13.12.1960
Efri deild: 35. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 374 í B-deild Alþingistíðinda. (273)

130. mál, söluskattur

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls fór ég nokkrum orðum um Alþfl. eða beindi nokkrum orðum til hans og minnti á fyrri afstöðu hans til söluskattsálagningar og benti á, hversu öll framkoma hans á svo að segja öllum sviðum nú er í algeru ósamræmi við fyrri stefnu og afstöðu flokksins. Nú hafa tveir hv. Alþfl.-þm. í þessari hv. d. tekið til máls og reynt að réttlæta skoðanaskipti Alþfl. í skattamálum. Jafnframt hafa þeir lýst fylgi sínu við það frv., sem hér liggur fyrir. Nokkuð viku þeir einnig að ummælum mínum um Alþfl. og voru ekki alls kostar ánægðir með þau, sem varla var við að búast. En ekkert af því, sem ég sagði, gátu þeir samt hrakið, enda var ekki hægt um vik, af því að ég lét Alþýðuflokksforingjana sjálfa tala, og byggði á óvefengdum ummælum þeirra, og frá þeim fyrri ummælum sínum komast þeir ágætu heiðursmenn ekki.

Nú er það svo, að ég hef síður en svo löngun til þess að eiga sérstaklega í þrætum við Alþýðuflokksmenn, og það vil ég taka skýrt fram, að það er langt frá því, að ég telji þá vera höfuðmálsvara þessa máls, sem hér er til umr., og ég eigna þeim auðvitað ekki sérstaklega það mál. En samt sem áður kemst ég ekki hjá því að gera nokkrar athugasemdir í tilefni af ræðum hv. Alþýðuflokksþingmanna. Ástæðan til þess, að ég vék alveg sérstaklega að Alþfl., var einfaldlega sú, að ég taldi nokkrar líkur til þess, að þar fyndust menn, sem vildu stöðva þetta mál, sem vildu koma í veg fyrir, að það næði fram að ganga. Þetta byggði ég m.a. á fyrri afstöðu flokksins og að sumu leyti á nýlegum yfirlýsingum og samþykktum úr þeirra röðum. Þess vegna höfðaði ég sérstaklega til Alþýðuflokksþingmanna. — Ég taldi gagnslítið eða gagnslaust að skírskota til sjálfstæðismanna. Ég gerði ráð fyrir, að þeir væru alveg pottþéttir fyrir öllum rökum í þessu máli, enda er það sannast sagna, að skattlagningaraðferð sú, sem hér er fylgt, er í raun og veru í samræmi við stefnu Sjálfstfl. En því miður, og það veldur mér vonbrigðum, þá hefur það nú komið á daginn í þessum umræðum, að Alþýðuflokksþingmennirnir eru líka algerlega pottþéttir fyrir öllum rökum í þessu efni.

Ummæli mín um Alþfl. voru siður en svo sprottin af nokkrum illvilja, í hans garð. Það var því alveg úr lausu lofti gripið hjá hv. 10. þm. Reykv., þegar hann sagði tortímingu Alþfl. vera óskhyggju framsóknarmanna. Allar bollaleggingar hv. þm. þar um voru óþarfar og ástæðulausar. Ég gaf ekkert tilefni til þvílíkra ályktana. Ég hef jafnan talið, að Alþfl. hefði eða gæti haft þýðingarmiklu hlutverki að gegna í íslenzkum stjórnmálum. Ég hef jafnan talið stjórnarhætti á Norðurlöndum, þar sem alþýðuflokkar þeirra landa hafa staðið mjög framarlega, til fyrirmyndar, og þess vegna hef ég talið, að Alþfl. hér, ef hann hefði svipaða stefnuskrá og starfaði á svipaðan hátt og þessir bræðraflokkar, sem hann heyrist stundum nefna svo, á Norðurlöndum starfa eftir, hefði hlutverki að gegna. Og afstaða Framsfl. til Alþfl. gefur síður en svo tilefni til þessara ummæla, sem hv. þm. viðhafði. Framsfl, og Alþfl. hafa oft og tíðum verið í samstarfi og haft vinsamlega samvinnu, og þeir hafa í sameiningu hrundið mörgum góðum málefnum fram á við. Og ég hygg, að Alþfl. hafi enga raunverulega ástæðu til þess að kvarta undan þeim samskiptum og þeirri samvinnu, sem þessir flokkar hafa verið í, og hún gefi hv. þm. alls ekkert tilefni til þess að álykta sem svo, að Framsfl. óski sérstaklega eftir tortímingu Alþfl. Ég mótmæli því algerlega, að það hafi nokkuð sérstaklega komið fram. Hins vegar óskar Framsfl. að sjálfsögðu eftir því, að Alþfl. bæti sitt ráð, hverfi frá þeirri umskiptingsstefnu, sem hann fylgir nú, og að fyrri og betri stefnu.

En þó að Alþfl. eigi Framsfl. margt og mikið upp að unna, þá er það samt sem áður misskilningur hjá hv. 10. þm. Reykv., að ummæli mín bæri að skilja á þá lund, að þess væri að vænta, að einhver konungssonur úr Framsfl. kæmi Alþfl. til bjargar og beindi honum inn á réttar brautir. Það, sem ég átti við, var vitaskuld þetta, eins og í þjóðsögunni, þar sem það var húsmóðirin — móðirin, sem hirti umskiptinginn og kom því þar með til leiðar, að barninu hinu betra var skilað. Það, sem ég átti við, var auðvitað þetta, sem þarf að gerast, að fólkið, sem hefur fylgt Alþfl. að málum, fólkið, sem hefur byggt upp flokkinn, hirti sína forustumenn og komi þeim á rétta braut. Það er einmitt aflið og uppsprettan í Alþfl., eins og hverjum öðrum flokki, sem verður að taka í taumana, þegar stýrt er í ógöngur.

Þeir töluðu báðir, þessir hv. þm. Alþfl., um skoðanaskipti Alþfl. í skattamálum, viðurkenndu þau, en reyndu að réttlæta þau, og er það í sjálfu sér skiljanlegt, að þeir reyni það, og ekkert við því að segja. Í sjálfu sér er heldur ekkert við því að segja, þótt skoðanaskipti eigi sér stað um einstök mál og þá auðvitað alveg eins um skattamál og önnur mál. Og ég vil taka það skýrt fram, að ég tel, að í skattamálum hljóti óhjákvæmilega að koma til athugunar ýmsar leiðir og að þar sé engin ein leið, sem er algerlega rétt, heldur verði að meta það nokkuð hverju sinni, hvað réttmætt og heppilegt er í því efni.

En það er nú þannig, eins og reyndar kom fram í minni frumræðu við 1. umr. þessa máls, að það er ekki svo ljóst í þessu efni, hver stefna Alþfl. í skattamálunum er, eða stefnan gagnvart þessum söluskatti, vegna þess að þetta hefur verið nokkuð sitt á hvað. Ég rakti í minni frumræðu ummæli þau, sem Alþýðuflokksforingjarnir höfðu um söluskattinn á Alþingi 1953, hvernig þeir voru þá algerlega á móti honum og fundu honum allt til foráttu. En þessir tveir hv. þm., sem ég hef vitnað í, vildu — og sérstaklega hv. 9. landsk. þm. — halda því fram, að Alþfl. hefði skipt um skoðun í þessu efni og hefði ákveðið að hverfa frá þeirri stefnu, sem hann hefði áður fylgt, að telja beina skatta heppilegasta, og taka nú upp óbeina skatta eða tolla í æ ríkara mæli. Og mér skildist, að þessi breytta stefna ætti rætur að rekja allar götur aftur til ársins 1956, þá hefði einhver ályktun verið gerð um það og síðan hefði sú ályktun, að mér skildist, verið endurnýjuð og áréttuð í einhverri till., sem þm. Alþfl. hefðu borið fram á Alþingi í efnahagsmálum. Ég held nú, að það hafi ekki komið glöggt fram í þeirri ályktun, og mér er ekki kunnugt um þessa samþykkt, sem gerð á að hafa verið á Alþýðuflokksþingi 1956. En ég vil aðeins benda á það, sem ég reyndar drap á í minni frumræðu, að á þessu ári, 11. marz 1960, skrifaði Alþýðublaðið í þeim dúr, að það taldi söluskattinn, sem um er hér að ræða, algerlega óréttlátan. Það komst orðrétt þannig að orði, með leyfi forseta:

„Þegar lífskjör alþýðunnar eru svo kröpp, að hún getur ekkert leyft sér nema nauðþurftir, er að sjálfsögðu mjög óréttlátt að leggja á þær vörur söluskatt.“

Þarna talaði málgagn Alþfl. og lýsir því yfir, að álagning söluskatts á nauðþurftir sé óréttlát. Það er ekki að sjá af þessum skrifum, að þeir hafi haldið fast við þá stefnu, sem mörkuð var áður af Alþfl., eftir því sem þessir hv. þm. sögðu. En annars vil ég benda á, að þrátt fyrir yfirlýsinguna í Alþýðublaðinu 11, marz 1960 um, að þetta sé óréttlátt, og þó að því hafi verið lýst yfir, að því að virðist, í samþykkt Alþýðuflokksfélags hér í bæ, að söluskattinn bæri að afnema, þá ætla þessir hv. þm. samt að fylgja frv. því um söluskattinn, sem hér liggur fyrir, eftir því sem þeir upplýstu í umræðunum hér.

Þeir játuðu það að vísu báðir, þessir hv. þm. Alþfl., að þeir væru svo sem ekkert sérstaklega ánægðir yfir þessum skatti, þeir teldu hann eiginlega óréttlátan, að mér skildist. En þeir sögðu bara sem svo: Ríkið þarf á þessum skatti að halda, og það væri ábyrgðarleysi af okkur að vera ekki með þessari skattlagningu, og stjórnarandstæðingar hafa ekki bent okkur á neinar leiðir, sem við gætum valið að fara í stað þessara, sem hér liggja fyrir. — Ég held nú satt að segja, að það sé ekki hægt að ætlast til þess af stjórnarandstöðunni, að hún bendi sérstaklega á skattheimtuleiðir. Ég held, að það sé fyrst og fremst hlutverk stjórnarandstöðunnar að gagnrýna á heilbrigðan hátt, en ekki að kenna stjórninni sérstaklega ráð, benda á þær leiðir, sem fara á. En um leið og þm. Alþfl. lýsa þessu yfir, þá játa þeir það, að þeir geti ekki sjálfir bent á eða fundið aðra skattlagningaraðferð réttlátari en þessa söluskattsinnheimtu.

Alþfl.-þingmennirnir báru sig illa undan mínum ummælum, og það var náttúrlega von. En ég vil benda á það, að þau ummæli mín voru alls ekki byggð á þeim skoðanaskiptum einum, sem hafa átt sér stað hjá Alþfl. í skattamálum. Það eru mörg önnur mál og málaflokkar, sem

Alþfl. hefur í tíð núverandi hæstv. ríkisstj. algerlega breytt um stefnu í frá því, sem áður var. Ég skal aðeins með örfáum orðum rifja upp þau mál til þess að minna hv. Alþfl.-menn á það.

Þá vil ég fyrst nefna stefnuna í vaxtamálum. Ég hygg að það sé ekki hægt að benda á neitt einasta dæmi þess í sögunni, að Alþfl. nokkurs staðar hafi beitt sér fyrir eða samþykkt jafngífurlega vaxtahækkun og þá, sem átti sér stað. Það verður þá leiðrétt hér í umræðunum á eftir, ef hægt er að benda á slík fordæmi. Ég hygg, að sú stefna að hafa vexti svo háa eins og hér er nú og hækka vextina svo gífurlega eins og gert var síðastliðinn vetur sé í algeru ósamræmi við þá stefnu, sem Alþfl. áður hélt fram.

Ég nefni aðeins sem annað dæmi gengisfellinguna. Sú var tíðin, að Alþfl. var algerlega á móti gengislækkun, taldi hana hið mesta óráð. Og til þess að gefa Alþýðuflokksmönnum aftur orðið og sanna mitt mál, þá vildi ég mega vitna til þess, sem hæstv. núverandi viðskmrh. sagði í nál. um gengislækkunarfrv. 1950, en þá sagði hann m.a. þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Að öðru leyti er það um þetta að segja, að ég tel það ekki eiga vera eitt höfuðmarkmið þeirrar stefnu, sem fylgt er í efnahagsmálum, að hægt sé að halda uppi svonefndri frjálsri verzlun. Ég tel höfuðmarkmiðið eiga að vera, að haldið sé uppi fullri atvinnu og að full hagnýting allra framleiðslutækja sé tryggð. Svo álít ég, að verzlunin eigi að vera eins frjáls og samrýmist þessu höfuðmarkmiði. Ýmis fræðileg rök og gömul og ný reynsla virðist benda til þess, að vafasamt sé, að hvort tveggja geti farið saman, algerlega óheft framtak í framleiðslu og viðskiptum annar s vegar og full atvinna og full hagnýting atvinnutækja hins vegar.“

Beri menn svo þessi ummæli saman við þá stefnu, sem upp var tekin í efnahagsmálunum síðastliðinn vetur, að því er varðar gengisfellingu, að því er varðar stefnuna í verðlagsmálum og að því er varðar stefnuna í verzlunarmálum. Stefnan í öllum þessum málum, sem tekin var síðastliðinn vetur, er í algeru ósamræmi við þessi ummæli, sem ég vitnaði til.

Og sú var tíðin, að Alþfl. barðist fyrir og taldi það eitt aðaleinkenni á sinni stefnu, ef ég man rétt, að styðja með opinberri aðstoð ýmiss konar framkvæmdir. Þeirri stefnu eru óhjákvæmilega samfara nokkur afskipti þess opinbera. Þessi stefna, sem víða er nú fylgt um lönd, og gengur undir nafninu velferðarstefna eða velferðarríkisstefna, var stefna Alþfl. hér lengi vel, að ég held. En nú er aftur á móti, að því er virðist, horfið mjög frá þeirri stefnu. En um þessar tvær stefnur talaði einmitt hæstv. viðskmrh. mjög skynsamlega 1950 og gerði samanburð á þeim, og ég vildi, með leyfi hæstv. forseta, aðeins lesa það upp, sem hann sagði þá:

„Síðan stríði lauk, hafa verið uppi tvær stefnur í efnahagsmálum í nálægum löndum. Á Norðurlöndum og Bretlandi, þar sem jafnaðarmenn hafa verið við völd, hefur megináherzlan verið lögð á að tryggja öllum atvinnu, bæta lífskjör almennings og stuðla að auknum jöfnuði. í öðrum löndum, svo sem í Vestur-Þýzkalandi, Belgíu, Frakklandi og Ítalíu, þar sem íhaldssinnaðir flokkar hafa farið með stjórn, hefur verið farin leið hinna svokölluðu frjálsu viðskipta. Þar er alls staðar viðtækt atvinnuleysi og mikil dýrtíð.“

Síðan heldur viðskmrh. áfram:

„Nú er hæstv. ríkisstjórn“ — þ.e. ríkisstjórnin 1950 – „að taka upp íhaldsstefnuna, sem fylgt hefur verið í Vestur-Þýzkalandi, Frakklandi og Ítalíu, stefnuna, sem fært hefur þessum löndum atvinnuleysi, dýrtíð og ójöfnuð, og meira að segja slæmt afbrigði af henni. Það er rétt, að í löndum hinna frjálsu viðskipta er meira að sjá í búðargluggum og hægt að borða betur á veitingahúsum. Á slíku mun nú einnig von hér. En hvorki hér né annars staðar hefur almenningur lifað af því, sem hann hefur mátt horfa á í búðargluggum án þess að geta keypt, og það er ekki alþýðan, sem nýtur þess, þótt krásir séu á borðum veitingahúsa. Almenningur krefst þess að geta keypt nauðsynjar sinar, mat, föt og húsnæði, við hóflegu verði. Við það vilja jafnaðarmenn í öllum löndum láta miða stefnuna í efnahagsmálum. Fylgjendur hinna frjálsu viðskipta telja það aðalatriði, að búðirnar séu fullar, þótt almenningur geti litið keypt. Það liggur við, að þeir telji velmegunina þeim mun meiri, sem meira er af vörum í búðunum, en minna hjá almenningi. Það er þessi stefna, þessi íhaldsstefna, sem hæstv. ríkisstjórn er nú að leiða yfir Íslendinga.“

Þetta sagði hæstv. núverandi viðskmrh. á Alþingi 1950, og má lesa þessi ummæli í B-deild Alþingistíðindanna á bls. 1412. En ég hefði nú haldið að þessi lýsing, sem hann gefur þarna á þeirri stefnu, sem fylgt hafi verið í Vestur-Þýzkalandi og víðar, sé að sumu leyti lýsing á þeirri stefnu, sem hér hefur verið upp tekin í þessum málum. Hitt er svo annað mál, hvort sú stefna, sem hér hefur verið upp tekin, ber að öllu leyti þann árangur, sem stefnan, sem upp var tekin í Vestur-Þýzkalandi, bar, en á því virðast nú engar horfur. En hitt er víst og ljóst af þessum ummælum, sem ég vitnaði til, að í þessum efnum hefur Alþfl. einnig algerlega skipt um skoðun.

Og hvað er að segja um landbúnaðarmálin? Það má kannske segja, að Alþfl. hafi aldrei haft neinn sérstakan áhuga á landbúnaðarmálum, en hitt er þó jafnvíst, að þegar Alþfl. var í stjórn með Framsfl., lagði hann lið mjög mörgum málefnum landbúnaðarins. Það verður að segjast, að það er nokkuð annað en fram kemur hjá Alþfl. nú í þeim ræðum, sem fluttar hafa verið af hans hálfu, þegar þau mál hafa verið til umræðu hér í deildinni. Og það er reyndar nokkuð annað en sú stefna, sem kemur fram hjá hæstv. ríkisstj., t.d. í lánamálum landbúnaðarins, sem rædd hafa verið hér nokkuð, og það hvað eftir annað. En síðast, en ekki sízt skal ég þó aðeins nefna einn málaflokk, þar sem Alþfl, hefur enn algerlega skipt um skoðun, og það eru kaupgjaldsmálin. Hvenær var Alþfl. áður fyrr fylgjandi bindingu kaupgjalds? En það hefur hann verið í tíð þessarar hæstv. ríkisstj. Það er þess vegna ekki á skoðanaskiptum Alþfl. í skattamálunum einum, sem ég byggði ummæli mín við 1. umr. þessa máls, heldur á mjög mörgum öðrum málum, og það má í stuttu máli segja, að það sé eiginlega sama, hvar drepið er niður, að í öllum stefnumálum Alþfl. hefur hann tekið algerlega kollsteypu. Stefna hans nú er þar hvarvetna í algeru ósamræmi við þá stefnu, sem hann hafði áður fyrr. Um samanburðinn á þeirri nýju stefnu og hinni fyrri get ég látið nægja að vísa til þess, sem hv. 1. þm. Norðurl. e. gat hér áðan um, og skal ekki fara út í það nánar. En ég ætla, að með þessum orðum hafi ég sýnt fram á það, svo að ekki verður vefengt, að það er um algera stefnubreytingu hjá Alþfl. að ræða, og hann verður að láta sér lynda, að það sé sýnt fram á það hér, og það mun verða sýnt fram á það annars staðar, og hann verður að standa sínum kjósendum, sínum umbjóðendum reikningsskil þeirrar stefnubreytingar.

Það hefur verið rætt hér allýtarlega um þá kjaraskerðingu, sem þetta frv. um viðbótarsöluskattinn felur í sér, eða þó ef til vill öllu heldur, hverri kjaraskerðingu mætti aflétta, ef frá álagningu hans væri horfið. Ég skal ekki lengja mikið mál mitt um það. En það hefur verið sýnt fram á það alveg greinilega hér, að í tíð núverandi hæstv. ríkisstjórnar hafa verið lögleiddar nýjar söluskattsálögur, að þær þýða nýjar álögur að mjög verulegu leyti. Það var sýnt fram á það rækilega af hv. 5. þm. Norðurl. e., hver væri munur á nýju og gömlu sköttunum að því leyti. Hann sýndi fram á það, að á yfirstandandi ári væru slíkir skattar 178 millj. kr. hærri og eftir áætluninni yrðu þeir á árinu 1961 238 millj. kr. hærri. Ég get ekki annað séð en sá samanburður sé algerlega réttmætur.

Ég get ekki fallizt á það, sem kom fram hjá hv. 11. þm. Reykv., þar sem hann taldi, að þetta mætti ekki bera saman, þar sem sleppt væri út úr þessum samanburði þeim sköttum, sem áður hefðu runnið til útflutningssjóðs. En þess er einmitt þar að gæta, að í staðinn fyrir útflutningssjóðinn og það hlutverk, sem hann hafði, er gengisfellingin komin, svo að ég get ekki annað séð en þetta sé algerlega sambærilegt. Og það stendur þó, það álit norska hagfræðingsins, sem nefndur hefur verið í þessum umr. og vitnað hefur verið til, það stendur þó hjá honum það álit, að lækkun eða niðurfelling þessa viðaukasöluskatts mundi þýða 3% sparnað hjá meðalfjölskyldu.

Þeir hafa haldið því fram, hv. stjórnarmenn, að þessar álögur væru ekki meiri en áður. En með þessu, sem nú hefur verið sagt og áður hefur komið fram í umr., er einmitt sýnt fram á, að þær eru meiri. Hitt er svo auðvitað ekki síður atriði, að það skiptir máli, á hverjum álögurnar lenda. Það hefur komið fram í þessum umr., og það kom margoft fram í umr. í fyrravetur, að talsmenn stjórnarinnar héldu því fram, að hér væri ekki um nýjar álögur að tefla, heldur aðeins tilflutning á gjaldheimtu. En í nál. meiri hl. fjhn. í fyrravetur var alveg réttilega á það bent, að það, sem hér væri um að ræða, væri breyting á skattstofnum, — og það er mergurinn málsins, að þessi söluskattur, sem hér er um að tefla og var lagður á með söluskattslögunum, er einmitt lagður á allt aðra, lendir á allt öðrum en þeir skattar, sem áður var um að tefla. Og í því er meginbreytingin fólgin. Það er alveg rétt, sem hv. 9. landsk. sagði hér í umr., að þegar um skatt er að tefla, þá skiptir það auðvitað höfuðmáli, til hvers sköttunum er varið. En ég vil segja, að hitt skiptir ekki minna máli, á hverja skattarnir eru lagðir. Það skiptir víssulega mjög miklu máli, þegar rætt er um það eða metið, hverja skattlagningaraðferð beri að velja.

Það hefur verið lögð á það áherzla hér af talsmönnum stjórnarinnar, að stjórnarandstaðan benti ekki á neinar tekjuöflunarleiðir. Ég hef nú þegar bent á það, að þess verður tæplega krafizt af stjórnarandstöðu, að hún bendi á tekjuöflunarleiðir. En annars kom það fram í sambandi við umr. um þetta mál s.l. vetur, hverjar aðrar leiðir stjórnarandstaðan hugðist fara í þessu efni. Og ég vil bæta því við, að ef það væri óhjákvæmilegt að innheimta söluskatt eða afla svo mikilla tekna með söluskatti eins og gert er ráð fyrir að þessi söluskattur nemi, þá álít ég, að það ætti að hafa þann söluskatt breytilegan eftir vöruflokkum. Það er einmitt eitt meginatriði í sambandi við þessa skattlagningaraðferð. Ég álít, að óbeinir skattar séu sjálfsagðir, og ég álít, að það séu takmörk fyrir því, hve hægt er að ganga langt í beinum sköttum. En ég álít, að það eigi að vera eitt höfuðeinkennið á óbeinum sköttum, að þeir séu misjafnlega háir eftir því, hverjar vörur eiga í hlut. Með þeirri skattlagningaraðferð er hægt að skattleggja eyðsluna, en með því að hafa skattinn jafnan á allar vörur er um hreinan neyzluskatt að ræða.

Ég ætla svo að lokum aðeins að segja þetta, að það var í sambandi við meðferð efnahagsmálanna í fyrra látið í það skina, að þeim fylgdi lítil sem engin kjaraskerðing. Í öðru orðinu var að vísu viðurkennt, að nokkra kjaraskerðingu mundi þar af leiða, en í hinu var sagt, að hún mundi vera uppborin af þeim hlunnindum, sem mönnum féllu í skaut, og þá var talað hátt um leiðina til bættra lífskjara, og þetta var talin vera leiðin til bættra lífskjara, — og það var talað um viðreisn. Ég vil aðeins, um leið og ég lýk máli mínu, benda á, að það er komið allt annað hljóð í strokkinn hjá þessum hv. þm. nú. Þeir tala miklu minna um leiðina til bættra lífskjara nú en þá, og þeir tala miklu mínna um viðreisn nú en þá. Og þeir eru meira að segja farnir að viðurkenna það alveg ótvírætt, að kjaraskerðing fylgir þessum ráðstöfunum, og þeir eru meira að segja, eins og hv. 11. þm. Reykv., farnir að segja, — en hann sagði það hér áðan, — að á þessu stigi væri auðvitað ekkert hægt að segja um það, hvort þessi tilraun bæri árangur eða ekki. Þetta er þýðingarmikil játning, og það er ástæða til þess að spyrja þessa menn einmitt nú, hvar viðreisnin sé. Hvar er viðreisnin, sem átti að fylgja í kjölfar efnahagsráðstafananna? Birtist hún í aukinni framleiðslu eða blómlegum atvinnuvegum? Er útgerðin t.d. betur á vegi stödd nú en þegar núv. hæstv. ríkisstj. tók við völdum ? Eða er hún betur á vegi stödd nú en þegar Alþfl: stjórnin tók við völdum í árslok 1958? Ég hygg, að það sé erfitt að svara því játandi, að hagur útgerðarinnar hafi batnað á þessu viðreisnartímabili. Ég hygg, að útgerðarmenn hafi allt aðra sögu um það að segja, og sú saga hefur verið sögð að undanförnu á því þingi eða á þeim fundi, sem útvegsmenn hafa háð, og hún hefur birzt í ályktunum, sem sá fundur hefur látið frá sér fara, og hún hefur birzt í þeim kröfum, sem sá fundur hefur gert á hendur hæstv. ríkisstj. Nei, það hefur sannarlega ekki farið mikið fyrir viðreisninni þar á því sviði.

En hvað er þá um landbúnaðinn? Er ekki mikill viðreisnarsvipur á honum á þessu ári, sem liðið er frá myndun núv. hæstv. ríkisstj.? Ætli landbúnaðinum hafi ekki orðið vaxtahækkunin til mikilla hagsbóta? Hvað ætli sé að segja um lánamál landbúnaðarins? Það hefur verið gefið loforð af hálfu hæstv. ríkisstj. um fé í lánasjóði eða fjárfestingarsjóði landbúnaðarins, gefið hvað eftir annað. Því var lýst yfir af hæstv. landbrh. í sambandi við þál., sem var til meðferðar hér á þinginu s.l. vor, að hann mundi sjá fyrir því, að fé kæmi til veðdeildarinnar. Í byrjun nóvember gaf hæstv. landbrh, það svar við fyrirspurn frá mér, að hann mundi á næstu dögum útvega veðdeild Búnaðarbankans 3 milljónir og útlán úr veðdeildinni mundu geta hafizt alveg næstu daga. Mér er ekki kunnugt um, að sú fjárhæð sé enn komin í veðdeildina og að þau útlán séu enn hafin. Það hefur verið búizt við svo að segja vikum saman, að eftir hver vikulok gætu útlán hafizt úr ræktunarsjóði og byggingarsjóði Búnaðarbankans, en það hefur ekki orðið af því enn, og það er af því, að það hefur staðið á fjárútvegunum í þessa sjóði. Viðreisnin hefur ekki getað leyst vandræði þessara sjóða.

Og hvað er að segja um framkvæmdir á sviði landbúnaðarins? Skyldu þær hafa aukizt á þessu ári, sem hæstv. ríkisstj. hefur setið að völdum, eða skyldu þær hafa dregizt saman?

Og hvað segir verzlunin um þessa viðreisn? Skyldi verzlunin yfirleitt vera ákaflega ánægð? Skyldi hún telja hag sinn hafa batnað á þessu ári, sem hæstv. ríkisstj. hefur setið að völdum?

Hefur viðreisnin fært launþegum hagræði? Ja, hvað segja þeir? Nú er nýlega lokið Alþýðusambandsþingi. Ég veit ekki betur en að hafi verið gerð samþykkt, þar sem því var lýst yfir, að þeir teldu óhjákvæmilegt að gera kröfur um verulegar launabætur, og ég veit ekki betur en á því þingi hafi verið og að þeirri samþykkt hafi staðið jafnvel þingmenn úr liði stjórnarflokkanna. Og annar flokkur launamanna er líka nýbúinn að halda þing, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja. Mér er ekki kunnugt um annað en á því þingi hafi verið gerð ályktun, þar sem því var lýst yfir, að kjör opinberra starfsmanna væru svo bágborin, að ekki væri við það unandi, og ákveðnar kröfur gerðar um launauppbætur til handa ákveðnum hópum opinberra starfsmanna. Mér er ekki um annað kunnugt en að þessum samþykktum hafi staðið þingmenn úr stjórnarflokkunum, að ég hygg meira að segja hv. 11. þm. Reykv., hv. frsm. meiri hl. n. Það eru þess vegna vissulega gerðar kaupkröfur, ekki aðeins frá samherjum hv. 5. þm. Norðurl. e., heldur hvarvetna af fylgismönnum hæstv. ríkisstj., svo að ekki lítur út fyrir, að viðreisnin hafi bætt hag launamanna.

Og hvað er að segja um skattana? Hefur viðreisnin ekki lækkað skattana? Nei, það hefur nú verið sýnt svo rækilega fram á það í þessum umr., að ég skal ekki fjölyrða um það frekar.

Hvað er að segja um fjárl.? Hefur viðreisnin ekki lækkað fjárl.? Nei. En skuldir ríkissjóðs, hafa þær ekki lækkað á þessu viðreisnartímabili? Skuldir ríkissjóðs við útlönd munu ekki hafa lækkað á þessu tímabili.

Það er vissulega svo, að það munu vera fáir, sem hafa þá sögu að segja, að viðreisnin hafi fært þeim hagsbætur. Hv. 9. landsk. þm. var að ráðleggja það, ef menn væru í vafa um, hversu kjaraskerðingin, sem orðin væri, væri mikil eða lítil, þá væri ekki annað en hringja í Per Dragland, norska hagfræðinginn, þá mundi hann geta leyst úr þeirri spurningu. Ég vildi segja honum það, að ég held, að hann þurfi ekki að fara svo langt til þess að fá leyst úr þeirri spurningu. Ég hygg, að hann geti farið hér um t.d. í borginni og talað við húsmæður og spurt þær þessarar spurningar, hvort kjörin hafi batnað eða versnað. Og ég held, að það sé alveg sama, hvað allir útreikningar sýni, að þá verði erfitt að koma almenningi í skilning um annað en kjör hans hafi stórkostlega versnað. Þess vegna er það, að þegar allt þetta er athugað, sem rakið hefur verið og komið hefur fram í þessum umr., þó er það alveg augljóst, eins og hv. 1. þm. Norðurl. e. sagði, að stjórnin er komin út í fen, og hún heldur áfram út í þetta fen æ lengra og lengra og mun þess vegna sökkva æ dýpra og dýpra, ef ekki verður snúið við. Og það er einmitt þetta, sem þarf að gera. Það þarf að snúa við. En skilyrðið fyrir því, að hægt sé að snúa við, er einmitt það, að stjórnin segi af sér. Og það er þetta, sem ég lagði áherzlu á í minni fyrri ræðu, en hv. 10. þm. Reykv. (EggÞ) nokkuð færði á annan veg. Það er nauðsynlegt, að stjórnin fari frá sem fyrst, til þess að það gefist tækifæri til þess að leita að nýjum leiðum í þessu efni, eins og hv. 1. þm. Norðurl. e. gat um í sinni ræðu.