13.03.1961
Sameinað þing: 51. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 709 í D-deild Alþingistíðinda. (2724)

206. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Jónas G. Rafnar:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Fyrsta verkefni núv. hæstv. ríkisstj. var að leita úrræða til þess að koma þjóðinni út úr ógöngunum, sem vinstri stjórnin hafði leitt hana í. Vegna þess, hvernig komið var, gat engum dulizt, að ekki yrði komizt hjá róttækum aðgerðum, sem í bili krefðust fórna af öllum almenningi í landinu. Þjóðin væri í sömu aðstöðu og einstaklingur, sem lifað hefur um efni fram. Síðustu fimm árin hafði greiðsluhallinn við útlönd numið samtals um 1100 millj. kr. Erlendis hauguðust upp skuldir, sem greiða átti á skömmum tíma. Á árunum 1951–55 greiddi þjóðin um 3% af gjaldeyristekjum sínum í afborganir og vexti af lánum. Nú var sá útgjaldaliður kominn yfir 10% af gjaldeyristekjunum. Leið skuldasöfnunar varð ekki lengur farin, ef þjóðin átti að halda efnahagslegu sjálfstæði sínu. En þá var ekki um annað að gera en hverfa frá uppbótakerfinu og skrá gengið miðað við þarfir og nauðsyn útflutningsframleiðslunnar. Jafnframt varð ekki komizt hjá ráðstöfunum til þess að tryggja jafnvægið í efnahagsmálunum innanlands og í viðskiptunum við útlönd og þá ekki sízt til þess að koma í veg fyrir verðbólguþróun, sem eyðilagt hafði allar fyrri aðgerðir.

Nú eftir rúmt ár er fengin reynsla af breytingunni í efnahagsmálunum. í öllum meginatriðum hefur hún borið tilætlaðan árangur. Atvinna hefur yfirleitt verið góð um land allt og einnig í þeim byggðarlögum, sem oft hafa átt við þröngan kost að búa í þeim efnum. Í sumum atvinnugreinum hafa ráðstafanirnar leitt af sér samdrátt, sem búast mátti við, en hleypt aftur á móti nýju lífi í aðrar. Eftir verðhækkanirnar, sem óhjákvæmilega leiddi af gengisbreytingunni, hefur verðlag haldizt stöðugt og framboð verið á vörum, sem áður skorti. Í viðskiptunum við útlönd hefur orðið mikil breyting til batnaðar og sparifjáraukning veruleg. Þegar aðstæður eru metnar, verður að taka tillit til þess, að árið sem leið varð þjóðarbúskapurinn fyrir miklu áfalli vegna aflaleysis togaraflotans og verðfalls á mjöli og lýsi.

Fram undan eru margvísleg verkefni, sem ríkisstj. er ýmist að vinna að eða hefur til athugunar og frekari undirbúnings. Vil ég geta nokkurra þeirra.

Þannig hafði verið skilið við aðalstofnlánasjóð landbúnaðarins, ræktunarsjóð, að hann var raunverulega gjaldþrota eftir lögfestingu yfirfærslugjalds vinstri stjórnarinnar og svo gengisbreytinguna. Þrátt fyrir þennan hörmulega viðskilnað var á s.l. ári lánuð hærri upphæð úr ræktunarsjóði en nokkru sinni áður, eða 49.6 millj. kr. Úr byggingarsjóði voru lánaðar 13.3 millj. kr., sem einnig er hæsta lánveiting á einu ári. Nú er verkefnið að finna leiðir til þess að tryggja fjárhag sjóðanna. svo að þeir geti gegnt hinu merka hlutverki sínu fyrir landbúnaðinn. Bændur landsins vita, hvaða þýðingu það hefur.

Sjávarútvegurinn hefur átt í erfiðleikum, sem m.a. stafa af áföllum eins og verðfalli á mjöli og lýsi og aflaleysi togaranna. Það er svo annað mál, að útgerðina hefur skort lánsfé með hagstæðum kjörum til þess að standa undir fjárfestingunni. Af því hefur leitt allverulega bindingu rekstrarfjár og söfnun lausaskulda, einkum í bönkunum. Til þess að létta undir með útgerðinni í þessum efnum hefur ríkisstj. gert ráðstafanir til þess, að komið verði upp nýjum lánaflokki við stofnlánadeild sjávarútvegsins í þeim tilgangi að breyta allmiklu af skuldum, sem eru til skamms tíma, í löng lán. Með þessu er raunverulega verið að lána út á framkvæmdir liðinna ára, sem þá fengust ekki löng lán til, en voru í þess stað greiddar með bráðabirgðalánum. Að hve miklum notum þessar ráðstafanir í peningamálum koma fyrir útgerðina í heild, verður ekki sagt að svo komnu máli, en tvímælalaust er stefnt í rétta átt með þessari nýbreytni.

Með hverju ári sem líður hefur þýðing iðju og iðnaðar í atvinnulífinu farið vaxandi. Af hinni öru uppbyggingu iðnaðarins hefur leitt brýna þörf fyrir aukið stofnfé. Hæstv. iðnmrh., Bjarni Benediktsson, hefur látið athuga, eftir hvaða leiðum mætti efla iðnlánasjóð, og mun álitsgerð þegar liggja fyrir eða vera á næstu grösum. Á þessu ári hefur sjóðnum verið tryggt 15 millj. kr. lánsfé til þess að endurlána iðnaðarfyrirtækjum. Verið er að framkvæma víðtæka athugun á því, hvaða stóriðja komi einna helzt til greina hérlendis og hvaða skilyrðum hún muni hvað. Tvímælalaust er hér um að ræða eitt mesta hagsmunamál þjóðarinnar, ef hagstæðar niðurstöður fást og vel tekst til um framkvæmdir.

Rannsóknir á virkjunarskilyrðum í stórám landsins eru nátengdar þessum athugunum, og eru þær nokkuð á veg komnar.

Í tilefni af ádeilum stjórnarandstöðunnar varðandi húsnæðismálin er fróðlegt að kynna sér lánveitingar úr veðlánakerfinu síðustu árin. Árið 1955, er lögin um húsnæðismálastjórn o.fl. tóku gildi, voru lánaðar 27.4 millj. kr., ári síðar 63.6 millj. Í valdatíð vinstri stjórnarinnar var mjög verulegur afturkippur í lánveitingum, þannig að árið 1957 voru ekki lánaðar nema 45.6 millj. og árið 1958 48.7 millj. kr. Þessi mikil samdráttur stakk illa í stúf við loforð vinstri flokkanna um útvegun fjár í veðlánakerfið. Á s.l. ári lánaði veðdeildin 71,8 millj. kr., sem byggðist á því, að ríkisstj. hafði forgöngu um að útvega deildinni fjármaga. Þegar veðdeildinni vex fiskur um hrygg, sem vonandi verður innan tíðar, þarf að endurskoða ákvæði laga um hámark lánsupphæðar, en það er nú þegar orðið ófullnægjandi vegna hækkunar byggingarkostnaðar, enda staðið óbreytt síðan 1955.

Ríkisstj. hefur beitt sér fyrir allverulegum sparnaði í fjármálum ríkisins og spornað gegn hækkunum á rekstrarliðum fjárlaganna. Hins vegar hafa útgjöld til almannatrygginga. og til niðurgreiðslna á vöruverði hækkað vegna efnahagsráðstafananna. Einnig hafa framlög til verklegra framkvæmda, eins og til vegamála og raforkumála, verið allmikið aukin.

Að undanförnu hefur fiskveiðideilan við Breta verið efst á baugi. Víst er, að þeir, sem á annað borð óskuðu eftir lausn deilunnar, una vel við þá samninga, sem nú hafa tekizt. Afstaða kommúnista til þessa máls hefur alltaf verið skýr. Þeir hafa viljað halda deilunni, hernaðarástandinu áfram, til þess að geta með því móti spillt fyrir samskiptum okkar við vestrænu ríkin. Afstöðu Framsóknarleiðtoganna verður og að skilja og raunar að afsaka í ljósi þeirrar staðreyndar, að þeir hafa í einu og öllu verið á móti stjórnarflokkunum. Í umr. hér fyrir skömmu kom það m.a. fram og var ekki andmælt, að vinstri stjórnin undir forustu formanns Framsfl. bauð á sínum tíma upp á samkomulag um að hleypa brezkum fiskiskipum upp að 6 mílunum allt umhverfis landið og án nokkurrar útfærslu á grunnlínum. Nú segja þessir sömu menn, að samningur sé svik við þjóðina, þótt hann sé á allan hátt miklu hagstæðari en sá, sem þeir höfðu sjálfir einu sinni forgöngu um að bjóða upp á. Þá upplýsist það einnig, að vinstri stjórnin lagði til á Genfarráðstefnunni 1958, að aðgerðir strandríkis utan hinnar eiginlegu fiskveiðilögsögu skyldu háðar úrskurði gerðardóms. Þessi till. var að efni til tekin upp af núv. ríkisstj. á Genfarráðstefnunni síðari og með fullu samþykki hv. 2. þm. Vestf., Hermanns Jónassonar, og hv. 4. þm. Austf., Lúðvíks Jósefssonar. Það situr því sízt á framsóknarmönnum og kommúnistum að ærast yfir því, að komizt sé að niðurstöðu um, að Íslendingar leggi ágreining um fiskveiðiréttindi utan 12 mílna landhelginnar undir alþjóðadómstólinn, stofnunina, sem smáríkin fyrst og fremst telja sína aðalstoð og styttu í baráttunni fyrir rétti sínum.

Ég læt mér nægja að benda á þetta sem dæmi um ósamræmið, sem fram hefur komið í athöfnum stjórnarandstæðinga og orðum þeirra hér í þingsölunum.

Með orðsendingum íslenzku og brezku ríkisstjórnanna varðandi landhelgina, sem Alþingi hefur nú staðfest, hefur okkur Íslendingum verið tryggður rétturinn til 12 mílna landhelgi frá tilteknum grunnlínum um aldur og ævi. Jafnframt fáum við þegar í stað viðurkenndar grunnlínubreytingar, sem tryggja okkur þýðingarmikli fiskimið innan landhelgi okkar. Til þess að fá þessa mikilsverðu viðurkenningu höfum við orðið að fórna nokkru, en aðeins í bili. Eftir því sem þróunin verður í þessum málum og eftir því sem fært þykir, munum við Íslendingar halda áfram að vinna að útfærslu fiskveiðilögsögunnar. Ef til ágreinings kemur, munum við flytja mál okkar fyrir þeirri stofnun, sem á að skera úr um það, hvort rétt sé að farið í samskiptum þjóða. Getur varnarlaus þjóð vænzt betra hlutskiptis? Sigurinn í landhelgismálinu er m.a. í því fólginn, að sá aðilinn, sem við höfum staðið í illdeilum við, hefur nú fallizt á að hilla samkvæmt dómsúrskurði réttum lögum, ef til ágreinings kemur, í stað þess að beita okkur valdi.

Herra forseti. Tími minn er á þrotum. Með tilvísun til þess, sem ég hef nú gert nokkra grein fyrir, og aðgerða ríkisstj. yfirleitt tel ég, að henni hafi vel tekizt að leysa verkefnin, og legg því til, að till. á þskj. 432 um vantraust á ríkisstjórnina verði felld.