22.03.1961
Sameinað þing: 55. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 790 í D-deild Alþingistíðinda. (2757)

108. mál, brú yfir Ölfusá hjá Óseyrarnesi

Frsm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Fjvn. fékk til athugunar till. til þál. á þskj. 122, sem þannig hljóðar, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta undirbúa byggingu brúar yfir Ölfusá hjá Óseyrarnesi og lagningu vegar, sem tengi Þorlákshöfn við þorpin Eyrarbakka og Stokkseyri og nærsveitir.“

Hér er ekki um að ræða nýtt mál á Alþingi, eins og raunar kemur fram í grg. flm. sjálfra og rakið er í umsögn þeirri um málið, sem fjvn. fékk frá vegamálastjóra. Er þar skemmst frá að segja, að brú á Ölfusá hjá Óseyrarnesi er á brúalögum, nr. 37 1954, en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Ölfusá hjá Óseyrarnesi, enda leiði rannsókn í ljós, að brúarstæðið sé öruggt og brúarsmíðin mikill þáttur í að tryggja afkomu íbúanna í sjávarþorpunum austanfjalls.“ Og 12 km vegur frá Þorlákshafnarvegi á Eyrarbakkaveg var tekinn í tölu þjóðvega árið 1955 undir nafninu Hafnarskeiðsvegur. Nauðsynlegar lagaheimildir bæði til brúargerðar og vegalagningar eru þannig fyrir hendi, og vegamálastjóri telur í umsögn sinni engin sérstök tæknileg vandkvæði við brúargerð á Ölfusá hjá Óseyrarnesi, þótt þeirri framkvæmd fylgi sá vandi að meta, hvaða áhrif væntanleg brú hafi á rennsli árinnar í ósnum, þegar mikill jakaburður er, því að hætta geti verið á stíflun af ísruðningi, sem geti orðið þess valdandi, að áin brjóti sér nýjan farveg yfir Óseyrarnes.

Samkvæmt mælingum frá 1952 er talið, að brúin þurfi að vera 400 m löng, og athuganir, sem þá voru gerðar, leiddu í ljós, að á brúarstæðinu er komið niður á klöpp á 3 m dýpi, miðað við hálffallinn sjó. Lausleg kostnaðaráætlun frá sama tíma er að upphæð 20 millj. kr., en það mundi svara til 50 millj. kr. með núverandi verðlagi, að því er vegamálastjóri telur.

Í þessu sambandi vil ég leyfa mér að benda á að þessar athuganir á brúargerðinni og kostnaði munu hafa verið mjög lauslegar, enda kostar fullnaðarundirbúningur slíkra mannvirkja, sem þarna er um að ræða, svo mikla vinnu og svo mikið fé, að þess er naumast að vænta, að í slíkt sé ráðizt, nema endanleg ákvörðun hafi verið tekin um, að úr framkvæmdum verði. Hins vegar er ekki útilokað, að nánari athuganir en þær, sem gerðar voru árið 1952, kunni að leiða í ljós, að umrædd brúarsmíði þurfi ekki að verða eins kostnaðarsöm og þá var talið, brúin megi vera styttri og gerð hennar ódýrari en þá var reiknað með. Úr þessu fæst því aðeins skorið, að fullnaðarteikningar og kostnaðaráætlanir verði gerðar og að undangenginni vandlegri rannsókn á brúarstæðinu. En hvað sem þessu liður, er ljóst, að höfuðvandinn í sambandi við þetta mál er að leysa hina fjárhagslegu hlið þess, því að mannvirkið mun örugglega kosta nokkra milljónatugi. Hitt er einnig ljóst, að með byggingu fullkominnar hafnar í Þorlákshöfn skapast nýtt viðhorf í atvinnumálum íbúanna á Stokkseyri og Eyrarbakka, því að útgerð þaðan mundi fljótlega flytjast til Þorlákshafnar, nema því aðeins að unnt væri að koma á vegasambandi yfir Ölfusárós, en við það mundi t.d. leiðin milli Eyrarbakka og Þorlákshafnar styttast úr 50 km í 12 km.

Brúarbyggingin, ef framkvæmd yrði jafnhliða byggingu hafnarinnar, mundi gera hvort tveggja í senn: bæta atvinnuskilyrði íbúanna austan árinnar og stöðva fólksfækkun þar og skapa þegar í stað skilyrði til hagnýtingar þeirri aðstöðu, sem fæst í Þorlákshöfn, en um þetta segir svo m.a. í grg. flm. með umræddri þáltill., með leyfi hæstv. forseta :

„Hafnargerð í Þorlákshöfn er þjóðhagslega mikilvægt verkefni, vegna þess að hún skapar skilyrði til útgerðar, sem eru líkleg til að færa þjóðarbúinu hreinar auknar tekjur vegna aukinnar framleiðslu útflutningsvara. Þorlákshöfn liggur betur en aðrar hugsanlegar verstöðvar við beztu fiskimiðum við landið, og þaðan er arðvænlegust útgerð 20–50 tonna báta, en af þeirri stærð eru til í landinu margir bátar án fullrar afkastagetunýtingar. Bætt útgerðarskilyrði í Þorlákshöfn gera kröfu til mikillar fjárfestingar í fiskvinnslustöðvum, framleiðslutækjum svo og íbúðarhúsum vegna skorts á vinnuafli þar að óbreyttum aðstæðum. Þar eru nú búsettir aðeins rúmlega 100 manns, en umhverfis höfnina er að mestu eyðisandur og klappir. Hins vegar eru nokkru austar á strandlengjunni í gróðursælum sveitum handan Ölfusár þorpin Eyrarbakki og Stokkseyri með meira en þúsund íbúa, sem búið hafa við ónóga atvinnu heima fyrir vegna breyttra atvinnuhátta í héraði og erfiðra hafnarskilyrða.“

Að þessu athuguðu, sem ég nú hef rakið, hefur fjvn. þótt rétt að mæla með því, að mál þetta yrði ýtarlega rannsakað, og með því að til greina getur komið, að ríkissjóður taki meiri háttar lán til samgöngubóta, leggur n. til, að málinu verði vísað til ríkisstj., því að örlög þess eru eingöngu undir því komin, að hægt sé að útvega fjármagn til framkvæmdanna. Undir því er það einnig komið, hvort fólksfækkun í þorpunum austan Ölfusár heldur áfram eða stöðvast, en þar búa nú um 1000 manns.