13.03.1961
Sameinað þing: 51. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 712 í D-deild Alþingistíðinda. (2725)

206. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Björn Jónsson:

Herra forseti. Heiðruðu tilheyrendur. Í síðustu tvennum alþingiskosningum gengu þeir fóstbræðraflokkar, sem nú fara með stjórn í landinu, fram fyrir þjóðina með mörg og fögur loforð letruð á skildi. Hin helztu voru þessi: Aukin þjóðarframleiðsla og bætt lífskjör. Verðstöðvun án nýrra skatta. Samstarf stéttanna og trygging vinnufriðar. Stöðvun skuldasöfnunar við útlönd. Hallalaus ríkisbúskapur. Og síðast, en ekki sízt, að í engu yrði hvikað frá yfirlýstri 12 mílna fiskveiðilögsögu og sótt fram til friðunar alls landgrunnsins fyrir erlendri ágengni. Knappur meiri hluti kjósenda trúði á heilindin að baki þessara loforða og veitti flokkunum, sem þau gáfu, valdaaðstöðu í þeirri trú, að þau yrðu efnd. Loforðin annars vegar og traust kjósenda á þeim hins vegar voru því hin óumdeilanlega forsenda fyrir völdum núv. ríkisstj.

Hér og nú er um það fjallað, hvort þessi forsenda sé lengur fyrir hendi eða ekki. Sé hún brostin, ber ríkisstj. að víkja, annaðhvort sjálfviljugri eða fyrir ákvörðun Alþingis, og leggja verk sín öll undir þjóðardóm í nýjum kosningum, eins og stefnt er að með vantrauststillögu okkar stjórnarandstæðinga.

Við hverfum að loforðalistanum frá 1959 og spyrjum: Hefur þjóðarframleiðslan vaxið? Hafa lífskjörin batnað? Hvað er það, sem við blasir í þessum efnum? Í fyrsta lagi það, að stefna aukinnar framleiðslu hefur verið brotin á bak aftur og tekin hefur verið upp harðvítug samdráttarstefna á öllum sviðum atvinnulífsins. Í öðru lagi, að vinnustéttunum er ætlaður og skammtaður stórfellt minni hlutur í þjóðartekjunum en áður, lífskjör þeirra skert meira en nokkur dæmi eru til á síðari tímum. Það hefur komið í ljós eftir kosningar, að flokkarnir, sem hétu þjóðinni að leiða hana inn á braut batnandi lífskjara og aukinnar framleiðslu, byggja stefnu sína, á þeirri hugmyndafræði. Að aukin framleiðsla, aukin öflun lífsgæða sé síður en svo nokkurt aðalatriði til lausnar á vandamálum þjóðfélagsins, heldur jafnvel hið gagnstæða. Það er ekki von, að vel fari, þegar siglt er eftir slíkum leiðarmerkjum, enda afleiðingarnar eftir því, sem til er stofnað.

Í undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar, sjávarútveginum, er ástandið í dag þannig, að nýting framleiðslutækjanna hefur aldrei verið minni, í hraðfrystihúsum landsins hafa verið framleidd um og yfir 40% af öllu útflutningsverðmæti þjóðarinnar. Síðustu mánuði fyrra árs stóðu nær öll þessi frystihús ónotuð, meðan togararnir sigldu með afla sinn óunninn á erlendan markað og seldu hann á minna en hálfvirði þess, sem fæst fyrir unna vöru, og enn nú á hávertíðinni er slagbröndum slegið fyrir sum þeirra, en önnur vinna stopult og slitrótt. Í dag liggur meira en fimmti hluti togaraflotans aðgerðalaus, en gjaldþrot og stöðvun vofir yfir verulegum hluta þess, sem enn er gerður út. Bátaflotinn hefur legið í höfnum inni stóran hluta vetrarvertíðarinnar. Á s.l. ári minnkaði sá hluti fiskaflans, sem unninn var í frystihúsum, um 17%, en á sama tíma þrefaldaðist útflutningur óunnins fisks. Enginn vafi leikur þó á, að hér er aðeins um upphaf geigvænlegrar þróunar að ræða. þróunar, sem hlýtur að valda alvarlegu atvinnuleysi fyrr en varir og um leið stórminnkandi þjóðartekjum. Það liggur ljóst fyrir, að í kjölfar svikanna í landhelgismálinu á að ýta öllum togaraflotanum og stærri fiskibátum til siglinga með afla sinn til Bretlands og Vestur-Þýzkalands mestan hluta ársins, en um leið hrynur ein sterkasta stoð fiskiðnaðarins, sem verið hefur undirstaðan í vaxandi þjóðarframleiðslu á undanförnum árum. Þannig á að hrinda okkur á ný niður á stig nýlenduþjáða, á sama tíma og aðrar þjóðir Vestur-Evrópu banna með lögum að flytja út óunnin hráefni, sem vel eru fallin til iðnaðar í þeim löndum sjálfum.

Í landbúnaði og iðnaði er á hliðstæðan hátt stefnt að samdrætti. Á s.l. ári varð þessi samdráttur þó ekki eins geigvænlegur og auðsætt er að hann verður framvegis, ef sömu stefnu er fylgt, vegna þess að þá naut enn að nokkru áhrifa af framleiðslustefnu vinstri stjórnarinnar. En hitt liggur augljóst fyrir, að gengisfelling, vaxtaokur, lánahömlur og þverrandi kaup- og framkvæmdamáttur mun á því ári, sem nú er að líða., stöðva með öllu aukna framleiðslu þessara atvinnugreina og víða minnka hana stórkostlega. Við þörfnumst stöðugrar aukningar í framleiðslu landbúnaðarins, en bændum er hún nú raunverulega bönnuð. Við þurfum að auka húsakost þjóðarinnar um 13–1500 íbúðir á ári. Aðeins til þess að geta mætt eðlilegri fólksfjölgun þurfum við að byggja upp húsakost og atvinnutæki, sem svarar til þess, að Akraneskaupstaður væri byggður frá grunni á tæpu ári eða Akureyri á rúmlega tveimur árum. Við þörfnumst vaxandi iðnaðar til innanlandsþarfa til þess að geta búið sómasamlega að vaxandi þjóð.

Á öllum þessum sviðum er nú verið að stöðva eðlilega þróun. í stað þess að við höfum á undanförnum árum þrátt fyrir allt aukið raunverulega þjóðarframleiðslu um 6.3% árlega að meðaltali og þannig skapað skilyrði fyrir bættum launakjörum, þótt okkur hins vegar hafi ekki notazt þau skilyrði vegna áhrifavalds afturhaldsafla á Alþingi og í ríkisstjórnum og vegna skorts á heildarstjórn þjóðarbúsins, er nú að renna upp tímabil minnkandi þjóðarframleiðslu. Þannig er ekki einasta verið að gera þjóðina alla fátækari, heldur er jafnframt verið að stofna til þeirrar skuldasöfnunar, sem bindur þjóðinni í framtíðinni þunga fjötra um fætur. Ef við byggjum í ár eða á næsta ári 1000 færri íbúðir en eðlileg þörf er fyrir, látum byggingariðnaðarmenn okkar ganga atvinnulausa, þá erum við að safna skuldum, sem greiða verður á sínum tíma, þegar hin aðþrengda þörf brýzt fram. Sama gildir auðvitað um allar aðrar nauðsynjaframkvæmdir, sem nú eru í helgreipum samdráttarstefnunnar. Þetta er skuldasöfnun þeirrar tegundar, að hún svarar nákvæmlega til þess, að lán sé tekið, en andvirðinu sé hent í skólpræsið.

Þannig höfum við fengið miskunnarlausustu samdráttarstefnu í stað stefnu aukinnar framleiðslu, samdráttarstefnu, sem varpað hefur verið fyrir borð jafnvel í harðsvíruðustu auðvaldslöndum og vart á sinn líka annars staðar í heiminum, nema ef vera skyldi hjá Salazar hinum portúgalska. Þessi stefna gat því aðeins hafizt til vegs, að um leið væri gengið hröðum skrefum aftur á bak eftir þeim vegi til bættra lífskjara, sem stjórnarflokkarnir lofuðu 1959 að genginn yrði fram á við. Því var það fyrsta verk ríkisstj. að framkvæma slíka kaupskerðingu vinnustéttanna, að kaupmáttur þeirra hefur, frá því er viðreisnin hófst, minnkað svo, að laun þyrftu nú að hækka um 17%, til þess að þau jafngiltu launum eins og þau voru við valdatöku hennar, en um 24%, ef reiknað er með kaupráninu öllu í tíð núv. stjórnarsamstarfs, allt miðað við opinbera útreikninga stjórnarvaldanna sjálfra, sem segja þó ekki nema hálfa sögu. Þannig hefur leiðin til bættra lífskjara reynzt vinnustéttunum.

Einn áfanginn á þeirri leið átti að verða verðstöðvun án nýrra skatta. En í stað þess loforðs Alþfl. var heilt yfir þjóðina gengisfellingu, sem hækkaði gjaldeyrisverð erlends neyzluvarnings eins um 570 millj. kr.

En skattahækkanir höfum við þó ekki fengið eða hvað?

Árið 1958 námu allir skattar og tollar til ríkissjóðs 637 millj. kr. Það var síðasta fjárlagaár vinstri stjórnarinnar. En á öllu viðreisnarárinu 1961 er fyrirhugað að innheimta 1268 millj. kr. í sköttum og tollum eða því sem næst nákvæmlega 100% hærri upphæð en 1958, á sama tíma og launin eru stórlækkuð.

En er þá ekki fulltryggt, að búskapur ríkissjóðs sé rekinn hallalaust, sem talið var algert sáluhjálparatriði? Ekki verður með vissu sagt um útkomu ársins 1960, því að henni hefur verið haldið leyndri til þessa, en hitt vita allir hv. alþm., að stórfelldur hallarekstur er fyrirsjáanlegur á þessu ári. Skattheimta til ríkissjóðs hvílir nefnilega á kaupgetu almennings að langmestu leyti, og þegar hún þverr, eins og til hefur verið stofnað nú, er aðeins tvennt fyrir hendi: hallarekstur eða ný skattpíning, sem aftur rýrir kaupmáttinn og svo koll af kolli, meðan helstefnan er ekki brotin á bak aftur.

Aðaltilgangur og um leið höfuðafsökun fyrir viðreisninni var sú, að þjóðin hefði á síðari árum lifað um efni fram, hún hefði safnað slíkum skuldabyrðum erlendis, að þjóðarvoði væri fyrir dyrum, ef ekki væri spyrnt við fótum, sultarólin hert að almenningi og lántökur stöðvaðar. Skyldi byrði erlendra skulda og skuldbindinga þá ekki hafa létzt geysilega., síðan ráðdeildarflokkarnir tóku við? Jú, hún hefur létzt þannig, að raunveruleg gjaldeyrisstaða okkar hefur versnað um meira en 1000 millj. kr., síðan þeir tóku við völdum, og aðeins á s.l. ári einu — fyrsta viðreisnarárinu um á sjöunda hundrað millj. króna. Þótt stutt vörukaupalán séu þar ekki meðtalin, en líklegt er, að þau nemi 100–200 millj. kr. Hið óhugnanlegasta við þessa þróun er þó ekki upphæð skuldanna sjálfra, heldur þær staðreyndir, að sáralítill hluti þessarar gífurlegu aukningar hefur farið til gjaldeyrisaflandi framkvæmda og að þjóðin þess vegna og vegna samdráttarstefnunnar er nú miklu verr fær um að standa undir þessum byrðum en þeim, sem hún áður þurfti að axla.

Núv. ríkisstj. hafði skamma hríð setið að völdum, þegar hún hafði svikið öll sín heit, hvert einasta eitt, nema eitt: það að halda fast á rétti þjóðarinnar í landhelgismálinu. Í lengstu lög vonuðu menn, að það færi ekki sömu leiðina og öll hin. En einnig sú von hefur orðið sér til skammar. Hún og allt þinglið hennar hefur nú rifið í tætlur yfirlýsingu Alþingis frá 5. maí 1959 um það að hvika ekki frá 12 mílna fiskveiðilögsögunni frá grunnlínum umhverfis landið. Hinir sömu hafa rofið orð sín og eiða frá kosningunum 1959 um, að þeir skyldu standa fast á þeirri yfirlýsingu og þeim rétti, sem þjóðin hafði aflað sér til fiskimiða sinna, gengið þvert gegn margyfirlýstum vilja þjóðarinnar, eins og hann hefur mótazt í algerri þjóðareiningu í 3 ár, Þverbrotið íslenzk lög og rétt með raunverulegu afnámi landgrunnslaganna frá 1948, allt í þeim tilgangi að hleypa 200–300 brezkum togurum til veiða árið um kring innan íslenzkrar landhelgi og í kjölfar þeirra hverjum erlendum veiðiskipum sem hafa vilja næstu þrjú árin a.m.k., en jafnframt tekið sér vald, sem engin ríkisstj. hefur, til þess að afsala öldum og óbornum Íslendingum réttinum til þess að taka sjálfir ákvarðanir um verndun fiskimiðanna, sem þjóðin byggir efnalegt sjálfstæði sitt á, — afsala honum í hendur erlends dómsvalds, erlends valds. Og loks var valdníðslan fullkomnuð með því að synja þjóðinni að fá að útkljá málið með þjóðaratkvæði. Einnig þá lágmarkskröfu til pólitísks siðgæðis reyndist ríkisstj. um megn að uppfylla.

Góðir tilheyrendur. Lýðræðislegar forsendur fyrir völdum þeirrar ríkisstj., sem hér er borin vantrausti, eru brostnar. Ríkisstjórnarflokkarnir höfðu að baki sér aðeins 54% atkv. við síðustu kosningar. Það var meðan einhver gat trúað loforðunum, sem þeir þá gáfu þjóðinni. Um það er ekki lengur að ræða. Þau hafa verið svikin öll sem eitt. Stjórnarstefnan — viðreisnin — hefur beðið algert skipbrot. Í stað öruggs rekstrar atvinnuveganna, sem hún var sögð mundu skapa, er svo komið höfuðatvinnuveginum, að ekki gengur þar á öðru en rekstrarstöðvunum og hvers konar reiðileysi. Í öðrum atvinnugreinum þjóðarinnar er stórfelldur samdráttur ýmist yfirvofandi eða þegar skollinn yfir. Atvinnuleysis er þegar farið að gæta. Síminnkandi kaupmáttur almennings eykur á samdrátt framleiðslu og framkvæmda og gagnkvæmt. Eðlileg fjármagnsmyndun í formi sparifjár fer síminnkandi. Hallarekstur er fyrirsjáanlegur á ríkisbúskapnum, þrátt fyrir tvöföldun skattheimtu á þrem árum. Stefna minnkandi framleiðslu er að leiða þjóðina í hreinan og vísan voða með stórfelldari skuldasöfnun erlendis en nokkru sinni áður hefur átt sér stað. Og loks er undirstaða efnahags okkar fiskimiðin — ofurseld erlendum ránskap og rányrkju.

Að þessum afbrotum öllum frömdum gegn íslenzku þjóðinni hefur ríkisstj. svo í hótunum um miskunnarlaust stríð við láglaunafólk landsins, sem allar þessar aðgerðir samanlagðar hafa leikið svo, að það á nú um enga leið að velja aðra en þá að fá hlut sinn bættan með hækkuðum launum, og skirrist ekki við að lýsa því yfir, að hún muni rifta öllum þeim samningum, sem um slíkt eru gerðir, með nýrri gengisfellingu, nýju dýrtíðarflóði. Slíkar hótanir ofan á allt annað munu vissulega ekki hræða íslenzkar vinnustéttir frá því að brjóta af sér þá fjötra hrakandi lífskjara, sem nú er verið að reyna að læsa þær í. En þær munu verða þeim og öllum frjálslyndum Íslendingum. hvar sem þeir hafa áður í flokki staðið, hvöt til þess að sameinast um þá kröfu, að ríkisstjórnin viki, viki frá þeim völdum, sem hún nú fer með í andstöðu við mikinn meiri hluta þjóðarinnar. Og það er líka sú eina krafa, sem héðan af verður til hennar gerð.