14.03.1961
Sameinað þing: 53. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 766 í D-deild Alþingistíðinda. (2737)

206. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Af hálfu hv. stjórnarandstæðinga er til þessara umræðna nú stofnað til þess, eins og foringjar þeirra hafa sagt, að koma fram vantrausti á hæstv, núv. ríkisstj. Hlustendur hafa nú fengið nokkurn skammt af ástæðunum, er til þessara vinnubragða liggja. Landhelgismálið er ekki eina ástæðan, heldur bókstaflega öll verk stjórnarliðsins hér á Alþingi fyrr og síðar, eins og hv. síðasti ræðumaður vék að. Eftir að hafa hlustað á allar þessar svonefndu röksemdafærslur, sem teljast eiga grundvöllur fyrir þeirri vantrauststillögu, sem hér liggur fyrir, verður sennilega fleiri en mér að spyrja: Hvað vildu þessir menn sjálfir gera? Hverjar voru till. þessara manna og flokka þeirra. Framsóknar og Alþýðubandalagsins, í þeim sömu málum, sem þeir nú deila harðast á ríkisstj. fyrir alla framkvæmd á.

Að fráteknum nokkrum brtt. um lausn landhelgisdeilunnar við Breta hefur enginn fengið að sjá þessar gagntillögur í stærstu og veigamestu málum þjóðarinnar. Þær hafa ekki séð dagsins ljós í landhelgismálinu lögðu þeir hins vegar fram nokkrar brtt., og þeim tillögum fylgdu þær skýringar, að helzt vildu þeir semja við Breta um framhaldandi ofbeldi í krafti herskipa innan hinnar íslenzku fiskveiðilögsögu, þ.e. óbreytt ástand frá því, sem það hefur verst verið í þessum málum frá 1. sept. 1958. Eru þetta vinnubrögð, sem hæfa mönnum eða stjórnmálaflokkum, sem vilja a.m.k. á stundum láta taka sig alvarlega?

Eitt auðveldasta verkefnið í mannlegu samfélagi er að finna allt að öllu, og til þess eins þarf hvorki hug né dug. En þessi er nú skylda stjórnarandstöðu á hverjum tíma, segja menn. Það er einnig rétt. En þessari skyldu fylgir önnur þyngri, og hún er sú að segja jafnframt aðfinnslunum, hverja aðra leið eigi að velja. Þessari skyldu hefur hæstv. núv. stjórnarandstaða algerlega brugðizt. Þegar hún hefur verið krafin annarra tillagna, þá er svarið: Það er ekki okkar skylda að vísa ríkisstj. veginn. — Sú talnalega andstaða, sem fram kemur í atkvgr. hér á Alþingi, er því í algerri andstöðu við þá traustsyfirlýsingu, sem hlýtur að felast í því að geta ekki bent á aðrar leiðir til úrlausnar mála heldur en þær, sem ríkisstj. sjálf leggur til.

Vantrauststillaga sú, sem hér liggur fyrir, flutt sameiginlega af framsóknarmönnum og kommúnistum, verður með hliðsjón af þessum staðreyndum ekki tekin alvarlega.

Á undanförnum árum, eða a.m.k. 10 s.l. ár, hafa risið með stuttu millibili kjaradeilur, þar sem verkalýðssamtökin hafa fullyrt, að greiða mætti hærri laun fyrir hverja unna vinnustund. Vinnuveitendur hafa aftur á móti fullyrt hið gagnstæða og talið fram hið bága ástand atvinnuveganna. Eftir misjafnlega hörð átök til lausnar þessum deilum hefur svo niðurstaðan ávallt orðið sú, að hafi verkafólkið náð einhverjum árangri, hefur það varla verið búið að fá fyrstu launagreiðsluna samkv. nýjum samningum, þegar velt hefur verið yfir það stórhækkuðu vöruverði. Þannig hefur ávinningur verkalýðssamtakanna verið tekinn aftur, um leið og hann átti að koma til framkvæmda og stundum jafnhliða. Þessi sorgarsaga hefur átt sér stað á fyrrnefndu árabili. Þó hafa allir núverandi stjórnmálaflokkar, sem fulltrúa eiga á Alþ. á þessum tíma, átt meiri og minni aðild að ríkisstjórn, og vitað er, að þjóðarframleiðslan hefur stóraukizt. Niðurstaðan af kjarabaráttu þessara ára er svo sú, að kaupmáttur almennra verkamannalauna er nú talinn minni en hann var fyrir árið 1950, og er þá öllum ljóst, að verðlag lífsnauðsynja hefur á þessum tíma stórhækkað launþegum í óhag. Hins vegar verður vart litið fram hjá þeim staðreyndum, að ýmsar greinar atvinnulífsins hafa um of átt afkomu sína undir opinberri aðstoð, styrkjum og uppbótakerfi, sem verður ekki haldið uppi nema af skattborgurunum, þ.e. almenningi í landinu, og með stórfelldu erlendu gjafafé og lántökum. Ofan á þessa óhagstæðu aðstöðu verkalýðssamtakanna bætist því, að þau lífsgæði, sem fyrir hendi hafa verið, eru fölsk, þ. e. óraunveruleg.

Það er sjálfsagt ekki vinsælt að gera tillögu um, að það opinbera setji upp elna stofnunina enn. En ég bendi nú á það samt hér með. Það er þjóðarnauðsyn, sem krefst þess, að starfandi sé árið um kring sérstök stofnun, sem hefur aðgang að reikningum atvinnuveganna og fylgist með sveiflum vöruverðs og þar með kaupmætti þeirra launa, sem vinnandi fólki til sjávar og sveita eru greidd.

Tilgangslaust er þó með öllu að setja á fót slíka stofnun, nema fyrir liggi fyrirheit verkalýðssamtakanna og vinnuveitenda um, að þau muni hafa starfandi fulltrúa í slíkri stofnun, fulltrúa, sem þau beri traust til og starfi í nánum tengslum við þau. Af starfi slíkrar stofnunar, þar sem öll spil væru á borðið lögð, mætti liggja fyrir, hvaða atvinnuvegir í landinu hagnist svo, að þeir standi undir kauphækkun, og þá hvað mikilli, og um leið, hvaða starfsgreinar þjóðfélagsins eru verst settar. Hér er meira í húfi en svo, að það taki því að ræða um kostnaðarhlið slíkrar stofnunar. Sá kostnaður gæti aldrei orðið nema hégómi hjá því tjóni, sem átök þessara aðila hljóta að kosta þjóðarbúið í heild. Jafnvel þó að slíkri stofnun tækist ekki að koma algerlega í veg fyrir átök, heldur aðeins að draga úr þeim, þá væri það eitt stór ávinningur.

Enginn talar hærra og meira um þjóðernislegar tilfinningar og ást sína á öllu þjóðlegu en forustumenn hv. stjórnarandstöðuflokka. Í framkvæmd kemur þessi ættjarðarást þannig út, að allt verður neikvætt, þegar þeir sjálfir sitja ekki við stjórnvöl þjóðarskútunnar. Þannig hefur sjálft móðurmálið ekki farið varhluta af þessari niðurrifs- og neikvæðu baráttu hins nána bandalags Framsóknar og kommúnista. Landið átti að hafa verið ofurselt bandarísku auðvaldi við herverndarsamninginn 1946 og 1951. Aftur fór fram landsala og landráð við inngöngu í Atlantshafsbandalagið 1949. Við kjördæmabreytinguna átti grasið að hætta að spretta og landeyðingarstefna átti að halda innreið sína. Nú við lausn landhelgisdeilunnar er landið selt, að því er virðist í fjórða sinn, og almenn landráð eru sögð í algleymingi. Við Íslendingar erum svo fáir, að við stöndum stórveldunum ekki snúning í samningagerð. Þess vegna eigum við ekki að taka upp samninga við einn eða neinn. — Þannig er talað og skrifað í fullri nekt hinnar þjóðernislegu minnimáttarkenndar hv. stjórnarandstöðu. Barátta undir þessum merkjum heitir á máli framsóknarmanna og kommúnista að standa trúan vörð um hagsmuni þjóðarinnar. Er betur hægt að gersnúa staðreyndum við? Er betri tilraunir hægt að gera til að slæva dómgreind almennings fyrir því, hvað er rétt og hvað er rangt? Vísvitandi er verið að gera tilraunir til þess að mála svörtustu hliðar allra mála, til þess að draga kjark og mátt úr þjóðinni, að því er virðist til þess eins að geta setið um hríð í þeim stólum, sem nú um sinn eru setnir af öðrum. Þeir, sem ná kunna til ráðherrastóla með slíkum hætti, verða ekki öfundsverðir af verkefni sínu. Þeirra bíður fyrst og fremst það starf að bæta fyrir eigin afbrot.

Er þá ekki allt í okkar landi eins og bezt verður á kosið, þegar frá er dregin hin þjóðernislega minnimáttarkennd stjórnarandstöðunnar? Nei, það væri að hrapa í formyrkvun stjórnarandstöðunnar að halda slíku fram, í einni svipan verður ekki breytt um frá margra ára fölskum lífsgæðum, til þess að standa traustum fótum á öruggri velmegun, sem byggð er upp af þjóðinni sjálfri, án lánsfjár, styrkja og gjafafjár eins og stríðsgróða, Marshallaðstaðar, flugvallargjaldeyris og stórkostlegra erlendra lána. En þótt undarlegt kunni að virðast, eru það menn úr sömu stjórnmálaflokkum og gegn þessu erlenda fjármagni börðust á sínum tíma, sem nú berjast gegn hverri þeirri tilraun, sem gerð er til þess að komast hjá slíkri utanaðkomandi erlendri aðstoð og standa á eigin fótum. Þegar því raunverulega reynir á þjóðerniskenndina, fyrirfinnst hún engin, og ástæðan er sú, að efnalegt sjálfstæði heillar þjóðar fæst ekki án fórna. Óttinn við, að fórnirnar verði óvinsælar, varnar þessum sömu mönnum að segja stuðningsmönnum sínum sannleikann, hvað þá öðrum.

En þótt óneitanlega hafi þrengt að nú um sinn, þurfa Íslendingar engu að kvíða um framtíðina, ef hin þjóðernislega minnimáttarkennd varnar okkur öllum ekki þess að nýta sem fyrst og bezt þær geysilegu auðlindir, sem eru umhverfis landið og í landinu sjálfu. Um áraraðir er búið að klífa á þessum auðlindum landsins og segja okkur frá þeirri auðveldu gerbyltingu, sem átt gæti sér stað til efnalegs sjálfstæðis þjóðarinnar og skapað með stóriðnaði raunhæfan grundvöll að stórauknum kjarabótum. Þrátt fyrir allar þessar umr. halda fallvötnin áfram að renna óbeizluð til sjávar og hverahitinn að gjósa óheftur upp í loftið, og tiltölulega litlar nýjungar ná festu til betri vinnslu sjávarafurða hér heima fyrir.

Hver ríkisstj. á fætur annarri tvo síðustu áratugina hefur gefið fyrirheit í þessum efnum. En áþreifanlegir hlutir sjást enn of litlir, þegar frá er tekin bygging áburðar- og sementsverksmiðju.

Nágrannar okkar, Norðmenn, hafa sérstakan mann, Tryggva Lie, fyrrv. framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, í ferðum landa á milli til þess að lokka til sín erlent fjármagn til byggingar orkuvera, sem aftur eru undirstaða hvers konar stóriðju. Þeim kemur ekki til hugar að nefna slíkt starf landráð. Mjög er aðkallandi, að við Íslendingar hefjum nú þegar skipulagt starf í þessum efnum. Auk allra rannsókna, sem hljóta að verða undanfari slíkra framkvæmda, er nauðsynlegt að afla mikils fjármagns, sem augljóst er að fást verður erlendis frá, að stærstum hluta í löngum, hagstæðum lánum og áhættufjármagni.

Á hverju ári bætast þjóðinni þúsundir nýrra starfskrafta, sem nauðsynlegt er að staðsetja við arðbær störf. Verða þarf við kröfum um bætt lífskjör. Grundvöllurinn að því, að svo geti orðið, er stóraukin þjóðarframleiðsla. Aukin þjóðarframleiðsla á að byggjast á skipulagðri eflingu sjávarútvegs og landbúnaðar og auknum áhrifum iðnaðarins í þessum gömlu undirstöðuatvinnugreinum okkar, sem við komum til með enn um nokkurn aldur að grundvalla á aflið til uppbyggingar nýrra greina atvinnulífsins og breyttra starfsaðferða, og að leita erlendis eftir mörkuðum á iðnaðarframleiðslu. byggðri á afli íslenzkra orkuvera, sem æskilegast væri að ríkið eða opinberar stofnanir rækju. Eðlilegast væri, að erlend lán, sem tekin yrðu í þessu skyni, yrðu greidd að mestu með orkusölunni. ásamt samningi, er tryggði kaup á sjálfri framleiðslunni.

Íslenzka þjóðin er öll sammála um, að haldbeztu kjarabæturnar og bætt lífskjör verði að byggjast á aukinni þjóðarframleiðslu. Það er á grundvelli þeirra staðreynda, sem ríkisstj. hefur nú í undirbúningi með aðstoð norskra sérfræðinga starfsáætlun um skipulag á öllum framkvæmdum og fjárfestingu þjóðarinnar, m.a. með áætlunarbúskap.

Trú á fólkið og landið, sem það byggir, eru hornsteinar allrar tilveru og velferðar þjóðarinnar um ókomin ár. Hver sú ríkisstj., sem hefur ekki þennan sannleika í huga, hlýtur að falla fyrir aldur fram. Sama máli gegnir um stjórnarandstöðu, sem neitar þessum staðreyndum og þess í stað reynir að þrengja því inn í hug þjóðar, að hún sé svo fámenn og magnlítil, að hún geti ekki séð sjálfri sér farborða.

Það virðist svo sem þessum sameinuðu aðilum, framsóknarmönnum og kommúnistum, geti ekki skilizt, að vandann, sem þeir hlupu sjálfir frá fyrir rúmum tveimur árum, sé hægt að leysa. Þetta tilbúna skilningsleysi stjórnarandstöðunnar veldur því, að hún tekur sér sæti á bekk með úrtölumönnum. sem sjá ekki sól á neinu leiti fremur en Axlar-Björn forðum.

Svartsýnis- og úrtölumenn hafa aldrei þótt líklegir til forustu á Íslandi. Þess vegna er nú svo þungt fyrir fæti hjá stjórnarandstöðunni hér á Alþ. og utan þings. Við trúum því hins vegar, að nú þegar hafi tekizt að yfirstíga verstu erfiðleikana, sem stöfuðu af getuleysi Framsóknar og kommúnista. Þess vegna horfum við bjartsýn fram á veginn, fullviss um, að okkur takist að lifa af því, sem við sjálf öflum, — að bæta kjör okkar og lífsgæði af eigin rammleik. Þess vegna höfnum við Alþýðuflokksmenn þeirri einu höfuðtillögu, sem stjórnarandstaðan, framsóknarmenn og kommúnistar, hefur flutt á þessu þingi, um vantraust á núverandi ríkisstjórn. — Góða nótt.