02.11.1960
Sameinað þing: 9. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 797 í D-deild Alþingistíðinda. (2770)

58. mál, útboð opinberra framkvæmda

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég vil lýsa eindregnu fylgi við þá hugmynd, sem kemur fram í þessari þáltill. Ég held, að það sé æskilegt, að tekin sé upp í stærri stíl en tíðkazt hefur ákvæðisvinna og útboð verka. Ég held, að það muni stuðla að því, að þau fáist gerð á kostnaðarminni hátt. Ég held líka, að það sé æskilegt, að hið opinbera gangi hér á undan, eins og gert er ráð fyrir í þessari þáltill. Ég býst við, að einkaaðilarnir komi þá frekar á eftir og þetta skipulag geti þannig komizt í framkvæmd í æ ríkara mæli.

En ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hér hljóðs, var sú, að um leið og ég vil undirstrika þetta, að þarna er um gott mál að ræða og eðlilega till. og það er æskilegt, eins og hér segir, að ríkisstj. láti setja um það fastar reglur, hverjar opinberar framkvæmdir skuli boðnar út, þá tel ég það mjög nauðsynlegt, að settar séu fastar reglur um útboð framkvæmda, — að jafnframt því sem stefnt er að því að taka upp þetta fyrirkomulag, þá séu settar um það fastar reglur, í löggjöf eða með öðrum hætti nægilega tryggilegum, því að þarna er oft um ákaflega mikil verðmæti að ræða og mikið í húfi í raun og veru fyrir þá, sem tilboðin gera. Þeir leggja mikla vinnu í það að gera tilboðin, það skiptir þá ákaflega miklu máli, að það sé búið algerlega tryggilega um þetta og að það komist engin tortryggni að í sambandi við slík útboð.

Það var aðeins þetta, sem ég vildi undirstrika í sambandi við þetta mál. — sem ég annars mun fylgja og álít að sé gott og þarft mál. — að það þarf að setja þessar reglur.