13.03.1961
Sameinað þing: 51. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 682 í D-deild Alþingistíðinda. (2719)

206. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Finnbogi R. Valdimarsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Ákvörðun stjórnarandstöðunnar á Alþingi um að flytja vantraust á ríkisstj. var tekin, þegar það var alveg ljóst orðið, að hæstv. ríkisstj. hafði þegar gert milliríkjasamning við Breta um minnkun íslenzkrar landhelgi og um afsal á lögsögu Alþingis yfir landgrunninu við Ísland samkvæmt landgrunnslögunum frá 1948 í hendur alþjóðadómstóls. Þessi samningur hefur nú verið samþykktur á Alþingi, án þess að nokkrum stafkrók í honum, sem nokkru máli skiptir, hafi fengizt breytt í meðförum þingsins. Þinglið stjórnarinnar hefur fellt tillögu stjórnarandstöðunnar um, að samningurinn yrði borinn undir kjósendur í þjóðaratkvgr. og taki ekki gildi, nema því aðeins að meiri hl. þjóðarinnar samþykki hann. Með þessum aðgerðum hefur ríkisstj. í fyrsta lagi svikið loforð til stjórnarandstöðunnar um að hafa samráð við hana, áður en úrslitaákvörðun um samninga við Breta yrði tekin, í öðru lagi rofið endanlega þá samstöðu allra flokka, sem allar ríkisstj. nema þessi hafa reynt að halda við og þrátt fyrir allt hefur verið haldið við um meginstefnu Íslendinga í landhelgismálum í meira en 13 ár.

Ríkisstj. hefur klofið þingið og þjóðina í tvær andstæðar fylkingar í því máli, sem við höfum allir talið mesta lífshagsmunamál þjóðarinnar og sameiginlegt baráttumál hennar gagnvart öðrum þjóðum nokkuð á annan áratug, — máli, sem allir, sem kynna sér það til nokkurrar hlítar, komast að sömu niðurstöðu um, þeirri að afkoma og líf þjóðarinnar á komandi áratugum hljóti að veita á úrslitum þess og þess vegna sé henni lífsnauðsyn að standa saman um það einhuga og einbeitt þrátt fyrir ágreining í þjóðfélagsmálum.

Með samningunum við Breta hefur íslenzk landhelgi ekki einungis verið minnkuð í fyrsta sinn, síðan Íslendingar tóku að ráða málum sínum sjálfir, heldur hefur ríkisstj. með þeim algerlega horfið frá meginstefnu allra ríkisstj. og allra flokka í landhelgismálum, a.m.k. síðan 1948, — stefnu, sem áréttuð hefur verið af öllum flokkum og samþykkt af þjóðinni í öllum kosningum síðan og síðast í kosningunum, sem fóru fram fyrir aðeins 16 mánuðum, í október 1959. Formlega kann ríkisstj. með tæpan meiri hluta á Alþingi að hafa leyfi til að gera hvað sem er, sé það ekki beint stjórnarskrárbrot. En siðferðilega hefur engin ríkisstj. né þingmeirihluti leyfi til að skipta algerlega um stefnu í mikilvægasta hagsmunamáli þjóðarinnar og baráttumáli hennar gagnvart öðrum þjóðum án þess að bera hina nýju stefnu sína undir þjóðina fyrir kosningar. En hvaða kjósandi á Íslandi minnist þess nú í dag, að stjórnarflokkarnir hafi fyrir kosningarnar í október 1959 boðað þá stefnu, að Íslendingar ættu að semja við Breta og allar aðrar þjóðir, sem það kysu, um minnkun landhelginnar, hleypa ef til vill 500 togurum inn í landhelgina upp að 6 mílum og á eftir þeim dragnóta- og síldveiðiflota allra þeirra þjóða, sem kynnu að vilja nota sér ótvíræðan rétt til þess að halda inn í landhelgina í kjölfar Breta til veiða? Þetta mun nú gerast næstu daga, næstu vikur næstu mánuði. Reynslan ein mun skera úr því, hvaða afleiðingar það hefur fyrir Íslendinga, hvaða eyðileggingu á fiskimiðunum, hve mikla aukna lífshættu, erfiði og veiðarfæratjón fyrir íslenzka sjómenn. Trúi því svo hver sem vill, að Bretar og með þeim allar aðrar þjóðir, sem fá nú ótvíræðan rétt samkvæmt samningnum til þess að veiða innan 12 mílna landhelgi, muni fara þegjandi og hljóðalaust út úr landhelginni aftur eftir þrjú ár, án þess að reyna t.d. að bindast samtökum um að knýja Íslendinga til að framlengja samninginn.

Hvar er í samningnum trygging fyrir því, að við verðum ekki aftur beittir efnahagslegum og fjárhagslegum ofbeldisaðgerðum, eins og með löndunarbanni eða hótunum um aðrar kúgunarráðstafanir hálfu verri, sem menn eins og núv. hæstv. ráðh. teldu sér nauðugan einn kost að beygja sig fyrir?

Ég get ekki rætt öll atriði samningsins að þessu sinni. Ég mun snúa mér að því höfuðatriði hans, að með honum skuldbinda Íslendingar sig til þess að tilkynna Bretum hverja frekari útfærslu fiskveiðilandhelgi sinnar með 6 mánaða fyrirvara, og neiti Bretar að fallast á útfærsluna, þá skuldbinda Íslendingar sig til þess að samþykkja, að útfærslan skuli lögð fyrir alþjóðadómstólinn í Haag til endanlegs úrskurðar.

Hæstv. ríkisstj. hefur lýst því yfir á Alþingi. að þessi skuldbinding af hálfu Íslendinga skuli gilda um aldur og ævi, þessi samningur sé óuppsegjanlegur og bindandi fyrir komandi ríkisstj., fyrir Alþingi um alla framtíð, fyrir komandi kynslóðir á Íslandi. Stjórnarandstöðuflokkarnir hafa lýst því yfir, að þeir telji sig ekki bundna af þessum samningi og muni neyta fyrsta tækifæris til þess að losa þjóðina undan oki hans. Það er þetta atriði samningsins, sem forvígismenn brezkra útgerðarmanna telja tryggingu fyrir því, að íslenzk fiskveiðilandhelgi verði ekki færð frekar út en orðið er um næstu áratugi en harma aðeins, að það hafi tekið 13 ár að sannfæra Íslendinga um, að þetta sé hið eina rétta, og það afrek að fá þetta atriði inn í samninginn, sem hæstv. dómsmrh., Bjarni Benediktsson, telur stærsta stjórnmálasigur, sem nokkur maður, þ.e.a.s. auðvitað hann sjálfur, hafi unnið í allri stjórnmálasögu Íslands.

Hæstv. ráðherra hefur með þessum ummælum sýnt, að hann er grobbnastur allra stjórnmálamanna, sem nú eru uppi á Íslandi. En ástæðan til þess, að ráðherrann fer með svo heimskulegt grobb, er augljós öllum, sem þekkja hann. Hún er sú, að hann kvelst hið innra með sér af vanmáttarkennd og nagandi ótta um, að hann verði af framtíðinni og jafnvel samtíð sinni borinn saman við sinn ágæta föður, sem barðist af alefli alla sína ævi gegn öllum samningum um afsal á réttindum Íslendinga. Hæstv. ráðherra er hræddur um, að hann verði álitinn föðurverrungur vegna síns hlutar í gerð þessa samnings og annarra þvílíkra, og telur því vænlegast til þess að afstýra slíkum dómi að grípa til stórkostlegustu ósanninda og blekkinga, sem stjórnmálasagan getur um.

Lítum á sigur hans. Hann á samkvæmt skýringum hæstv. dómsmrh. að vera fólginn í því, að framvegis geti Bretar ekki gripið til hernaðarofbeldis gegn Íslendingum til að kúga þá til að afturkalla stækkun íslenzkrar landhelgi. M.ö.o.: það er skilningur hæstv. ráðherra á sambúð einnar smæstu þjóðar veraldar og eins mesta flotaveldis heimsins, sem smáþjóðin er í hernaðarbandalagi við, að smáþjóðin verði um alla framtíð að gera ráð fyrir því, að herveldið, sem á að vernda hana fyrir árásum, geri hernaðarárás á hana til að kúga hana til að afturkalla ráðstafanir, sem hún gerir til að tryggja líf sitt, — ráðstafanir, sem hæstv. ráðherra gerir sjálfur ráð fyrir að stæðust fyrir alþjóðadómi.

Lítum nánar á sigur hæstv. dómsmrh. Fyrir rúmu ári gáfust Bretar upp á hernaðarofbeldi sínu gegn Íslendingum og kölluðu herskipin heim. Það var áður en Genfarráðstefnan síðari hófst og var réttilega sett í samband við hana. Hver var árangurinn af þessum síðasta sjóhernaði, sem brezki flotinn hefur háð? Pétur Sigurðsson forstjóri landhelgisgæzlunnar lýsti þessum árangri þannig, þegar hernaður Breta hafði staðið hér nákvæmlega eitt ár, orðrétt, með leyfi hæstv. forseta, — Pétur Sigurðsson sagði:

„Í heilt ár hafa nú að jafnaði daglega verið 13 brezkir togarar á veiðum innan takmarkanna og þeirra gætt þar dag og nótt af fjórum brezkum herskipum auk birgðaskipa, en samtals hafa um 250 togarar og 37 herskip komið þar við sögu. Af öllum togarahópnum hafa þó aðeins 4–5% stundað veiðar hér reglulega allt árið, hinir eftir aðstæðum, þar af yfir helmingur farið hingað aðeins 1–2 veiðiferðir. Svæðin þrjú, sem þessar ólöglegu veiðar hafa verið stundaðar á,“ heldur Pétur Sigurðsson forstjóri landhelgisgæzlunnar áfram, „eru yfirleitt 90 sjómílur að lengd, eða um það bil 1/10 af landhelgislínunni. en flatarmál þeirra er þó ekki meira en 3½% af allri fiskveiðilandhelginni. eins og hún er nú.“

Þetta sagði Pétur Sigurðsson forstjóri landhelgisgæzlunnar, þegar sjóhernaður Breta hér við land hafði staðið nákvæmlega eitt ár. Og hann hélt áfram: „Á þessum 13 brezku togurum, sem að meðaltali hafa verið hér að ólöglegum veiðum hvern dag, munu vera um það bil 250 manns, en samtals munu áhafnir herskipanna, sem gæta þeirra hverju sinni, vera um 1000 manns. Þó mun réttara að reikna með því, að til gæzlunnar þurfa a.m.k. helmingi fleiri herskip en hér eru hverju sinni. M.ö.o.: að undanförnu hafa 8–10 herskip með um 2000 manns séð um, að 13 brezkir togarar með 250 manns um borð geti óáreittir stundað ólöglegar veiðar hér við land. Fjárhagslega getur þessi útgerð því varla borgað sig. Hún hlýtur að hafa allt aðra og víðtækari meiningu eins og allar hersýningar.“

Hér enda ég orðrétta tilvitnun í orð og lýsingu Péturs Sigurðssonar forstjóra landhelgisgæzlunnar á árangrinum, sem Bretar höfðu náð eftir eins árs sjóhernað við Ísland. En hvernig borgaði þá þessi hersýning Breta sig? Það var orðin viðurkennd staðreynd um allan siðaðan heim, að hún hefði mistekizt, orðið Bretum til skaða og skammar og gert þá hlægilega, væri auk þess stórhneyksli innan Atlantshafsbandalagsins og því til skammar. Bretar höfðu ekki sent flota sinn gegn neinni af þeim 30 þjóðum, sem höfðu fært út landhelgi sína í 12 mílur eða meira, t.d. ekki kommúnistum í Kína, aðeins gegn smæstu þjóð heimsins, sem þetta hefði gert og af mestri nauðsyn, — þeirri einu þjóð, sem var og er í hernaðarbandalagi við Breta.

Hvað sagði hæstv. ráðh. Bjarni Benediktsson sjálfur um stöðu okkar í stríðinu um 12 mílurnar í sumar og í haust? Hann sagði orðrétt: .,Landhelgismálið er leyst. 12 mílurnar er búið að vinna.“ En sjálfur hóf hann undanhaldið, þegar Bretar höfðu gefizt upp, með því að hann hæstv. ráðherra, gerðist sá vinur og velgerðarmaður brezku veiðiþjófanna, sem höfðu samkvæmt opinberum skýrslum gert ítrekaðar tilraunir til að myrða íslenzka sjómenn, að gefa þeim upp allar sakir, alls nær 300 manna.

Íslendingar hafa í meira en 13 ár staðið í baráttunni við aðrar þjóðir um stækkun á landhelgi Íslands. Í upphafi þeirrar baráttu gerðu þeir sér ljósar þessar staðreyndir:

1) Íslenzka þjóðin hefur tvöfaldazt að tölu á s.l. hálfri öld. Íbúatalan mun aftur tvöfaldast á næstu 30 10 árum. Íslendingar verða þá, ef sú fólksfjölgun, sem verið hefur undanfarinn áratug, heldur áfram, um 360 þúsundir manna.

2) Eins og nú er komið og verður fyrirsjáanlega um næstu áratugi, byggir þjóðin tilveru sína og sókn til menningar á nýtingu fiskimiðanna kringum Ísland. Fyrir 1940 öfluðu Íslendingar aðeins 30% af öllum þeim afla, sem veiddist á Íslandsmiðum. Fiskimiðin eru því stærstu auðlindir landsins. Þau eru á öllu landgrunninu, sem er skýrt afmarkað kringum landið. Það er vísindalega sannað, að þessi fiskimið eru í hættu vegna ofveiði fjölda erlendra þjóða. Ekkert getur tryggt afkomu komandi kynslóða á Íslandi nema það, að Íslendingar einir nýti fiskimiðin á landgrunninu öllu.

3) Voldugar þjóðir eins og Bandaríkin höfðu lýst því yfir strax eftir stríðslokin með einhliða ákvörðun, að allt landgrunnið við lönd þeirra væri þeirra eign, sem þeim bæri lögsaga yfir, þ.e. réttur til að setja lög og reglur í löndunum sjálfum. Fjöldi annarra þjóða, — þær eru nú komnar yfir 30, lýsti fiskimiðin á landgrunni sínu frá 12 mílum og allt upp í 200 mílur sína eign og lögsögu yfir þeim. Allar þessar þjóðir gerðu þetta með einhliða ákvörðunum, þar sem þær töldu það innanríkismál sitt og fullkomlega, löglegt að þjóðarétti, þar sem engin regla væri til í þjóðarétti, sem bannaði slíkt, þegar lífsnauðsyn þjóðar lægi við. Engin þessara þjóða hefur tekið í mál að semja um fiskveiðilandhelgi sína við aðrar þjóðir né heldur bera hana undir úrskurð alþjóðadómstólsins.

Íslendingar ákváðu þegar 1948 að fara þessa sömu leið einhliða ákvörðunar, lýsa lögsögu Alþingis yfir landgrunninu öllu með það mark fyrir augum, að Íslendingar einir nytji fiskimiðin á landgrunninu öllu. Við vissum, að leiðina að þessu marki yrði að fara í áföngum. Við vissum einnig, að við áttum sterkust rök allra þjóða, sem stefndu að sama marki.

Þessi leið einhliða ákvörðunar, sem allar þjóðir hafa farið, sem nokkuð hefur orðið ágengt, hefur í tveimur áföngum fært okkur þann árangur, að landhelgi okkar hefur nærri þrefaldazt á 8 árum. Þegar ákveðið var að fara þessa fullkomlega löglegu leið einhliða ákvörðunar, þá vissu allir, hvað hún þýddi: í fyrsta lagi, að ekki kæmi til mála að semja við neina þjóð um víðáttu landhelginnar, í öðru lagi, að ekki væri heldur hægt að bera ákvörðun hverju sinni undir þann alþjóðadómstól, sem allir vissu að hafði engar viðurkenndar reglur um víðáttu landhelgi til að dæma eftir, en verður að mestu að dæma eftir venjum.

Á undanförnum hálfum öðrum áratug hafa tugir þjóða verið að koma á venju um fiskveiðilandhelgi og að hún yrði minnst 12 mílur með viðurkenndum forgangsrétti til fiskveiða á landgrunninu öllu, en hafa allar forðazt að leggja slíkt mál fyrir alþjóðadóm. Þetta hefur verið stefna allra ríkisstj. hér á Íslandi frá 1948, þangað til núv. ríkisstj. sneri við og hóf undanhaldið. Það ætti ekki að þurfa að sanna þetta með tilvitnunum í orð þeirra manna, sem hér hafa farið með völd.

Hæstv. dómsmrh., Bjarni Benediktsson, sagði eftirfarandi í orðsendingu til Breta 15. maí 1952: „Ólafur Thors lagði áherzlu á það, að íslenzka ríkisstj. áliti, að hinar fyrirhuguðu ráðstafanir væru í samræmi við alþjóðalög og ekki væri hægt með milliríkjasamningi að afsala réttinum til að taka einhliða ákvarðanir um mestu velferðarmál þjóðarinnar.

Hinn 13. júlí í sumar lýsti hæstv. utanrrh. því yfir á fundi utanrmn., að afstaða núv. ríkisstj. hefði verið sú sama og fyrri ríkisstj., að hafna tilmælum um samningaviðræður, þar eð ekkert væri við Breta að semja um víðáttu fiskveiðilögsögu við Ísland.

Um hugsanlegt málskot til alþjóðadómstólsins sagði hæstv. forsrh., Ólafur Thors, í Morgunblaðinu 9. júní 1953: „Hvers vegna skyldu Íslendingar líka vera að leita uppi einhverja þá aðila. Haagdómstólinn eða aðra, sem kynnu að einhverju leyti að vefengja gerðir Íslendinga? Ég þvertók þá fyrir að verða við þeirri ósk. Ég benti á, að samkvæmt Haagdómnum væri það einhliða réttur strandríkis að ákveða sjálft og eitt fiskveiðilandhelgi sína.“

Og aðalráðunautur flestra ríkisstj. í landhelgismálinu, Hans G. Andersen ambassador, lýsti stefnu Íslands og því, hversu útilokað væri að ætla gerðardómi, — og gildir þá vitanlega sama um alþjóðadómstól. — að úrskurða landhelgi nokkurrar þjóðar, ef ekki væru fyrir hendi ákveðnar reglur til að byggja úrskurðinn á. Hann sagði orðrétt í ræðu á Genfarráðstefnunni 1958:

„Af hálfu Íslands er, eins og áður segir, haldið fram, að hvert ríki eigi sjálft að ákveða sín fiskveiðitakmörk með hliðsjón af öllum aðstæðum hverju sinni. Þeirri mótbáru er venjulega hreyft, að slík regla mundi auðveldlega leiða til misnotkunar, þannig að mjög miklar kröfur yrðu gerðar, jafnvel þar sem engin þörf væri fyrir hendi. Hefur og stundum verið gerð tillaga um, að einhvers konar gerðardómur skyldi hafa úrskurðarvald. Ýmsar tillögur af þessu tagi náðu ekki fram að ganga á fundum þjóðréttarnefndarinnar sjálfrar, enda mundi það vissulega verða erfiðleikum bundið og jafnvel útilokað að fela slíkri stofnun þetta hlutverk, ef ekki væru fyrir hendi ákveðnar reglur, sem byggja bæri úrskurðinn á.“

Að lokum sagði þessi talsmaður íslenzku ríkisstj. að það, sem Ísland hefði gert, væri hið eina rétta, nefnilega að áskilja sjálfu sér, áskilja íslenzkri ríkisstj. nauðsynlega lögsögu yfir fiskveiðunum innan endimarka landgrunnsins og banna útlendingum fiskveiðar á því svæði, að svo miklu leyti sem nauðsynlegt er til að sjá þörfum Íslendinga borgið á forgangsgrundvelli.

Þetta hefur verið stefna allra ríkisstj. á Íslandi, eins og ég áðan sagði síðan 1948. En nú koma talsmenn hæstv. ríkisstj. og snúa alveg við blaðinu. Ríkisstj., sem hefur hér aðeins örnauman meiri hluta, hefur nú samið við höfuðóvininn, ríki, sem við höfum kært fyrir hernaðarárás, brot á stofnskrá Sameinuðu þjóðanna og Atlantshafsbandalagsins, og ákvörðunarrétti um íslenzka landhelgi, lögsögunni yfir landgrunninu, er afsalað um aldur og ævi úr höndum Íslendinga í hendur alþjóðadómstólsins. Samtímis er hafinn hér hinn hræsnisfyllsti áróður, sem heyrzt hefur í þessu landi, um það, að við eigum einskis annars úrkosta, ef við viljum ekki heita ofbeldisþjóð, sem vilji ekki hlíta lögum og rétti, en að semja við Breta og leggja þetta stærsta lífshagsmunamál okkar undir úrskurð alþjóðadómstólsins.

Ég hef ekki í annan tíma orðið meira forviða en þegar ég heyrði hæstv. fjmrh. segja í útvarps. umræðunum um þetta mál:

„Nú ætla ég, að það sé nokkuð sammála álit ábyrgra manna í lýðræðislöndum, að réttarríki geti ekki skorazt undan því að bera ágreining við annað ríki undir alþjóðadómstólinn, ef það vill njóta trausts og virðingar meðal þjóðanna.“

Þetta sagði hæstv. fjmrh. Skyldi hæstv. fjmrh. telja Bandaríkin meðal siðaðra þjóða? Skyldi hann telja það réttarríki? Hæstv. menntmrh. hafði sams konar ummæli hér, en ég fyrirgef honum af öllu hjarta, því að ég veit, að hann er ekki nema berstrípaður fáfræðingur í öllum þessum málum. En skyldi hæstv. fjmrh., fyrrverandi prófessor í þjóðarétti við Háskóla Íslends, telja Bretland til réttarríkja? Veit hann, hvað þessi aðalstórveldi meðal lýðræðisríkjanna, sem kalla sig forusturíki frjálsra þjóða, — veit hann, í hve mörgum tugum tilfella þau hafa neitað að leggja mál sín undir alþjóðadómstólinn í Haag? Skyldi hann telja, hæstv. fjmrh., t.d. Indland til réttarríkja og lýðræðisríkja? Það er ekki ár síðan Indland gaf nýja yfirlýsingu um það til Sameinuðu þjóðanna og alþjóðadómstólsins, að það neyddist til þess að undanskilja undan þeim málum, sem það hafði áður skuldbundið sig til að leggja undir lögsögu alþjóðadómstólsins, öll þau mál, sem Indland teldi sig hafa lögsögu yfir sjálft. Þetta var gert að dæmi Bandaríkjanna og Bretlands. Bandaríkin gerðu þegar í upphafi þann fyrirvara um alþjóðadómstólinn, að þau samþykktu ekki að leggja neitt mál fyrir hann, sem þau teldu Bandaríkin eiga lögsögu um sjálf, og þau mætu það sjálf. Skyldi hæstv. fjmrh. telja Ástralíu, eitt af samveldislöndum Bretaveldis, til réttar- og lýðræðisríkja? Ástralía lagði nýlega fram til alþjóðadómstólsins nýja fyrirvara og undanþágur um málaflokka, sem hún vildi ekki láta heyra undir lögsögu alþjóðadómstólsins. Það voru fjölmargir málaflokkur, en einn af þeim var sérstaklega eftirtektarverður.

Ástralía sagði: Við munum aldrei leggja lögsögu okkar yfir landgrunninu við Ástralíu undir lögsögu alþjóðadómstólsins.

Hæstv. dómsmrh., Bjarni Benediktsson, hefur í síðustu ræðum sínum um þetta mál á Alþingi hafið þann söng, að alþjóðadómstóllinn sé sjálfsögð stofnun fyrir okkur Íslendinga til að eiga undir lífshagsmuni þessarar þjóðar. Hann hefur lýst alþjóðadómstólnum svo, að hann sé skapandi í þjóðarétti, skapandi afl í þjóðarétti, og nefndi þar sem dæmi mál Breta gegn Norðmönnum, sem var dæmt 1951 í dómstólnum. Hæstv. dómsmrh. hefur mál skjölin í þessu máli undir höndum, ég veit það. En hann veit líka hitt, að almennir hlustendur í þessu landi hafa ekki þau málsskjöl undir höndum. Hann veit það, að málsskjölin sýna það svart á hvítu, að bæði málflutningsmenn Norðmanna og dómurinn sjálfur sló því algerlega föstu, að það væri ekkert nýtt réttarlega né að þjóðarétti, sem Norðmenn hefðu gert. Það, sem væri nýtt, væri aðeins vaxandi ágengni og rekja brezkra togara. Línurnar, sem voru dregnar fyrir flóa og firði í Noregi. 30 mílna langar, árið 1881, 70 árum áður. voru auðvitað staðfestar. Dómstóllinn sjálfur sagði í dómsniðurstöðunni, að reglugerð frá 1812, norsk. 140 ára gömul tæki af tvímæli um það og fjölmörg önnur gögn, að grunnlínurnar fyrir flóa og firði í Noregi hefðu verið í gildi um langan aldur, án þess að önnur ríki hefðu mótmælt. Það hafði engin ný réttarsköpun farið fram hjá alþjóðadómstólnum, og þetta veit hæstv. dómsmrh. vel. En hann skákar í því skjóli, að þm. og hlustendur almennt hafi ekki málsskjölin til þess að gæta í og ganga úr skugga um hið sanna í þessu máli.

Ég get ekki farið út í einstök atriði þessa samnings. En eitt atriði verð ég að minnast á. þ.e. hvað gerist, ef að því kemur, að Íslendingar vildu færa út fiskveiðilandhelgi sína frekar en orðið er, en Bretar neituðu því og skytu málinu til alþjóðadómstólsins. Hvað gerist á meðan? Allir vita, að málsmeðferð hjá alþjóðadómstólnum tekur alltaf langan tíma. Hún hefur tekið í sumum tilfellum upp í 5 ár. Hvað gerist á meðan? Eiga Íslendingar að bíða með þessa útfærslu, eða fá þeir að koma henni á, þangað til dómurinn fellur?

Fyrir þessu er fordæmi, sögulegt fordæmi, í sögu alþjóðadómstólsins. Árið 1951 urðu stórátök milli ríkisstj. í Persíu og stórs olíufélags þar, sem Bretastjórn á meiri hluta í. Bretar vísuðu málinu til alþjóðadómstólsins og gerðu kröfu um það samstundis, að dómurinn úrskurðaði samkv. heimild í samþykktum hans að skylda Persíustjórn til þess að fresta og hætta við allar aðgerðir gegn olíufélaginu. Og dómurinn lét ekki standa á sér. Hann varð við þessari kröfu Breta og skyldaði Persastjórn til þess að láta niður falla allar aðgerðir gegn olíufélaginu, meðan dómurinn sæti. Hann skipaði meira að segja, dómstóllinn, sérstaka eftirlitsmenn til þess að sjá um það, að fyrirskipun dómsins yrði hlýtt. Síðan sat dómurinn í heilt ár og hugleiddi málið. Þegar liðið var rúmlega ár, frá því að öllum aðgerðum Persastjórnar gegn olíufélaginu hafði verið frestað samkvæmt bráðabirgðaúrskurði dómsins, kvað dómurinn upp úrskurð sinn. Og hvernig var hann? Hann kvað upp þann úrskurð, að hann væri ekki bær til þess að dæma um málið efnislega, og því var vísað frá. Það var Bretum nóg.

Ég veit, að öllum er það ljóst, að nú er þessi alþjóðadómstóll tekinn við lögsögu yfir landgrunninu við Ísland í stað Alþingis. En ég er ekki viss um, að öllum sé það vel ljóst í þessu landi, hvaða stofnun þessi alþjóðadómstóil er. Er hann sambærilegur við okkar eigin hæstarétt? Er hann sambærilegur við æðstu rétti menningarríkja? Nei, hann er það ekki á nokkurn hátt. Hann er það ekki að skipan sinni, því að hann er kosinn pólitískri kosningu. Dómarar hans, 15 að tölu, eru kosnir pólitískri kosningu innan Sameinuðu þjóðanna, innan öryggisráðsins og allsherjarþingsins, þar sem valdaklíka vestrænna stórvelda ræður öllu, og eru engar líkur til þess, að það breytist, enda ber skipun dómsins í dag þessu fullkomið vitni. Af 15 dómurum í dómnum eru 9 frá ríkisstjórnum, sem hafa verið okkur Íslendingum andstæðastar, fjandsamlegastar í okkar landhelgismálum. Hæstv. ráðh., Bjarni Benediktsson, sagði hér nýlega í ræðu: Nú er að verða á þessu breyting. Smáþjóðunum og meðalstóru þjóðunum er að vaxa fiskur um hrygg innan Sameinuðu þjóðanna.

Til er gott dæmi um það frá því í nóvember í haust um kosningu til dómsins. Þá átti að ganga úr dómnum Norðmaður, fulltrúi smáríkis, sem hefur setið í honum frá upphafi, valinkunnur, þaulreyndur dómari. Hvað gerðu réttar- og lýðræðisríkin? Þau spörkuðu honum. Þau sáu um, að hann fékk ekki nema rúmlega 20 atkv., þá að Norðurlöndin öll og mörg smáríki með þeim beittu sér af alefli fyrir kosningu hans. Stórveldunum, Bretum og Bandaríkjamönnum, lá á að fá Ítala með sér í dóminn.

En skipan dómsins er jafnvel ekki það versta við hann. Mér dettur ekki í hug að bera brigður á, að dómararnir sjálfir eru valinkunnir og hálærðir menn. En þeir líta á sig sjálfrátt og ósjálfrátt sem fulltrúa þeirra ríkisstjórna, sem hafa kosið þá, og þetta er hægt að sanna. Það var ekki fyrr en á sjöunda starfsári dómsins, að það kom fyrir í fyrsta skipti, að nokkur einasti dómari greiddi atkv. gegn málstað þeirrar ríkisstj., sem hafði kosið hann, og þetta þótti stórsögulegur viðburður í sögu dómsins og hefur ekki komið fyrir aftur í neinu máli, sem nokkru máli hefur skipt.

En það er annað, enn annað, sem gerir þennan æðsta rétt þjóðanna allt öðruvísi en hæstarétt. Allir verðum við að eiga undir hæstarétti mál okkar. En það er ekki svo með þjóðirnar. Það getur hver þjóð, sem vill neitað því að leggja mál sitt undir alþjóðadómstólinn, og þær hafa gert það í svo stórum stíl, að á miðju árinu 1959 voru aðeins 14 þjóðir af 85 þjóðum, sem þá voru í Sameinuðu þjóðunum, sem höfðu skilorðslaust játað að leggja öll deilumál sín við önnur ríki undir lögsögu dómsins. Öll hin ríkin treystu sér ekki til þess að eiga öll sín mál, hver sem væru, öll sín stærstu hagsmunamál, undir lögsögu þessa dóms. Dómurinn hefur af þessum ástæðum fengið færri og færri mál til úrskurðar. Þegar hann hafði starfað í 13 ár, höfðu aðeins komið til hans 32 mál, sem hann flokkaði sjálfur sem deilumál milli ríkja. Og af þeim hafði hann vísað frá 3/5 hlutum, vegna þess að ríkin, sem aðild áttu að málunum, höfðu beðizt undan eða mótmælt lögsögu hans. Á 12. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna lýsti Dag Hammarskjöld framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna yfir stórum áhyggjum sínum á þessari þróun og sagði orðrétt:

„Ég get ekki látið hjá líða að láta í ljós áhyggjur mínar um, að svo kunni að fara, ef þessi þróun verður ekki stöðvuð hið fyrsta, að allt kerfið, sem stefndi að skuldbundinni lögsögu dómstólsins, verði dauður bókstafur.“

En þessi þróun hefur haldið áfram síðan. Færri og færri þjóðir vilja eiga jafnvel venjuleg deilumál undir þessum ágæta dómstóli. Nú eigum við samkv. ákvörðun hæstv. ríkisstj. að eiga framvegis og það um allan aldur okkar mesta lífshagsmunamál undir þessum dómstóll, sem nú er skipaður að fullkomnum meiri hluta fulltrúum þeirra ríkisstjórna, sem hafa verið okkur andstæðastar og fjandsamlegastar í landhelgismálum. Og eins og ég áður sagði, verður að hafa það hugfast, að dómararnir, þó að þeir séu mætir menn, þeir eru bundnir sínum ríkisstjórnum og auk þess við kenningar, sem þeir hafa haldið fram í þjóðarétti.

Ég hef ekki tíma til að rekja önnur mál. þar sem hæstv. ríkisstj. hefur brotið af sér við íslenzka þjóð. En mér fyrir mitt leyti finnst það nóg, sem hún hefur gert í landhelgismáli Íslendinga, því að það er ekki aðeins afbrot gegn þeim, sem nú lifa og starfa í dag. Það er afbrot gegn komandi kynslóðum á Íslandi.