02.11.1960
Sameinað þing: 9. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 793 í D-deild Alþingistíðinda. (2761)

48. mál, lán til veiðarfærakaupa

Flm. (Jón Skaftason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér, ásamt hv. 3. þm. Norðurl. e. (GíslG), að flytja svofellda till. til þál.:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta athuga, hvort unnt sé að skipuleggja hjá einni eða fleiri lánastofnunum veitingu fastra lána til kaupa á sérstaklega verðmiklum veiðarfærum, sem hafa þá endingu að hægt sé að taka þau að veði fyrir slíkum lánum.“

Ég flutti á síðasta þingi efnislegs samhljóða till. þessari, sem þá náði ekki samþykki. Reynsla s.l. sumars af síldveiðunum fyrir Norður- og Austurlandi hefur sýnt, að gersamlega er útilokað að greiða jafnverðmikil veiðarfæri og herpinætur eru af afla eins árs. Vertíðin s.l. sumar var að vísu léleg, en þó er augljóst, að jafnvel í mjög sæmilegum árum væri það óhugsandi, að almennt væri hægt að borga upp herpinætur, sem kosta, miðað við núverandi verðlag, allt að 700–800 þús. kr., af aflaverðmæti eins árs. Því er lagt til með till. þessari, að ríkisstj. beiti sér fyrir athugun á möguleikum þess, að skipulagðar verði lánveitingar til kaupa á sérstaklega verðmiklum veiðarfærum og verði lengd lánanna miðuð við endingartíma þeirra.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara um till. þessa fleiri orðum, en legg til, að umr. um mál þetta verði frestað og því vísað til hv. allshn.