13.03.1961
Sameinað þing: 51. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 674 í D-deild Alþingistíðinda. (2717)

206. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Já, margt er skrýtið í kýrhausnum. Það er ekki ofsögum af því sagt, þegar maður þarf nú að heyra hv. 2. þm. Vestf., Hermann Jónasson, halda þá ræðu, sem hann hélt hér áðan. Og eitthvað er nú púðrið lélegt, þegar skot jafnlandskunnrar skyttu geiga svona illilega. Á ræðu hv. þm. Karls Kristjánssonar þarf enginn að láta í ljós neina undrun. En báðir voru þessir hv. þm. hálfgrátandi í nafni Jóns Sigurðssonar.

Það skilst kannske betur, hvað fyrir þeim vakir og undir býr, þegar gærunni er svipt af. Hvert einasta málsatriði, sem hv. þm. Hermann Jónasson sagði um landhelgismálið, er margrætt hérna á Alþingi og í blöðunum, og það þarf karlmenni. sem hann nú er, til að jórtra þetta enn þá einu sinni í áheyrn alþjóðar, hlustenda, sem flestir eru búnir að heyra þetta og líka að heyra það hrakið með jafnföstum rökum og gert hefur verið.

Ég skal nú varpa ljósi yfir þetta mál.

Það var mánudaginn 27. febr., sem ég skýrði nokkrum forustumönnum stjórnarandstöðunnar frá því samkomulagi, sem ríkisstj. átti kost á til lausnar landhelgisdeilunni við Breta og Alþingi nú hefur samþykkt. Ég hafði gaman af því, að viðbrögðin urðu nákvæmlega þau, sem við í ríkisstj. höfðum gert ráð fyrir. Kommúnistar sáu strax, að forn vinátta við Breta yrði með þessu endurreist og hættulegum ásteytingarsteini með því rutt úr götu vestrænnar samvinnu. Það var þetta, sem þeim sárnaði mest. Framsóknarmenn hins vegar skildu, að samningarnir voru ekki eingöngu stórsigur þjóðarinnar, heldur líka stjórnarinnar. Það sveið þeim sárast. Báðir áttu sammerkt í því að setja önnur sjónarmið ofar heill ættjarðarinnar.

Reiði sumra leiðtoga Framsóknar heltók þá svo gersamlega, að meðfædd hyggindi fengu ekki notið sín. Þess vegna lét Hermann Jónasson í fljótræði ginnast til að verða við óskum kommúnista um flutning á vantrauststill. þeirri, sem hér er til umræðu. Fögnuðu kommúnistar þessu ákaft. Þeir hafa lengi gengið með þann alveg ástæðulausa ótta, að við tækjum Framsókn í stjórnina. Nú töldu þeir sig hafa sett undir lekann, þegar sjálfur Hermann Jónasson lánaði nafn sitt sem fyrsti flm. á vantraustinu.

En það er í fleira en þessu, sem reiðin hefur yfirbugað skynsemi þeirra Hermanns Jónassonar og Eysteins Jónssonar í þessu máli. Það er auðvitað ömurleg tilhugsun, að það skuli geta hent aðalleiðtoga næstfjölmennasta flokks þjóðarinnar að fyllast reiði og heift, þegar þjóðin vinnur einn sinn eftirminnilegasta sigur, í stað þess að gleðjast, fagna og þakka. Hitt er svo frá flokkslegu sjónarmiði nær enn auðnulausara, að þeim, sem allt of oft hættir til að miða allt við einhliða hagsmuni flokks síns, skuli bregðast svo herfilega bogalistin, þegar mest á ríður. Hvað mundu þeir Hermann Jónasson og Eysteinn Jónsson og aðrir slíkir ekki vilja til vinna nú, þegar nær öll þjóðin fagnar sigrinum í hjarta sínu og ekkert síður framsóknarmenn en aðrir, að þeir hefðu borið gæfu til að vera meðal sigurvegaranna, en ekki í félagi við hinn fokreiða Breta. Denna Welsch og aðra slíka?

Hvað var auðveldara en tefla taflið þannig. Ef öfundin í okkar garð yfir sigrinum hefði ekki lamað dómgreind þeirra, mundu þeir án efa hafa viðhaft þann vopnaburðinn, sem þeim er tamastur, þ.e.a.s. eigna sjálfum sér heiðurinn af annarra gerðum. Þá hefðu þeir sagt: Jú, stórsigur, satt er það. En hverjum er hann að þakka nema okkur, sem þjörmuðum svo að stjórninni, að hún þorði beinlínis ekki annað en að herða kröfurnar gegn Bretum? — Að sönnu var auðsannað, að framsóknarmenn höfðu engin áhrif í þessu, hvorki til né frá. En hvað um það, ólíkt hefði þetta þó verið skárra hlutskipti en hitt, sem þeir í blindni völdu sér og lauk með því að greiða atkvæði:

1) gegn því að semja frið á hafinu og bægja með því mikilli hættu frá dyrum varðskipsmanna og annarra íslenzkra sjómanna,

2) gegn því, að Bretar viðurkenni 12 mílurnar,

3) gegn því, að Bretar viðurkenni nýja fiskveiðilögsögu okkar utan 12 mílnanna að stærð 565 þús. km2,

4) gegn því, að Bretar skuldbindi sig til að láta hlutlausan dómstól, en ekki vopnavald útkljá hugsanlegan ágreining um fiskveiðilögsögu okkar um alla framtíð,

5) gegn því, að Íslendingar haldi áfram að afla heimildar til og viðurkenningar á áframhaldandi stækkun landhelginnar, — svo að sumt af því helzta sé nú nefnt.

Það er sannarlega ekki ofmælt, að þetta séu auðnulausir og heillum horfnir menn, sem vissulega þurfa að læra betur af lífinu. Bezta ráðið til þess hefði kannske verið að fallast á tillögu þeirra um þjóðaratkv. Þá hefðu þeir fengið það, sem þeir verðskulduðu. Það er mikil fórn af okkar hálfu að standa gegn þessari sjálfsmorðstilraun þeirra. En hvorki í þessu máli né öðru má Alþingi víkja undan skyldu sinni né skapa varhugavert fordæmi.

Ég ræði þetta stórmál ekki frekar. Það er margrætt, útrætt og afgert. Sagan geymir það á spjöldum sínum, og við, sem sigurinn unnum, teljum okkur gæfumenn, en andstæðingana brjóstumkennanlega.

Ég vík þá aðeins stuttlega að öðru, sem hér hefur komið fram.

Hv. hlustendur heyrðu ræðu aðalákærandans, Hermanns Jónassonar. „Mér vinnst ekki tími til að ræða brigðmæli ríkisstj. í efnahagsmálunum,“ sagði hann. Til þess þurfti tunguliprari og skáldmæltari mann, þ.e.a.s. hv. þm. Karl Kristjánsson. En af hverju skyldi ekki Hermanni Jónassyni hafa verið trúað fyrir þessu?

Ástæðan er sú, að vinir hans sögðu hver við annan: „Öðrum ferst, en honum ekki.“ Þetta er nefnilega sami maðurinn sem 1956 myndaði stjórn og tilkynnti þjóðinni í nafni sjálfs sín og Karls Kristjánssonar: „Stjórnin hefur verið stofnuð til samstarfs á grundvelli nýrrar stefnu.“ Nú átti að aflétta sköttum, hætta niðurgreiðslum og uppbótum, greiða skuldir, lægja verðbólguna, og umfram allt skyldi varnarliðið rekið úr landi. Tæpum fimm missirum síðar gaf þessi sami maður út aðra tilkynningu, svo hljóðandi: „Í ríkisstj. er ekki samstaða um nein úrræði í þessum málum, sem að mínu áliti geti stöðvað hina háskalegu verðbólguþróun, sem verður óviðráðanleg.“ Síðan gafst hann upp og baðst lausnar frá ábyrgð og önnum stjórnarformennskunnar.

Það var ekki ýkjalangt milli þessara tilkynninga Hermanns Jónassonar. En furðumörgum heitum hafði vinstri stjórninni þó tekizt að bregðast. Sköttum var ekki aflétt, heldur hækkaðir sem nam 1090 millj. kr. árlega, auk stóreignaskattsins. Niðurgreiðslum og uppbótum var ekki hætt, heldur stórauknar. Skuldir ekki lækkaðar, heldur hækkaðar um 436 millj. kr. Verðbólguskessan var ekki svelt í hel, heldur þyngdist hún um fjórðung. Varnarliðið var ekki hrakið á brott, heldur varð það áhorfandi að þessu fátíða fyrirbrigði, og hafði Bandaríkjaforseti greitt inngangseyri fyrir það allt með tölu með bandarísku gulli úr þeim sjóðum, sem ætlaðir voru til að tryggja öryggi Bandaríkjanna.

Allt er þetta flestum í fersku minni, sorgarsaga, sem m.a. veldur því, að aðstaða Hermanns Jónassonar til árása og brigzlyrða út af brigðmæli annarra er örðug, svo að hóflega sé að kveða. Það er nefnilega svo, að sá, sem leggur svona mikinn vanda óleystan á annarra herðar, heldur bezt heiðri sínum og sjálfsvirðingu með því að vera sanngjarn og dómmildur, en ekki reiður og ofsafullur.

En engin ríkisstj. má telja sínum heiðri borgið með því einu, að einhver annar hafi verið henni verri. Núv. stjórn vill því skoða sjálfa sig í spegli reynslunnar, frá því að hún tók við völdum hinn 20. nóv. 1959. Við viljum standa og falla með eigin gerðum, en hvorki gerðum né misgerðum annarra.

Fyrst er þá að athuga, hverju stjórnin hét þjóðinni við valdatökuna 20. nóv. 1959.

Ég gaf þá út svo hljóðandi yfirlýsingu á Alþ. fyrir hönd stjórnarinnar:

„Að undanförnu hafa sérfræðingar unnið að ýtarlegri rannsókn á efnahagsmálum þjóðarinnar. Skjótlega eftir að þeirri rannsókn er lokið, mun ríkisstj. leggja fyrir Alþ. tillögur um lögfestingu þeirra úrræða, er hún telur þörf á. Athuganir hafa þó þegar leitt í ljós, að þjóðin hefur um langt skeið lifað um efni fram, að hættulega mikill halli hefur verið á viðskiptum þjóðarinnar við útlönd, tekin hafa verið lán erlendis til að greiða þennan halla og að erlend lán til stutts tíma eru orðin hærri en heilbrigt verður talið. Munu tillögur stjórnarinnar miðast við að ráðast að þessum kjarna vandamálanna, þar eð það er meginstefna ríkisstj. að vinna að því, að efnahagslíf þjóðarinnar komist á traustan og heilbrigðan grundvöll. Þannig að skilyrði skapist fyrir sem örastri framleiðsluaukningu, allir hafi áfram stöðuga atvinnu og lífskjör þjóðarinnar geti í framtíðinni enn farið batnandi. Í því sambandi leggur ríkisstj. áherzlu á, að kapphlaup hefjist ekki á nýjan leik milli verðlags og kaupgjalds og að þannig sé haldið á efnahagsmálum þjóðarinnar, að ekki leiði til verðbólgu.

Til þess að tryggja, að þær heildarráðstafanir, sem gera þarf, verði sem réttlátastar gagnvart öllum almenningi, hefur ríkisstj. ákveðið:

1) að hækka verulega bætur almannatrygginganna, einkum fjölskyldubætur, ellilífeyri og örorkulífeyri,

2) að afla aukins lánsfjár til íbúðabygginga almennings,

3) að koma lánasjóðum atvinnuveganna á traustan grundvöll,

4) að endurskoða skattakerfið með það fyrir augum fyrst og fremst að afnema tekjuskatt á almennar launatekjur.

Varðandi verðlag landbúnaðarafurða mun reynt að fá aðila til að semja sín á milli um málið. Ella verður skipuð nefnd sérfræðinga og óhlutdrægra manna, er ráði fram úr því.

Ríkisstj. mun taka upp samningu þjóðhagsáætlana, er verði leiðarvísir stjórnarvalda og banka um markvissa stefnu í efnahagsmálum þjóðarinnar, beita sér fyrir áframhaldandi uppbyggingu atvinnuveganna um land allt og undirbúa nýjar framkvæmdir til hagnýtingar á náttúruauðlindum landsins.

Þá þykir ríkisstj. rétt að taka fram, að stefna hennar í Landhelgismálinu er óbreytt, eins og hún kemur fram í samþykkt Alþingis hinn 5. maí 1959.“

Þetta eru loforð okkar og fyrirheit öll með tölu og við teljum okkur nú þegar hafa efnt flest þeirra og komið hinum áleiðis, svo sem nú skal sannað.

Við hröðuðum rannsókn sérfræðinganna, tókum ákvarðanir, en lögðum síðan heildartillögur okkar fyrir Alþingi. Þær réðust að „kjarna vandamálsins“, eins og heitið var. Ætlunin var að stöðva verðbólguna, þessa óðaverðbólgu, sem Hermann Jónasson taldi óumflýjanlega, er hann baðst lausnar, og skapa nýjan grundvöll fyrir heilbrigt atvinnulíf í landinu. Það hefur tekizt betur en við þorðum að vona, þegar stjórnin var mynduð. Vísitalan er í dag aðeins 104 stig í stað óðaverðbólgunnar.

Atvinnuleysinu, sem stjórnarandstaðan boðaði og hlakkaði yfir að verða mundi banabiti stjórnarinnar, hefur okkur tekizt að bægja frá dyrum almennings þrátt fyrir aflabrest á togurum og síldveiðum og verðfall á mjöli og lýsi, en þetta hvort tveggja veldur því samkvæmt nýrri skýrslu frá Framkvæmdabanka Íslands, að þjóðartekjurnar minnka um 500 millj. kr. árið 1960.

Fram til síðustu daga hefur tekizt að hindra kapphlaup kaupgjalds og afurðaverðs, enda þótt Framsókn og Alþb. hafi með ráði og dáð reynt að endurvekja verðbólguna til lífs með því óbrigðula ráði og ef til vill nokkuð komizt áleiðis síðustu vikurnar. Er það grár leikur með fjöregg þjóðarinnar.

En hvað þá um hin loforðin? spyrja menn. Því er fljótsvarað:

1) Fjölskyldubætur, ellilífeyrir og örorkulífeyrir hefur verið aukið úr 126 millj. kr. árið 1959 í 282 millj. kr. á árinu 1960 og verður á þessu ári 348 millj. kr.

2) Ríkisstj. tókst á árinu 1960 að afla svo mikils fjár til íbúðabygginga almennings, að útlán húsnæðismálastjórnar námu 72 millj. kr. Til samanburðar er, að vinstri stjórnin útvegaði í þessu skyni ekki meira fjármagn en svo, að útlán húsnæðismálastjórnar árið 1957 námu aðeins 45.7 millj. kr. og árið 1958 48.8 millj. kr.

3) Varðandi lánasjóðina hefur stjórninni tekizt að útvega allmikið lánsfé. Er sjóðum landbúnaðarins að vísu enn fjár vant. En aðkoman var þar svo herfileg, að fyrsta átakið var að bjarga þeim frá gjaldþroti, en síðan voru þeim útvegaðar 36 millj. kr.

4) Loforðið um lækkun tekjuskatts og útsvars einstaklinga var af mikilli röggsemi efnt strax í fyrra, og í byrjun haustþingsins verða lögð fram ýtarleg frv. til svipaðrar leiðréttingar félögum til handa. Þetta eru stórvirki, sem aðrar þjóðir ætla sér áratug eða tugi til.

5) Stjórninni tókst í þinghléinu um áramótin 1959 og 1960 að leiða deiluna um landbúnaðarverðið til farsælla lykta.

6) Samning þjóðhagsáætlunarinnar er í undirbúningi.

7) Fyrirheitið um landhelgismálið hefur stjórninni nú tekizt að efna svo farsællega, að mörgum þykir með ólíkindum og flestir fagna í hjarta sínu af heilum hug.

Eru þá upp talin öll loforðin.

En margt fleira hefur stjórnin unnið sér til ágætis. Nefni ég þar til sem dæmi niðurlagningu innflutningsskrifstofunnar, stóraukið verzlunarfrelsi, nýju bankalöggjöfina, einkum að því er Seðlabankann varðar, sameiningu tóbaks- og áfengisverzlananna, skjóta afgreiðslu fjárlaga, merkan undirbúning stórhuga framkvæmdaáætlunar íslenzku þjóðarinnar á næstu árum, aðra margþætta og merka löggjöf á sviði dómsmála, menntamála, iðnaðarmála, landbúnaðarmála og sjávarútvegsmála þ. á m. 400 millj. kr. lánalenginguna, sem ætlað er að létta af skuldaklafanum, sem vinstri stjórnin lagði á útveginn, o.s.frv.

Ég þarf ekkert um þetta meira að segja. Hygg ég, að engin íslenzk stjórn hafi komizt nær að efna að fullu öll sín fyrirheit á jafnskömmum tíma, en koma jafnframt mörgu öðru þörfu til leiðar og glíma þó við ýmsan ófyrirsjáanlegan vanda, svo sem aflabrest og verðfall.

Það er á þessa stjórn, sem Hermann Jónasson ber nú fram vantraustið. Ákærandinn, Sökin. Sakborningurinn. Er að furða, þótt brosað sé um breiðar byggðir og hlegið í sölum Alþingis?

Við Hermann Jónasson höfum oft átt samleið í stjórnmálum og af því leitt ýmislegt gott. Við deilum hins vegar oft hvor á annan, og er þá hvorugur mjúkhentur. Launa ég honum nú vantraustið með því að aðvara hann. Hermann Jónasson er sízt meiri kommúnisti en hvað annað. En samt sem áður er hann kominn vel áleiðis með að gera Framsfl. að hreinu handbendi kommúnista. Og hér innan veggja þinghússins vita allir, að kommúnistar eru búnir að umvefja hann og Eystein Jónsson svo greypilega, að talið er vonlaust að ná þeim þaðan lifandi nema með keisaraskurði.

Að lokum þetta :

Í engri af þeim samsteypustjórnum, sem ég hef átt sæti í, hafa samstarfsmenn mínir verið jafnstarfhæfir og dugmiklir menn sem nú og ekki heldur skilið jafnvel á báða bóga, að ágreiningsmálin verða að bíða betri tíma. Hvort tveggja þetta veldur miklu um skjót og örugg handbrögð stjórnarinnar. Hef ég fyrir því allgóðar heimildir, að stjórnin hefur stækkað, en ekki minnkað af störfum sínum og á nú miklu og vaxandi fylgi að fagna. Vona ég, að æ fleiri mætir menn í öllum flokkum leggist á sveif með okkur, svo að okkur megi öllum auðnast að koma miklu og góðu til leiðar fyrir land og lýð.