14.03.1961
Sameinað þing: 53. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 750 í D-deild Alþingistíðinda. (2734)

206. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Hæstv. forsrh. lýsti áhyggjum yfir því í ræðu sinni í gærkvöld, að Framsfl. væri að gerast handbendi kommúnista, eins og hann orðaði það og aðrir ræðumenn stjórnarflokkanna. tóku mjög undir þetta. Mikil er umhyggja þeirra fyrir okkur. Þeir hafa líklega aldrei komið nálægt kommúnistum sjálfir — eða hvað? Gísli Guðmundsson nefndi dæmi áðan, og ég vil bæta örlitlu þar við. Árið 1944 setti Ólafur Thors kommúnista í fyrsta skipti í ráðherrastóla hér á landi. Sjálfstæðismenn tóku líka upp samstarf við nokkra af þeim 1958 og hluta af Alþfl. til þess að eyðileggja framfara- og uppbyggingarstarf vinstri stjórnarinnar. Og loks fengu þeir aðstoð þeirra til að koma fram kjördæmabreytingunni 1959 og þar með möguleika til að koma núv. óhappastjórn á laggirnar. Og mér sýnist kommúnistaskraf þeirra nú vel geta bent til þess, að þeir séu að hugleiða möguleika til að fá Alþb.-menn í stjórnina til sín. Mikil er fávizka þessara manna, ef þeir halda, að framsóknarmenn hætti að berjast gegn lömunarstefnu og vítaverðum athöfnum núv. stjórnar. þ. á m. landhelgissamningnum við Breta, vegna þess að Alþb.-menn eru líka á móti stjórninni.

Svo er það gamli söngurinn um vinstri stjórnina. Á hennar dögum voru hér stórstígar framfarir, mikil atvinna og afkoma almennings góð, og Sjálfstfl. hélt líftórunni í Alþfl.-stjórninni árið 1959 með því að láta hana éta. upp greiðsluafgang ríkissjóðs og útflutningsvörubirgðir, sem vinstri stjórnin hafði skilið eftir.

Í nóvember 1958 lögðu framsóknarmenn fram till. í ríkisstj. um efnahagsmál. sem fólu í sér óbreyttan kaupmátt tímakaups, eins og hann var í október 1958 eða febrúar sama ár. Þessum till. var hafnað og samstarfið um vinstri stjórnina rofið. Ég er ekki í vafa um, að margir, sem þá lögðu lið sitt til að sundra vinstri stjórninni, hafi fyrir löngu séð, að það var mjög óviturlega ráðið. Fyrir það hafa menn orðið að taka á sig mikla kjaraskerðingu sem afleiðingar af lömunarstefnu núv. stjórnar. Tímakaup verkamanna er nú lægra og það töluvert en var í október 1958, en dýrtíðin hefur aukizt gífurlega síðan, eins og allir vita.

Núv. stjórn krefst óbreyttra launa hjá verkamönnum og öðrum, sem búa við lægstar tekjur, þ. á m. hjá bændum, þrátt fyrir allar álögurnar og verðhækkanirnar. Þetta kom m.a. skýrt fram í ræðu viðskmrh., Gylfa Þ. Gíslasonar, í gærkvöld. En hvernig er hægt að hugsa sér, að þessi stjórnarstefna geti staðizt? Hvernig geta menn lifað á þessum tekjum að óbreyttu verðlagi?

Það var mikið um að vera, þegar hæstv. núv. ríkisstj. lagði fyrir Alþingi frv. sitt um efnahagsmál á þorranum í fyrravetur. Til skýringar á málinu gaf hún út sérstaka bók, sem send var um land allt, og í heimildarleysi tók stjórnin peninga úr ríkiskassanum til útgáfunnar. Í aths. með frv. og í bókinni var lýst aðalefni frv. og tilganginum með flutningi þess. Fyrst var þar rætt um að koma atvinnulífi þjóðarinnar á traustan og heilbrigðan grundvöll, og í því skyni átti að koma fram gagngerri stefnubreytingu í efnahagsmálum þjóðarinnar, eins og það var orðað. Stjórnin lýsti m.a. yfir, að hún hefði hafið gagngera endurskoðun á fjármálum ríkissjóðs. Hún ræddi mjög um halla á þjóðarbúskapnum gagnvart öðrum löndum og þunga greiðslubyrði af þeim sökum. Með halla á þjóðarbúskapnum taldi stjórnin allar lántökur erlendis næstu árin á undan vegna nauðsynlegra framkvæmda, svo sem rafstöðva- og rafveitubygginga, sementsverksmiðjunnar, skipa- og flugvélakaupa, fjáröflun til ræktunarsjóðs, fiskveiðasjóðs o.s.frv. Stjórnin kvaðst ætla að afnema halla í utanríkisviðskiptum og koma á jafnvægi í peningamálum þjóðarinnar með vaxtahækkun og takmörkun lána. Hvað er svo að frétta af því, sem stjórnin sagðist ætla að gera., þegar hún fékk samþ. lögin um efnahagsmál í febrúar í fyrra? Hvernig er ástatt nú, að ári liðnu? Hefur stjórnin komið atvinnulífinu á traustan og heilbrigðan grundvöll? Nei, stefnt hefur verið í öfuga átt. í janúar í vetur gaf stjórnin út brbl. um nýjar lánveitingar til sjávarútvegsins til þess að afstýra þar fullkominni stöðvun í byrjun vertíðar, og er áætlað, að þau lán þurfi að nema hundruðum milljóna. Þannig hefur hagur útvegsins stórversnað árið sem leið. Og landbúnaðurinn er þannig staddur þrátt fyrir sérstaklega gott tíðarfar, að margir bændur þurfa aðstoð hliðstæða þeirri, sem útvegsmenn fá, til þess að þeir geti haldið áfram búrekstri sínum. Fulltrúar stjórnarflokkanna. í fjhn. hafa þó mælt á móti till. okkar framsóknarmanna um, að bændur njóti í þessu efni sama réttar og útvegsmenn. Samkvæmt því, sem Jónas Pétursson, hv. 3. þm. Austf., sagði áðan, lítur út fyrir, að stjórnarflokkarnir séu að láta undan síga í andstöðu við þetta réttlætismál bænda, og er vel, ef svo reynist. En auðvitað þarf líka að veita lán til vinnslustöðva landbúnaðarins eins og sjávarútvegsins. Vitað er, að mörg iðnaðarfyrirtæki eru mjög aðþrengd vegna ráðstafana ríkisstj., og sama er að segja um verzlunina. Ásamt öðru á vaxtaokrið mikinn þátt í erfiðleikum atvinnuveganna.

Og hvað er að segja um þá gagngeru endurskoðun á fjármálum ríkissjóðs, sem stjórnin sagði í fyrra að hafin væri? Sú endurskoðun birtist í hækkun fjárl. um mörg hundruð milljóna, og þó voru raunverulega lækkuð framlög til verklegra framkvæmda., og stjórnin hefur sagt, að ekki megi búast við greiðsluafgangi hjá ríkissjóði s.l. ár þrátt fyrir þessar gífurlegu hækkanir á álögum á landsmenn.

En viðskiptin við útlönd? S.l. ár var verzlunarjöfnuðurinn óhagstæður um 775 millj. kr. samkvæmt skýrslum hagstofunnar, og skuldir þjóðarinnar við útlönd hafa hækkað um nokkur hundruð milljóna árið sem leið. Ekki léttist greiðslubyrðin, sem mest var talað um í fyrra, við þetta.

Viðskmrh. sagði í gær, að gjaldeyrisstaða bankanna hefði farið batnandi. Það mun stafa af því, að lán hafa verið tekin erlendis og lánsfé borgað inn í bankareikninga þar. En skuldir þjóðarinnar við útlönd lækka ekkert við þetta. Ráðh. Gylfi Þ. Gíslason bætir ekkert efnahag sinn, þótt hann borgi skuld við Pál, ef hann stofnar um leið til enn hærri skuldar við Pétur.

Stjórnin kvaðst ætla að auka sparifjármyndunina með vaxtahækkuninni. Hvernig hefur það tekizt? Samkvæmt opinberum skýrslum er aukning innstæðufjár í bönkum og sparisjóðum árið sem leið hlutfallslega miklu minni en árið 1958, þegar taldar eru saman inneignir í sparisjóðs- og hlaupareikningum, en Seðlabankinn gerir engan greinarmun á þessum reikningum, þegar hann heimtar til sín hluta af innlánsfénu. Hvernig ætti líka sparifé að geta aukizt meira en áður, þegar þrengt er að almenningi fjárhagslega, eins og nú er gert?

Ríkisstj. beitti sér fyrir, að dregið var úr lánveitingum, og hefur það komið illa við marga. Útlán bankanna voru þrátt fyrir það 300 millj. kr. meiri samtals um síðustu áramót heldur en árið áður, og stafar það vafalaust að miklu leyti af því, að hagur margra atvinnufyrirtækja er svo erfiður að þau hafa ekki getað staðið í skilum með gjaldfallin lán, eins og brbl. stjórnarinnar um nýju kreppulánin til útvegsins bera vott um.

Þannig er þá um að litast, þegar ár er liðið frá því, að stjórnin fékk efnahagslögin sín samþ. og gaf út allar gleiðgosalegu yfirlýsingarnar um allt það, sem hún ætlaði að gera í efnahagsmálunum.

Í framsöguræðu um efnahagsmálafrv. 5. febr. í fyrra sagði hæstv. forsrh. m.a., með leyfi hæstv. forseta: „Þá, sem líta bjargráðin eða tillögur okkar öðrum augum en við gerum, sem stöndum að þessu frv., biðjum við um að fresta mótaðgerðum um nokkurt skeið og gefa með því reynslunni færi á að kveða upp sinn ólygna dóm.“ Forsrh. var bænheyrður. Allt árið 1960 leið, án þess að gripið væri til nokkurra mótaðgerða gegn stjórninni og hennar framferði. Menn tóku á sig byrðarnar. Verkamenn, aðrir launamenn og bændur urðu fyrir mikilli skerðingu á kaupmætti launa sinna og vinnutekna. En að hvaða gagni hafa þessar fórnir almennings komið? Eins og lýst hefur verið, er ástand efnahagsmálanna, miklu verra en það var fyrir ári, því miður, og ekkert bendir til þess, að það lagist, meðan núv. stjórn fer með völdin. Stefna hennar, gamla íhaldsstefnan, bætir ekki hag þjóðarinnar, heldur hið gagnstæða.

Miklar sakir eru á hendur ríkisstj., þó að eingöngu sé litið á innanlandsmálin, en þar hefur framkoma stjórnarinnar og stjórnarflokkanna yfirleitt verið í fullkominni mótsögn við loforð þeirra fyrir síðustu kosningar.

En ofan á þetta allt bætist svo nýgerður samningur stjórnarinnar við Breta um landhelgismálið. Engin þörf var að semja við Breta um þetta mál. Þeir voru búnir að tapa málinu, og þeir áttu það fullkomlega skilið, framkoma þeirra hefur verið þannig. Með þessum samningi er mjög mikilsverðum réttindum afsalað í hendur þess eina ríkis, sem hefur beitt okkur ofbeldi í tilefni af stækkun fiskveiðilandhelginnar. Í samningnum segir m.a., að frekari útfærslu fiskveiðilögsögunnar hér við land skuli íslenzka ríkisstj. tilkynna ríkisstj. Bretlands með sex mánaða fyrirvara, og rísi ágreiningur um slíka útfærslu, skuli honum, ef annar hvor aðili óskar, skotið til alþjóðadómstólsins. Ástæða. er til að vekja athygli á orðunum „annar hvor aðili“. Í þessu felst það, að Bretar og Íslendingar eiga hér að vera jafnréttháir aðilar, báðir að hafa sama rétt til málskots til dómstólsins, þegar um stækkun íslenzkrar fiskveiðilandhelgi er að ræða. Og þetta samningsákvæði er óuppsegjanlegt, á að gilda um alla framtíð. Bretar eiga samkvæmt þessu að hafa sama rétt á miklum hluta landgrunnsins við Ísland og Íslendingar sjálfir. Íslendingar geta ekki vegna samningsins breytt grunnlínum eða fært fiskveiðilandhelgina út með öðrum hætti um einn þumlung, nema Bretar fái um það sérstaka tilkynningu og ljái því samþykki sitt eða alþjóðadómstóllinn úrskurði, að þetta sé leyfilegt. Engin önnur þjóð hefur afsalað sér réttinum til að ákveða stærð landhelgi sinnar í hendur alþjóðadómstólsins. Íslendingar eru þeir einu, sem það hafa gert, og eru þó fiskveiðarnar okkur þýðingarmeiri en flestum eða öllum öðrum þjóðum. Þetta réttindaafsal er stórt spor aftur á bak í sjálfstæðisbaráttunni og stórkostleg hætta á því, að það valdi landsmönnum efnahagslegum þrengingum á komandi tímum.

Til viðbótar þessu réttindaafsali til Breta, sem margir telja langhættulegasta ákvæði samningsins, kemur svo veiðiréttur þeirra og vafalaust einnig fleiri þjóða í íslenzkri fiskveiðilandhelgi næstu þrjú árin. Miklum flota erlendra veiðiskipa er þannig boðið inn í landhelgina. þar sem þau munu sitja fyrir fiskigöngunum og eyðileggja fiskimið íslenzku bátanna, og núverandi stjórn væri vel trúandi til að framlengja landhelgisveiðileyfið eftir þessi þrjú ár, ef hún mætti ráða.

Af ummælum ráðh. má ætla, að Bretastjórn hafi hótað þeim því að senda herskip á ný á Íslandsmið, ef ekki yrði farið að hennar vilja í þessu máli, og þannig hrætt Íslandsstjórn til að veita Bretum þessi mikilsverðu réttindi. Öðrum sýnist þó, að hér hafi ekki verið hætta á ferðum. Bretar voru fyrir nokkru hættir að senda togara sína inn í landhelgina í fylgd herskipa. Þeir hafa orðið sér til minnkunar — mikillar minnkunar — í augum annarra þjóða með þessum aðgerðum, og fjárhagslegt tjón varð líka af fyrirtækinu. Það er því ákaflega ósennilegt, að þeir hefðu byrjað á þessu aftur, því að þeir voru búnir að fá nógu mikla smán og tap af herferðunum gegn Íslendingum. En þeim hefur þótt hentugt að nota hótanir um nýjar herferðir til að hræða íslenzka ráðherra og fá þá til að gera óuppsegjanlegan samning, sem veitir Bretum sérstakan íhlutunarrétt í einu af stærstu sjálfstæðismálum íslenzku þjóðarinnar.

En hvað fá Íslendingar í staðinn fyrir þetta hættulega réttindaafsal og veiðiréttindi Breta í íslenzkri landhelgi næstu árin? Bretastjórn „fellur frá mótmælum“ gegn 12 mílna landhelginni, eins og það er orðað. Ekki mátti orða það svo, að Bretar viðurkenndu 12 mílurnar. Áður hefur verið sýnt fram á, að þeir voru orðnir uppgefnir á herferðum sínum hingað. Og svo eru ákvæði í samningnum um útfærslu á grunnlínum á fjórum stöðum hér við land. Þar með er það gert að samningamáli við Breta að færa út grunnlínur, sem öllum ber þó saman um að Íslendingar hafi haft lagalegan rétt til án þess að spyrja nokkurn leyfis. Með þessu er íslenzka ríkisstj. raunverulega að kaupa af Bretum nokkurn hluta Húnaflóa, Bakkaflóa og tvö önnur svæði hér við land. Þeir hafa lengi verið snjallir verzlunarmenn, Bretarnir, og eru það enn.

Þegar svo íslenzku ráðh. koma úr þessari nýstárlegu kaupferð, er tekið fram stærsta letrið, sem stjórnarblöðin eiga, og það notað í fyrirsagnir á greinar um mikinn sigur Íslendinga í samningum við Breta. Orðin „Stórsigur Íslands“ voru prentuð þvert yfir forsíðu Morgunblaðsins 28. febr., og svipuð hreystiyrði gat að líta í Alþýðublaðinu.

Hvað halda menn, að fólk á Englandi hefði sagt um það, ef enski utanrrh. hefði brugðið sér til Íslands og keypt af Íslandsstjórn hluta af Bristolflóa eða öðru svæði við strendur Bretlandseyja? Ætli þeim karli hefði verið fagnað í Englandi sem miklum sigurvegara heim komnum úr slíkri verzlunarferð? Og halda menn að þá hefðu sézt greinar í enskum blöðum með risastórum fyrirsögnum um stórsigur Breta í viðskiptum við Íslendinga? Og ætli utanrrh. þar í landi hefði verið marga daga í stöðu sinni eftir að hafa gert slíka verzlun fyrir sína þjóð? Ég held ekki.

Allt frá því, er Jón Sigurðsson hóf merki hinnar stjórnarfarslegu sjálfstæðisbaráttu um miðja síðustu öld, hefur þjóðin fylgt þeirri grundvallarreglu hans að afsala sér aldrei neinum rétti til frambúðar, og síðan á hans dögum hafa Íslendingar aldrei skilað aftur neinu af því, sem unnizt hafði fyrr en nú, þegar ríkisstj. stígur þetta örlagaríka og stóra skref aftur á bak. Um þetta vitnar öll saga frelsisbaráttunnar, síðan hún hófst á öldinni sem leið.

Í umr. um landhelgismálið hér á Alþingi í vikunni sem leið voru nefnd dæmi frá stjórnmálabaráttunni 1908, þegar harðast var deilt um sambandslagafrv., sem nefnt var ,.uppkastið“. Vitnað var í ummæli þeirra Einars Hjörleifssonar, Benedik's Sveinssonar og Skúla Thoroddsens. Hjá öllum þessum mönnum kom fram það sama: Íslendingar mega ekki gefa nokkurri annarri þjóð óafturkallanlegt vald á nokkru íslenzku máli. Fyrst og fremst þarf eð varast að gera niðjunum örðugt fyrir, betra að allt sé samningslaust en að semja af þjóðinni þau réttindi, er hún hefur. Í blaðinu Ingólfi 24. maí 1908 segir svo um uppkastið: „Gamla verzlunin að selja oss nokkurn hluta þess, er vér einir áttum, fyrir þann hlutann, er vér sízt máttum án vera.“ Svo sögðu þeir Ari Jónsson og Benedikt Sveinsson 1908. En gamla verzlunin, sem þeir nefndu svo, er nú aftur í gangi. Nú eru það Bretar, sem selja okkur nokkurn hluta þess, sem við einir eigum, hluta af Húnaflóa og fleiri svæðum hér við land, og fá í staðinn það, er við sízt máttum láta, íhlutunarvald varðandi eitt af okkar stærstu málum. En 1908 átti þjóðin kost á að dæma, og hún gerði það. Andstæðingar uppkastsins unnu glæsilegan kosningasigur í september það ár. Nú felldu stjórnarflokkarnir till. um að skjóta málinu undir dóm þjóðarinnar. Sjö ráðh. og 26 fylgismenn þeirra á Alþingi smeygja fjötrunum á þjóðina óviðbúna og án þess að hún komi við nokkrum vörnum. Höfðu þó allir gefið hátíðlegt loforð um það í síðustu kosningum að standa fast á rétti Íslands og gefa engri þjóð leyfi til veiða innan 12 mílna fiskveiðilandhelginnar.

Hér hefur gerzt mikil harmsaga. Íslandsstjórn hefur veitt annarri þjóð með óuppsegjanlegum samningi sérstakan rétt í einu af okkar stærstu málum. Þetta hefur gerzt síðustu dagana, í ofanálag á öll önnur óhappaverk sem ríkisstj. hefur unnið á sínum ferli. Fyrir þetta ætti hún að týna sínu pólitíska lífi. Því er þessi vantrauststill. fram borin. — Góða nótt, hlustendur.