16.12.1960
Sameinað þing: 25. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 790 í D-deild Alþingistíðinda. (2755)

108. mál, brú yfir Ölfusá hjá Óseyrarnesi

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Ég skal strax taka fram, að ég er ekkert mótfallinn þessari tillögu um rannsókn á brúarstæði yfir Ölfusá hjá Óseyrarnesi. En þessi sami hv. flm. og talaði hér fyrir þessari till. hefur flutt mjög mikilvæga till. aðra hér á hv. Alþ. um skipulagningu á Suðurlandsundirlendinu öllu saman. Nú veit ég ekki, hvað Suðurlandsundirlendið nær langt í hans augum, en ég bara spyr, hvort nauðsynlegt sé, úr því að skipuleggja á allt Suðurlandsundirlendið, að taka nú, áður en sú skipulagning fer fram, einn þátt þeirra mála út úr til sérstakrar rannsóknar. Ég efast mjög um, ef slík allsherjarskipulagning á fram að fara, að það sé nauðsynlegt. Þess vegna efast ég um gildi þessarar till., samanborið við raunhæfni þeirrar till., sem hv. þm. hefur fram borið um skipulagningu á Suðurlandsundirlendinu.