14.03.1961
Sameinað þing: 53. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 735 í D-deild Alþingistíðinda. (2731)

206. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Meðan ég hlýddi á ræðu hv. 3. þm. Norðurl. e., Gísla Guðmundssonar, hér áðan, rifjaðist upp fyrir mér sá einstæði atburður, er hv. 4. landsk., Hannibal Valdimarsson. í málþófi stjórnarandstöðunnar gerði verkfall hér í ræðustólnum og þagði langa stund. Nú er ég fyrstur manna til að viðurkenna, að þegar þessi hv. þm. þegir, þá sýnir hann sína beztu hlið. En því datt mér þetta í hug, að hv. þm. Gísli Guðmundsson þagði allt málþófið, en lét þó bugast að lokum og sagði já og nei á viðeigandi stöðum. Nú tókst hins vegar að lemja þennan annars íhugula þm. til fylgilags við hina rauðblesóttu hjörð í framsóknarfjósinu, enda báru marghrakin rök hans þess glöggan vott.

Það væri æskilegt að ræða ýtarlega þann boðskap, sem fulltrúar beggja kommúnistaflokkanna fluttu hér í gærkvöld. Ræður þeirra um verkalýðs-, atvinnu- og kjaramál gætu orðið athyglisverð undirstaða þess, að sýnt yrði fram á, hvernig fláráðir menn hugsa og tala í mynd gífuryrða og blekkinga. Þeir arkitektar alheimssælunnar, hv. þm. Eðvarð Sigurðsson og Björn Jónsson, ræddu nokkuð þessi mál. Enginn tími er til að rekja ræður þeirra, en ég vil minnast á atriði, sem kom fram í ræðu hv. þm. Eðvarðs Sigurðssonar, er hann sagði, að verkalýðshreyfingin á Íslandi mundi meta hverja lækkun ríkisstj. á vöruverði sem hækkuð laun. Hver trúir þessum fullyrðingum Eðvarðs eftir að hafa hlustað í rúmt ár á einhliða áróður hans og félaga hans í þá átt, að óhjákvæmilegar verðhækkanir gengisfellingarinnar hafi komið með fullum þunga á launþega, og allir þeirra kröfuútreikningar byggðir einmitt á því? Það er gengið fram hjá því, sem kom á móti: fjölskyldubótum, stórhækkuðum elli- og örorkustyrk og lækkun útsvara og skatta. Það hefur aldrei verið dregin dul á, að þrátt fyrir þetta væri um kjaraskerðingu að ræða, sem öll þjóðin yrði að taka á sig, á meðan við kæmumst yfir erfiðasta hjallann. En hvenær hafa þessir herrar slegið upp sem kjarabót niðurfellingunni á skerðingarákvæðum ellilauna gamla fólksins og barnalífeyri um síðustu áramót? Það gera þeir ekki, því að með því var framkvæmt gamalt loforð kommúnista sjálfra, sem þeir sviku eins og önnur hagsmunamál íslenzkrar alþýðu, meðan þeir sátu í ríkisstj. Hermanns Jónassonar.

Samkomulagið við Breta er talið ástæða þeirrar vantrauststill., sem hér er til umr. Í sambandi við það hljóta að vakna ýmsar spurningar, þ. á m. hvort nokkur nauðsyn hafi verið á að semja við Breta. Það tel ég einmitt, að við höfum orðið að reyna til að fyrirbyggja þá hættu, sem sjómönnum okkar var búin á miðunum, meðan þessi deila stóð.

Svo er fyrir að þakka, að Alþingi er skipað þeim mönnum að meiri hluta, sem hvorki hugsa né tala eins og einn af þm. kommúnista gerði í umr. um landhelgina fyrr í vetur, en þá sagði hv. þm. Finnbogi R. Valdimarsson, að íslenzkir sjómenn væru svo vanir hættunum, að þá munaði ekki um, þótt þessi hætta væri lögð á þá til viðbótar. Þetta var verðug kveðja kommúnista til íslenzkra sjómanna. Að vísu viðurkenndi sami hv. þm., að þessi hætta væri fyrir hendi þá, þótt hann vildi hins vegar ekkert gera til þess að afstýra henni. Það vildi formaður Framsfl. hins vegar. Hann hóf máls á því í utanrmn., eftir að síðari Genfarráðstefnunni lauk, að Íslendingar krefðust, að bandarískur sjóher yrði hér til staðar og berðist við Breta, ef þeir hæfu herhlaup að nýju inn fyrir 12 mílur.

Í umr. um samkomulagið hefur stjórnarandstaðan með hinn nýja milliríkjameistara Framsóknar, hv. 7. þm. Reykv., Þórarin Þórarinsson, í broddi fylkingar, haldið uppi furðulegum blekkingum þess efnis, að efnisleg viðurkenning Breta á 12 mílunum hafi fengizt, er þeir kölluðu herskip sin og togara út fyrir, áður en síðari Genfarráðstefnan hófst, og að öll hætta af ásókn þeirra inn fyrir 12 mílur hafi þar með verið liðin undir lok. Sannleikurinn er hins vegar sá, að frá því að síðari ráðstefnunni lauk, fram að því er samkomulag náðist, voru það aðgerðir hæstv, ríkisstj., sem héldu þeim fyrir utan 12 mílurnar: fyrst sakaruppgjöfin, síðan viðræðurnar við fulltrúa brezku ríkisstj. Það er staðreynd, sem allir skyni bornir menn viðurkenna, að ef samkomulag hefði ekki náðst, þá hefðu brezkir togarar í tugatali ráðizt inn fyrir 12 mílurnar án minnsta tillits til veiðarfæra eða fiskibáta og haft í för með sér stórhættur fyrir líf og eignir íslenzkra sjómanna.

En nú er líka gengið fram hjá þeirri staðreynd, að krafa hv. 2. þm. Vestf. um erlenda herskipaíhlutun gegn Bretum innan lögsögu okkar hefði aðeins verið sú fyrsta, sem fram hefði komið, ef svo hefði til tekizt, að skaptrylltir brezkir togaramenn hefðu orðið þeir ólánsmenn að valda fjörtjóni á íslenzkum fiski- og varðskipsmönnum.

Það er með þetta í huga, sem kommúnistar hafa reynt að standa gegn öllu því, sem verða mætti til að eyða þessari hættulegu deilu. Þeir sáu fram á, að með sína stefnu að leiðarljósi í landhelgismálinu mátti halda svo á því, að við segðum okkur úr Atlantshafsbandalaginu, eyðilegðum fyrir okkur þá þýðingarmiklu markaði, sem eru að skapast í Vestur-Evrópu, yrðum bundnir vöruskiptalöndunum austan tjalds, ekki aðeins í viðskiptalegu, heldur og pólitísku tilliti. Þetta hefði einmitt tekizt, eftir að við hefðum afneitað þeim grundvelli, sem skráður er í stofnskrá Sameinuðu þjóðanna og smáþjóðir heims ásamt íslendingum hafa og verða að byggja tilveru sína á, þeim, að viðræður, samningar og alþjóðalög komi í stað hótana og ofbeldis þeirra sterku. Slíkur grundvöllur er ekki lengur fyrir hendi, þegar þjóðin tekur undir með samkór kommúnistaflokkanna og segir, að samningar séu svik.

Fátt sannar betur sýndarmennskuna en fullyrðingar þessara flokka nú um, að stækkun fiskveiðilögsögunnar 1958 hafi ekki stuðzt við alþjóðalög eða reglur, en hins vegar hafi réttur Íslands samkvæmt sömu lögum og reglum verið ótvíræður til þeirra þýðingarmiklu grunnlínubreytinga, sem fást nú viðurkenndar af okkar aðalandstæðingi með samkomulaginu. Ég vil vekja athygli fiskimanna úr öllum landshlutum, sem hagsmuna eiga að gæta í Foxaflóa og á Selvogsbanka vegna vetrarveiðanna, á því, að fyrir 2½ ári taldi núv. stjórnarandstaða sig hafa ótvíræðan rétt til þessarar þýðingarmiklu útfærslu, en sveikst um að gera það. Og þeir hafa fengizt við fleiri svik. Þeir svikust um að reka herinn brott og svikust um að stöðva verðbólguna, þótt þetta tvennt væri þeirra höfuðstefnumál. Þessi og mörg önnur svik þessara manna eiga nú að vera Sjálfstfl. að kenna, — flokknum, sem þá hafði verið útilokaður frá öllum áhrifum á gang opinberra mála, eftir því sem Hermann Jónasson sagði sjálfur. Er hægt að ganga lengra í þjóðlygi en þegar þessi stjórnarandstaða er að brigzla öðrum um þjóðsvik?

Ég vil sérstaklega lýsa ánægju minni yfir því atriði samkomulagsins, sem tryggir, að við framtíðaraðgerðir okkar í landhelgismálinu hefur verið komið í veg fyrir, að ofbeldi stórveldis ráði úrslitum. Í staðinn verði ágreiningnum, ef um hann er að ræða, vísað til alþjóðadómstólsins, til ómetanlegs öryggis, ekki fyrir þá, sem hafa atvinnu sína af málæði. heldur þeirra, sem vinna sín þjóðnýtu skyldustörf á fiskimiðunum umhverfis landið.

Til að viðhalda þeim góðu lífskjörum, sem við höfum búið við, og til þess að bæta þau nú á næstu árum þurfum við að hafa þrjú meginatriði í huga. Við verðum að búa við heilbrigt efnahagskerfi og rétta skráningu krónunnar. Framþróun útflutningsframleiðslunnar verður að eiga sér stað, helzt aukinn afli, en skilyrðislaust betri nýting hans og full vinnsla í sem ríkustum mæli, og það, sem er ekki síður mikilsvert, að auka og bæta markaðsmöguleika útflutningsframleiðslunnar, fá hátt verð fyrir útflutninginn, en kaupa inn góða og ódýra vöru. Þetta er efalaust fljótvirkasta og öruggasta leiðin til að efla almenna velmegun hér á landi. Margir hafa gert sér fulla grein fyrir þessu, en hinir eru þó fleiri, sem líta á aflamagn sem eina atriðið, en markaðsmöguleikana sem algert aukaatriði. Nærtækasta dæmið um þetta er flokksályktun Framsfl., sem birt var s.l. sunnudag í mörgum dálkum Tímans, með það að meginstefnu, að tvöfalda þyrfti framleiðsluna á næstu tveim árum. En flokksráð framsóknarmanna afgreiðir öll markaðs- og viðskiptamál með fjórum línum, sem segja ekki neitt.

Þótt við lítum fram hjá þeirri staðreynd, að fyrir togarana er hinn verðhái brezki ferskfiskmarkaður stórmikilvægur og nauðsynlegt að hann opnist, a.m.k. hluta úr hverju ári, þá ber okkur hins vegar að hafa í huga, að megineinkenni fiskneyzlunnar í Vestur-Evrópu eru aukin eftirspurn á fiskafurðum tilbúnum til matreiðslu og neyzlu. t.d. frosnum flökum og niðursuðuvörum. Neytendurnir gerast vandlátari á gæði og fullkomnun vörunnar með vaxandi efnahagslegri velmegun. Eins og er finnst þessi neyzlubreyting frekast í hinum háþróuðu iðnaðarlöndum Vestur-Evrópu og Bandaríkjunum, og í náinni framtíð má slá því föstu, að aukning eftirspurnar á frosnum fiskflökum og niðursuðuvörum verði bundin þessum ríkjum, einmitt þeim ríkjum, sem stjórnarandstaðan hefur bent sérstaklega á að byggju við þá almennu velmegun, sem æskilegt væri fyrir okkur að ná. Þessi þróun í Vestur-Evrópu verður bezt skýrð með því að benda á, að fyrir nokkrum árum var sáralítill útflutningur á frosnum flökum til Bretlands, 1959 var hann 1500 tonn, en 1960 6300 tonn, og á s.l. ári keypti engin þjóð af okkur fyrir stærri upphæð en Englendingar og þ. á m. 13% af öllum sjávarafurðum okkar.

Framtíðarmöguleikar á góðum mörkuðum í Vestur-Evrópulöndunum fyrir afurðir vélbátaflotans, uppbygging kæliflutningakeðju um meginlandið, niðurfelling skatta og tolla á afurðum okkar, væntanleg þátttaka í markaðsbandalögum, allt þetta getur og hefur svo stórkostlega þýðingu fyrir fiskiðnaðinn og allan almenning í landinu, að einskis má láta ófreistað til að fylgjast með í þeirri þróun. Það ber jafnframt að hafa í huga, að þátttaka Norðmanna í sínu markaðsbandalagi hefur þegar veitt þeim lækkun tolla og hærra verð fyrir fisk sinn en við fáum. Ef sú þróun heldur áfram, munu þeir með verðjöfnun geta undirboðið okkur á öllum okkar beztu mörkuðum.

Rússar minnka nú árlega fiskinnflutning sinn og stefna að því að verða sjálfum sér nægir. Viðskiptin við þá hafa að mörgu leyti verið hagkvæm, þótt þau jafnist ekki á við hina frjálsu markaði. Að minnsta kosti má telja, að sá viðskiptamáti, sem tíðkazt hefur við önnur lönd austan tjalds, sá að fá hækkun á fiskverði, en jafnframt sömu hækkun á þeirri vöru, sem við verðum að kaupa þar í vöruskiptum, sé fordæmanlegur. Það var upplýst fyrir skömmu í dagblaði einu, að almenningur hér borgaði kr. 2.50 meira fyrir kg af sykri vegna vöruskiptanna heldur en ef hann væri keyptur frá Vestur-Evrópu. Nú væri gaman að spyrja hv. þm. Eðvarð Sigurðsson og aðra þá þm. Alþb., sem hér tala á eftir, hvort þeir teldu það kjarabót fyrir íslenzkan verkalýð að borga kr. 2.50 minna fyrir kg af sykri en sá almenningur gerir nú, ef með fylgdi, að sykurinn væri keyptur frá einhverju NATO-landanna. Það efa ég að þeir geri.

Eftir blaðaskrifum og öðrum yfirlýsingum beggja kommúnistaflokkanna að dæma hefur verið reynt og verður reynt í enn ríkara mæli að skapa hér fjöldaskoðun, sem yrði blanda haturs og þjóðernisstolts og mun telja sig óbundna gerðum rétt kjörins og lýðræðislegs þingmeirihluta, óbundna því að gangast undir vel hugsað og hagkvæmt samkomulag, sem er grundvöllur varanlegrar lausnar á hættulegri deilu í anda vináttu og friðar við framtíðarviðskiptaþjóð. Stjórnarandstaðan mun reyna hvað hún getur til að fá þennan rangskapaða og rangtúlkaða hópvilja til að hindra, bæði að deilum í þessu máli ljúki og enn fremur að viðreisnarstefna ríkisstj. fái að sanna gildi sitt. Ef reynt verður með ólýðræðislegum athöfnum að hindra framgang þessa eða annarra nauðsynjamála, þá er gott að hafa í huga, að við höfum nú stjórn, sem þorir að taka mannlega afstöðu til raunsærra vandamála. Við skulum einnig hafa í huga, að stjórnendur, sem gera skyldu sína, verða oft að ganga beint gegn flóðbylgju kjósendahyllinnar vegna yfirsýnar sinnar og matshæfileika, sem hafa komið þeim í þessar trúnaðarstöður. Með hinni efnahagslegu viðreisn þurfti þessa einmitt með, en þá lögðu stjórnarflokkarnir allt kjósendafylgi sitt að veði fyrir því, að verið sé á réttri leið. Fleiri og fleiri sýna þeim aðgerðum og stjórninni traust sitt. Eins verður um landhelgismálið. Það sanna viðbrögð þeirra sjómanna og útvegsmanna, sem lýstu trausti sínu, áður en niðurrifsöflin tóku til við að brjála dómgreind almennings.