13.12.1960
Efri deild: 35. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 368 í B-deild Alþingistíðinda. (271)

130. mál, söluskattur

Frsm. 1. minni hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. 11. þm. Reykv. taldi, að ég hefði ranglega látið að því liggja, að norski hagfræðingurinn, Per Dragland, hefði verið á vegum stjórnarflokkanna. Hann sagði, eins og satt er, að samstarfsnefnd launþegasamtaka hefði staðið fyrir því að fá hann hingað. Þetta haggar ekki því efnislega, sem ég lét að liggja í minni ræðu í gær. Formaður þessarar nefndar, Sigurður Ingimundarson alþingismaður og stjórnarliði, stóð fyrir þessum málum, eins og sést í Morgunblaðinu frá 15. sept. í haust, þar sem hann gerir grein fyrir komu mannsins og störfum. Og til frekari sönnunar því, að hér sé ekki um hrein altæk launþegasamtök að ræða, er það, að enginn aðili að þessari nefnd er í Alþýðusambandi Íslands. Í raun og veru er það Alþýðusambandið, sem skipti mestu máli að væri aðili, ef fenginn væri maður til að dæma um efnahagsaðgerðirnar, vegna þess að efnahagsaðgerðirnar koma harðast niður á því fólki, sem er almenningur landsins, lágtekjufólkinu, meðaltekjufólkinu.

Í skýrslu eða grg. hagfræðingsins kennir margra grasa. Það er auðfundið, að hann vill hughreysta þá, sem orðið hafa fyrir efnahagsaðgerðunum. Hann vill hughreysta þá. En jafnframt skýtur upp hér og þar í álitsgerð hans ugg hans um það, að efnahagsaðgerðirnar fari illa með fólkið, fari illa með almenning. Ég las upp í gær þrjár glefsur úr álitsgerð hagfræðingsins, gripnar upp hér og þar, sem sanna það, sem ég segi, að þessi uggur hefur búið í hug hagfræðingsins, þó að hann teldi ekki sitt erindi hingað að rífa niður það, sem búið var að setja upp í fast kerfi, eins og þessar efnahagsaðgerðir. Ég las sérstaklega það, sem hann sagði um söluskattsviðaukann, og þar kom fram áherzlan, sem hann leggur á það, að hann eigi að sinum dómi að afnemast svo fljótt sem við verður komið. Og hann tekur einnig fram, að sér hafi verið sagt, að hann ætti aðeins að vera til bráðabirgða.

Hv. 11. þm. Reykv. las upp þátt úr álitsgerðinni til þess að sýna, að í raun og veru hefði hagfræðingurinn litið svo á, að kjaraskerðingin væri ekki stórkostleg. Af þessum kafla einum saman, sem hv. þm. las upp, mætti ráða, að eiginlega væru ekki skert kjör, svo að teljandi væri. En hér segir á öðrum stað í álitsgerðinni, og ég vil — með leyfi hæstv. forseta — lesa það upp að gefnu tilefni, — hér segir hagfræðingurinn, að hann hafi fengið Hagstofu Íslands til að reikna út áhrif aðgerðanna á afkomu meðalfjölskyldu í Reykjavík, og út af þeim útreikningum ályktar hann orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Aðgerðirnar munu auka útgjöldin hjá meðalfjölskyldunni um ca. 3000 kr. nettó, miðað við heildarútgjöldin. Þetta þýðir 4.5% lækkun kaupmáttarins.“

Þetta er niðurstaðan að því er snertir meðalfjölskylduna, ef hún getur reiknað sér til sparnaðar hækkun fjölskyldubóta og lækkun tekjuskatts. En nú er langt frá því, að allir geti reiknað sér á sama hátt hækkun fjölskyldubótanna til sparnaðar á móti auknum álögum af efnahagsaðgerðunum eða lækkun tekjuskattsins. Þeir, sem voru þannig settir, að þeir höfðu ekki tekjur svo miklar, að þeir þyrftu að greiða tekjuskatt, svo að teljandi væri, fara algerlega á mis við þennan sparnað. Og þetta er það, sem ég fyrir mitt leyti hef allra mest við efnahagsaðgerðirnar að athuga og sérstaklega þá söluskattinn, að hann leggst með fullum þunga á þá, sem eru minni máttar, jafnvel mestum þunga, af því að hann er neyzluskattur.

Það hefur í þessum umr. verið dálítið minnzt á skoðanaskipti Alþfl., sem nú gengur með í þeim leik að taka upp óbeina skatta í stað beinna skatta. Vitanlega þarf ekkert að vera við skoðanaskipti að athuga. Séra Arnljótur Ólafsson á Sauðanesi, sá merki maður, var einu sinni borinn brigzlum á Alþingi fyrir það, að hann hefði skipt um skoðun. Hann svaraði: „Já, ég hef fengið nýja og betri skoðun.“ Það er ekkert við skoðanaskipti Alþfl. að athuga, ef hann gæti svarað eins og Arnljótur: Ég hef fengið nýja og betri skoðun. — Gallinn er, að hann hefur fengið verri skoðun en hann hafði, gamla íhaldsskoðun. Tímarnir eru að vísu nýir, eins og hv. 9. landsk. þm. sagði réttilega í gær, en skoðunin, sem Alþfl. hefur fengið, er gömul. Hún er bara ný fyrir hann. Þess vegna getur hann ekki afsakað skoðanaskipti sín gagnvart þeim, sem hann hefur aðallega umboð fyrir. Sú skoðun, sem hann hefur tekið upp í þessum efnum, er ekki við hæfi flokks, sem kennir sig við alþýðu. Stefna hans með upptöku óbeinna skatta eingöngu er ekki miðuð við hagsmuni alþýðunnar.

Tekjuöflun fyrir ríki og sveitarfélög getur verið heppilegt að hafa með meira en einu móti, þ.e. bæði í formi beinna og óbeinna skatta samtímis. En að afnema beina skatta, eins og Alþfl. virðist vilja nú, og taka upp háan söluskatt í staðinn, er ekki stefna flokks, sem getur sagt: Ég fylgi nýrri skoðun og betri fyrir almenning.

Það var rétt athugað hjá hv. 9. landsk. þm., að Framsfl. hefur stundum verið með því að leggja á söluskatt. Söluskattur er alls ekkert bannorð hjá Framsfl. En það eru takmörk fyrir því, hvað Framsfl. getur gengið inn á að hafa háan söluskatt. Hér er um að ræða, hvort leggja eigi framvegis 16.5% söluskatt á allan innflutning. Við framsóknarmenn teljum það nú allt of háan söluskatt, ekki sízt af því, að hann er liður í efnahagskerfi, sem við teljum allt of harkalegt í garð almennings að öðru leyti líka. Kerfi þessu erum við andvígir í heild og þar með þessum háa söluskatti.

Við viljum gerbreytingu á þessu kerfi og teljum, að í ljós sé komið, að það sé vél, sem brýtur hjól sín. Talnafræðingar settu upp þessa vél, en sást yfir, að mannlífið lýtur ekki lögmálum dauðra hluta. Nú er kreppa að koma yfir þjóðina, heimagerð kreppa af völdum þessa kerfis. Samdráttarlögmál kerfisins leiða af sér lífskjararýrnun, meiri og meiri. Söluskattsviðaukinn er einn kreppuvaldurinn, og við erum á móti honum sem slíkum. Við teljum ekki lappandi upp á kerfið og viljum, að það sé lagt niður og horfið frá samdráttarstefnunni og tekin upp framfarastefna, sú stefna, sem hefur það að markmiði að skapa almenningi skilyrði til að efla hag sinn og sigrast á örðugleikunum, sem við er að fást í landi voru. Á annan hátt sigrast þjóðin aldrei á örðugleikunum. Um leið og við erum á móti skattaukanum, erum við á móti samdráttarstefnunni og viljum alls ekki lappa upp á hana, teljum okkur ekki hafa neinar skyldur við hana, þvert á móti skyldur til að standa gegn henni. Við bentum á aðrar leiðir, þegar samdráttarkerfið var tekið upp. Við töldum, að það ætti að gera efnahagsaðgerðir í áföngum, ekki gera kerfisbyltingu og fara að með ósköpum, eins og gert var með þeim afleiðingum, sem nú eru að koma í ljós. Og nú kemur mér enn norski hagfræðingurinn Per Dragland í hug og álitsgerð hans. Hv. 9. landsk. sagði, að hann fyndi ekki út úr orðum þeim, er ég las úr skýrslu hagfræðingsins í gær, að hann vildi leggja niður söluskattsauka. Ég skal endurtaka eina setningu, sem ég las úr álitsgerðinni: „Slík lækkun“ — þar á hann við skattaukann — „ætti að mínum dómi að ganga fyrir, jafnskjótt og hægt er að framkvæma hana.“

Ráðlegging hagfræðingsins er ótvíræð. Hans dómur er, að afnema eigi skattinn, jafnskjótt og hægt er að framkvæma afnámið.

Það er margt fleira í skýrslunni, sem ég tel styðja skoðun okkar framsóknarmanna. Þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Allir, sem heimsækja Ísland, hljóta að verða undrandi á þeirri öru þróun, sem á sér stað í landinu. Ég fyrir mitt leyti hef oft spurt sjálfan mig, hvernig 170 þúsundir manna geti fengið slíku áorkað á svo mörgum sviðum. Menn verða að gera sér ljóst samhengið milli þessarar öru þróunar og jafnvægisleysisins, sem landið á við að stríða. Sama jafnvægisleysi rekumst við á í öðrum löndum með hraðfara þróun, þar sem stjórnarfar er lýðræðislegt og samtakafrelsi ríkjandi fyrir hina mismunandi hagsmunahópa. Engu að síður verður að leiðrétta skekkjurnar smám saman til þess að koma í veg fyrir, að þær ógni áframhaldandi þróun. Efnahagsaðgerðirnar eru að mínum dómi síðbúin, en róttæk tilraun til slíkrar leiðréttingar:

Þetta virðist mér vera af skilningi mælt um framfarirnar, sem orðið hafa á Íslandi fyrir kraft þeirrar félagslegu og lýðræðislegu umbótastefnu, sem hér var ríkjandi síðustu áratugi. Við framsóknarmenn töldum einmitt eins og Per Dragland, að leiðrétta yrði smám saman skekkjurnar, sem orðið höfðu. Við vildum leiðrétta þær í áföngum, smátt og smátt, án þess að stöðva framfaraþróunina, enda viðhald hennar skilyrði til þess, að hægt væri að leiðrétta án mikilla þrenginga. En hæstv. stjórnarflokkar völdu „róttæka tilraun“, eins og Per Dragland segir, tilraun, sem í dag er fyllilega útlit fyrir að misheppnist gersamlega.

Frv. um framlengingu söluskattsins upp á 170 millj., sem ekki átti, þegar tilraunin var hafin, að standa nema til ársloka, er hrópandi auglýsing um, að áætlanirnar hafa brugðizt. Annars er það táknrænt um ónákvæmni og flumbruhátt þessarar róttæku tilraunar, að stjórnarflokkarnir hækkuðu við 2. umr. fjárl. áætlun um 7% skattinn af innfluttum vörum úr 148 millj. í 156.5 millj., eða um 8.5 millj., en létu bráðabirgðasöluskatt — 8% — standa áfram í 168 millj., en af því að hann er reiknaður af nákvæmlega sama innflutningi, sömu innflutningsupphæðum, þá hefði hann auðvitað átt að hækka líka í sama hlutfalli, eða um tæpar 10 millj., og áætlunin um tillag til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um tæplega 2 millj. þar af.

En stjórnarflokkarnir eru ekki að dútla við að hafa þess háttar nákvæmni við hina „róttæku tilraun“ sína, — milljónatugs ósamræmi eða skekkja, hvað er það? Þeir eru kannske farnir að hugsa í sambandi við þessa róttæku tilraun líkt og Bjartur í Sumarhúsum í hliðstæðum kringumstæðum. Hann sagði: „Ég held, að það þurfi ekki að hafa nákvæm handtök, kerlingin er dauð hvort sem er.“

En svo var það aftur Per Dragland. Álitsgerð hans er fyrst og fremst miðuð við, eins og ég sagði áðan, að sætta við orðinn hlut. Auðvitað var hann líka fenginn í þeim tilgangi að blessa yfir þessa „róttæku tilraun“. En eins og ég hef sýnt með tilvitnunum úr álitsgerð hans, er ekki allt, sem hann þar segir, huggun eða blessunarorð. Hann ráðleggur launþegunum að fara gætilega, — það gerir hann. Og hann segir á einum stað í því sambandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er með öðrum orðum ekki um það að ræða að velja milli fyrrverandi ástands og efnahagsaðgerðanna, heldur milli aðgerðanna og einhvers annars, sem enginn þekkir takmörk á.“

Hvað felst í þessum orðum hagfræðingsins? „Það er með öðrum orðum ekki um það að ræða að velja milli fyrrverandi ástands og efnahagsaðgerðanna, heldur milli aðgerðanna og einhvers annars, sem enginn þekkir takmörk á.“ Mér virðist augljóst, að í þessum orðum felist, að hagfræðingurinn telji ekki óeðlilegt, að menn vildu aftur það ástand, sem var, þegar „róttæka tilraunin“ var hafin, — fá það aftur, eins og nú er komið, til þess að geta valið aðra leið. En hann undirstrikar, að því miður er það ekki hægt. Menn hafa ekki um það að velja, eins og komið er, og hinar „róttæku tilraunir“, þ.e. efnahagsaðgerðirnar, heldur hafa menn aðeins að velja milli aðgerðanna og „einhvers annars, sem enginn þekkir takmörk á.“ Með því segir hagfræðingurinn það, sem við raunar öll vitum, að hin „róttæka tilraun“ er glæfraspil og stofnar til óútreiknanlegrar upplausnar og hrakfalla, „sem enginn þekkir takmörk á,“ ef hún kemst á það lokastig að springa, eins og stefnt virðist að.

Ég spyr: Væri nú ekki ráð, að allir tækju höndum saman að eyða stórsprengingarhættunni með því að lækka spennuna af hinni „róttæku tilraun“, leiðrétta skekkjurnar smátt og smátt, svo að ég noti orð Per Draglands, og byrja þá á því að fella niður þennan almenna söluskatt á innflutningi vara, sem við erum að ræða um, leita í staðinn tekjuauka hjá þeim, sem bezt eru settir efnalega í þjóðfélaginu? Ég legg til, að við gerum það og fellum þetta frv. Fall frv. hlýtur að knýja til skjótrar og rækilegrar athugunar á því, hvar við stöndum og hvað er helzt til úrræða, eins og nú er komið.