08.02.1961
Sameinað þing: 37. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 788 í D-deild Alþingistíðinda. (2749)

61. mál, lánsfé til Hvalfjarðarvegar

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Till. þessi var flutt af varamanni, sem sat á þinginu í minn stað s.l. haust. Hafði ég raunar staðið að svipaðri till. á þinginu í fyrra. Till. gengur ekki lengra en svo, að hún gerir ráð fyrir, að Alþ. álykti að fela ríkisstj. að athuga möguleika á lántöku til að ljúka vegarlagningu fyrir Hvalfjörð og gera veginn hæfa undirstöðu undir varanlegt slitlag. Með því að hugmyndin með till. gekk á þessu stigi ekki lengra, tel ég, að við það megi una að vísa málinu til ríkisstj. Tel ég sérstaklega, að sú skoðun, sem fjvn. hefur látið frá sér fara í nál., að þessi vegur sé mikilvæg umferðaræð og tengiliður milli landshluta og hljóti að koma mjög til álita, ef lánsfé fæst, sé nokkurs virði, og vil ég vænta þess, að hún megi verða til þess að halda þessum vegi fram, þegar að því kemur, að hægt er að afla fjár til slíkrar vegarlagningar, og þessi afgreiðsla málsins verði þar með til að flýta fyrir þeirri framkvæmd, sem hér um fjallar. Ég vil því þakka hv. nefnd fyrir að afgr. málið.