16.11.1960
Sameinað þing: 14. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 820 í D-deild Alþingistíðinda. (2787)

70. mál, fiskveiðar við vesturströnd Afríku

Flm. (Davíð Ólafsson):

Herra forseti. Tillaga sú, sem hér liggur fyrir, þarfnast í rauninni ekki langra skýringa umfram það, sem í grg. segir. En mér þykir rétt í sambandi við till. að segja hér nokkur orð almenns eðlis, þannig að menn eigi betra með að gera sér grein fyrir því, sem á bak við till. liggur.

Afkoma þeirra, sem byggja á fiskveiðum, hvort sem um er að ráða einstaklinga eða heilar þjóðir eins og á við okkur Íslendinga, er háð ýmsum atvikum, sem er þannig háttað, að þau valda mikilil óvissu í rekstri þessa atvinnuvegar. Náttúruöflin eru hér að sjálfsögðu áhrifaríkust, en jafnframt sá þátturinn, sem einna mestri óvissunni veldur. Hér kemur til greina breytilegt veðurfar, breytingar á hafstraumum og hitastigi í sjónum, breytileg viðkoma fiskstofnanna. sem aftur hefur úrslitaþýðingu um það magn af fiski, sem fiskimennirnir geta gert sér vonir um að ná í. Áður en vélvæðing fiskiskipastólsins kom til voru fiskimennirnir yfirleitt bundnir við þau fiskimið, sem næst þeim lágu. Um okkur Íslendinga átti þetta við að mestu alveg fram á þessa öld. Annars staðar voru þó til fiskimenn, sem um aldaraðir höfðu stundað fiskveiðar á stórum skipum eftir þeirra tíma mæilkvarða fjarri sínum heimastöðvum, svo sem m.a. er kunnugt af veiðum erlendra fiskimanna hér við land á fyrri öldum. Þetta var þó frekar undantekning frá reglunni.

Þessi staðbinding fiskimannanna við fiskimiðin gerði öryggisleysið enn meira, og smávægilegar breytingar á fiskigöngum á takmörkuðum svæðum gátu haft geigvænleg áhrif á afkomu manna. Mörg dæmi um þetta eru til úr sögu fyrri tíma. Með stækkun fiskiskipanna og vélvæðingu flotans varð hér mikil breyting á. Hvort tveggja þetta gerði að verkum, að sóknin eftir fiskinum gat náð til stærri svæða og fjarlægari en áður, og í stað þess að biða eftir, að fiskurinn kæmi á ákveðna, takmarkaða bletti nærri heimaströndum, var hang nú leitað um víða vegu, eftir því sem þekking manna á göngum fiskanna sagði til um.

Að því er fiskveiðar okkar snerti, þá birtist þessi þróun þegar fyrir seinni heimsstyrjöldina í því, að togararnir leituðu þá þegar til fanga út fyrir Íslandsmið, m.a. austur á bóginn til Hvítahafs, Svalbarða og til svæðanna undan ströndum NorðurNoregs. Þá höfðu þó aðrar fiskveiðiþjóðir um alllangt skeið sent sína togara og önnur stærri fiskiskip á fjarlæg mið, en ástæðan fyrir því, að okkar skip fóru þá litið út fyrir Íslandsmið, var að sjálfsögðu fyrst og fremst sú, að enn var aflavonin það mikil hér við land samanborið við það, sem var á öðrum slóðum, sem unnt var með sæmilegu móti að ná til, að ekki þótti freistandi að leita lengra, nema undantekning væri. Á þessu tímabili fyrir heimsstyrjöldina síðari voru t.d. Japanir teknir að færa mjög út athafnasvæði sitt til fiskveiða á Kyrrahafi og sendu fiskiskip sín þúsundir sjómílna í leit að fiskislóðum og oft með ágætum árangri. Á þann hátt gátu þeir stóraukið sínar veiðar, sem hafa, eins og kunnugt er, mikla þýðingu fyrir þeirra þjóðarbúskap.

Á árunum eftir seinni heimsstyrjöldina hefur orðíð merkileg þróun í þessum efnum, og nær hún raunar til flestra fiskveiðiþjóða og allra heimshafanna. Auknar rannsóknir á fiskstofnum víða um höf, aukin þekking manna á eðli fiskigangnanna og síðast, en ekki sízt stórbættur skipakostur og ný tæki til fiskileitar, ásamt bættum veiðiútbúnaði, eru meginforsendurnar fyrir þessari þróun. En hér kemur að sjálfsögðu einnig til, að mjög hefur þess gætt, að stóraukin sókn á þau fiskimíð, sem þekkt voru, hefur í fjölmörgum tilfeilum leitt til ofveiði, sem hefur lýst sér í minnkandi afla og neytt menn til að leita nýrra slóða. Þetta fyrirbæri þekkjum við allt of vel hér við land.

Dæmi um þá miklu útþenslu, sem átt hefur sér stað bæði í fiskveiðum, sem áður voru stundaðar, og einnig að því er snertir nýjar fiskveiðar, eru til frá allra síðustu árum. Þar má t.d. nefna stórauknar túnfisksveiðar á Kyrrahafi, rækjuveiðar í Mexíkóflóa og víðar með ströndum Mið- og SuðurAmeríku, og ekki má gleyma að minnast á þá ótrúlegu þróun, sem orðið hefur í fiskveiðum undan ströndum Perú og fleiri ríkja á þeim slóðum, sem hefur haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir afkomu okkar eigin sjávarútvegs og sýnir betur en nokkuð annað hversu þýðingarmikið það er fyrir okkur að fylgjast vel með því, sem er að gerast í fiskveiðum annars staðar, jafnvel á hinum fjarlægustu slóðum.

En við Íslendingar höfum einnig átt okkar þátt í þróun þessara mála nú seinni árin. Fyrst var það með stórauknum karfaveiðum í hafinu milli Íslands og Grænlands og síðar á svæðum beggja vegna Grænlands, en sá árangur, sem náðist á þessum slóðum, vísaði leiðina til enn fjarlægari fiskislóða undan ströndum Labradors og Nýfundnalands. Reynslan, sem við höfum fengið af þeirri fiskileit, sem framkvæmd hefur verið á þessum slóðum, og enn fremur sú bitra reynsla, sem við höfum síðar fengið af hinum breytilegu aflabrögðum, hefur sannarlega kennt okkur nauðsyn þess, að hér má ekki nema staðar við að nema ný fiskveiðisvæði.

Það er álit margra vísindamanna og manna, sem fengið hafa mikla reynslu af fiskveiðum víða um höf, að við séum enn aðeins við upphaf nýs tímabils í fiskveiðum þjóðanna, en megineinkenni þess verði einmitt nýting fiskisvæða og fiskstofna, sem enn hafa lítið komið við sögu fiskveiðanna. Eitt þeirra svæða, sem athygli manna hefur mjög beinzt að nú á allra síðustu árum, er svæðið undan vesturströnd Afríku. Um nokkur undanfarin ár hefur orðið mikil aukning á sókn á þetta svæði, og eru það einkum fiskimenn frá fjarlægum löndum, sem þangað hafa sótt, þar sem þær þjóðir, sem byggja lönd, sem liggja að þessu hafsvæði, eru enn mjög skammt á veg komnar í fiskveiðum sem og annarri tækniþróun. Má þar t.d. nefna Bandaríkjamenn og Japani jafnvel, sem sækja alla leið frá Japan að vesturströnd Afríku, og einnig Grikki og raunar ýmsa fleiri. En á þessu ári hafa svo Norðmenn bætzt í þennan hóp, fyrstir Norður-Evrópuþjóða. Snemma, á þessu ári sendu þeir könnunarleiðangur á þessar slóðir, og nú alveg nýlega hafa þeir hafið alvarlega tilraun í því skyni að ganga. úr skugga um þá möguleika, sem þarna eru til veiða. Er sú tilraun í því fólgin, að þeir hafa sent flota veiðiskipa á þessar slóðir ásamt móðurskipi og fiskirannsóknarskipi, en þar um borð er einn kunnasti vísindamaður Norðmanna á sviði fiskifræði, Finn Devold. Er hann m.a. vel kunnur hér á landi fyrir þann mikla þátt, sem hann ásamt með Árna Friðrikssyni hefur átt í rannsóknum á síldarstofninum, sem veiðist við Norður- og Austur-Ísland á sumrin. Má af þessum viðbúnaði öllum glögglega sjá, hversu mikið Norðmenn leggja upp úr því, að tilraunin megi takast og þannig opnast nýir möguleikar fyrir norskan sjávarútveg.

En hver er þá ástæðan fyrir því, að Norðmenn leggja út í þetta? Ekki leikur vafi á því, að ástæðan mun fyrst og fremst vera hinn geigvænlegi aflabrestur, sem orðið hefur á vetrarsíldveiðum við Noreg undanfarin ár og hefur farið versnandi með ári hverju, og að áliti fiskifræðinga á hann enn eftir að versna. Þessi aflabrestur hefur meira en nokkuð annað knúið Norðmenn til athafna í því skyni að leita nýrra verkefna fyrir a.m.k. hluta af þeim flota, sem hingað til hefur að verulegu leyti byggt afkomu sína á síldveiðunum. Er hjá þeim aðallega um að ræða skip af stærðunum 200–250 rúmlestir, en það eru einmitt síldveiðiskip og skip, sem stundað hafa veiðar við Grænland og víðar um Norður-Atlantshaf á sumrin og haustin.

En nú kunna menn að spyrja, hvers vegna við þurfum að hugsa um að leggja út í slíkt, ekki þurfi að gilda hið sama um okkur og Norðmenn í þessu efni og auk þess hafi og muni aðgerðir okkar til verndar fiskstofninum við Ísland leiða til aukins afla á heimaslóðum og draga úr nauðsyn þess að leita fjarlægari miða. Víst er það rétt, að aðgerðir okkar í landhelgismálinu hafa leitt til aukins afla á bátaflotanum, og það er von okkar allra, að enn eigi það þó eftir að koma betur í ljós. Hins vegar hefur afli togaranna hér við land farið minnkandi undanfarin ár og afli þeirra á fjarlægum miðum hefur orðið vaxandi hluti af heildarafla þeirra. Á þessu ári hefur þó keyrt um þverbak, þegar aflinn á miðunum við Nýfundnaland og einnig við Grænland hefur verið með afbrigðum rýr, svo að til stórvandræða horfir fyrir þessa útgerð. En jafnvel þó að við vonumst eftir áframhaldandi og vaxandi árangri verndaraðgerðanna og jafnvel þó að afli togaranna hér við land ætti fyrir sér að aukast aftur og komast upp úr þeim öldudal sem hann nú er í, þá getum við ekki lokað augunum fyrir þeirri staðreynd, að fiskveiðar okkar eru ekki byggðar á nægilega breiðum grundvelli.

Í höfuðatriðum getum við greint á milli fjögurra meginvertíða. Í fyrsta lagi er það vetrarvertíðin á þorskveiðunum, í öðru lagi eru það sumarsíldveiðarnar, í þriðja lagi karfaveiðarnar á sumrin og haustin og loks í fjórða lagi haustsíldveiðarnar. Þess á milli eru svo stundaðar veiðar hingað og þangað við landið, án þess að þar sé beint um fastar vertíðir að ræða. Það eru því í meginatriðum þrjár fisktegundir, þorskur, síld og karfí, sem okkar sjávarútvegur byggist á, svo sem sjá má af því, að t.d. á s.l. ári var hluti þessara þriggja tegunda í heildaraflanum yfir 90%. Aðrar fisktegundir hafa að vísu þýðingu, en úrslitaþýðingu hefur það ekki, þó að nokkru minna veiðist af þeim eitt árið en annað.

Þrjár af þeim fjórum vertíðum. sem nefndar voru, hafa sannarlega fært okkur vandamál þó að ekki sé litið nema fá ár aftur í tímann. Bezt og jafnast hefur vetrarvertíðin jafnan komið út. Hinar miklu sveiflur í karfaveiðunum og sumarsíldveiðunum hafa hins vegar valdið erfiðleikum og það miklum, og þarf ekki að fara lengra en til þessa árs til þess að sjá það. En einnig haustsíldveiðin veldur miklum áhyggjum nú, og breytingar, sem orðið hafa á göngum þeirrar síldar, sem veiðist á þeim tíma, kunna að verða afdrifaríkar fyrr en vísir.

Annað veigamikið atriði kemur hér til, en það er nýting fiskiskipaflotans. Þetta atriði verður þeim mun þýðingarmeira sem meira fjármagn er bundið í skipunum. Um togarana er það að segja, að þeim er að jafnaði haldið til veiða allan ársins hring, með nauðsynlegum hléum vegna viðhalds skipanna. Ávallt er það þó svo einhvern tíma úr árinu, misjafnlega lengi, að aflabrögð þeirra eru svo léleg, að mikið skortir á, að sú útgerð svari kostnaði þann tíma. Á þessu ári hefur þetta tímabil, eins og áður segir, verið óvenjulangt og rýrt. Fyrir togarana væri því þýðingarmikið, að unnt reyndist að finna þeim verkefni, t.d. 2–3 mánuði síðari hluta árs, sem gæti tryggt þeim öruggan rekstrargrundvöll þann tíma.

Útgerð bátaflotans er með allt öðrum hætti, þar sem bátarnir skipta um veiðarfæri tvisvar til þrisvar á ári eftir vertíðum og nokkurt hlé er jafnan á milli vertíða. Útgerð bátaflotans á haustmánuðunum er þó oft stopul, enda þá helzt verið skortur hentugra verkefna hér við land, er gæfu viðhlítandi rekstrarafkomu, og á það einkum við um hina stærri báta í flotanum. Væri því ekki síður þýðingarmikið fyrir vissan hluta bátaflotans, ef unnt reyndist að finna bátunum verkefni á þessum tíma, er gæfi þeim öruggan rekstrargrundvöll yfir það tímabil.

Það, sem ég hef hér nefnt, sýnir ljóslega hina brýnu nauðsyn þess, að grundvöllur fiskveiða okkar verði í framtíðinni breikkaður og þeirri miklu áhættu, sem er samfara þeim í núverandi formi, dreift sem mest.

Með tillögu þeirri, sem hér liggur fyrir, er bent á a.m.k. eina hugsanlega leið að þessu marki. Flm. þessarar till. er það vel ljóst, að mörg vandkvæði kunna að vera á framkvæmdum í þessu efni. Er því nauðsynlegt, að áður en lagt verður út í framkvæmdir, verði athugað gaumgæfilega, hverjir möguleikar eru hér hugsanlega fyrir hendi. Mætti gera slíkt með því m.a. að afla sem gleggstra upplýsinga um allt, sem lýtur að veiðum annarra þjóða á þessum slóðum, svo sem um fisktegundir, sem veiðast, veiðarfæri, veiðisvæði, veiðitíma og hagnýtingu aflans, svo að nefnd séu nokkur atriði sem þýðingu hafa. Slík athugun ætti ekki að þurfa að hafa ýkja mikinn kostnað í för með sér. Leiði hún í ljós, að möguleikar séu fyrir hendi til arðbærs rekstrar fiskveiða á þessum slóðum, þætti mér trúlegt, að hentugust væri sú aðferð, sem Norðmenn hafa viðhaft til að hrinda í framkvæmd þeirra fyrstu tilraun, en þar er um að ræða einkafyrirtæki, sem eiga og gera út veiðiskipin og annast allt, sem veiðunum við kemur, en norska ríkið leggur til hina vísindalegu forustu og auk þess nokkurn fjárhagslegan styrk til þeirra aðila, sem senda skip sín í leiðangurinn. En hvað sem framtíðin annars kann að bera í skauti sínu í þessu efni, þá teljum við flm. þessarar tillögu, að með hliðsjón af stöðu fiskveiða okkar Íslendinga í dag og þróun undanfarinna ára og framkvæmdum annarra fiskveiðiþjóða á því sviði, sem till. fjallar um, þá sé með engu móti forsvaranlegt að halda að sér höndum og hafast ekki að, heldur beri okkur að fylgjast hér með af fremsta megni, og með það í huga er till. flutt.

Ég leyfi mér svo, hæstv. forseti, að leggja til. að umr. um þessa till. verði frestað og henni verði vísað til fjvn.