástand, á meðan málið er fyrir dóminum. Sé hægt að komast að slíku samkomulagi um millibilsástand, ætti að vera jafnauðvelt að komast að samkomulagi um málið í heild, þar eð 12 mílurnar valda ekki þeim ágreiningi, sem áður var. Væri þá auðvitað miklu réttara að leysa málið í heild heldur en að gera bráðabirgðasamkomulag og bíða dóms.

Spurningin, sem við okkur blasir, er því í rauninni aðeins, hvort við með viðræðum við hinn deiluaðilann eigum að kanna leiðir til að leysa deiluna eða halda okkar strik án allra tilrauna til þess að komast að samkomulagi og láta reka á reiðanum.

Mér virðist ekkert áhorfsmál, hvað gera skuli. Við fordæmum réttilega ofbeldisaðgerðir Breta við Ísland. En við megum ekki láta þær valda því, að við viljum ekki leysa deiluna, ef þess eru tök á fullnægjandi hátt. Slík afstaða mundi fyrst og fremst hæfa okkur sjálfa. Mat á þeim kjörum, sem í boði eru, hlýtur að skera úr um það, hvort deilan er leysanleg með samkomulagi eða ekki. Séð þau kjör ekki fullnægjandi, geta þau ekki leyst deiluna. Séu þau hins vegar fullnægjandi, eigum við hiklaust að ganga að þeim.

Hv. 2. þm. Vestf., Hermann Jónasson, sagði hér í hv. Ed. fyrir nokkrum dögum, að það hefði verið ábyrgðarleysi af sér árið 1958, ef hann hefði ekki gengið úr skugga um, hvort viðurkenning væri fáanleg fyrir 12 mílunum, gegn því að leyfa erlendum skipum að veiða upp að 6 mílum næstu 3 ár. Þessi sami þm. sagði enn fremur, að ef viðurkenningin hefði verið fáanleg með þessu móti. þá hefði það verið ábyrgðarleysi af honum að hafna þeirri lausn. Hv. þm. Eysteinn Jónsson sagði hér í kvöld, að ef við hefðum getað fengið slíka lausn sem hér var rætt um á deilunni 1958, þá hefði það verið stórsigur fyrir okkur í málinu. Í dag vitum við, að viðurkenningin fyrir 12 mílunum veldur ekki þeim erfiðleikum sem árið 1958. Það er nú ekki beðið eftir neinni alþjóðaráðstefnu um landhelgismálið. Þess vegna ber okkur skylda til að kanna nú eins og 1958, hvaða möguleikar eru á lausn deilunnar. Munurinn er sá einn, að í dag bjóðum við ekki veiðiréttindi upp að 6 mílum í 3 ár án takmarkana og án þess að annað komi í móti, eins og gert var 1958.

Viðurkenning á 12 mílunum er grundvallarskilyrði fyrir lausn deilunnar. Með hvaða hætti viðurkenningin er fáanleg, sker úr um það eins og 1958, hvort deilan er leysanleg með samkomulagi eða ekki. — Góða nótt.