14.03.1961
Sameinað þing: 53. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 770 í D-deild Alþingistíðinda. (2738)

206. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Mér finnst rétt að svara fyrst nokkrum orðum fyrirspurnum, sem hæstv. menntmrh. beindi til okkar framsóknarmanna varðandi hugsanlega stjórnarsamvinnu eftir næstu kosningar og afstöðu Framsfl. til nokkurra mála.

Um fyrra atriðið læt ég nægja að segja það, að Framsfl. hefur nýlega birt framfara- og framkvæmdaáætlun, og afstaða hans til samstarfs við aðra flokka mun fyrst og fremst miðast við það, hvaða undirtektir hún fær hjá Þeim. En í framtíðinni sem hingað til munu málefnin ein ráða afstöðu Framsfl. til stjórnarmyndunar.

Varðandi stefnu flokksins til einstakra mála læt ég nægja að vísa til sömu framfara- og framkvæmdaáætlunar, að öðru leyti en því, er snertir afstöðu til varnarmálanna. Um þau mál var gerð svo hljóðandi ályktun á nýloknum aðalfundi miðstjórnar Framsfl.:

„Aðalfundur miðstjórnar Framsóknarflokksins vísar til fyrri samþykkta flokksins um utanríkismál og ítrekar þá stefnuyfirlýsingu, að Íslendingar hafi samstarf um öryggismál við nágrannaþjóðirnar, m.a. með þátttöku í Atlantshafsbandalaginu, og að unnið sé að því, að herinn hverfi sem fyrst úr landi.“

Með þessu hefur hæstv, menntmrh. verið fullsvarað. Til endurgjalds vænti ég, að hann svari einnig spurningu frá mér, þótt hann svari henni ekki nú þegar, heldur þá sem fyrst hér á Alþingi. Spurning mín er þessi: Hvernig á verkamaður, sem hefur fyrir fjölskyldu að sjá, að lifa mannsæmandi lífi á 4 þús. kr. mánaðarlaunum?

Hv. 5. þm. Vesturl., Benedikt Gröndal taldi sig aðeins geta nefnt þrjú blöð, sem hefðu talið Breta sigurvegara. í landhelgisdeilunni. Hv. þm. hefur sennilega alveg óvart gleymt fjórða blaðinu, sem hann hefur þó vel mátt vita um. Þetta blað er Fishing News, aðalmálgagn brezkra togaraeigenda. Þetta blað hefur í tveimur forustugreinum talið samkomulagið mikinn ávinning fyrir Breta, því að það sé mjög líklegt til að stöðva frekari útfærslu á fiskveiðilandhelgi Íslands. Málgagn brezkra togaraeigenda hefur þannig bersýnilega allt annað álit á alþjóðadómstólnum og afstöðu hans til útfærslu á fiskveiðilandhelginni en hv. 5. þm. Vesturl.

Því miður hníga allar líkur í þá átt, að hér hafi Fishing News réttara fyrir sér en hv. 5. þm. Vesturl. Allar líkur benda til þess, að alþjóðadómstóllinn reynist mjög íhaldssamur í slíkum úrskurðum, vegna þess að engin viðurkennd alþjóðaregla er til um víðáttu landhelginnar. Undir slíkum kringumstæðum eru dómstólar jafnan mjög íhaldssamir. Allt öðru máli gegndi um deilu Norðmanna og Breta, sem hv. 5. þm. Reykv., Jóhann Hafstein, minntist á hér áðan, því að þar var eftir aldagamalli, viðurkenndri venju að fara, þ.e. að firðir og flóar væru innan landhelgi viðkomandi lands. Þrátt fyrir það, þótt hér væri um viðurkennda, aldagamla venju að ræða, féllust aðeins 8 af 15 dómurum á málstað Noregs. Það sýnir, hve örðugt muni reynast að fá dóminn til að fallast á nýjar reglur og fylgjast með þróuninni.

Af hálfu stjórnarsinna hefur verið lagt á það mikið kapp í þessum umr. að forðast rökræður um stjórnarstefnuna og afleiðingar hennar. Í stað þess hafa þeir reynt vanmáttugar tilraunir til gagnsóknar. Gegn framsóknarmönnum hefur einkum verið beint því vopni, að framsóknarmenn séu orðnir handbendi og þjónar kommúnista. Um þetta vopn er það að segja, að það er orðið gamalt og bitlaust. Því var á sínum tíma beint gegn Jónasi Jónssyni, Tryggva Þórhallssyni, Jóni Baldvinssyni og Héðni Valdimarssyni. Þetta er vopnið, sem allir afturhaldsmenn síðari áratuga hafa veifað gegn umbótaflokkum og framfaramönnum. Þetta var vopnið, sem MacCarthy öldungardeildarmaður beitti gegn helztu leiðtogum demókrata í Bandaríkjunum fyrir fáum árum og Bandaríkjamenn telja nú orðið einn svartasta blett allrar sögu sinnar. Þetta var vopnið, sem Syngman Rhee beitti fyrir ári gegn umbátaöflunum, sem unnu að því að steypa honum úr stóli. Þetta er það vopn, sem Salazar hinn portúgalski og Franco hinn spánski beita gegn umbótasinnum, sem vinna að því að koma á frjálsari stjórnarháttum í löndum þeirra. Meginuppistaðan í áróðri allra þessara afturhaldsmanna er að stimpla umbótamenn og frelsissinna sem kommúnista. Með slíkum áróðri vinna þeir svo ekki annað en að hjálpa kommúnistum til þess að villa á sér heimildir og fá menn til að trúa því, að einræðisstefna kommúnismans sé einhver umbótastefna.

Talsmenn stjórnarflokkanna vinna vissulega illt verk og óþarft, þegar þeir reyna að koma fótum undir slíkan misskilning. Að einu leyti fer þessi áróður verr í munni manna eins og Ólafs Thors og Gylfa Þ. Gíslasonar en í munni þeirra Salazars og Francos. Þeir síðarnefndu hafa þó að því leyti verið sjálfum sér samkvæmir, að þeir hafa aldrei haft nein mök við kommúnista. Ólafur og Gylfi hafa hins vegar hvað eftir annað átt hið nánasta samstarf við kommúnista. Sjálfstfl. hjálpaði kommúnistum til valda í verkalýðshreyfingunni á sínum tíma. Sjálfstfl. fékk stuðning kommúnista við stjórn sína til að koma á kjördæmabreytingunni 1942 og vann það til að sleppa dýrtíðinni lausri, með þeim afleiðingum, að hún hefur leikið lausbeizluð síðan. Sjálfstfl. sat í stjórn með kommúnistum 1944–46, þegar Stalín var að undiroka Austur-Evrópuþjóðirnar, og undi sér þar hið bezta. Sjálfstfl. hafði hið nánasta samstarf við kommúnista í verkalýðsfélögunum sumarið 1958. Og á jólaföstunni 1958 reyndi Ólafur Thors að fá kommúnista í stjórn með sér. Upp úr því spratt samvinna þessara flokka um kjördæmabyltinguna, sem hrundið var fram fyrir hálfu öðru ári.

Um Alþfl. er það að segja, að hann hefur setið með kommúnistum í tveim ríkisstj., og ekki eru nema fjórir mánuðir síðan hann hafði stjórnarsamstarf við kommúnista í Alþýðusambandi Íslands. Í dag hefur sjálfur formaður Alþfl. hið nánasta samstarf við kommúnista í bæjarstjórn Hafnarfjarðar.

Reynslan sýnir, að báðir þessir flokkar, Sjálfstfl. og Alþfl., eru reiðubúnir til samstarfs við kommúnista, hvenær sem þeir telja sér hag í því. Það þarf því takmarkalausa ósvífni og hræsni til þess, að þessir flokkar telji kommúnista óalandi og óferjandi og beri svo Framsfl. kommúnisma á brýn fyrir það eitt, að kommúnistar eiga samleið með honum, ásamt mörgum flokksmönnum stjórnarflokkanna, gegn þeirri kreppu- og kjaraskerðingarstefnu, sem núv. ríkisstj. fylgir.

Hv. stjórnarsinnum er orðið tíðrætt um það, að ástandið í efnahagsmálunum hafi verið orðið mjög slæmt í árslok 1958, þegar vinstri stjórnin lét af völdum. Sannleikurinn er, að efnahagsafkoma ársins 1958 var mjög hagstæð. Afkoma atvinnuveganna var óvenju hagstæð á því ári. Mikill greiðsluafgangur var hjá ríkissjóði, og greiðslujöfnuður við útlönd var hagstæðari en um langt skeið. Lífskjör almennings voru þá betri hér en í flestum eða öllum löndum Evrópu. Þetta sýndi árangurinn af stefnu og starfi vinstri stjórnarinnar. Þetta ástand var hægt að tryggja til frambúðar, ef samkomulag hefði náðst um stöðvun nýrra hækkana haustið 1958, eins og framsóknarmenn lögðu þá til í vinstri stjórninni. Um það náðist ekki samkomulag og þar af leiðandi baðst stjórnin lausnar. Stjórn Alþfl. með Sjálfstfl. að bakhjarli fór svo með völd árið 1959 og fylgdi þeirri stöðvunarstefnu, sem Framsfl. hafði beitt sér fyrir í vinstri stjórninni, með þeim árangri, að atkoma atvinnuveganna var sæmileg það er og lífskjör svipuð og verið höfðu.

Nú liggja orðið fyrir glöggar upplýsingar um það, að þessari stöðvunarstefnu hefði mátt fylgja nokkurn veginn óbreyttri áfram. Atvinnuvegirnir hefðu þá búið við svipaða afkomu nú og 1958 og 1959 og kjör almennings sízt þurft að vera lakari en þá. En í stað þess er afkoma atvinnuveganna nú miklum mun lakari en þá og lífskjör almennings 20–25% verri. Skýring þessarar hörmulegu afturfarar er einfaldlega sú, að tekin var upp algerlega röng efnahagsstefna með hinni svokölluðu viðreisn núv. ríkisstj. Eins og stjórnarherrarnir hafa tekið MacCarthy sér til fyrirmyndar í áróðri sínum, völdu þeir sér illu heilli hina misheppnuðu samdráttarstefnu Eisenhowers til fyrirmyndar í efnahagsmálunum. Samdráttarstefna Eisenhowers hefur leitt til þess, að fáein stór auðfélög í Bandaríkjunum hafa grætt miklu meira en nokkru sinni fyrr, en fjöldi smærri fyrirtækja orðið gjaldþrota og atvinnuleysi sívaxið, svo að atvinnuleysingjar voru taldir þar um 7 millj. um seinustu mánaðamót. Slíkt öngþveiti hefur þessi stefna skapað í ríkasta landi veraldarinnar. Það er því ekki að undra, þótt hún hafi hörmulegar afleiðingar hér.

Verkin sýna líka merkin. Einstaka stórheildsalar og iðnrekendur, sem eiga veltufé og hafa greiðan aðgang að bönkum, hafa grætt meira á s.l. ári en nokkru sinni fyrr, en fjölda efnaminni fyrirtækja liggur við gjaldþroti. Sama gildir um hundruð einstaklinga, sem eiga nýbyggðar íbúðir. Framleiðslan er stöðugt að dragast saman, og framkvæmdir fara minnkandi, svo að ljóst er, að stórfelld kreppa er framundan, ef ekkert verður að gert. Það er gegn þessari samdráttar- og kreppustefnu, sem framsóknarmenn heyja baráttu sína. Við viljum afstýra kreppunni og þeirri fátækt almennings, sem henni óhjákvæmilega fylgir.

Okkar merki er líkt því, er demókratar í Bandaríkjunum reistu á s.l. ári og báru fram til sigurs. Í stað samdráttar- og kreppustefnunnar berjumst við fyrir framleiðslu- og framkvæmdastefnunni. Ráðið til að sigrast á efnahagsvandræðunum er ekki að draga úr framleiðslunni, heldur að auka hana. Ráðið til að örva atvinnustarfsemi innanlands er ekki að draga úr kaupgetunni, heldur að hún sé sem mest og almennust og framast er kostur á.

Andstæðingarnir hafa hér í umr. ráðizt gegn framleiðslu- og framkvæmdastefnu okkar framsóknarmanna á þeim grundvelli, að hún sé ábyrgðarlaus. Þetta sama segja líka andstæðingar hinnar nýju stjórnar í Bandaríkjunum. Þar er t.d. sagt, að barátta Kennedys forseta fyrir 25% hækkun lágmarkslauna sé algert ábyrgðarleysi. Forsetinn og hinir frjálslyndu hagfræðingar hans eru á öðru máli. Þeir telja aukna kaupgetu eitt vænlegasta ráðið til að örva framleiðsluna og aukin framleiðsla sé það, sem mestu máli skiptir.

Við framsóknarmenn getum líka svarað þessum ábyrgðarleysisbrigzlum með því, að við stöndum í stjórnarandstöðunni á nákvæmlega sama grundvelli og við stóðum í stjórnaraðstöðu áður. Síðasta loforðið, sem við gáfum í vinstri stjórninni, var að tryggja til frambúðar sama kaupmátt launa og í október 1958. Það er í dag takmark okkar í kaupgjaldsmálunum, að aftur verði tryggður sami kaupmáttur launa og þá var. Atvinnuvegirnir gátu staðið undir slíkum launum þá og ættu ekki síður að geta gert það nú, ef rétt er stjórnað og þeim ekki íþyngt með okurvöxtum og fleiri slíkum álögum.

Ríkisstj. hefur vissulega unnið sér til óhelgi með samdráttar- og kreppustefnu sinni. Þó eru enn ótaldar þær gerðir ríkisstj., sem verstar eru og hættulegastar fyrir þjóðina og framtíð hennar, en það er afsalið á hinum einhliða rétti Íslands til útfærslu á fiskveiðilandhelginni. Með þeim verknaði sínum hefur ríkisstj. stórskert möguleika þjóðarinnar til efnalegs sjálfstæðis í framtíðinni, því að verndun fiskimiðanna er einn traustasti hornsteinn þess sjálfstæðis. Með þessu hefur ríkisstj. brotið þá frumreglu sjálfstæðisbaráttunnar, sem Jón Sigurðsson markaði, að láta aldrei neinn rétt af hendi. Hér hefur því vissulega verið unnið eitt versta verk í sögu okkar Íslendinga. Þessi viðburður bendir og eindregið til þess, að núv. ríkisstj. er ekki treystandi til að fara með utanríkismál þjóðarinnar.

Það hefur glögglega komið fram í þessum umr., að ein helzta afsökun stjórnarsinna er sú, að þetta samkomulag við Breta hafi verið nauðsynlegt vegna Atlantshafsbandalagsins. Ríkisstj. skilur bersýnilega þátttöku okkar í Atlantshafsbandalaginu þannig, að við eigum að láta undan og fórna rétti okkar, í hvert sinn sem hagsmunir okkar og stórvelda þar rekast á. Þetta er hinn háskasamlegasti misskilningur. Við eigum að vera í Atlantshafsbandalaginu til þess að halda fram rétti okkar og treysta hann, en ekki til þess að láta hann af hendi. Slíkt undirlægjuhugarfar er ekki í samræmi við eðli Íslendinga og getur gert þátttöku okkar í Atlantshafsbandalaginu eins hættulega og hún á að geta verið okkur gagnleg, ef við höldum rétt á okkar málum. Í utanríkismálum verður að forðast allan undirlægjuhátt, hver sem í hlut á. Annars getum við komizt í erlenda ánauðarfjötra, áður en við vitum af.

Það má vel vera, að hæstv. ríkisstj. haldi velli að þessu sinni við atkvgr. hér á Alþ. Það er vafalaust alveg rétt mat, að þingmenn stjórnarflokkanna óttast nú ekki annað meira en kosningar. En kosningar verða fyrr eða síðar, og þá fær þjóðin hreint og greinilegt val. Það verður valið milli okkar, sem viljum taka þátt í vestrænu samstarfi til þess að halda fram rétti þjóðarinnar og treysta hann í sessi, og stjórnarflokkanna, sem líta á Ísland sem undirlægju stórveldanna. Það verður valið milli okkar, sem berjumst fyrir framleiðslu- og framkvæmdastefnunni. og stjórnarflokkanna, sem halda í hina úreltu samdráttar- og kreppustefnu. Við trúum því, framsóknarmenn, að nú sem oftast fyrr vilji þjóðin fylkja sér um þá, er af mestum stórhug, mestri bjartsýni og mestri trú vilja byggja þetta land og halda því óháðu hvers konar framandi valdi.