02.11.1960
Sameinað þing: 9. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 787 í D-deild Alþingistíðinda. (2746)

61. mál, lánsfé til Hvalfjarðarvegar

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Á undanförnum árum hefur það tíðkazt í vaxandi mæli hér á Alþ.,þm. hafi einn eða fleiri saman flutt tillögur eða frumvörp til að reyna að flýta fyrir framkvæmd við lagningu eða endurbætur á höfuðvegum landsins, sem þýðingu hafa fyrir stór byggðarlög eða eru brautir á milli landshluta. E.t.v. bendir þessi þróun til þess, að Alþ. hafi ekki gert nægilega mikið fyrir þessar höfuðbrautir í vegakerfinu. Skal ég þó láta það ósagt, því að sjálfsagt eru allir sammála um það, að gjarnan hefði getan til þess að leggja fé til vegamálanna mátt vera meiri.

Hér er á ferðinni ein slík till. sem fjallar um öflun lánsfjár til Hvalfjarðarvegar. Varla ætti að þurfa að hafa mörg orð um mikilvægi þessa vegar. Hann er, að undanskildum einum ófullkomnum fjallvegi, eini tengiliðurinn í vegakerfinu á milli þriggja landsfjórðunga annars vegar, Vesturlands, Norðurlands og Austurlands, og Reykjavíkur með suðvesturhorni landsins og Suðurlands hins vegar. Er augljóst, að slíkur tengiliður á milli byggðarlaga hlýtur að vera mikilvægur vegur, enda er hann það, bæði fyrir farþega- og vöruflutninga, sem fara vaxandi með hverju ári.

Þegar lítið er á þessa legu Hvalfjarðarvegarins, þá kemur ýmsum á óvart sú staðreynd, að af Hvalfjarðarleiðinni eru enn þá um 20 km ólagðir. Þar er notazt við ruðninga, sem oft og tíðum eru mjög ófullkomnir. Er þetta sérstaklega bagalegt að vetrarlagi, en þá eru skriðuföll tíð og snjóþyngsli í Hvalfirði. Þá er bæði mikil slysahætta og kostnaður við að halda þessari braut opinni gífurlega mikill.

Ég mun ekki hafa fleiri orð til að rökstyðja það, að ástæða sé til þess að gera nokkrar sérstakar ráðstafanir til að þoka þessari vegaframkvæmd áfram, en vil vænta þess, að því verði vel tekið hér á Alþingi, vegna þess að færa má rök fyrir því, að allir hlutar landsins eigi þarna nokkurra hagsmuna að gæta.

Ég vil svo leggja til, að umr. verði frestað og till. vísað til hv. fjvn.