13.03.1961
Sameinað þing: 51. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 706 í D-deild Alþingistíðinda. (2723)

206. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Gunnar Gíslason:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Það féll margt miður fagurt orð í þeim löngu og leiðigjörnu ræðum, sem hv. stjórnarandstaða flutti hér í hinu háa Alþingi í vikunni sem leið, þegar þáltill. um lausn fiskveiðideilunnar við Breta var til umr. Þetta sama hefur gerzt hér í kvöld. Orð eins og nauðung, ok og svik og afsal landsréttinda og mörg önnur slík leika á tungum hv. stjórnarandstöðu. Og þessi orð hafa verið prentuð með stærsta letri nú undanfarna daga í blaðakosti stjórnarandstöðunnar. Dagblaðið Tíminn, sem segist vera „blað handa bændum“, gaf tóninn og átti lengst leiðsöguna í þessu ósæmilega orðbragði. Því gat þó hitt aðalblað stjórnarandstöðunnar, Þjóðviljinn, ekki unað til loka og sló metið, daginn eftir að þáltill. var samþ. hér í þinginu. Á skrif blaðsins þá um hæstv. dómsmrh. og hæstv. utanrrh. mun ávallt verða litið og til þeirra vitnað sem eins hins mesta velsæmisskorts í íslenzkri blaðamennsku.

Öll hafa þessi svikabrigzl stjórnarandstöðunnar og allt tal hennar um afsal landsréttinda verið með einstæðum móðursýkisblæ og hefur aðeins sýnt enn ljósar það, sem þó var ljóst orðið, að sú stjórnarandstaða, sem við eigum nú við að búa. er ráðvillt og máttvana í andróðri sínum gegn hæstv. ríkisstj. Sá vanmáttur verður ekki hulinn með stórum og ljótum orðum, og það mega þeir vita, þeir góðu menn, sem slíkum gífuryrðum beita, að þau eru þeim sjálfum til minnkunar, en sverta ekki þá, sem þeim er að beint.

Það er vissulega svo, að fyrir því er engin ástæða að vera með brigzlyrði í garð hæstv. ríkisstj. um svik við íslenzkan málstað og bera fram vantraust á hana fyrir þá lausn, sem hún hefur náð í þessari vandamiklu og hættulegu fiskveiðideilu, enda sýna viðbrögð þjóðarinnar og undirtektir hennar undir þann andróður, sem stjórnarandstaðan hugðist hefja gegn lausn málsins, svo skýrt, að ekki verður um villzt, að mikill meirihluti þjóðarinnar metur réttilega þá lausn, sem náðst hefur. Þjóðin fagnar þessari lausn, telur hana vera — sem hún er — sigur fyrir íslenzkan málstað, og þakkar, hversu giftusamlega hefur til tekizt. Þessi viðbrögð þjóðarinnar hafa orðið stjórnarandstöðunni mikil og sár vonbrigði, enda viðurkenndi hv. 7. þm. Reykv., Þórarinn Þórarinsson, það í umr. hér um daginn, að svo hefði verið. Hann sá það réttilega, að meiri hluti þjóðarinnar styður ríkisstj. í þessu máli. Það er því hreint óðagot, hreint ráðleysi ringlaðra manna. þegar stjórnarandstaðan flytur nú vantraust á ríkisstj., fyrst og fremst vegna þessa máls og þess framgangs og endalykta, sem það hefur nú hlotið.

Nei, hæstv. ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar hafa ekkert í þessu máli svikið. Það er síður en svo. Svo hagkvæm okkur virðist mér lausn deilunnar vera að segja má, að við höfum ekkert af hendi látið, sem við áður höfðum, heldur þvert á móti fengið það, sem við höfðum ekki. Bretar hafa viðurkennt 12 mílna fiskveiðilögsögu okkar. Með hinum nýju grunnlínubreytingum hafa náðst inn fyrir 12 mílna mörkin mikilsverð hafsvæði. Bretar fallast á, að þegar til frekari útfærslu kemur af okkar hálfu og ef til ágreinings kemur við þá um þá framkvæmd, þá skuli ágreiningnum skotið til alþjóðadómstólsins og hlíti báðir aðilar úrskurði hans. Allt þetta höfum við fengið, og við höfum fengið meira. Við höfum fengið frið. Það hefur náðst lausn í hættulegri deilu, hættulegum ófriði, sem við, ein minnsta þjóð veraldar, höfum átt í við stórveldi, sem beitt hefur okkur ofbeldi og yfirgangi. Nú er af þessu ofbeldi látið og ófriðnum lokið. Það er þakkarefni öllum góðum mönnum.

Hv. stjórnarandstaða virðist ekki leggja mikið upp úr því, að deilan er leyst, að friður er fenginn. Þeim hv. stjórnarandstæðingum nægir sýnilega ekki sú hætta, sem íslenzkir sjómenn ávallt og ævinlega eiga við að búa í störfum sínum. Nei, þeir skulu líka að áliti stjórnarandstöðunnar eiga að mæta gapandi fallbyssukjöftum brezkra bryndreka og eiga yfir höfði sér stöðuga hættu á árekstrum aðila, sem standa í harkalegri deilu.

Það hefur komið glögglega fram, að kommúnistar vilja halda stríðinu áfram. Þetta þurfti engum að koma á óvart. Sjónarmið þeirra er rússneska sjónarmiðið. Það efast heldur enginn um, þegar þeir hamast gegn farsælli lausn þessarar deilu, að þeir fara að óskum lærifeðra sinna og yfirboðara austan við járntjaldið. Þeir herrar, er í Kreml ráða húsum, eiga að sjálfsögðu fáar óskir heitari en að ríki sem bæði eru aðilar að Atlantshafsbandalaginu, eldi með sér grátt silfur og eigi í sem alvarlegustum árekstrum og illvígustum deilum. En að þetta skyldi einnig verða sjónarmið og viðhorf forustuliðs Framsfl., það kemur að sjálfsögðu ýmsum undarlega fyrir sjónir. Að einnig þeir skuli vilja viðhalda deilu, sem eitrar andrúmsloftið í samstarfi þessara vestrænu lýðræðisríkja, það er mörgum furðuefni. En hver er skýringin á þessari afstöðu, afstöðu þess flokks, sem telur sig öðrum flokkum fremur vera flokk íslenzkra bænda, þeirrar stéttar, sem hefur fengið orð á sig fyrir gætni og ábyrgðartilfinningu? Ég sé ekki aðra skýringu á þessu fyrirbæri en það sé hið innilega samband, sem er á milli forustumanna Framsfl. og kommúnista, a.m.k. þeirra manna úr forustuliði Framsfl., sem ráða þar mestu nú. Það er engu líkara en þessir menn séu gengnir kommúnistum á hönd. Þeim virðist ekki ósvipað farið og mönnunum í þjóðsögunum, sem létu heillast af álfum og gengu í björg. Og eins og heillaðir menn eru oftast sem viljalaus verkfæri, þannig fer ýmsum forustumönnum Framsóknar nú, þeir hlýða kommúnistum í öllu og styðja þá í öllu.

Við, sem sjáum vinahót framsóknarmanna og kommúnista hér í þinginu og nær óbrigðula samstöðu þeirra í flestum málum, vitum, að þetta er skýringin á afstöðu Framsfl. til lausnar fiskveiðideilunnar. Svo blindaðir eru þeir af óvild til hæstv. ríkisstj. og gramir yfir sigri hennar í vandamiklu máli og svo uppteknir af þeirri sinni heitustu þrá að komast í valdaaðstöðu við hlið kommúnista, að þeir fórna ábyrgri afstöðu til mikilvægra mála, hvort heldur er að ræða um innanríkis- eða utanríkismál. Og ég spyr: Hvað segið þið, bændur og búalið, sem hafið fylgt Framsfl. að málum? Er ykkur það fagnaðarefni, að forustulið ykkar gengur til liðs með kommúnistum til þess að viðhalda illindum milli okkar og einnar mestu lýðræðisþjóðar heims, — þjóðar, sem við um langan aldur höfum átt góð samskipti og viðskipti við, þar til þessi deila bar skugga á? Er ykkur það fagnaðarefni, að forustulið ykkar er með framferði sínu vitandi eða óvitandi að leiða ykkur inn fyrir járntjald kommúnismans? Nei, ég veit, að ykkur er þetta áhyggjuefni, en ekki gleðiefni. Allt kommúnistadekur er fjarlægt vilja og hugsunarhætti íslenzkra bænda, enda vita þeir, hvað þeirra bíður, ef ríki kommúnismans kæmist hér á.

Einn meginþáttur lýðræðis og þingræðis er sannsýn og ábyrg stjórnarandstaða. Margir telja það eitt mesta veikleikamerki stjórnarfars okkar Íslendinga, hversu mjög stjórnarandstöðuna skortir þessar eigindir. Það þykir ýmsum broslegt, þegar stjórnmálaflokkur skiptir alveg um skoðun í sama málinu eftir því, hvort hann er í stjórnaraðstöðu eða stjórnarandstöðu. En þetta er síður en svo broslegt. Þetta er stórhættulegt fyrir þjóðlíf okkar og heilbrigða og stjórnarfarslega þróun í landinu. Ég skal ekki segja, að í þessum efnum eigi einn flokkur alla sök og annar enga. En aldrei hafa þó þessi hamskipti orðið algerri en þau hafa orðið hjá Framsfl., frá því að hann var í stjórnaraðstöðu, svo að áratugum skipti, og þar til hann hefur nú komizt í stjórnarandstöðu í rúm tvö ár. Sönnun þessarar fullyrðingar minnar blasir hvarvetna við. Hún hefur komið greinilega fram í umr. um landhelgismálið. Nú heitir það afsal landsréttinda að skjóta ágreiningsefnum til alþjóðadóms. Þetta sama var boðið af ríkisstj., sem Framsókn átti sæti í, eftir að fyrsta útfærslan var gerð 1952. Nú er býsnazt yfir því, að Bretum er leyft að veiða á takmörkuðum svæðum og um takmarkaðan tíma á milli 12 mílna og 6 mílna markanna gegn því, að þeir viðurkenni 12 mílna fiskveiðilögsögu okkar og hætti hernaði sínum gegn okkur og valdbeitingu. Þetta sama bauð vinstri stjórnin Bretum og þó með enn óhagstæðari kostum en nú hafa fengizt. Framsfl. snerist af allri sinni orku gegn aðgerðum núv. stjórnarflokka í efnahagsmálunum á s.l. vetri. Þó höfðu framsóknarmenn lagt fyrir samstarfsflokka sína í vinstri stjórninni tillögur um lausn vandans í efnahagslífinu, sem mjög gengu í sömu átt og það, sem gert var í fyrra. Þannig má dæmin rekja.

Ábyrgðarleysi Framsóknar í stjórnarandstöðunni fær engum dulizt. Við afgreiðslu fjárlaga ber hún fram kröfur um milljóna króna hækkun á útgjöldum ríkissjóðs án þess að leggja fram nokkrar raunhæfar tillögur um öflun tekna til þess að mæta þessum útgjöldum. Framsóknarmenn flytja nú hér á Alþingi fjölmörg lagafrumvörp, sem kosta mundu ríkissjóð háar fjárfúlgur, ef fram næðu að ganga. En við þessum málum, sem raunar má segja að mörg séu nytsamleg, hróflaði Framsfl. hins vegar ekki, meðan hann var og hét í vinstri stjórninni.

Í áróðri gegn ríkisstj. og viðreisnarstefnunni skilur ekkert á milli stjórnarandstöðuflokkanna. Báðir hamra þeir á sömu fjarstæðunum og rökleysunum. Því er haldið fram, að viðreisnarstefna ríkisstj. hafi sligað atvinnuvegina. Á sama tíma krefst stjórnarandstaðan þess, að þessir að þeirra dómi sliguðu og bjargþrota atvinnuvegir greiði stórhækkað kaupgjald, og skirrist ekki við að efna til víðtækra verkfalla um mesta bjargræðistímann til þess að knýja fram slíkar kauphækkanir, sem þó með engu móti geta komið launþegum að gagni, geti atvinnuvegirnir ekki raunverulega undir þeim staðið. Á þennan veg vinna kommúnistar sitt niðurrifsstarf í þjóðfélaginu, og forustulið Framsfl. lætur ekki á sér standa að styðja þá í hvers konar óþurftarverkum þeirra. Þeirra sjónarmið er þetta eitt: Geti ég með einhverju móti spillt fyrir núv. hæstv. ríkisstj., þá geri ég það.

Og nú ber þessi óábyrga stjórnarandstaða fram vantraust á ríkisstj. Segja má, að í rauninni hafi ábyrgðarleysi stjórnarandstöðunnar í engu komið skýrar fram en í þessum vantraustsflutning, því að það veit alþjóð, einnig þeir sem að þessu vantrausti standa, að þó að nú svo færi, að þeir kæmu fram vilja sínum og stjórnin segði af sér, þá gætu ekki þessir tveir flokkar stjórnað landinu saman.

En vitaskuld verður stjórnarandstöðunni ekki að ósk sinni. Við stuðningsmenn núv. hæstv. ríkisstj. styðjum hana óhvikulir. Við gerum það af því, að við vitum, að það er þjóð okkar fyrir beztu, að þessi stjórn fari með völdin.

Við stjórnarandstöðuna vil ég svo segja þetta: Flutningur þessarar vantrauststillögu á hæstv. ríkisstj. er eitt af axarsköftum ykkar. Þið áttuð að gera annað. Þið áttuð að bera fram vantraust á sjálfa ykkur, þ.e.a.s., þið áttuð að taka ykkur á og íhuga ykkar ráð. Þið áttuð að reyna að skilja, að í stjórnarandstöðu ykkar gangið þið villir vegarins. Ef þið skilduð þetta og reynduð að taka ykkur á, mætti svo fara, að stjórnarandstaða ykkar yrði með skaplegri hætti en hún nú er og einkenndist ekki af því ráðleysisfálmi, sem flutningur þessarar vantrauststillögu ber greinilega vitni um. Góða nótt.